Morgunblaðið - 06.07.2002, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 06.07.2002, Blaðsíða 18
VIÐSKIPTI/ATHAFNALÍF 18 LAUGARDAGUR 6. JÚLÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ STJÓRNIR EFA hf. og Þróunar- félagins hf. hafa ákveðið að taka upp viðræður um sameiningu félaganna. Í tilkynningu frá félögunum segir að í framhaldi af óformlegum viðræð- um sé gert ráð fyrir því að tekið verði mið af skiptahlutföllunum EFA 55% og Þróunarfélagið 45%. Jafnframt segir að stefnt sé að því að ljúka viðræðum sem fyrst. Félögin hafa áður rætt um sam- einingu félaganna, nánar tiltekið hófust viðræður síðast 3. desember sl., en upp úr þeim slitnaði í janúar vegna ósamkomulags um skipta- hlutfall. Vonumst til að ná saman í sumar Þorgeir Eyjólfsson, stjórnarfor- maður Þróunarfélagsins, segir að viðræður muni hefjast strax. Hann sagði að meginþátturinn í viðræðun- um liggi fyrir, þ.e. samkomulag um skiptahlutfall í sameinuðu félagi. „Það sem fyrir mönnum vakir er að stofna öflugt fjárfestingarfélag sem hefur meiri slagkraft en félögin tvö í sitthvoru lagi.“ Aðspurður sagði hann að nokkuð hefði borið í milli í fyrri viðræðum varðandi skiptahlutfallið en eftir frekari óformlegar viðræður hefði náðst að lenda málinu. Hann segir að allt síðan fyrri viðræður hófust hafi verið fyrir hendi sterkur vilji flestra stærstu eigenda beggja fé- laga um að ná fram sameiningu. „Ég á von á að viðræður muni ganga hratt fyrir sig og við náum saman í sumar,“ sagði Þorgeir. Samanlagt markaðsverðmæti 4.527 milljónir króna EFA og Þróunarfélag Íslands eru fjárfestingafélög og eiga þau bæði hluti í innlendum og erlendum fé- lögum, auk skuldabréfa. Fjárfest- ingar í óskráðum verðbréfum eru stór hluti af starfsemi beggja félaga. Hlutabréf beggja félaga eru skráð á Aðallista Kauphallar Íslands og er samanlagt markaðsverðmæti þeirra áætlað um 4.527 milljónir króna. Efnahagsreikningur EFA er heldur stærri en Þróunarfélagsins og starfsmenn fleiri. Stærstu hlut- hafar í félögunum eru lífeyrissjóðir og verkalýðsfélög. EFA keypti 12. febrúar sl. 16,65% hlut Straums í Þróunarfélaginu að nafnvirði 183 milljónir króna og varð eftir það stærsti hluthafinn í félaginu. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var Straumur andsnúinn sameiningu félaganna og kaupin því gerð einkum með það að markmiði að greiða fyrir samein- ingu. Helstu hluthafar í Þróunarfélag- inu eru EFA hf. með 16,65%, Líf- eyrissjóður verzlunarmanna með 14,97% og Sameinaði lífeyrissjóður- inn með 13,95%. Helstu hluthafar EFA eru Sameinaði lífeyrissjóður- inn með 13,8%, Lífeyrissjóðurinn Lífiðn með 9,9% og Landsbankinn fjárfesting með 7,91%. Þróunarfélag Íslands hf. skilaði 109 milljóna króna hagnaði á fyrstu þremur mánuðum ársins 2002 en EFA skilaði á sama tímabili 95 milljóna króna hagnaði. Bæði félög- in voru rekin með umtalsverðu tapi í fyrra. EFA og Þróunarfélagið í sameiningarviðræðum HAGNAÐUR af rekstri Flugfélags- ins Atlanta hf. nam 150,5 millj- ónum króna á árinu 2001 og hagn- aður