Morgunblaðið - 13.02.2002, Síða 30

Morgunblaðið - 13.02.2002, Síða 30
UMRÆÐAN 30 MIÐVIKUDAGUR 13. FEBRÚAR 2002 MORGUNBLAÐIÐ K ollegi minn hafði það á orði á þessum vettvangi í síðustu viku, að íslensk tunga væri til- verugrundvöllur okkar, og að hennar vegna værum við Íslend- ingar. Og mikið var ég sammála honum um að tími væri kominn til að berjast gegn samsæri móð- urmálsmorðingjans. Það sem hann nefndi um enskuskotið mál- far blaðamanna var líka rétt, og á sjálfsagt við um mun fleiri starfs- stéttir. Þó verð ég að viðurkenna, að ég hef aldrei beinlínis óttast er- lendar slettur í íslenskri tungu. Þær eru þarna – þeim bregður fyrir í máli manna og í fjölmiðlum. Við þekkjum þær um leið og við heyrum þær. En einhvern veginn eru sletturnar eins og ónýtu perurnar á jólaseríunni – við tökum strax eftir þeim, og vit- um að það er hægt að skipta um peru, þótt við nennum því kannski ekki fyrr en á morgun. Það sem ég hef miklu meiri áhyggjur af eru annars konar áhrif enskrar tungu. Hún hefur nefnilega tekið upp á því að lauma sér inn í almennt málfar og er far- in að láta á sér bera – ekki bara í slettum – heldur líka í því hvernig við notum málið. Fyrir vikið verð- ur íslenskan mun fátæklegri en ella þyrfti að vera. Íslensk sagn- orð virðast eiga mjög undir högg að sækja. Enska sögnin „to do“ er farin að gera sig gildandi í ís- lensku máli; ekki sem sletta, held- ur á þann hátt að í stað þess að nota íslensk sagnorð notum við sögnina að gera, og slengjum svo viðeigandi nafnorði aftanvið. Það er undantekning að heyra íþrótta- fréttamenn nota sögnina að skora. Íþróttamenn gera mörk. Sögnin að skora er hreinlega í útrýming- arhættu. Sálartetur mitt er svo einkennilega samansett, að þetta minnir mig alltaf á það að í eina tíð þóttu sagnorð sem lýstu þeim verknaði er börn þurftu að hægja sér svo klúr og dónaleg, að til þess að komast hjá því að nota þau sagði fólk að krakkinn hefði gert í buxurnar eða gert stórt. Nú þykir engum tiltökumál að nota viðeig- andi sagnorð um þetta, en sögnin að skora virðist enn vera viðsjálli en svo að íþróttafréttamenn þori að taka sér hana í munn. Eldra dæmi um þessa enskulegu sagna- notkun er það að gera hreint. Það þykir ekki tiltökumál lengur að segja að maður ætli heim að gera hreint; – hvað þá ef maður ætlar að gera hreint fyrir sínum dyrum. Sagnirnar að hreinsa og þrífa víkja fyrir þessu orðalagi. Ég held að smám saman seytli þessi notk- un sagnorða og nafnorða inn í ís- lenskuna og þyki á endanum eðli- leg. Það er synd. Það er ekki bara sögnin að gera sem sækir á, held- ur virðist almennt hugmyndaleysi í notkun sagnorða á undanhaldi. Skáld af öllu tagi, ljóðskáld, tón- skáld og leikskáld, eru æ oftar farin að skrifa verk sín. Jú, sögnin lýsir vitaskuld þeim verknaði sem lýtur að framkvæmdinni sjálfri. En tilhugsunin um að Mozart hafi skrifað Sálumessu sína er ótrú- lega óspennandi og orðinu fylgir engan veginn sama andagift og orðunum að semja, yrkja, kveða og skálda. Nafnorðatískan sem fylgir þessari þróun er líka hvimleið. Um hana ætla ég að nefna dæmi, sem mér þótti svo stórfenglegt að ég mátti til með að deila því með fleirum. Í saumaklúbbnum mínum er ekki mikið saumað, en þeim mun meira skrafað um menn og mál- efni. Þegar talið barst að gömlum kunningja sem átti í vandræðum spurði vinkona mín í stétt uppeld- ismenntaðra hvort hann væri ekki bara með andstöðuþrjósku- röskun. Um leið og hún sleppti orðinu og andlit okkar hinna þögnuðu í forundran gaus upp úr henni óstöðvandi hlátur. Hún hló ekki bara að tómum andlitum okkar