Morgunblaðið - 18.12.2001, Qupperneq 68
68 ÞRIÐJUDAGUR 18. DESEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
! "
BRÉF
TIL BLAÐSINS
Kringlunni 1 103 Reykjavík Sími 569 1100
Símbréf 569 1329 Netfang bref@mbl.is
Allt efni sem birtist í Morgunblaðinu og Lesbók er varðveitt í upplýsinga-
safni þess. Morgunblaðið áskilur sér rétt t i l að ráðstafa efninu þaðan, hvort
sem er með endurbirtingu eða á annan hátt. Þeir sem afhenda blaðinu efni
ti l birtingar teljast samþykkja þetta, ef ekki fylgir fyrirvari hér að lútandi.
ÞEGAR jólin nálgast er tímabært
að huga að jólatrjánum. Ætla má að
um helmingur íslenskra fjölskyldna
kaupi lifandi jólatré fyrir þessi jól.
Flestir velja sjálfsagt tré eftir útlit-
inu og eftir því hversu vel þau halda
barrinu. Færri hugsa líklega um þau
áhrif sem tréð hefur haft á umhverf-
ið, frá því að trénu var plantað og
þangað til börnin byrja að hengja á
það skrautið.
Árlega kaupa Íslendingar um
40.000 lifandi jólatré. Þar af eru um
75% innflutt, en um 25% íslensk tré.
Innfluttu trén eru nánast öll norð-
mannsþinur, en í íslensku fram-
leiðslunni ber mest á rauðgreni
(rúmlega helmingur) og þarnæst
stafafuru (tæplega þriðjungur). En
hvaða máli skiptir hvort tréð er inn-
fluttur norðmannsþinur eða íslenskt
greni eða fura?
Norðmannsþinurinn sem fluttur
er til Íslands er ræktaður í Dan-
mörku. Við ræktunina er notað gríð-
armikið af varnarefnum, þ.e.a.s. ill-
gresislyfjum og skordýraeitri. Það
skal ósagt látið hvort eitthvað af
þessum efnum fylgir trjánum alla
leið heim í stofuna okkar, en hitt er
víst að þau hafa umtalsverð áhrif
þar sem trén eru ræktuð. Þannig
hafa dönsku náttúruverndarsamtök-
in, Danmarks Naturfredningsforen-
ing, ítrekað varað við þeirri hættu
sem steðjar að grunnvatni, yfir-
borðsvatni, dýralífi og plöntum
vegna þessarar miklu eiturefnanotk-
unar.
Annað atriði er vert að hafa í huga
varðandi innflutning á jólatrjám:
Norðmannsþinur gæti hugsanlega
flutt með sér rótarfúasvepp, sem Ís-
lendingar hafa fram að þessu verið
blessunarlega lausir við. Hættan er
þó væntanlega lítil ef trén eru rétt
meðhöndluð að notkun lokinni,
þ.e.a.s. annaðhvort brennd eða tætt
til jarðgerðar við nógu hátt hitastig.
Sé trjákurlið hins vegar nýtt til ann-
arra þarfa, svo sem í stígagerð, er
smithættan fyrir hendi. Talið er að
sitkalús hafi fyrst borist til Íslands
með innfluttum jólatrjám, þannig að
Íslendingar hafa þegar bitra reynslu
á þessu sviði.
Við ræktun íslenskra jólatrjáa er
notað lítið sem ekkert af varnarefn-
um. Rauðgrenið þarf að vísu tilbúinn
áburð, en við ræktun stafafuru eru
alls engin aukaefni notuð, hvorki
tilbúinn áburður né varnarefni af
nokkru tagi. Það gefur því augaleið
að íslensk jólatré hafa algjöra yf-
irburði yfir innflutt tré þegar um-
hverfisáhrif ræktunarinnar eru bor-
in saman. Þar við bætast svo
flutningarnir, því að eðlilega er elds-
neytisnotkun og útblástur þeim mun
meiri eftir því sem flutningsleiðin er
lengri. Og ef norðmannsþinurinn
verður fyrir valinu vegna barrheldn-
innar má minna á að stafafuran
heldur barrinu enn betur.
Þegar valið stendur á milli inn-
fluttra jólatrjáa og íslenskra má loks
benda á að íslenskum fjölskyldum
gefst í auknum mæli kostur á að fara
saman út í skóg og velja sitt eigið
tré. Umhverfismál snúast um hags-
muni komandi kynslóða og hvers
kyns verkefni, sem fjölskyldan getur
sameinast um, eru vissulega liður í
því að efla þessa hagsmuni.
Eftir þessar vangaveltur um um-
hverfisáhrif lifandi jólatrjáa dettur
eflaust einhverjum í hug hvort ekki
sé betra fyrir umhverfið að við not-
um plasttré sem endast árum sam-
an. En sú er ekki raunin. Rannsókn-
ir benda þvert á móti til að lifandi
jólatré séu 5 sinnum umhverfis-
vænni en jólatré úr plasti. Ástæðan
er m.a. sú hversu mikla orku þarf til
að framleiða plasttrén og til að flytja
þau á markað. Flest plasttrén eru
nefnilega framleidd í Asíu.
STEFÁN GÍSLASON,
umhverfisstjórnunarfræðingur
(MSc) og verkefnisstjóri
Staðardagskrár 21 á Íslandi.
Jólatré og
umhverfi
Frá Stefáni Gíslasyni:
Íslensk jólatré hafa algjöra yfirburði yfir innflutt tré þegar umhverfis-
áhrif ræktunarinnar eru borin saman, segir í greininni.