Morgunblaðið - 14.07.2003, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - 14.07.2003, Blaðsíða 15
HESTAR MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 14. JÚLÍ 2003 15 Reiðfatnaður Náttúrulegur lífsstíll FREMSTIR FYRIR GÆÐI AF orðum eiganda Dáðar frá Hall- dórsstöðum, Kristjáns Eysteins- sonar, virðist nokkuð ljóst að Dáð frá Halldórsstöðum fari hvergi og þýðir það að Haukur Tryggvason er þar með dottinn út úr liðinu en hann tryggði sér og hryssunni sæti í úrtökunni fyrir rúmum mánuði. Sagði Kristján að aldrei hafi staðið til að láta hryssuna fara utan án þess að búið væri að selja hana og taldi hann engar líkur á að hún yrði seld héðan af. „Ég hafði reyndar alltaf hugsað mér að fá eitt eða tvö folöld úr henni áður en ég léti hana frá mér en það er hinsvegar aldrei að vita hvaða freistingum maður félli fyrir ef gott boð kæmi í hana,“ sagði Kristján ennfremur. Í gærkveldi var ekki ljóst hvað Sigurður myndi velja í stað þeirra en eins og hann sagði í samtali við Morgunblaðið hefur hann fullkom- lega frjálsar hendur um val þótt Haukur og Dáð hafi unnið sig í lið- ið fyrir árangur í töltkeppni. Líklegt má telja að Sigurður muni velja knapa með skeiðhest og er þá líklega efstur á blaði Sigur- björn Bárðarson með Óðin frá Búð- ardal en þeir náðu frábærum tíma undir Íslandsmeti og gildandi heimsmeti á Íslandsmótinu á dög- unum. Einnig gæti Svanhildur Kristjánsdóttir með Sif frá Háv- arðarkoti verið mjög sterklega inn í myndinni. Þá er það spurning með Sigurð Sigurðarson og Fjölva frá Hafsteinsstöðum en hann er góður kostur í gæðingaskeiðið. Standi spurningin um gæðingaskeiðið fara nú böndin að beinast að sjálfum landsliðseinvaldinum því hann er jú Íslandsmeistari í greininni og með langhæstu einkunn ársins hér á landi á þeim vettvangi. Yrði hann þá það sem kallað er í boltanum spilandi þjálfari. Fyrir eru í liðinu tveir skeiðhestar. Sveinn Ragnars- son vann sér rétt með besta tíma í úrtökunni á Skjóna frá Hofi og fyr- ir ekki löngu valdi Sigurður Guð- mund Einarsson og Hersi frá Hvít- árholti í liðið en þeir hafa gert það gott undanfarið í skeiðinu, bæði 250 metrunum og eins 100 metra flugskeiði. Jöfnuðu þeir meðal ann- ars gildandi heimsmetstíma í 250 metrunum. Það lítur því allt út fyr- ir að þrír gammvakrir hestar muni verða í íslenska liðinu að þessu sinni. En það verður sem sagt síðar í dag sem ljóst verður hvort Haukur og Dáð sitji sem fastast eða þá nýtt par verði valið inn í liðið. Nýstárlegt útspil hjá Sigurði Þau sem síðast voru valin í liðið áður en þessi staða kom upp voru Karen Líndal Marteinsdóttir með hryssuna Náttfaradís frá Wreda sem hún fær að láni hjá Magnúsi Skúlasyni og Önnu Björnsson konu hans í Svíþjóð. Þarna leikur Sig- urður nýjan leik sem rýmkaðar reglur um val á liðsmönnum gefur svigrúm fyrir. Hann leiðir saman knapa og hest. Hugmynd að þess- um leik varð til á þýska meistara- mótinu í samtali hans við Magnús Skúlason þar sem hann skaut því inn hvort hann vantaði ekki hest í íslenska liðið. Upp úr þessu kvikn- aði sú hugmynd að setja Karen á þessa hryssu sem er ekki alveg ókunn heimsmeistaramótum því Magnús sýndi hana í kynbótasýn- ingu mótsins fyrir tveimur árum. Er þarna um að ræða feikna sterka hryssu en Karen kemur inn í liðið sem ungmenni og verður fróðlegt að sjá hvernig þessu óvænta útspili Sigurðar muni reiða af. „Byrjendur“ í slaktaumatöltið Þá hefur Sigurður valið Tómas Örn Snorrason og Skörung frá Bragholti og verður hann helsta út- spil Íslands í slaktaumatölti. Tómas og Skörungur urðu Íslandsmeist- arar í þessari grein með 7,87 í ein- kunn en þetta var í fyrsta skipti sem þeir kepptu á þessum vett- vangi. Var það sannarlega snjall leikur hjá Tómasi að skipta yfir í slaktauminn. Þeir höfðu reynt fyrir sér í úrtökunni í tölti og fjórgangi en voru þar all nokkuð frá því að komast inn í mynd einvaldsins. Virðist þetta besti kostur Íslands í þessa grein og ekki að efa að þeir félagar muni spjara sig