hinna, ég held að henni hafi bara þótt það svo fyndið að taka sér þetta orð í munn. Það kom sem sé á daginn að andstöðu- þrjóskuröskun er eitt þeirra svo- kölluðu íðorða, sem notuð eru í hennar fagi til að lýsa ákveðinni hegðun fólks. Þetta orð var yf- irgengilega knúsað, og til þess eins að hlæja að því. Þá komu raskanirnar hver af annarri, geð- röskun, kvíðaröskun, átröskun, hegðunarröskun, sértækar þroskaraskanir og gagntækar þroskaraskanir að ógleymdri mót- þróaþrjóskuröskun, sem í dag er víst búið að stytta í mótþróa- röskun – guði sé lof. Við nánari at- hugun fann ég ekki orðið röskun í orðabókinni minni, hvað þá rask- anir í fleirtölu. Nafnorðið er dreg- ið af sögninni að raska einhverju. Andstöðuþrjóskuröskun er heldur ekki til, og hvernig sem ég reyni að skilja orðið get ég það ekki. Ég veit hvað andstaða er og hvað þrjóska er, og veit líka hvað rösk- un er, þótt orðið hafi ekki hlotið náð orðabókarsmiðsins. And- stöðuþrjóska er eitthvað sem maður ímyndar sér um mann- eskju sem þrjóskast við að vera í andstöðu við allt og alla. En hvað svo gerist þegar þeirri hegðun er raskað finnst mér að hljóti að vera eitthvað til bóta. En andstöðu- þrjóskuröskun þýðir svo reyndar eitthvað allt annað og flóknara, en orðið, sem er þýðing á því sem heitir á ensku pervasive develop- ment disorder, er ekki gegnsærra en svo, að hverjum manni hlýtur að vera ómögulegt að skilja það. Það er ekki allt fengið með því að þýða ensk orð yfir á íslensku. Mál- ið skánar ekki við það eitt. Þá eru ónýtu perurnar skárri. Það er ekki nóg að fagfólkið setjist niður með orðabækur sínar; það þarf fólk með hugarflug og næmi fyrir íslenskri tungu til að smíða ný orð. En vel á minnst, oft eru bjargirn- ar nærri. Þegar ég var að leita að röskun í orðabókinni rakst ég á skemmtilegt orð, sem gæti komið uppeldisfólki að gagni við að greina hegðurnarvandamál. Hef- ur einhver heyrt talað um rösólf? Ji, ertu með andstöðu- þrjóskuröskun! Tilhugsunin um að Mozart hafi skrifað Sálumessu sína er ótrúlega óspennandi og orðinu fylgir engan veginn sama andagift og orðunum að semja, yrkja, kveða og skálda. VIÐHORF Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is Í GREIN nú nýverið í Morgunblaðinu hefur útvarpsstjóri RÚV Markús Örn Antonsson reynt að skýra út fyrir þjóðinni, að stofnunin þurfi meiri peninga til rekstursins. Öll er þessi varnarræða held- ur vandræðaleg, enda hefur stofnunin úr miklum fjármunum að spila. Heildartekjur RÚV eru ekki tíundað- ar í þessari grein og skýrt fyrir fólki, hvers vegna svo mikilar tekjur duga ekki til rekstursins. Svarið er nefnilega bruðl og stjórnleysi, of- mönnun og allt of margar matarhol- ur fyrir vildarvini RÚV eða öllu held- ur hina raunverulegu eigendur, þá sem krækja sér í feita bita hjá stofn- uninni. Það er ekki afsökun, hvað varðar HM í knattspyrnu, að keppn- in sé of dýr, þetta er aðeins spurning um áherslur, skipulag, stjórnun og áætlunargerð í fjármálum. Í umræddri grein útvarpsstjóra segir m.a.: ,,Við viljum standa vörð um þá meginreglu, að allir Íslendingar eigi tilkall til þess að geta fylgst með slíkum stór- viðburðum í opinni dagskrá og án þess að borga sérstaklega fyrir það.