af fyrsta ársfjórðungi ársins 2002 nam 729 milljónum króna (7,4 milljónum dollara). Á árinu 2001 nam velta félagsins 20,5 milljörðum króna og veltufé frá rekstri var 986 milljónir króna. Á aðalfundi félagsins sem haldinn var í vikunni kom fram að afkoman væri mikill varnarsigur miðað við rekstrarniðurstöðu í flugheiminum almennt á sl. ári. Á fyrsta ársfjórðungi 2002 nam velta félagsins 7,5 milljörðum króna (75,6 milljónum dollara) og veltufé frá rekstri var 1,4 millj- arðar króna (13,9 milljónir dollara) en þess er getið í tilkynningu að af- koma félagsins sé að jafnaði best í pílagrímaflugi, sem stendur frá miðjum janúar fram í mars. Atlanta hefur fengið heimild til að færa bókhald sitt og ársreikn- inga í starfrækslugjaldmiðli sínum, bandaríkjadollar, frá sl. áramót- um. Atlanta hagnast um 730 milljónir króna STJÓRN Kauphallar Íslands hef- ur ákveðið að fela forstjóra að taka ákvarðanir um beitingu viðurlaga vegna brota á reglum hennar. Ákvörðunin var tekin á fundi stjórnarinnar í sl. viku í kjölfar ít- arlegrar skoðunar á þessu efni, að því er segir í nýjustu útgáfu Kaup- hallartíðinda. Í samþykkt stjórn- arinnar segir að stjórnin feli for- stjóra að taka ákvarðanir um beitingu viðurlaga vegna brota á reglum Kauphallarinnar, þ.m.t. að taka ákvörðun um févíti. „Varð- andi brot er varða févíti skal há- mark þeirra vera 5 milljónir króna fyrir útgefendur og 8 milljónir fyr- ir kauphallaraðila. Ákvarðanir um afskráningu og niðurfellingu kaup- hallaraðildar lúta áfram sömu reglum og hingað til.“ Markmiðið mun vera að gera eftirlitsstarfsemi Kauphallarinnar skilvirkari og einfaldari í fram- kvæmd og efla þannig traust á markaðnum. Unnið hefur verið að því að flokka brot eftir eðli þeirra og fyrir liggja drög að verklags- reglum og málsmeðferðarreglum hvað þetta varðar. Ásetningur til að hafa áhrif á verð alvarlegustu brotin „Brot sem vart teljast alvarleg leiða til áminningar sem þó verður ekki gerð opinber. Alvarlegri brot fela í sér opinbera áminningu eða févíti. Alvarlegustu brotin teljast þau brot þar sem um ásetning er að ræða til að hafa áhrif á verð í hagnaðarskyni á röngum forsend- um. Séu brotin svo alvarleg að þau falli utan þeirra marka sem sam- þykktin hér á undan setur kemur til kasta stjórnarinnar,“ segir í Kauphallartíðindum. Kauphöll Íslands Forstjóra falið að refsa fyrir brot á reglum DANSKA viðskiptablaðið Børsen hefur opnað áskrift að vefefni blaðsins í gegnum þráðlaus tæki, svo sem farsíma og lófatölvur. Hug- búnaðurinn sem gerir þetta kleift er frá íslenska fyrirtækinu Dímoni hugbúnaðarhúsi. Dímon hannar og selur hugbún- aðarlausnir á sviði þráðlausra fjar- skipta, skeytamiðlunar og sam- tengikerfa. Með miðlara frá Dímoni (Dimon Mobile Server) er hægt að færa upplýsingar úr gagna- grunnum, vefþjónum og ýmsum öðrum gagnaveitum yfir á þráðlaus tæki, hvort sem er farsíma eða lófa- tölvur. Miðlarinn gefur notendum einnig færi á að nálgast t.d. tölvu- póstinn sinn í gegnum farsíma. Miðlarinn styður alla helstu far- síma