Morgunblaðið - 01.12.2001, Qupperneq 51
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 1. DESEMBER 2001 51
Tilveran er fallvölt.
Það eitt er öruggt að
allt sem er í dag getur
breyst á morgun. Við
hjónin vorum stödd
fjarri Íslandsströndum er við frétt-
um andlát Hauks Torfasonar. Á
slíkri stundu vakna áleitnar spurn-
ingar um lífið og tilgang þess en við
þeim fást ekki önnur svör en þau sem
við ef til vill finnum innra með okkur.
Eftir stendur sú staðreynd að góður
og traustur samferðamaður er fallinn
frá. Hann skilur okkur eftir með
söknuð í hjarta en góðar minningar
frá þeirri veröld sem var.
Ég kynntist Hauki Torfasyni fyrir
tæpum aldarfjórðungi í gegnum sam-
eiginlegt áhugamál okkar, knatt-
spyrnudómgæslu. Um miðjan níunda
áratuginn áttu Norðlendingar fjóra
fulltrúa í hópi úrvalsdeildardómara í
knattspyrnu. Þar var Þóroddur Hjal-
talín elstur og reyndastur, síðan
Kjartan Tómasson, þá Magnús Jón-
atansson og undirritaður. Skömmu
eftir að Kjartan hætti vann Haukur
sér sæti í hópnum. Dvöl hans þar
varð þó skemmri en vonir stóðu til;
eða einungis tvö ár. Ástæðan var sú
að hann var ráðinn forstöðumaður
ÁTVR á Akureyri, eða Ríkisstjóri
eins og við kölluðum starfið gjarnan,
og í beinu framhaldi af því ákvað
hann að leggja flautuna á hilluna.
Haukur sagði þó ekki skilið við fé-
lagsskapinn því nokkru síðar var
hann mættur til starfa sem eftirlits-
maður knattspyrnudómara. Þar kom
reynsla hans úr dómarastarfinu sér
vel sem og annáluð sanngirni hans og
yfirvegun. Á báðum þessum sviðum
dómaramála var hann farsæll og virt-
ur – og raunar hygg ég að sömu sögu
sé að segja um öll þau störf sem hann
HAUKUR
TORFASON
✝ Haukur Torfa-son, útsölustjóri
ÁTVR á Akureyri,
fæddist á Akureyri 8.
júlí 1953. Hann lést á
Akureyri 12. nóvem-
ber síðastliðinn og
fór útför hans fram
frá Akureyrarkirkju
20. nóvember.
tók sér fyrir hendur á
lífsleiðinni.
Ég veit að ég mæli
fyrir hönd félaga minna
úr dómarastétt, fyrr-
verandi og núverandi,
þegar ég segi að Hauks
Torfasonar er sárt
saknað. Ég kveð góðan
dreng með þökk fyrir
samveruna. Kristínu,
börnum þeirra og öðr-
um aðstandendum
sendi ég hugheilar
samúðarkveðjur. Megi
drottinn leggja líkn
með þraut.
Bragi V. Bergmann.
Erfitt er að koma hæfum orðum að
um svo ágætan mann sem Haukur
Torfason var. Kynni mín af Hauki
voru á tvo vegu, annars vegar í gegn-
um störf okkar beggja og hins vegar í
kringum Knattspyrnufélag Akureyr-
ar, en hann bar hag þess mikið og
innilega fyrir brjósti. Við tókum oft
spjall saman á vinnustað hans þegar
ég átti þar leið að ná í vörur, oft viku-
lega. Tal okkar var oftar en ekki um
félagið okkar og þá sérstaklega um
gengi knattspyrnuliðsins, miklar
pælingar og væntingar, væntingar
sem rættust margar hverjar nú í
haust þegar KA tryggði sér úrvals-
deildarsæti og spilaði til úrslita í Bik-
arkeppni KSÍ. Fáir glöddust þá
meira en Haukur og reyndar öll hans
fjölskylda, en henni hef ég líka
kynnst gegnum starfið hjá KA þar
sem Kristín kona hans hefur unnið
ófá handtökin sem og börn þeirra
hjóna, en tvö þeirra hafa unnið í mínu
fyrirtæki og innt þar af hendi öll sín
störf af mikilli samviskusemi og
dugnaði. Hjá KA sinnti Haukur ýms-
um verkefnum, hann sat í aðalstjórn,
var knattspyrnudómari, einn af þeim
sem tók mikinn þátt í undirbúningi
og framkvæmd Esso-mótsins, sem er
árlegt knattspyrnumót rúmlega þús-
und drengja, keyrði meistaraflokk
félagsins á milli landshluta þegar því
var að skipta og margt fleira. Haukur
Torfason var maður sem gott var að
leita til og bóngóður með afbrigðum,
einn af þeim mönnum sem eru hverju
félagi allt, án slíkra manna væru eng-
in félög til. Stórt og vandfyllt skarð
er höggvið í raðir KA.
