Morgunblaðið - 16.01.2002, Page 12
FRÉTTIR
12 MIÐVIKUDAGUR 16. JANÚAR 2002 MORGUNBLAÐIÐ
VEGNA umfjöllunar í Morgun-
blaðinu í lok desember sl., þar sem
m.a. var vitnað til samskipta Þengils
Oddssonar, fyrrum trúnaðarlæknis
Flugmálastjórnar, við erlenda aðila
um mál Árna G. Sigurðssonar flug-
stjóra, óskaði Félag íslenskra at-
vinnuflugmanna, fyrir hönd flugstjór-
ans, eftir því að fá í hendur afrit af
öllum bréfaskiptum við þessa erlendu
aðila. Árni hefur sem kunnugt er ekki
viljað sætta sig við að fá ekki heil-
brigðisvottorð útgefið hjá Flugmála-
stjórn. Þengli hefur verið sagt upp hjá
Flugmálastjórn og hefur nýr flug-
læknir verið skipaður til að skoða
Árna að nýju.
Umbeðin afrit hafa nú borist Árna
og lögmanni hans, Atla Gíslasyni hrl.
Auk þeirra hefur Atli tekið saman öll
önnur gögn málsins, sem m.a. sýna
samskipti þeirra Árna við Flugmála-
stjórn og trúnaðarlækninn fyrrver-
andi, læknaskýrslur og bréf sem hafa
verið send milli deiluaðila.
„Menn taka ekki
afstöðu án gagna“
Atli sýndi Morgunblaðinu þessi
gögn og telur hann þau m.a. gefa til
kynna að þeir erlendu starfsbræður
Þengils sem hann var í sambandi við
hjá flugmálastjórnum Noregs, Bret-
lands og Kanada, og hafa tjáð sig
sumir hverjir í Morgunblaðinu, hafi
ekki fengið þær upplýsingar og skjöl í
hendur sem nægjanleg séu til að úr-
skurða Árna óhæfan til að fljúga, líkt
og þeir hafi gert.
„Menn taka ekki afstöðu án gagna,
það er útilokað í svona málum. Eng-
inn læknir, íslenskur sem erlendur,
getur lagt mat á sjúkdóm án þess að
hafa alla sjúkrasögu viðkomandi sjúk-
lings á borðinu og öll gögn sem tengj-
ast honum. Engin erlend flugmálayf-
irvöld geta sent íslenskum yfirvöldum
tiltal án þess að það byggi á rækilegri
skoðun á skjölum málsins,“ segir Atli.
Hann segir að erlendu læknarnir
og kanadíska Flugmálastjórnin hafi
ekki fengið í hendur úrskurði áfrýj-
unarnefndar lækna og niðurstöður
rannsókna lækna og sérfræðinga á
Árna, sem töldu hann hæfan til að
fljúga, í enskri þýðingu.
Atli dregur einnig í efa að Flug-
málastjórn hafi átt frumkvæði að því
að fá t.d. álit kanadísku Flugmála-
stjórnarinnar á máli Árna. Það hafi í
raun verið pantað af Þengli Oddssyni
en ekki flugmálastjóra.
,,Hið alvarlega við þetta mál er að
það snertir ekki eingöngu umbjóð-
anda minn heldur flugmál almennt á
Íslandi. Bréf kanadísku flugmála-
stjórnarinnar er til þess fallið að valda
skaða og gefa villandi mynd erlendis
af flugöryggismálum á Íslandi. Það er
til þess fallið að skaða Flugleiðir,
skjólstæðing minn, samgönguráðu-
neytið og Flugmálastjórn. Við erum
að gera sömu heilbrigðiskröfur og
aðrar þjóðir og það er rangt að láta í
það skína gagnvart íslenskum flug-
rekstrarðilum að við séum með minni
heilbrigðis- og öryggiskröfur en tíðk-
ast erlendis,“ segir Atli.
Deilt um líkur á öðru áfalli
Upphaf máls Árna G. Sigurðssonar
má rekja til 4. október 1998 þegar
hann, á heimili sínu, fékk skyndilega
svimatilfinningu og dofa og máttleys-
istilfinningu í vinstri handlegg og
vinstri fótlegg. Einkennin gengu
fljótt til baka og daginn eftir fór hann
í læknisskoðun. Þar kom ekkert sér-
stakt fram. Á næstu vikum og mán-
uðum fór Árni í ýmsar rannsóknir.
Þær bentu m.a. til þess að einkennin
hefðu stafað af svokölluðu heiladrepi,
þ.e. að öræð hefði lokast, en enginn
marktækur varanlegur skaði orðið.
