Morgunblaðið - 25.06.2003, Blaðsíða 36

Morgunblaðið - 25.06.2003, Blaðsíða 36
MINNINGAR 36 MIÐVIKUDAGUR 25. JÚNÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ Gummi stjúpi; Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa til hans er hversu hlýr, kærleiksríkur og heið- arlegur maður hann var, svo hafði hann endalausa þolinmæði í garð annarra, sama hvað gekk á. Hann hugsaði alltaf fyrst um aðra og mátti ekkert aumt sjá hvorki hjá mönnum né dýr- um. Þessi orð lýsa honum svo vel. Við vorum fimm systkinin þegar hann og mamma giftust og alltaf fann ég fyrir umhyggjusemi hans í minn garð og fjölskyldu minnar, þó svo að ég hafi aldrei búið hjá þeim í Kílhrauni til lengri tíma því ég var komin í framhaldskóla þegar það var. Hann var mjög trúaður maður og leitaði oft í Biblíuna sér til halds og trausts. Mikil var gleði hans er Þórður bróðir fæddist, hans eina barn, og ég man hve mjög ég sam- gladdist honum. Það myndast mikið tómarúm við fráfall Gumma stjúpa, en ég vil trúa því að hann sé kominn í eitthvað ann- að og meira hlutverk þar sem honum líður vel. Elsku mamma, megi góður Guð vera með þér, Þórði, okkur öllum hinum og öðrum ættingjum hans. Ég og fjölskylda mín kveðjum stjúpa minn með ljóði Steins Stein- arr: Að lokum eftir langan, þungan dag, er leið þín öll. Þú sest á stein við veginn, og horfir skyggnum augum yfir sviðið, eitt andartak. Og þú munt minnast þess, að eitt sinn, eitt sinn, endur fyrir löngu lagðir þú upp frá þessum sama stað. Fanney. Í dag kveð ég tengdaföður minn og minn besta vin, Gumma eða Gumma bónda á Kílhrauni eins og ég kallaði hann. Mig setur hljóðan, ég skil þetta ekki og margar spurningar koma upp sem svör fást ekki við. Maður reynir að halda áfram en þetta er svo erfitt. Maður verður að vera sterkur, það eru aðrir sem þurfa á manni að halda á þessari stundu. Ég kynntist Gumma fyrir um 17 árum þegar við Kolla felldum hugi saman og ég fór að koma reglulega í Kílhraun. Það tókst strax með okkur mikil vinátta; ég hafði verið í hestum á unglingsárum mínum og kunni ágætlega til verka, alltént hvað ég hélt sjálfur en Gummi var óþreyt- andi að kenna mér og segja mér hvað betur mátti fara og laga, hann var bara þannig gerður, var alltaf róleg- ur og yfirvegaður. Ég sagði oft við hann að hann setti mig alltaf á gömlu hestana og hló hann mikið en það var ekki satt, því ég fékk að fara á alla þá hesta sem ég vildi fara á, það var aldrei neitt vandamál. Gummi var mikill stríðnispúki og vorum við alveg svakalegir saman, við hittumst ekki nema vera með tóm fíflalæti, hann sagði til dæmis alltaf að hann hefði komið að mér, ves- lingnum, köldum og illa á mig komn- um í kjallaranum á Kílhrauni, það hefðu verið hans fyrstu kynni af mér en ég þvertók fyrir það. Einnig er konfektsagan vel þekkt í fjölskyld- unni, þar sem hann sagði fullum fet- um að ég hefði klárað tvöfaldan kon- fektkassa frá Mæju á Setbergi en ég sagði að hann hefði gert það. Því var hann náttúrulega ekki sammála en eitt er víst að við vorum miklir sæl- kerar og okkur fannst gott að fá okk- ur súkkulaði eða ís þegar tækifæri gafst en það var samt alltaf hinum að kenna. GUÐMUNDUR ÞÓRÐARSON ✝ GuðmundurÞórðarson fædd- ist í Kílhrauni á Skeiðum 1. október 1939. Hann lést 10. júní síðastliðinn og var jarðsunginn frá Selfosskirkju 24. júní. Ég sakna Kílhrauns mikið og allra þeirra stunda sem