vel. Tveir öflugir í töltinu Jóhann R. Skúlason og Snarp frá Kjartansstöðum valdi Sigurður strax að loknu danska meistara- mótinu en þar sigruðu þeir með miklum yfirburðum í tölti, voru með einkunn 8,61 og telja margir þá verðuga sigurkandídata í töltinu í Herning. Hafliði Halldórsson mætir með gæðahryssuna Ásdísi frá Lækjar- botnum í töltið og eftir tilburðum þeirra að dæma á síðustu mótum er nokkuð ljóst að Ármótabóndinn setur stefnuna þar á sigur og ekk- ert annað. Hafliði kemur inn sem ríkjandi heimsmeistari en þeir hafa rétt á að mæta á næsta mót og geta þar ráðið hvaða hross þeir koma með og hvaða greinum þeir taka þátt í. Rykið dustað af Klakki Sama gildir um Vigni Jónasson sem varð tvöfaldur heimsmeistari. Hann mætir með sinn gamla hest Klakk frá Búlandi en Sigurður sagðist vera búinn að skrá þá sam- an. Þriðji heimsmeistari Íslendinga, Styrmir Árnason, mætir hinsvegar með nýjan hest, Hamar frá Þúfu, sem eins og kunnugt er mun vera albróðir stóðhestanna Sveins Her- vars og Nagla frá Þúfu. Verður Styrmir okkar aðaltromp í fjór- gangi ásamt Berglindi Ragnars- dóttur sem mætir með Bassa frá Möðruvöllum en þau eru þrefaldir Íslandsmeistarar og hafa verið afar drjúg í fjórgangi. Eru menn nokk- uð ánægðir með stöðuna bæði í tölti og fjórgangi þar sem sigurlík- ur eru býsna góðar. Hin tvö ungmennin sem fara á mótið auk Karenar með hross eru vinirnir og félagarnir úr Sörla, Daníel Ingi Smárason með Tyson frá Búlandi og nýbakaður Íslands- meistari í fimmgangi meistara Eyj- ólfur Þorsteinsson með hina hrein- hvítu Súlu frá Hóli. Sigurður V. Matthíasson tryggði sér öruggt sæti á Fálka frá Sauð- árkróki í úrtökunni og er talinn mjög sigurstranglegur í fimmgangi. Eru þá taldir upp allir sem hafa tryggt sér sæti og gott betur því endanleg staða mun skýrast í dag. Sex kynbótahross koma fram fyrir hönd Íslands á mótinu en þau eru í flokki stóðhesta 7 vetra og eldri Sjóli frá Dalbæ, knapi Daníel Jónsson. Í flokki 6 vetra stóðhesta Góðu-Greifi frá Stóra-Hofi, knapi Johannes Hoyos. Í flokki 5 vetra stóðhesta verður það Lykill frá Blesastöðum, knapi Ule Reber. Í flokki hryssna 7 vetra og eldri mætir Irene Reber með Sölku frá Litlu-Sandvík. Í 6 vetra flokkinn mætir Hallveig frá Kjartansstöðum sem Árni B. Pálsson mun sýna og 5 vetra hryssuna mun Ule Reber sýna en það er Ósk frá Þorláks- höfn. Íslendingar eiga því mikið undir útlendingum þegar kemur að ræktunarheiðri þar sem þeir munu sýna fjögur af sex hrossum Íslands og þar af eru Reber-hjónin með þrjú. Fjögur gull voru uppskorin fyrir tveimur árum auk verðlauna í kyn- bótasýningum. Þessi hópur sem hér er nefndur til sögunnar virðist sterkur á pappírnum og er nú að sjá hvernig Sigurði landsliðsein- valdi tekst að spila úr spilunum að þessu sinni. Hingað til hefur hann og liðsmenn hans gert ótrúlega hluti og spurning er því sú hvort von sé á áframhaldandi velgengni. Landsliðseinvaldur tilkynnir endanlega liðsskipan íslenska liðsins í dag Enn er eitt sæti laust í landsliðinu Morgunblaðið/Vakri Sex knapar tryggðu sér sæti í úrtökunni en svo virðist sem einn þeirra, Haukur Tryggvason á Dáð (þriðji frá vinstri), fari ekki með liðinu út. Landslið Íslands sem fer til Danmerkur í þeim tilgangi að verja þá titla sem unnust á síðasta heimsmeistaramóti verður kynnt í dag. Fyrstu liðsmenn voru valdir fyrir rúm- um mánuði og síðan hefur landsliðseinvald- urinn Sigurður Sæmundsson af djúpri íhygli valið einn liðsmanninn af öðrum. Valdimar Kristinsson fer hér í gegnum þann hóp sem líklega verður með í slagnum. Hafliði hafði óbilandi trú á sigri fyrir tveimur árum en nú er hann orð- varari með Ásdísi sína þótt hann telji sig eiga mjög góða möguleika. Sigurði Sæmundssyni er fleira til lista lagt en að stjórna knöpum utan vall- ar og er nú spurning hvort hann velur sjálfan sig í landsliðið þar sem hann er Íslandsmeistari í gæðingaskeiði og þar er veikur hlekkur í liðinu.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.