Í gögnunum frá Atla kemur m.a.
fram að á þeim tíma frá því að Árni
fékk áfallið þar til málið fór í kæru-
ferli á haustmánuðum 2000 stóðst
hann ítarlegar rannsóknir sérfræð-
inga í heila- og taugasjúkdómum,
taugasálfræðings og fleiri lækna.
Helst hefur verið deilt um það í þessu
máli hverjar líkurnar séu á að flug-
maðurinn fái aftur áfall og hafa t.d.
verið skiptar skoðanir um hvernig
túlka beri vottorð eins sérfræðings í
tauga- og heilasjúkdómum.
Í vottorði eins sérfræðings, Sigur-
laugar Sveinbjörnsdóttur, segir að
Árni sé heilsufarslega hæfur til að
gegna starfi flugstjóra en spurningar
vakni um hve mikil hætta sé á end-
urteknu áfalli, sem hún byggði á að
væru 4%.
Sjálfdæmi aftur til
Sturlungaaldar
Atli segir að meint hætta á nýju
áfalli hafi verið eina röksemd Þengils í
málinu gegn Árna og Þengill haldi því
fram að niðurstaðan samrýmist ekki
íslenskum reglum og reglum Flugör-
yggissamtaka Evrópu, svonefndum
JAR-reglum, um að líkur á endur-
teknu áfalli flugmanna megi ekki vera
meiri en 1%. Atli fullyrðir að þetta
komi hvorki fram í íslenskum lögum,
þar sé aðeins talað um „líklegt“ og
engin prósenta þar nefnd, né í JAR-
reglum. Í tilfelli Árna séu líkurnar í
raun minni en 1% þar sem hann hafi
ekki kennt sér meins síðan í október
1998 og staðist allar læknisskoðanir.
Að auki hafi Sigurlaug byggt á rann-
sókn sem gerð var á blökkumönnum í
miðríkjum Bandaríkjanna þar sem
tíðni heilablóðfalla er mikil og lifnað-
arhættir og lífsstíll allt aðrir og verri
en í öðrum ríkjum Bandaríkjanna og
hér á landi.
,,Þessi regla um 1% líkur er hvergi
lögfest. Það kom í ljós fyrir jól þegar
breyta átti frumvarpi til loftferðalaga
að Flugmálastjórn setti inn breytingu
með því að lögfesta þessa reglu. Flug-
rekstraraðilar mótmæltu og þetta var
tekið út úr lögunum. Ég held því fram
að þetta hafi eingöngu verið sett fram
vegna máls Árna. Af sömu ástæðu tel
ég að Flugmálastjórn hafi viljað
breyta í reglugerð hvernig áfrýjunar-
nefnd lækna sé skipuð. Flugmála-
stjórn hefur sagt að athugasemdir
hafi komið erlendis frá við það hvern-
ig nefndin er skipuð. Ég hef látið at-
huga þetta í nokkrum löndum og það
er mismunandi hvernig þær eru skip-
aðar. Í drögunum vill Flugmálastjórn
breyta reglugerðinni þannig að hún
sjálf skipi í nefndina, sem verði nokk-
urs konar umsagnaraðili og gefi ekki
út endanlega úrskurði. Ég tel þetta
vera brot á stjórnsýslulögum, sama
hvar við grípum niður; á Íslandi eða
annars staðar. Það tíðkast hvergi í
lýðræðisríkjum að sá sem er kærður
geti skipað í nefnd til að fjalla um
kæruna. Eins og Flugmálastjórn
leggur þetta upp er hún að fara fram
á sjálfdæmi í kærumálum. Sá háttur
hefur ekki verið við lýði síðan á Sturl-
ungaöld.“
Afturköllun
vottorðs kærð
Endanleg afstaða Þengils Odds-
sonar, um að flugmaðurinn fái ekki
heilbrigðisvottorð sitt endurnýjað
kemur í bréfi til hans í ágúst árið
2000. Atli vekur athygli á því að í
þessu bréfi Þengils sé Árna bent á
málskotsrétt til áfrýjunarnefndar á
vegum samgönguráðuneytisins sem í
eigi sæti trúnaðarlæknir ráðuneytis-
ins, trúnaðarlæknir Félags íslenskra
atvinnuflugmanna og læknir tilnefnd-
ur af landlækni. Þar segir Þengill að
niðurstaða nefndarinnar sé endanleg
á sviði stjórnsýslu vegna útgáfu heil-
brigðisvottorðs.
