Morgunblaðið - 02.10.2002, Qupperneq 19

Morgunblaðið - 02.10.2002, Qupperneq 19
ERLENT MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 2. OKTÓBER 2002 19 DÓMAR manna um frammistöðu Bill Clintons í embætti forseta Bandaríkjanna eru misjafnir en eitt er ljóst: hann er enn í hópi mestu áhrifamanna í Demókrata- flokknum og einhver öflugasti fjáröflunarmaður hans. Hann hélt sig til hlés í kosningunum fyrir tveim árum af ótta við að gera fremur ógagn en gagn. En nú er öldin önnur og dagskrá forsetans fyrrverandi er fullskipuð fram að þingkosningunum í nóvember. Er hann einkum fenginn til að hvetja fólk til dáða á svæðum þar sem demókratar eru þegar öflugir auk þess sem vitað er að hann nýtur mikilla vinsælda meðal blökkufólks. Nýlega kom hann á fund í Detroit, virtist vel á sig kominn og klæddur dýrum tískufatnaði. Gesturinn kinkaði kolli til saxó- fónleikarans á sviðinu um leið og sveitin hóf að leika eftirlætislag Clintons sem veifaði til fagnandi manngrúans. Þegar látunum linnti loksins sagði hann: „Þið vitið að ég get ekki boðið mig fram í neitt emb- ætti,“ en bætti svo glottandi við: „Ég get sagt hvað sem ég vil.“ Clinton er nú 56 ára gamall og óvenju ungur þegar um fyrrver- andi forseta er að ræða. Fyrst í stað virtist hann eiga erfitt með að fóta sig eftir að hafa látið af embætti í janúar 2001 en segir nú að sér líði ágætlega. Eiginkonan, Hillary Rodham Clinton öld- ungadeildarþingmaður, sjái um stjórnmálin „og það hentar mér ágætlega“, segir hann. Clinton og Gore ekki nánir vinir Nokkrir af þeim sem renna hýru auga til forsetakosninganna 2004 og útnefningar á frambjóð- anda demókrata hafa fengið ráð hjá Clinton, meðal þeirra eru öld- ungadeildarþingmennirnir Joe Lieberman, John Kerry og John Edwards, einnig Howard Dean, ríkisstjóri í Vermont. Öðru hverju ræðast þeir einnig við, Clinton og Al Gore, varaforseti hans bæði kjörtímabilin en þeir eru þó ekki sagðir nánir félagar. Fyrrverandi samstarfsmenn segja að Clinton hafi venjulega verið snjallastur allra í Hvíta hús- inu þegar fjallað var um að skipuleggja kosningabaráttu. Ný- lega greip Clinton inn í málin í New York-ríki og fékk Andrew Cuomo, sem var ráðherra hús- næðismála í ríkisstjórn hans, til að hætta við að keppa um útnefn- ingu demókrata í tengslum við ríkisstjórakosningarnar. Menn telja að Cuomo hafi ekki átt nokkra möguleika á að sigra. Bent hefur verið á að ef til vill hafi umhyggja fyrir Cuomo hin- um unga ekki ráðið mestu um af- skipti Clintons heldur hafi hann viljað tryggja að eiginkonan, Hillary Rodham Clinton, gæti vafningalaust stutt þann sem lík- legastur væri til að sigra í próf- kjörinu. Forsetinn fyrrverandi hefur eins og aðrir slíkir lagt hart að sér við að tryggja sér gott eft- irmæli. Hann er að rita bók um ferilinn og fékk fyrirframgreiðslu er nemur 12 milljónum dollara, rúman milljarð króna. Einnig hefur hann ferðast um allan heim til að halda fyrirlestra og þegið himinháar fjárhæðir fyrir. Þá hefur hann fetað í fótspor Jimmy Carters og tekið þátt í mann- úðarstarfi, barist gegn útbreiðslu alnæmis í Afríku og stofnað menntasjóð fyrir aðstandendur fórnarlambanna 11. september. Síðastnefnda framtakið er gert í samvinnu við gamlan keppinaut, repúblikanann Bob Dole sem tap- aði fyrir Clinton 1996. Sagnfræðingurinn Douglas Brinkley, sem ritað hefur bók um Carter, segir þó að Clinton sé eins ólíkur Carter og hugsast geti, hinn fyrrnefndi sé allt of hrifinn af samkvæmislífi og um- tali til að geta fært