ég átti með Gumma, Þórði og Kid- dýju en minningarnar á ég, og nóg af þeim, allar hestaferðirnar sem við fórum saman, þegar ég fór út á sunnudögum að gefa kindunum og hest- unum til að leyfa Gumma að sofa og allar stundirnar sem ég hjálpaði til við bústörf- in eru mér mikils virði. Mig langar svo mikið að halda áfram, þar sem frá var horfið, og hafa allt eins og það var, en það er víst ekki hægt að bakka, því miður. Ég hitti Gumma síðast kvöldið áð- ur en hann lést. Hann og Kiddý fengu sér bíltúr og komu við hjá okk- ur í leiðinni, þá áttum við gott sam- tal, sem verður mér mikill styrkur í lífinu. Einnig finnst mér gott að hafa stoppað hann áður en hann fór út úr íbúðinni og sýnt honum Hrannar en hann og Hilmir voru miklir afastrák- ar. Þetta er búið að vera okkur erf- iður tími, Gummi bar aldrei neitt á borð fyrir aðra, fannst betra að hafa þetta allt út af fyrir sig en að íþyngja öðrum, þannig persóna var hann. Gummi var sá yndislegasti maður sem ég hef kynnst um ævina og ég sakna hans sárt, finnst erfitt að sjá hann ekki aftur koma með hestalykt- ina og derhúfuna inn um dyrnar. Elsku besti vinur, ég veit að þú hefur fundið frið, ég mun huga að Kiddýju og Þórði fyrir þig, það veistu. Ég veit að við munum hittast aftur og þá förum við í hestaferð. Elsku fjölskylda, við syrgjum góð- an og yndislegan mann en það er einnig styrkur okkar. Jón Þór Guðmundsson. Til Svíþjóðar barst okkur harma- fregn um að kær mágur og svili okk- ar, Guðmundur Þórðarson, fyrrv. bóndi í Kílhrauni á Skeiðum, hefði skyndilega látist. Kynni hans og Unnar hófust þeg- ar í barnæsku fyrir meira en hálfri öld, þegar Unnur var í sveit á Skeið- um. Þá var stundaður stórbúskapur í Tíkartótt með leggjum, kjömmum og því sem til féll og tilheyrði. Bænd- ur voru systkinabörnin sem bjuggu í Kílhrauni, Gummi þar á meðal. Tví- burasystir Unnar, Kiddý, var ein- mitt í sveit í Kílhrauni og á næsta bæ, Kálfhóli, og því vandi Unnur komur sínar þangað. Þegar kom fram á unglings- og þroskaárin urðu heimsóknirnar strjálli en Unnur kom alltaf öðru hvoru við í Kílhrauni og sambandið rofnaði ekki. Það varð svo aftur nánara þegar Kiddý fluttist ásamt börnum sínum af fyrra hjónabandi að Kílhrauni og hóf sambúð með Gumma. Hann reyndist börnunum sem hinn besti faðir og fljótlega bættist einkasonur þeirra, Þórður, sem nú er 25 ára, í hópinn. Nánust urðu tengsl Gumma og Unnar líklega þegar Kiddý veiktist mjög alvarlega í Hollandi og Unnur fór fyrirvaralaust til fundar við þau. Þá erfiðu daga sem þá fóru í hönd vöktu þau saman Gummi og Unnur við sjúkrabeð Kiddýjar og tengdust nánum böndum. Meðan á dvölinni þar stóð bjuggu þau á heimili hol- lenskrar hjúkrunarkonu sem annað- ist um Kiddýju. Joke varð góð vin- kona og hefur oft komið til Íslands og dvalið í Kílhrauni. Kiddý hefur ekki náð fullri heilsu eftir veikindi sín, en Gummi reyndist henni ástríkur og hjálpsamur eigin- maður og var hennar stoð og stytta. Guðmundur var góður bóndi. Einkum var hann laginn við hesta og hann átti verðlaunafé. Dýrin voru vinir hans. Hann var framsýnn og sá hvert stefndi hjá bændum. Oft skeggræddu hann og Garðar ástand- ið í landbúnaðinum, hvert stefndi og hvað væri til ráða. Skipti þá ekki máli hvort setið var við eldhúsborðið í Kílhrauni eða á heimili okkar í Reykjavík. Gummi brást við vand- anum og búskaparhættir í Kílhrauni breyttust og