Atli fór þessa leið og skilaði inn
kæru til ráðuneytisins í ágúst og rök-
stuðningi í september 2000. Þar var
farið fram á að afturköllun Flugmála-
stjórnar á vottorðinu verði felld úr
gildi og nýtt vottorð og óskilyrt gefið
út. Nefndina skipuðu þeir Guðmund-
ur Þorgeirsson, yfirlæknir hjarta-
lækningadeildar Landspítalans,
Matthías Halldórsson aðstoðarland-
læknir og Finnbogi Jakobsson, tauga-
læknir, sem var formaður hennar.
„Síðan gagnrýnir Þengill þessa
nefnd harðlega þegar hún hefur kom-
ist að sinni niðurstöðu,“ segir Atli.
Niðurstaðan var að flughæfni Árna
væri óskert og hann fullnægði heil-
brigðisákvæðum reglugerðar um
skírteini útgefin af Flugmálastjórn
nr. 419/1999 um heilbrigðisvottorð.
Nefndin tók jafnframt fram að mat á
flughæfni Árna byggðist fyrst og
fremst á því hverjar líkur væru á nýju
heiladrepi. Þá sagði ennfremur í nið-
urstöðum nefndarinnar: ,,Engin ný
sjúkdómseinkenni hafa komið frá
miðtaugakerfi hjá Árna G. Sigurðs-
syni á þeim tveimur og hálfu ári sem
liðin eru frá heiladrepinu 04.10.98. Í
ljósi þess og árangursríkrar með-
höndlunar áhættuþátta telur nefndin
líkur á nýju heilablóðfalli mjög litlar.“
Atli bendir á að nefndin hafi einnig
hafnað rannsóknartilvísunum Sigur-
laugar Sveinbjörnsdóttur um líkur á
endurteknu áfalli.
Darraðardansinn byrjar
,,Eftir niðurstöðu nefndarinnar
byrjar darraðardansinn fyrir alvöru
og þá verða kaflaskil í máli Árna.
Menn fara að deila um túlkun á þess-
ari niðurstöðu. Það er lögfræðilegt
mál og alls ekki læknisfræðilegt. Í
öllu ferlinu hafa Flugmálastjórn og
Þengill Oddsson vísað í vottorð sér-
fræðingsins frá árinu 1999 um 4% lík-
ur á öðru áfalli, sem kærunefndin
hafnaði. Engin ný gögn voru lögð
fram,“ segir Atli.
Í kjölfarið gekkst Árni undir nýja
læknisskoðun og stóðst hana. Atli
segist fljótlega hafa fundið að Þengill,
og Flugmálastjórn þar með, hafi ekki
ætlað að fara eftir niðurstöðunni.
Trúnaðarbrestur hafi komið upp,
Þengill hafi einfaldlega tekið þá
ákvörðun að í loftið skyldi Árni ekki
komast.
,,Frá því að áfrýjunarnefnd lækna
skilaði sinni niðurstöðu, um að Árni
ætti að fá heilbrigðisvottorð án tak-
markana, gekkst skjólstæðingur
minn undir skoðun Þórðar Harðar-
sonar fluglæknis í maí 2001, október
og desember. Árni var líka skoðaður
um mánaðamótin nóvember/desem-
ber sl. af Guðmundi Þorgeirssyni. Ég
get fullyrt að í þessum fjórum lækn-
isskoðunum á síðasta ári kom ekkert
fram sem benti til þess að flugmað-
urinn, sem ég er að vinna fyrir, væri
ekki jafnheilbrigður og aðrir atvinnu-
flugmenn,“ segir Atli.
Ráðherra hafði engin afskipti
Atli segir öll gögn sýna að sam-
gönguráðherra, Sturla Böðvarsson,
hafi ekki haft afskipti af læknisfræði-
legu mati á flugstjóranum. Hann hafi
aðeins skipt sér af lagalegum túlkun-
um á niðurstöðu læknanefndarinnar,
sem honum hafi borið skylda til, sbr.
dóm Hæstaréttar frá 12. des. 1996. Í
ljós hafi komið að Flugmálastjórn
taldi nefndina ekki hafa tekið á öllum
þáttum málsins.
Í bréfi framkvæmdastjóra flugör-
yggissviðs Flugmálastjórnar, Péturs
K. Maack, til Árna í lok maí í fyrra
koma fram þær takmarkanir á at-
vinnuflugmannsskírteini hans að rétt-
indin verði aðeins notuð í fjölskipaðri
flugáhöfn.