“ Er þetta ekki stórkostlegt, án þess að borga sérstaklega fyrir það. Hvað erum við sjónvarpseigendur neyddir til að greiða fyrir til RÚV ár eftir ár, án þess að hafa neitt um þetta að segja? Við erum búnir að greiða fyrir HM í fótbolta og líka Ólympíuleikana í Salt Lake City. Setning leikanna í Salt Lake City aðfaranótt laugar- dagsins voru stórkostlegasti menn- ingaratburður ársins. Undir kjör- orðinu ,,Tendrum innri eld okkar“, fór fram sýning, sem var í allt í senn ógleymanleg, söguleg, fáguð, tilfinn- ingarík og hrífandi. Og ekki má gleyma inngöngu íþróttafólks okkar Íslendinga með fánann okkar hjart- kæra. Þetta var fjölskylduskemmtun á heimsmælikvarða og fyrir alla ald- urshópa, söngur, tónlist, dans og skrautsýning, sem svo sannarlega á fullt erindi til allra heimila. Þá þarf ekki að fara neinum orðum um það að þær keppnisgreinar, sem hingað til hafa farið fram eru stórkostlegar og RÚV til háborinnar skammar og hneisu að sýna ekki beint frá leik- unum. Ekki hafa farið neinar sögur af keppni RÚV og Stöðvar tvö um þessa leika. Að lokum skora ég á nafna minn hjá Norðurljósum, að sýna okkur frá opunninni á Sýn eða Stöð tvö. Því ekki á ég von að þeir hjá RÚV taki við sér. Þeir eru bara að barma sér. RÚV og Ólympíuleikarnir Hreggviður Jónsson Ljósvakamiðlar Við erum búnir að greiða fyrir HM í fótbolta, segir Hreggviður Jónsson, og líka Ólympíuleikana í Salt Lake City. Höfundur er fv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins. FRÉTT undir þess- ari fyrirsögn í Mbl. 28. desember sl. vakti áhuga minn, en þar er vitnað í samtal við for- stjóra KGRP, Þórstein Ragnarsson, vegna fyr- irhugaðs duftreits í Leynimýri í sunnan- verðri Öskjuhlíð. Þetta svæði sem skipulags og bygging- arnefnd Reykjavíkur hefur samþykkt að auglýsa nýtt deiliskipu- lag á fæst vonandi sam- þykkt þar sem það kemur til með að henta mjög vel af ýmsum ástæðum. Gamli duftreiturinn sunnan Foss- vogskirkju er óðum að fyllast og væri mjög æskilegt að útbúa og hanna nýjan duftgarð á ofangreindu svæði, sem er í næsta nágrenni við Fossvogskirkju. Með áframhaldi á aukningu á kistubrennslu eða líkbrennslu, hvort sem menn óska að kalla það, líður ekki mjög langur tími áður en þörf á nýjum duftgarði verði orðin knýj- andi. Möguleikar eru margir, þegar skipulagður er nýr grafreitur fyrir duftker. Ég vona að þeir möguleikar sem verða á þessu fagra svæði í Öskjuhlíðinni til skipulagningar á nýjum grafreit verði nýttir vel. Í heimsóknum mínum til Bret- lands og víðar fyrir rúmum áratug skoðaði ég marga kirkjugarða þar sem hefðbundin greftrun var jafn- hliða sérstökum reitum fyrir duft- ker. Mér er sérstaklega minnisstæður slíkur duftgarður í Brighton, þar sem búið hafði verið til landslag með fallegum steinhæðum og blóm- skrúði, aðallega fjölærum plöntum. Það jók mjög á fegurðina að útbú- inn hafði verið lækur, sem hlykkj- aðist um svæðið og lítil vinaleg tjörn með vatnaliljum og sefgrasi. Nokkr- ir bekkir voru þarna fyrir gesti til að tylla sér niður og njóta fagurs um- hverfis og láta hugann reika. Ég sé fyrir mér að þessi væntan- legi duftreitur sunnan Öskjuhlíðar- innar geti orðið hvorutveggja í senn, fagur lystigarður og friðsæll legstað- ur komandi kynslóða. Ég treysti full- komlega því ágæta fagfólki sem Kirkjugarðar Reykjavíkur hafa á að skipa til að hanna nýjan og aðlaðandi duftgarð, sem væntanlega dygði til næstu aldamóta eða lengur. Kirkjumálaráðherra hefur fyrir nokkru lagt fram á alþingi frum- varp til laga um kirkju- garða, greftrun og lík- brennslu. Í frum- varpinu, sem vonast er til að verði að lögum á yfirstandandi þingi, eru nokkrar breytingar frá gildandi lögum nr. 36 frá 4. maí 1993. Ég fagna því að lagt skuli til að heimilað verði að dreifa ösku, en samkvæmt núgildandi lögum er dreifing á ösku látinna ekki heim- iluð. Í greinargerð með frumvarpinu er réttilega sagt að all- margar fyrirspurnir berist árlega þar að lútandi og að