á endanum voru þar að- eins nokkrar kindur, sem honum þótti mjög vænt um, og mörg hross, en hestamennska, ræktun og tamn- ingar voru hans helsta áhugamál. Vegna málakunnáttu okkar kynntumst við ýmsum, sem áttu við- skipti við hann með hross. Við fund- um hversu mikils trausts hann naut og aldrei heyrðum við hallað á hann, heldur var honum þvert á móti hrós- að af öllum sem viðskipti áttu við hann sem sönnum heiðursmanni. Þau Kiddý brugðu búskap og seldu hús og stóran hluta jarðar sl. vetur. Þau tóku sér bólfestu í Kópa- vogi og Gummi keypti hesthús fyrir 16 hesta í Hafnarfirði. Þar ætlaði hann áfram að stunda hesta- mennsku. Megnið af hestum hans var þó áfram í landi hans í Kílhrauni. Þannig ætluðu þau að njóta elliár- anna en fyrir Gumma kom kallið skjótt, allt of skjótt. Við kveðjum nú kæran mág og svila og sannan heiðursmann. Kiddý og börnunum, einkum þó einkasyninum Þórði og Öddu, systur Gumma, sendum við og fjölskyldur okkar bæði í Svíþjóð og á Íslandi okkar innilegustu samúðarkveðjur. Unnur og Garðar. Vinur okkar Guðmundur á Kíl- hrauni er dáinn. Fregnin kom skyndilega og óafturkallanlega, en kannski er ekki til neinn réttur tími til að kveðja vini sína og samferða- menn í gegnum lífið, kannski er mað- ur alltaf jafnóviðbúinn þeim aðskiln- aði sem þó bíður okkar allra í þessari jarðvist, aðskilnaði um stundarsakir að minnsta kosti. En þrátt fyrir djúpan og sáran sökknuð á kveðju- stund líða minningarnar fram hver af annarri, um yndislegar samveru- stundir í gegnum tíðina á Kílhrauni með Gumma, Kiddý og krökkunum. Sumrin öll sem Óli sonur minn var þar í sveit, árin sem við vorum sam- an með strákana okkar litla, Þórð og Magga, heyskapurinn, töðugjöldin, hjónaböllin og útreiðatúrarnir og sumarið sem ég var ráðskona á Kíl- hrauni og hitti núverandi manninn minn Ágúst, en kynni þeirra Guð- mundar hófust í bernsku þegar Áki var þar polli í sveit hjá foreldrum Guðmundar og vináttubönd þeirra héldust æ síðan. En þrátt fyrir allar þessar góðu minningar og þann langa tíma sem við höfum átt saman fyllist hjarta okkar söknuði eftir góð- um og traustum vini. Guðmundur var sérstakur maður sem forréttindi var að þekkja og höfðingi var hann heim að sækja enda gestkvæmt mjög á hans myndarlega heimili sem svo sannarlega var alla tíð sveitar- sómi og bar þess vitni að þar fór bú- maður mikill. Kæri vinur, við kveðj- um þig að sinni og þökkum fyrir liðna tíð. Elsku Kiddý, Þórður og fjöl- skylda, Guð gefi ykkur styrk í sorg- inni. Bára og Ágúst Schram. Elsku besti Gummi, faðir minn til sveita. Ég leitaði til þín, því mér fannst þú og þínir gefa mér svo mik- ið. Og þótt ég hafi verið sumardreng- ur, þá kom ég hverja helgi vetur- langt, því hjá þér átti ég heima. Alltaf þegar ég ríð út, þá reikar hugur minn til þín og ég hugsa um tímann sem við áttum saman. Þú ert og verður alltaf mín fyr- irmynd, sem fallegasti maður sem ég hef kynnst. Góðvild þín kenndi mér svo margt, og það er það besta sem ég hef lært. Svefninn laðar, líður hjá mér lífið sem ég lifað hef. Fólk og furðuverur hugann báðar andann hvílir. Lokbrám mínum læsi uns vakna endurnærður Svefninn langi laðar til sín lokakafla æviskeiðs. Hinsta andardráttinn. Andinn yfirgefur húsið hefur sig til himna við hliðið bíður drottinn. Það er sumt sem maður saknar vöku megin við. Leggst út af, á mér slokknar, svíf um önnur svið, í