Elsku Kristín, Katrín, Kristbjörg
og Gunnar Torfi, missir ykkar er
samt mestur og vil ég votta ykkur og
öðrum aðstandendum mína dýpstu
samúð. Megi góður guð og tíminn
endalausi græða sárin. Blessuð sé
minning Hauks Torfasonar.
Fyrir hönd knattspyrnudeildar
KA,
Vignir Már Þormóðsson.
Erfitt er að skrifa minningargrein
um góðan vin og náinn frænda sem
Haukur Torfason var, frænda segi ég
vegna þeirra miklu tengsla sem við
höfðum sem voru nánari en hjá góð-
um vinum.
Eftir að ég óx úr grasi hef ég að-
eins einu sinni þurft að kveðja ein-
hvern mjög náinn, það var Steindór
langaafi minn. Mér er það minni-
stætt að við útför hans snjóaði og kalt
var í veðri eins og við útför þína og
varð mér þá ljóst að það er merki
Guðs um að verið sé að kveðja góðan
mann.
Ég fékk að kynnast glaðlyndi þínu
og hvernig þú lýstir upp hversdags-
leikann með feimnislegu glotti þínu.
Fyrir það er ég þakklátur þrátt fyrir
að ég hefði viljað hafa stundirnar
fleiri. En lífið er hverfult og vegir
þess eru órannsakanlegir. Því vil ég á
þessari sorgarstundu senda Kristínu,
Kötu, Kristbjörgu og öðrum aðstand-
endum þessi orð um að styrkur okkar
mun hjálpa okkur á þessum erfiðu
tímum.
Ef eitthvað er að
þá getið þið treyst á okkur.
Ef þið þarfnist góðvildar
þá getið þið treyst á okkur.
Ef vonin er farin og allt er tapað
þá getið þið treyst á okkur.
Fyrir ást og hamingju
þá getið þið treyst á okkur.
Eins og faðir til móður, systir til bróður,
elskendur til elskenda
þá lifum við hvert fyrir annað.
Eins og djúpi sjórinn
fullur af tilfinningum.
Getum við treyst á ykkur
og þið á okkur.
(Makan.)
Innilegar samúðarkveðjur frá mér
og fjölskyldu minni.
Þorvaldur Makan.
* 0%'
5
'=4
@$
*- 0 )* A'
$0
!:) '$0
'+,! 0$0 )* 5 *A(
0 3$0 )* '
5 & 0$0 )* '( )
'+,! .* )*
+ +! +
8: - $
)
0%
4
8 $ (
+*6B
&:$
9 ' )*
:)* '( ) ,!
;* $)* . 9
* 0 @
. :7: 9 &.* $
Sorgin hefur knúið
dyra. Selma vinkona
mín er dáin. Ég er
ennþá að átta mig á
merkingu orðanna
enda hef ég aldrei áður
misst vin. Daginn eftir lát hennar
fékk ég myndir úr framköllun þar
sem m.a. voru nokkrar af henni, eitt
andartak hvarflaði að mér að gaman
væri senda henni þær. Tölvupóst-
inum hennar langar mig líka til að
svara, en helst vildi ég þó hringja í
hana sjálfa. Mér virðist greinilega
ófært að fanga að heil manneskja,
góð vinkona, sé einfaldlega ekki
lengur til staðar. Litríki Selmu og
lífsgleði kynntist ég sumarið 1998.
Þá vorum við Ingunn, vinkona mín, í
fríi frá Reykjavík og ákváðum að
kanna hvað Köben hefði upp á að
bjóða. Auk hafmeyjunnar og Striks-
ins hafði borgin að geyma stór-
skemmtilega Íslendinga. Selma var
þar fremst meðal jafningja. Selma
og Viggó, kærasti hennar, höfðu
fengið hæstu einkunn hjá vinum sín-
um á Íslandi og mér tjáð að þessu
fólki yrði ég bókstaflega að kynnast.