,,Við vorum tilbúnir að fallast á
þessa takmörkun til að ná lendingu í
málinu. Þar með töldum við að því
væri lokið. Þá kom að okkar mati ber-
lega í ljós að Þengill ætlaði með öllum
ráðum að koma í veg fyrir að Árni
flygi. Þengill gefur út heilbrigðisvott-
orð til fjögurra mánaða en ekki sex og
með þeirri takmörkun að Árni verði
að afla leyfa til flugs eða yfirflugs til
annarra landa en Íslands. Þetta þýddi
að hann var að kyrrsetja Árna end-
anlega. Við hefðum þurft að skrifa
bréf til allra flugmálastjórna erlendis,
þar sem Þengill hefur mikil tengsl í
gegnum sitt starf. Við vissum að þetta
var vonlaust og ákváðum því að fara
með málið lengra,“ segir Atli en
vegna mótmæla þeirra var þessi tak-
mörkun síðar afturkölluð.
Atli bendir einnig á að í bréfi til
Árna í lok júní 2001 hafi Pétur K.
Maack, náinn samstarfsmaður Þeng-
ils, bent á að hægt væri að kæra til
samgönguráðuneytisins ákvörðun
Flugmálastjórnar um að takmarka
útgáfu flugmannsskírteinis.
„Starfsmaður Flugmálastjórnar,
Þengill Oddsson, gagnrýnir það síðar
að samgönguráðherra sé að hafa póli-
tísk afskipti af heilbrigðismálum flug-
mála. Það er mjög ómaklegt gagnvart
ráðherra. Hann og hans starfsmenn
hafa unnið málið á stjórnsýslulegum
grunni með faglegum hætti og af hlut-
leysi,“ segir Atli.
Hinn 16. september sl. lagði Atli
svo inn kæru til samgönguráðuneyt-
isins á hendur Flugmálastjórn fyrir
takmarkanir í flugmannsskírteini
Árna. Úrskurður ráðuneytisins féll
svo 26. október og segir Atli hann
snúa fyrst og fremst um lögfræði,
ekki læknisfræði. Ráðuneytið hafi að-
allega bent á að úrskurður áfrýjunar-
nefndar lækna hafi verið endanlegur
og trúnaðarlæknir Flugmálastjórnar
hafi ekki getað hundsað hann. Sama
hafi verið staðfesti í úrskurði ráðu-
neytisins 16. nóvember 2001.
Eftir að Árni fékk flugmannsskír-
teini afhent í júní sl. fór hann að starfa
að nýju hjá Flugleiðum og flaug þar
til um miðjan desember, þegar skír-
teinið rann út og bíður hann nú nýrr-
ar skoðunar, sem fyrr segir.
Farþegar njóta vafans í lögum
Aðspurður hvort hagsmunir flug-
farþega eigi ekki að ganga fremur
hagsmunum flugmanna þegar flugör-
yggi er annars vegar segir Atli að
þegar skerða eigi mannréttindi og at-
vinnufrelsi manna þurfi að liggja fyrir
því skýrar lagaheimildir og rök. Ekki
sé hægt að taka atvinnuréttindi af
mönnum með geðþóttaákvörðunum. Í
máli Árna hafi eingöngu verið vísað til
læknisrannsókna í Bandaríkjunum
sem ekki sé hægt að byggja á.
,,Öll gögn málsins sýna að Árni er
heilbrigður, hvort sem það er hjarta-
línurit, segulómskoðanir á heila, blóð-
þrýstingsmæling eða taugasálfræði-
legt mat. Hann hefur gengið í
gegnum fleiri skoðanir en nokkrir
aðrir atvinnuflugmenn. Vafans eiga
farþegar að njóta í löggjöfinni og regl-
unum, sem þeir gera að mínu mati.
Ég tel þannig að reglugerð Flugmála-
stjórnar sé í fullu samræmi við alþjóð-
legar reglur. Flugleiðir gæta fyllsta
öryggis gagnvart flugmönnum sínum
og flugvélum,“ segir Atli.
„Öll gögn
málsins sýna
að Árni er
heilbrigður“
Atli Gíslason hrl. segir m.a. í viðtali við Björn
Jóhann Björnsson að flugstjórinn hafi staðist
fjölda læknisrannsókna og líkur á að hann fái ann-
að áfall séu litlar sem engar. Hann telur erlenda
fluglækna ekki hafa fengið fullnægjandi upplýs-
ingar til að fella dóma um sjúkrasögu flugstjórans.
Morgunblaðið/Golli
Atli Gíslason hæstaréttarlögmaður blaðar í möppu með
skjölum í máli flugstjórans og Flugmálastjórnar.
Lögmaður Árna G. Sigurðssonar flugstjóra, sem hefur verið án heilbrigðisvott-
orðs, gagnrýnir Flugmálastjórn og fyrrv. fluglækni stofnunarinnar
bjb@mbl.is