og lófatölvur og getur unnið bæði með Wap og iMode kerfunum. Hönnun á veflausn Børsen (Bør- sen Mobil) var unnin í samstarfi Børsen, Nokia og Dímons. Meðal samstarfsaðila og viðskiptavina Dímons eru, auk Børsen, Sun Microsystems, Nokia, Eimskip og VÍS, að því er fram kemur í frétta- tilkynningu. Með veflausn Børsen er hægt að nálgast gagnasafn blaðsins og fréttir sem birtast jafnóðum á fréttavef þess, að því er fram kem- ur í frétt blaðsins um veflausnina. Þar kemur einnig fram að lesendur Børsen standa framarlega þegar kemur að nýrri fjölmiðlatækni, eins og segir í fréttinni. 73% lesendanna nota tölvupóst, níu af hverjum tíu eiga farsíma og annar hver fer á Netið á hverjum degi. Børsen með hugbúnað frá Dímoni Vægi evru aukið í gengisskrán- ingarvog SEÐLABANKI Íslands hefur end- urskoðað gengisskráningarvog ís- lensku krónunnar í ljósi utanríkis- viðskipta ársins 2001. Helstu breytingar frá fyrri vog eru að vægi evru eykst um 5,4% og er nú 37,1%. Er það einkum á kostn- að vægis Bandaríkjadals, sem minnkar um 2,2% í 24,8%, og bresks punds, sem minnkar um 2,0% í 12,8%. Aukið vægi evrunnar er í til- kynningu sagt skýrast af auknu vægi hennar í þjónustuviðskiptum. Þróun síðustu ára hafi því snúist við, en á árunum 1997–2001 jókst vægi Bandaríkjadals í gengisskráningar- vog krónunnar úr 22,4% í 27,0%. Nýja vogin tók gildi eftir gengis- skráningu í gær, 5. júlí, og verður notuð við útreikning gengisvísitöl- unnar þar til næsta endurskoðun fer fram um svipað leyti að ári, að því er segir í tilkynningu. Hafís hamlar loðnuveiðum HAFÍS hefur lagzt yfir loðnumiðin norður af Horni og hamlar nú veið- um. Vegna þess hefur lítið verið að gerast þar síðustu dægrin. Íslenzku skipin eru búin að landa um 25.000 tonnum og þau norsku eru að klára kvóta sinn sem er tæp 50.000 tonn. Víkingur AK hefur landað þrisvar á vertíðinni. Í gær var hann á leið á miðin eftir að hafa landað ríflega 1.360 tonnum í heimahöfn á Akra- nesi. Ægir Sveinsson, stýrimaður, sagði að þeir kæmu á miðin um kvöldið og byrjuðu strax að leita. Hvernig gengi færi eftir aðstæðum, einkum ísnum. Hann segir að loðnan haldi sig nú vestar en í fyrra, því nú hafi ekkert fengizt fyrir austan. Hann segir ennfremur að mikil áta sé í loðnunni og því vigti hún illa. Hún verði bara að gumsi og því tap- ist töluvert við löndunina. Samkvæmt upplýsingum Samtaka fiskvinnslustöðva hafa íslenzk skip landað ríflega 25.000 tonnum frá ver- tíðarbyrjun. Erlend skip hafa landað 12.000 tonnum og því hafa innlendar fiskimjölsverksmiðjur tekið á móti um 37.000 tonnum. Mestu hefur verið landað hjá Gná í Bolungarvík, tæplega 6.200 tonnum. Ríflega 5.000 tonn hafa borizt á land á Krossanesi, 4.500 tonn hjá HB á Akranesi, 3.700 hjá SR Mjöli í Siglu- firði og 3.500 hjá Tanga á Vopnafirði. Athyglivert er að þar hafa aðeins er- lend skip landað. Amadeus kaupir Smart af SAS SAS-flugfélagið hefur selt 95% eign- arhlut sinn í fyrirtækinu Scandinav- ian Multi Access Systems (Smart) til Amadeus fyrir einn milljarð sænskra