Það leið ekki á löngu uns tilvonandi
vinir okkar ráku inn nefið á Ull-
SELMA
SIGURÐARDÓTTIR
✝ Selma Sigurðar-dóttir fæddist í
Reykjavík 29. des-
ember 1974. Hún lést
af slysförum 26.
október síðastliðinn
og fór útför hennar
fram frá Seljakirkju
7. nóvember.
erupgade 13. Selma
tók mér þá fagnandi
eins og ætíð síðan, og
upp frá því hófst sér-
stök vinátta. Einhvern
veginn var bara eins og
við hefðum alltaf
þekkst. Frábærir sum-
ardagar í Kaupmanna-
höfn hefðu án efa verið
stórum daufari ef nær-
veruSelmu hefði ekki
notið við. Svo uppá-
tækjasöm og sniðug
var hún Selma, að ekki
var laust við að ég liti
upp til hennar fyrir vikið. Síhlæj-
andi, með stríðnisglampa í augum,
alltaf var hún krydd í tilveruna.
Þótt sambandið hafi ekki haldist
jafnsterkt eftir að sumarið 1998 leið
urðu ávallt miklir fagnaðarfundir
með okkur í hvert sinn sem við hitt-
umst. Selma faðmaði mann þá að sér
eins fast og hún gat, og maður sann-
færðist um eigið ágæti. Mikið þykir
mér til þess koma að hafa eytt síð-
ustu helginni minni á Íslandi með
henni. Og enn þakklátari er ég fyrir
símtalið okkar af flugvellinum þar
sem ég vottaði henni samúð vegna
fráfalls vinkonu hennar úr Atlanta-
hópnum. Undarlegt að síðasta um-
ræðuefni okkar skyldi vera vina-
missir.
Til stóð að Selma kæmi í heim-
sókn hingað til New York strax í
september, starfs síns vegna, og
hlakkaði ég mjög til. Heimsmálin
ollu því hins vegar að úr því gat ekki
orðið. Nú hafa örlögin aftur gripið
harkalega í taumana og ljóst að úr
heimsókninni verður aldrei. Við frá-
fall Selmu hef ég misst mikið. Þessi
tilfinningaríka manneskja mun ætíð
eiga vísan stað í hjarta mínu og þyk-
ir mér sárt að þurfa að kveðja hana
svona snemma á lífsleiðinni. Ég
hefði viljað halda reglulegu fagnað-
arfundunum áfram um ókomna ára-
tugi. En fyrir þann stutta tíma sem
ég átti með henni er ég þakklát.
Sá er eftir lifir
deyr þeim sem deyr
en hinn dáni lifir
í hjarta og minni
manna er hans sakna.
Þeir eru himnarnir
honum yfir.
(Hannes Pétursson.)
Fjölskyldu og vinum sendi ég
mínar innilegustu samúðarkveðjur,
Ísold Uggadóttir.
Elsku Selma, litla klifurmús. Þó
kynni okkar hefðu ekki verið löng,
aðeins nokkrir mánuðir, komst þú
þó í sérstakt hólf í hjartanu mínu.
Þú varst svo opin og hlý, fyndin
og skemmtileg. Öllum leið vel í
kringum þig og það var alltaf gaman
að leika við þig. Jafnvel fiskaleik-
urinn hennar Andreu fékk á sig nýtt
og æsilegt yfirbragð þegar þú varst
með. Mér leið eins og lítilli stelpu í
kringum þig og þú varst jafningi. Þó
leit ég mjög upp til þín. Þú sagðir
mér ævintýralegar sögur frá útlönd-
um sem tóku hug minn á flug og
deildir með mér allskyns hugmynd-
um sem ég á seint eftir að gleyma.
Þú varst yndisleg snót sem mér
þótti, og þykir enn, undurvænt um.
Ég votta fjölskyldu þinni mína
dýpstu samúð.
Júlía Helgadóttir.
Það hefur verið okkur erfitt að
byrja að skrifa okkar hinstu kveðju
til Selmu vinkonu okkar, það er eins
og þetta hafi bara allt verið ljótur
draumur og nú fari maður að vakna
af honum. Við kynntumst Selmu
þegar við fórum saman til Jeddah í
fyrsta skipti árið 1997 og tókust með
okkur góð kynni. Hún var svo lík
okkur og við þrjú gátum brallað
mikið saman og talað um allt milli
himins og jarðar. Undanfarna mán-
uði höfðum við reyndar ekki séð
mikið af henni enda hafði hún verið
að vinna erlendis, en fyrir stuttu
hringdi hún í okkur og var ákveðið
að fara að hittast fljótlega, en við
verðum víst að bíða aðeins með það.
Við þökkum fyrir að hafa fengið að
kynnast þessari frábæru stelpu,
henni Selmu.
Þú flýgur fugl minn enn á ný
um fögur lönd og fanna tinda
þar gresjur eru og fátt um ský
því öll í þinni gleði synda
þú flýgur fugl minn enn á ný.