svefnrofunum finn ég sofa lengur vil. Þegar svefn minn verður eilífur finn ég aldrei aftur til. (Björn og Daníel.) Ég kveð þig að sinni og megi Guð blessa þig og fjölskyldu þína. Bjarni Grímsson og fjölskylda. Guðmundur Þórðarson í Kílhrauni er dáinn. Kunnátta mín í málinu leyf- ir ekki miklar tilfinningaríkar sögur en það sem ég vil segja er að hann var góður maður, góður hestarækt- andi og góður faðir. Fyrir 9 árum gaf hann mér tvo hesta til að beita fyrir vagn á ferð í kringum landið. Hann var líka með fyrstu landsmönnum til að hugsa um nýjar leiðir í ferða- mennsku. Við ræddum vel og lengi um ís- lensk hross og lömbin og svo auðvit- að um þetta fallega land. Hann Gummi var mér náinn vinur. Orðaforðinn er ekki mikill en ég hugsa mikið um hann Guðmund (Gumma), þennan góða vin minn og fólkið hans. Dieter. Í gegnum lífið kynnist maður mörgum ágætum manneskjum en aðeins örfáar kitla streng í hjarta manns. Guðmundur frá Kílhrauni snerti streng í hjarta mér enda ein- stakur maður. Góðmennskan og hlýjan geislaði af honum. Ég kynnt- ist honum fyrir sex árum síðan þegar ég keypti minn fyrsta hest af honum og varð okkur vel til vina og áttu ferðir mínar á Kílhraun eftir að verða fleiri, ekki bara í hestaerind- um heldur einnig til að heimsækja þau hjónin sem ávallt tóku manni með bros á vör og opnum örmum og linntu ekki látum fyrr en maður var sestur inn í kaffi og bakkelsi lagt á borð. Þegar sú ákvörðun var tekin að selja Kílhraun og að þau hjónin flyttu í bæinn gladdi það mig mikið þegar Guðmundur sagði mér að hann hefði keypt hesthús í Hafnar- firði því þá gæfist mér færi á að hitta hann mun oftar. En dvöl hans í Hafnarfirði varð því miður stutt. Ég verð þess ævinlega þakklát fyrir að hafa spjallað við hann sunnudags- kvöldið 8. júní sl. og m.a. sagt honum litla leyndarmálið mitt. Síðastliðið haust prófaði ég fola hjá Guðmundi sem var úr hans rækt- un. Þessi foli var sá besti sem ég hafði komið á bak á en ég hafði ekki ráð á að kaupa hann. Guðmundur vissi hve heitt mig langaði í hestinn og lækk- aði hann um tæpan helming svo ég gæti eignast hann. Þessi hestur var mér dýrmætur en eftir andlát Guð- mundar er hann mér sem gersemi sem ég mun aldrei láta frá mér. Með sorgardögg á kinn kveð ég kæran vin. Hvíl í friði. Sif Hauksdóttir Gröndal. Það er hart að horf́ upp á heljarmenni bugað. Þetta vísubrot frá Erlingi frænda mínum og kunningja Gumma úr hestunum kom mér fyrst í huga þeg- ar ég frétti af láti Gumma í Kíl- hrauni. Óteljandi spurningar komu upp í hugann og ósjálfrátt fóru allar minn- ingarnar frá sveitinni af stað í huga mér. Það var aldrei komið að tómum kofunum þegar þau hjón áttu hlut að máli. Alltaf tekið vel á móti öllum sem þar áttu leið um og ekki væsti um mann í þeirra umsjá. Ég fór 11 ára í sveit til þeirra hjóna og átti þá eftir að eiga mörg skemmtileg sumrin í þeirra umsjá. Þessi tími er mér sem ljóslifandi og reyndist hinn besti skóli. Alltaf var Gummi boðinn og búinn að rétta hjálpar- hönd ef þess þurfti með og ætíð var stutt í brosið hjá honum því hann var mikill húmoristi, nett skot og brandarar komu iðulega frá honum og oft var hlegið dátt. Það er skrýt- ið að hugsa til þess að síðast þegar við hittumst í réttunum hafi verið í hinsta sinn. En svona er lífið. Minn- ingin um góðan mann lifir áfram þótt Gummi sé farinn og mun hann eiga fastan stað í hjarta mér