króna eða um 9,2 milljarða ísl. króna. Greint er frá því á fréttavef Dagens Næringsliv að söluhagnaður SAS nemur 800 milljónum sænskra króna eða um 7,3 milljörðum ísl. króna. Smart er eitt stærsta fyrirtæki í Norður-Evrópu á sviði rafrænna bók- unar- og ferðaupplýsingakerfa fyrir ferðaskrifstofur og flugfélög. Ama- deus starfar á sama sviði. Samning- urinn var gerður með fyrirvara um samþykki yfirvalda og búist er við að hann taki gildi fyrir ágústlok. SAS hefur einnig hagnast undan- farið á veikum bandaríkjadal en sterkri krónu þar sem kostnaður hef- ur lækkað, en stærsti hluti útgjalda félagsins er í bandaríkjadölum. ALÞJÓÐLEGA matsfyrirtækið Fitch Ratings hefur staðfest ein- kunnina A fyrir skuldbindingar Ís- landsbanka hf. til langs tíma og F-1 fyrir skuldbindingar til skamms tíma. Sjálfstæð einkunn bankans er C og stuðningseinkunn er 2. Horfur lánshæfismatsins eru stöðugar að mati Fitch. Í frétt frá Íslandsbanka segir að í nýrri skýrslu Fitch um Íslands- banka kemur fram að lánshæfis- matið sé byggt á sterkri stöðu bankans á innlendum markaði, auknum rekstrartekjum, góðu kostnaðareftirliti og viðunandi eig- infjárhlutfalli. Jafnframt taki matið tillit til nokkurrar lækkunar í gæð- um eigna. Fram kemur að með sameiningu Íslandsbanka og FBA á árinu 2000 hafi orðið til traustur banki með styrkleika á öllum svið- um bankastarfsemi. Árið 2000 hafi verið erfitt, en hagnaðarhlutföll hafi hækkað og styrkst aftur á árinu 2001, með jákvæðri þróun vaxtatekna og þóknana á sama tíma og kostnaðarhagræðing vegna sam- runa hafi komið fram. Fitch fjallar um eignir bankans og bendir á að meirihluti útlána sé til stórra fyr- irtækja. Þrátt fyrir að erfiðleikar í efnahagslífinu á árinu 2001 hafi valdið aukningu vanskilalána og þar með afskriftarframlaga, séu gæði eigna Íslandsbanka fullnægj- andi. Þó efnahagsútlitið sé enn ekki gott og því auknar líkur á að van- skil muni vaxa, sé bankinn nú í betri stöðu en áður til að takast á við það vegna bættrar áhættustýr- ingar. Hins vegar geti hærri af- skriftarframlög dregið nokkuð úr hagnaði til framtíðar. Dregið hafi úr áhættu í eigin viðskiptum með markaðsverðbréf með breyttri fjár- festingarstefnu og því að bankinn skráir eignir á markaðsverði og fylgist náið með þeim. Í skýrslunni er bent á að Íslandsbanki byggi á nokkrum fjármögnunarleiðum, einkum til langs tíma. Stöðugleiki innlána og aðgangur að skamm- tímafjármögnun styðji viðunandi lausafjárstöðu. Eiginfjárstaða bankans sé traust með 12% eig- infjárhlutfall, þar af 9% í eiginfjár- þætti A, að því er segir í frétta- tilkynningu frá Íslandsbanka. Auk Fitch metur alþjóðlega matsfyrirtækið Moody’s Investors Service lánshæfi Íslandsbanka. Einkunnir þess eru sambærilegar við einkunnir Fitch en þær eru auð- kenndar með A2 fyrir skuldbind- ingar til langs tíma og P-1 fyrir skuldbindingar til skamms tíma. Moody’s hefur nýlega staðfest láns- hæfismat bankans. Fitch staðfestir A-einkunn Íslandsbanka ♦ ♦ ♦

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.