(Sigurjón.)
Við vottum foreldrum og aðstand-
endum okkar dýpstu samúð.
Sif Ásmundsdóttir og
Sigurjón Örn Ólason.
Mig langar að minnast Selmu vin-
konu minnar í nokkrum orðum því
ég á svo margar góðar minningar
um hana á síðustu árum. Leiðir okk-
ar Selmu lágu saman í gegnum fót-
boltann, fyrst hjá Val og síðan í
Haukum. Innan sem utan vallar
komu sterk persónueinkenni Selmu
í ljós því hún var ævinlega jákvæð,
brosmild og mikill keppniskona.
Hún bjó yfir einkennilega mikilli
orku og hreif fólk áfram með per-
sónutöfrum sínum. Á einhvern sér-
stakan hátt gerði hún hverja stund
eftirminnilega. Selma var mikil æv-
intýramanneskja og á stuttri ævi
hafði hún ferðast og unnið út um all-
an heim. Hún hafði sérstakt lag á að
kynnast nýjum hlutum og tileinka
sér þá og ekki síst átti hún auðvelt
með að kynnast nýju fólki. Það var
sama hvar hún Selma var, þar var
einnig stór vinahópur. Hún sá ætíð
það dýrmætasta í hverri manneskju
og var svo lagin við að sýna hlýju og
vinsemd, hvort sem það var í orðum
eða með hennar einstaka faðmlagi.
Þess varð ég aðnjótandi þegar við
hittumst á ný í Kaupmannahöfn árið
1998. Þá höfðum við ekki sést í
nokkurn tíma en Selma tók á móti
mér eins og henni var einni lagið.
Það var knúsað fast og lengi. Ég var
svo heppin að fá húsnæði í næstu
götu við Selmu og því voru þær
margar stundirnar sem við sátum og
spjölluðum um allt milli himins og
jarðar. Vináttan styrktist enn meir
og við ræddum oft hvað það væri
gott að eiga vin sem maður vissi að
yrði alltaf vinur manns og væri allt-
af til staðar. Einhvern sem maður
bæri svona mikla væntumþykju og
hlýju til. Það er ekki sjálfgefið. Eins
og Selma gat verið róleg og jarð-
bundin þá var oft mikið fjör í kring-
um hana. Hún var alltaf til í að gera
eitthvað nýtt og skemmtilegt og
kom hún oft á óvart með ýsmum
uppátækjum. Selma tók lífinu og
öllu sem því fylgdi með opnum og já-
kvæðum huga og það gerði hana að
þeirri einstöku manneskju sem hún
var.
Ég votta fjölskyldu og vinum
Selmu mína dýpstu samúð og megi
Guð styrkja þau í sorginni.
Úlfhildur Ösp Indriðadóttir.
Knús, gettu hver?
Þessum orðum gleymi ég aldrei,
þú sendir mér þau í símann minn út
í Manchester. Ég vissi það um leið,
það varst þú Selma. Þú varst komin
til mín. Aftur vorum við saman í
áhöfn mér til mikillar ánægju. Þetta
var yndislegt sumar í Manchester
jafn yndislegt og tíminn í Túnis og
alltaf varst þú til staðar til að hugga
mig og knúsa þegar ég þurfti á að
halda. Ég gleymi því ekki heldur
þegar við ferðuðumst saman tvær til
London frá Manchester. Á leiðinni í
þessari eftirminnilegu lestarferð
sagðirðu við mig. „Anna losaðu að-
eins um þessa skel, þú ert ekki
svona mikill töffari, vertu bara þú
sjálf og ekki vera alltaf í vörn.“
Selma! ég sagði þér það aldrei en ég
fór í kleinu og var að berjast við að
sýna það ekki, rétt eins og þú varst
að tala um. Þú náðir til mín og þetta
samtal okkar hefur hjálpað mér
mikið. Það þurfti Selmu engil til að
brjóta ísinn.
Takk Selma, takk fyrir þig, takk
fyrir öll knúsin, þessi einlægu og
ekta, takk fyrir allar minningarnar
sem ég á um þig og sú síðasta, ég
gæti ekki beðið um betri, þegar við
skáluðum saman í freyðivíni.
Ég gleymi þér aldrei, knúsin mín.
Ég er svo heppin að hafa kynnst
þér.
Elsku Selma, ég veit þér líður vel
núna hjá öllum hinum englunum.
Fjölskyldu Selmu vil ég senda
mínar hlýjustu samúðarkveðjur.
Þín vinkona
Anna Kristín.