Morgunblaðið - 17.04.2003, Blaðsíða 2

Morgunblaðið - 17.04.2003, Blaðsíða 2
2 C FIMMTUDAGUR 17. APRÍL 2003 MORGUNBLAÐIÐ DÚI Landmark sagðihrossagaukinn veraskemmtilegan fugl semhann hefði haft unun afað fylgjast með úti í náttúrunni. Sem skotveiðimaður taldi hann líklegt að hann myndi „njóta og nýta,“ ef það væri leyfilegt hér á landi. „En það er ekki aðeins bannað að skjóta hrossagauk á Íslandi heldur alla vaðfugla og ég hugsa að það verði seint eða aldrei hróflað við því. Fyrir því liggja fyrst og fremst til- finningarök sem ég deili ekki við, þau eiga fullan rétt á sér. Hins vegar myndu margir þessara stofna þola einhverja veiði, ekki síst hrossa- gauksstofninn. Hann er mjög stór og gaukurinn er svo erfiður sportveiði- fugl að menn eru ekki að skjóta marga á hverri vertíð. Matmenn eru að fara á mis við mikinn veislukost, eftir því sem mér skilst. Ég á eftir að smakka gaukinn og ætla mér að gera það ytra við tækifæri,“ segir Dúi. Myndin er gerð að frumkvæði frönsku sjónvarpsstöðvarinnar Seasons, sem sendir út í sjö Evrópu- löndum. Er stöðin með umfangs- mikla dagskrá veiði-, náttúrulífs- og útivistarmynda. Af því tilefni var hluti myndanna tekin upp í Frakk- landi, ekki síst á friðlandi nærri La Rochelle, sem rekið er af samtökum skotveiðimanna sem standa m.a. að rannsóknum á hrossagauknum á svæðinu, en veiðilendur þeirra liggja til hliðar við friðlandið. Í frönsku út- gáfunni er og sýnd skotveiði á hrossagauk, enda fuglinn vinsælt veiðidýr þar í landi, svo og á Bret- landseyjum, ekki hvað síst á Írlandi þar sem margir íslenskir hrossa- gaukar falla í valinn á hverju ári. Dúi fór vítt og breitt í leit að myndefni, byrjaði t.d. í Heiðmörk þar sem hann myndaði svifflugið kunna og tók upp stélfjaðraþytinn sem lengi vel var talið að kæmi úr barka fuglsins. En stærsti hlutinn er tekinn í Flatey á Breiðafirði, þar sem mun vera eitt þéttasta, ef ekki þétt- asta, hrossagauksvarp landsins. Fuglafræðingurinn Ævar Petersen og menntaskólakennarinn og hrossagauksvinurinn Sverrir Thor- steinsen, hafa rannsakað gaukinn í eynni um árabil og hafa mælt þétt- leika verpandi hrossagauka í eynni. „Þeir hafa ótrúlega fyndna, gamla en þó afar skilvirka leið til að finna hvert einasta hreiður í Flatey. Þeir hafa langan kaðal, hengja á hann skröltandi dollur, halda síðan hvor í sinn enda kaðalsins og kemba síðan eyjuna kerfisbundið. Þannig ganga þeir hvern fersentimetra á hverju sumri og það stenst þetta enginn hrossagaukur. Þeir skjótast af hreiðrunum og þeir félagar skrá síð- an hreiðrin inn á kort. Varpþéttleik- inn bendir til að 80 hreiður séu í Flatey,“ segir Dúi. Dúi og félagar voru afar heppnir í Flatey. Fast við húsið þar sem þeir dvöldu vikurnar tvær í eynni voru tvö gaukshreiður, annað þeirra bein- línis við annan útvegginn og var því hægt að koma við besta hugsanlega myndatöku- og hljóðupptökubúnaði við þægilegar aðstæður. Kvenlegur eftirrekstrartónn Hvað skyldi svo standa uppúr að verkefni loknu? Dúi segir: „Það var þrennt sem var öðru fremur skemmtilegt við gerð þess- arar myndar. Í fyrsta lagi kom mér á óvart hversu skipulegu og öguðu lífi gaukurinn lifir og