persónulegar fórnir eins og Carter eftir að hann yfirgaf Hvíta húsið í árs- byrjun 1981. „Tími Clintons eftir forsetaferilinn er enn helgaður pólitískum völdum,“ segir Brink- ley. Fullyrðir hann að í þessum skilningi hafi enginn fyrrverandi forseti verið jafn athafnasamur og Clinton síðan í tíð Theodore Roosevelt, sem var forseti 1901– 1908. Trúverðugleikinn óvenju lítill Kannanir sýna samt sem áður að almenningur í Bandaríkjunum er mjög klofinn í afstöðu sinni til Clintons og valdatíma hans. Menn eru annaðhvort með honum eða á móti, sjaldan nokkur millivegur. Fyrr á þessu ári sýndi könnun Gallups að hrifning af gerðum hans sem forseta er minni en dæmi eru um þegar borið er sam- an við forvera hans í embættinu. Andrew Kohut, sem rekur sjálf- stæða rannsóknastofnun er kann- aði álit fólks á Clinton, sagði að trúverðugleiki hans fengi „ótrú- lega“ lága einkunn. Sums staðar virðast menn telja að nærvera hans getið skaðað fremur en hjálpað. Mark Pryor, frambjóðandi demókrata í Arkansas, heimaríki Clintons, til öldungadeildarinnar sagðist vera önnum kafinn og komst ekki þeg- ar Clinton efndi til fundar með demókrötum í ríkinu í ágúst. Erskine Bowles, er var um hríð framkvæmdastjóri Hvíta hússins í tíð Clintons, keppir nú við Eliza- beth Dole um sæti öldungadeild- arþingmanns í Norður-Karólínu. Bowles hreykir sér í kosninga- áróðrinum af reynslunni í Wash- ington en gerir lítið úr því að hann hafi átt persónuleg sam- skipti við Clinton (nema í sér- hönnuðum áróðri sem sendur er milliliðalaust til blökkumanna í ríkinu.) Dole sleppir hins vegar aldrei neinu tækifæri til að minna kjósendur á að Bowles hafi unnið fyrir Bill Clinton. Vonbiðlar fá ráð hjá reyndum manni Bill Clinton er enn meðal áhrifamestu manna í flokki demókrata, duglegur við fjáröflun og gefur væntanlegum forsetaframbjóðendum hollráð AP Bill Clinton snemma í september ásamt Lorettu Sanches, fulltrúadeild- arþingmanni úr röðum demókrata í Kaliforníu. Forsetinn fyrrverandi hefur komið fram á fundum með mörgum demókrataþingmönnum í að- draganda kosninganna sem verða í nóvember. Detroit. The Baltimore Sun. E-pillu- neysla tengd Parkin- son-veiki NÝJAR rannsóknir í Banda- ríkjunum benda til, að e-pillan geti valdið Parkinson-veiki hjá neytendum hennar. Er engin lækning til við þeim sjúkdómi. Niðurstöður rannsóknarinn- ar, sem unnin var undir stjórn dr. George Ricaurte við John Hopkins-háskólann í Balti- more, benda til, að e-pillan, sem er vinsælt fíkniefni hjá ungu fólki, sé enn hættulegri en áður var talið. Sagði frá þessu í Berl- ingske Tidende í fyrradag en tímaritið Science greindi frá rannsókninni. Rannsóknin, sem gerð var á öpum, sýndi, að milli 60 og 80% af taugaendum í svokölluðum griplum, sem framleiða dópam- ín, eyðilögðust eftir aðeins fáa e-pilluskammta. Það eru ein- mitt þessar griplur, sem eyði- leggjast í Parkinson-sjúkling- um. Eru fyrstu einkennin skjálfti en lokastigið næstum alger lömun. Dr. Ricaurte segir, að ekki sé vitað með vissu hvort e-pillan hafi sömu áhrif á menn og apa en líklegt megi það þó teljast. „Stóra spurningin er hvort fjöldi e-pilluneytenda sé með Parkinson-veiki á byrjunar- stigi. Það hefur enn ekki verið rannsakað,“ segir dr. Ricaurte. Danski geðlæknirinn Henrik Rindom segir, að stórneytend- ur e-pillunnar séu augljóslega í mestri hættu og rannsóknin sýni, að þetta fíkniefni, sem sumir töldu hættulaust, sé í raun stórhættulegt. FRÉTTIR mbl.is

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.