talsverður þrýstingur sé á að slíkt verði leyft. Víða í hinum vestræna heimi er þróunin í þá átt að leyfa dreifingu á ösku, en þó með vissum skilyrðum. Sums staðar er þess krafist að fyrir liggi skrifleg beiðni eða samþykki hins látna, en annars staðar nægir að nánustu ættingjar staðfesti vilja hins látna, að öskunni verði dreift. Í frum- varpinu er lagt til að ráðherra geti heimilað að ösku sé dreift og sett reglur þar um. Almennt er gert ráð fyrir að engin fyrirstaða verði á því að heimila dreifingu ösku yfir opið haf, firði, flóa, stærri vötn og óbyggðir. Til að fyrirbyggja hugsan- legan vafa þarf að setja leiðbeining- arreglur og hanna eyðublöð einkum hvað varðar staðarval. Eftir á þarf að leggja fram skriflega staðfestingu á að dreifing hafi átt sér stað í sam- ræmi við reglur og síðan að senda upplýsingar til legstaðaskrár, þar sem tilgreint er hvar öskunni var dreift. Engin smithætta er talin stafa af öskunni, þar sem hitinn í brennsluofninum er mjög hár. Ástæða þess að ég fagna nýjum lögum, sem leyfa dreifingu ösku, þó háð verði einhverjum skilyrðum er m.a. sú að ég vonast til að aukið frjálsræði ýti undir aukna lík- brennslu, sem ég tel brýnt að auka sem mest. Íslendingar eru eftirbátar flestra annarra Evrópuþjóða hvað líkbrennslu varðar. Brennsla fer þó jafnt og þétt vaxandi og skv. nýleg- um upplýsingum, var svo komið árið 2000 að 12,5% látinna hlutu brennslu á landsvísu, en á höfuðborgarsvæð- inu einu var hlutfallið komið í allt að 20%. Þessi mikli munur skýrist af þeirri staðreynd að brennsla fer að- eins fram í Reykjavík, nánar tiltekið í bálstofu Kirkjugarða Reykjavíkur í Fossvogskirkju. Æskilegt væri að koma upp að- stöðu víðar t.d. á Akureyri, en vegna mikils kostnaðar við kaup og upp- setningu nauðsynlegs búnaðar, er ekki fyrirsjáanlegt að ráðist verði í slíka framkvæmd á næstu árum. Vegna stóraukinna krafna yfirvalda til að fyrirbyggja umhverfismengun hafa reglur verið mjög hertar og aukið mjög stofnkostnað slíkra fyr- irtækja. Enda þótt brennsluofnar bálstofunnar í Fossvogi gegni enn sínu hlutverki er svo komið að þeir starfa á undanþágu og endurnýjunar krafist innan fárra ára. Það var 1948 sem fyrsta lík- brennslan fór fram í Fossvogskap- ellu, en Bálfarafélagið, sem stofnað var af hópi áhugamanna árið 1934 undir ötulli forystu dr. Gunnlaugs Claessen læknis, hafði veg og vanda af því að reisa bálstofuna. Með dr. Claessen stóðu ýmsir frammámenn í þjóðfélaginu að Bálfarafélaginu og þeir unnu þrekvirki við öflun fjár til kaupa og uppsetningar á tveim brennsluofnum, sem dugað hafa í meira en hálfa öld. Þeir létu ekki for- dóma þess tíma aftra því að innleiða nýjan sið í útfaramálum hér á landi. Það ber að harma að Bálfarafélagið var lagt niður á sínum tíma. Full ástæða er til að endurreisa félagið og heiðra með því minningu þess mæta fólks, sem á sínum tíma hafði for- göngu um stofnun Bálfarafélagsins. Næg verkefni eru framundan í þess- um málum. Allt frá upphafi hefur þróunin verið hér sem annars staðar að þeim fer fjölgandi hlutfallslega sem aðhyllast líkbrennslu og er það vel. Auðvelt er að færa rök fyrir kost- um brennslu, en ég sleppi því að sinni. Hins vegar vil ég benda þeim sem áhuga hafa á að kynna sér þessi mál frekar, að hægt er að nálgast ágætt rit um bálfarir á skrifstofu Kirkjugarða Reykjavíkurprófasts- dæma í Fossvogi. Nýr duftgarður – dreifing ösku Ásbjörn Björnsson Bálför Ég fagna því, segir Ásbjörn Björnsson, að heimilað verði að dreifa ösku. Höfundur er fv. forstjóri.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.