um ókomna tíð. Elsku Kiddý, Þórður, Kolla, Dröfn og fjölskyldur, megi guð styrkja ykkur í þessari miklu sorg. Jón Halldór Baldvinsson. Guðmundur Þórðarson frá Kíl- hrauni er allur. Okkur langar til að minnast hans með nokkrum orðum. Guðmundur var með eindæmum vandaður maður. Hann var fróður um menn og málefni, víðlesinn, við- ræðugóður, hafði gott skopskyn og einstakt jafnaðargeð. Það var alltaf gestkvæmt á Kílhrauni enda þau hjón, Guðmundur og Kristjana, gest- risin með afbrigðum. Alltaf virtist nóg húsrými hjá þeim. Guðmundur gaf sér alltaf tíma til að sitja með gestum sínum, lét sér annt um þeirra hag en hvarf svo gjarnan til bústarfa svo lítið bæri á. Guðmundur var fimm börnum Kristjönu sem annar faðir og börn- um þeirra yndislegur afi. En gim- steinninn hans var Þórður, einka- barnið hans. Samband þeirra feðga var einstakt. Þórður hefur verið er- lendis síðasta árið, að jólum og ára- mótum undanskildum, en í hvert skipti sem við hittum Guðmund hringdust þeir feðgar á til að heyra hljóðið hvor í öðrum. Guðmundur fylgdist náið með syni sínum og gladdist yfir velgengni hans en var aldrei ýtinn. Fáa feður höfum við fyrirhitt sem muna svo margt um æsku barna sinna og Guðmundur. Okkur er sér- staklega minnisstætt fyrir um tveim- ur árum þegar kornabarnið okkar lét ófriðlega á Kílhrauni. Guðmundur kom með ráðleggingar um hvernig róa mætti piltinn út frá reynslu sinni af Þórði nýfæddum. Guðmundur vann alla ævi hörðum höndum á Kílhrauni, en skömmu fyr- ir andlátið brugðu þau hjónin búi og fluttu í Kópavog. Hesthúsið í Hafn- arfirði var nánast tilbúið, Þórðar var von í haust og ætlaði hann að setjast að í Reykjavík. Dætur Kristjönu bjuggu í næsta nágrenni og voru þeim mikil stoð og stytta. Ævikvöld- ið lofaði góðu hjá þeim hjónum þegar Guðmundur féll frá svo fyrirvara- laust. Við erum þakklát fyrir að hafa fagnað þessu nýja ári með Guð- mundi, Kristjönu og Þórði síðustu áramótin á Kílhrauni. Við munum alltaf minnast Guðmundar Þórðar- sonar með söknuði og þakklæti fyrir þær góðu minningar sem við eigum um hann. Kjartan, Ragnheiður og börn. Það var sem reiðarslag þegar ég frétti að Gummi væri dáinn, það var svo óvænt og ófyrirséð. Gummi var maður sem ég hafði þekkt nánast alla mína tíð og var mér afskaplega kær og góð fyrirmynd í lífinu. Það eru margar góðar minningarnar sem renna í gegnum hugann, þegar ég horfi til baka og rifja upp þær stundir sem ég var svo heppinn að eiga með Gumma á Kílhrauni, en þar var ég vinnumaður frá því að ég var polli og allt fram á unglingsár. Það var alltaf jafnánægjulegt að koma heim að Kílhrauni, spjalla við Gumma og Kiddýju, fara út í hest- hús og kíkja á hrossin eða bara vera og láta hugann reika til baka. Það vita þeir sem til þekkja að þar sem Gummi fór, þar var höfðingi á ferð, sanngjarn og réttsýnn og umfram allt góður maður, sem var gott að getað leitað til. Það er erfitt að skilja hvað það hefur verið, sem hefur verið Gumma svona þungbært og óyfirstíganlegt, að honum auðnaðist ekki að sjá leið- ina út úr myrkrinu. Mikið hefði ég viljað gefa fyrir að geta rétt fram hjálparhönd á slíkri stundu. Það er með söknuði sem ég kveð góðan vin sem mun ávallt eiga sér- stakan stað í hjarta mínu. Ég votta Kiddýju og fjölskyldu hennar samúð mína og bið guð að veita þeim styrk í sorginni. Ólafur.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.