hversu mjög hann þarf að hafa fyrir því að koma ungum sínum á legg. Enda kom á daginn að fuglarnir voru afar ólíkir í því hvern- ig þeir kláruðu sig af því. Einn kven- fuglinn var t.d. afar taugaveiklaður á meðan annar var með stáltaugar. Þá hafði maður heyrt um dansinn sem er hluti af pörunarferlinu og undan- fari varps. Þennan dans hafa fáir séð, en eitt kvöldið er ég skrapp á milli húsa til að sækja eitthvað, og var með tökuvél með mér, varð ég vitni að dansinum nánast beint fyrir utan húsið sem ég kom út úr, aðeins fáa metra frá mér. Gaukarnir kipptu sér ekkert upp við það að ég birtist þarna og mér tókst að festa dansinn á filmu. Og síðast en ekki síst, þá náðum við upptöku af nýju hljóði. Hljóði sem fuglafræðingarnir sögðu að hefði ekki verið þekkt áður og heyrist aðeins í kvenfuglinum þegar ungarnir eru skriðnir úr eggjum og eru orðnir þurrir og ferðafærir. Þá gefur hún frá sér þetta áður óþekkta hljóð, sem er kallhljóð eftir karlfugl- inum. Hafi ekkert komið fyrir hann, heyrir hann kallið, kemur að hreiðr- inu í fyrsta og eina skiptið og tekur tvo af fjórum ungum og heldur sína leið. Þannig skipta hjónin með sér verkum. Þau fylgjast ekki að eftir þetta, heldur er hvor fugl með tvo unga og þetta er væntanlega aðferð náttúrunnar til að tryggja sem best viðgang stofnsins. Þetta atferli, að skipta upp ungahópnum, var heldur ekki þekkt fyrir. Hljóðið er einhvers konar murr, bæði stígandi og syngj- andi, tíðnin er frekar há. Hljóðið breytist svo í smágagg í lokin. Það er klár tónn þarna á ferðinni, svona kvenlegur eftirrekstrartónn. Það fer ekki á milli mála að kvenfuglinn er að láta karlinn vita að ætlast sé til þess að hann láti nú til sín taka!“ Vatnsdalsá næst Dúi er í góðum málum gagnvart frönsku sjónvarpsstöðinni, því svo virðist sem af nægum verkefnum sé að taka og í mörgum þeirra sé hægt að gera íslenskar útgáfur samhliða. Af næstu verkefnum er helst að nefna mynd um lax- og silungsveiði í Vatnsdalsá og gæsaskytterí í Vatns- dal. Vatnsdalur og Frakkland tengj- ast á þann hátt að annar tveggja leigutaka árinnar er franskur. Franskur skotveiðimaður sleppir nýmerktum hrossagauk. Morgunblaðið/Árni Sæberg Dúi Landmark Hrossagaukspar stígur dans…Ævar og Sverrir draga dósakaðalinn eftir mólendi Flateyjar. Skipulegur og agaður hrossagaukur Dúi Landmark kvikmyndagerðarmaður hefur lokið við gerð tveggja sjónvarpsmynda um íslenska hrossagaukinn. Önnur er á ís- lensku og verður frumsýnd í Ríkissjónvarpinu á sumardaginn fyrsta. Hin er á frönsku og er framleidd fyrir vinsæla franska veiði- og náttúrulífsrás. Guðmundur Guðjónsson hitti Dúa og fræddist um gerð myndanna og kynni Dúa af hinum dularfulla hrossagauk. Ljósmynd/Dúi Landmark Tökur vegna myndarinnar um hrossagaukinn fóru fram vítt og breitt, jafnt í Heiðmörk sem í Flatey. gudm@mbl.is Það kom á óvart hversu skipulögðu og öguðu lífi hrossagaukurinn lifir. ’ Þannig skiptahjónin með sér verk- um. Þau fylgjast ekki að eftir þetta, heldur er hvor fugl með tvo unga og þetta er væntanlega aðferð náttúrunnar til að tryggja sem best viðgang stofnsins. ‘

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.