Morgunblaðið - 01.11.2003, Page 28
LISTIR
28 LAUGARDAGUR 1. NÓVEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ
Sænsk-íslenski sam-starfssjóðurinngengst fyrirSænskri menning-
arviku í Reykjavík sem hefst í
dag og stendur til 8. nóv-
ember nk. þar sem boðið
verður upp á tónleika, kvik-
myndasýningar, leiklestur,
bókmenntavökur, tískusýn-
ingu, myndlistar- og fróð-
leikssýningar af ýmsu tagi,
svo og fyrirlestra um marg-
vísleg efni, t.d. um hlutverk
almenningsbókasafna, teikni-
myndasögur, bókasöfn fyrir
nýbúa, húsavernd og byggingarlist.
Auk þess verður haldið málþing í
tengslum við sýninguna „Hvað er
heimsminjaskrá UNESCO?“ sem
fram fer í Þjóðmenningarhúsinu mið-
vikudaginn 5. nóvember kl. 15.
Á blaðamannafundi í Iðnó í vikunni
kom fram að jafn alhliða kynning á
sænskri menningu hafi ekki átt sér
stað hér á landi áður, en á fjórða ára-
tug síðustu aldar var haldin sænsk
menningarvika í Reykjavík þar sem
lisflutningur var í fyrirrúmi. Að sögn
Sveins Einarssonar, formanns Sænsk-
íslenska samstarfssjóðsins, tekur fjöldi
íslenskra menningarstofnana og félaga
þátt í þessari menningarkynningu auk
góðra gesta frá Svíþjóð. Auk framlags
úr Sænsk-íslenska samstarfssjóðnum,
hafa menntamálaráðuneytið, sænska
ríkisstjórnin, sendiráð Svía á Íslandi og
Stokkhólmsborg veitt fjárstuðning til
þess að halda menningarvikuna.
Sænsku menningar-
verðlaunin afhent
Tómas Ingi Olrich mennta-
málaráðherra setur menningarvikuna í
Þjóðmenningarhúsinu í dag kl. 16. Við
opnunina verður tilkynnt hver hlýtur
sænsku menningarverðlaunin árið
2003, en þetta verður í fjórða sinn sem
þessi verðlaun eru afhent. Því næst
verður opnuð í Þjóðmenningarhúsinu
sýningin „Hvað er heimsminjaskrá
UNESCO?“ þar sem m.a. verður
fjallað um tilnefningu Þingvalla á
heimsminjaskrá. Í kvöld kl. 20 verður
síðan sviðsettur leiklestur á einu fræg-
asta leikriti Lars Norén, Nóttin er
móðir dagsins, á Smíðaverkstæði Þjóð-
leikhússins.
Meðal annarra viðburða má nefna
að á morgun verða opnaðar tvær sýn-
ingar, annars vegar sýning á sænskri
bókagerðarlist í Hönnunarsafni Ís-
lands kl. 14 og hins vegar sýning á 28
myndskreytingum Lenu Anderson við
barnabókina Lilja í garði listmálarans í
Safni Ásgríms Jónssonar kl. 15. Rit-
höfundasamband Íslands og Borg-
arbókasafn Reykjavíkur hafa með sér
samvinnu um bókmenntadagskrá
þriðjudaginn 4. nóvember kl. 20 í
Borgarbókasafninu við Tryggvagötu
helgaða Magnúsi Ásgeirssyni og þýð-
ingum hans á sænskum ljóðum, en bók
hans Ljóð frá ýmsum löndum hafði að
margra mati mikil áhrif á þró-
un ljóðagerðar á Íslandi. Dag-
skráin er unnin og flutt af
Hirti Pálssyni, Aðalsteini Ás-
bergi Sigurðssyni og Önnu
Pálínu Árnadóttur.
Tveir kvartettar
Tveir sænskir kvartettar
troða upp í menningarvik-
unni. Annars vegar spilar
gleðisveitin Fläskkvartetten,
sem þykir með skemmtilegri
hljómsveitum Svía, í Íslensku
óperunni fimmtudaginn 6.
nóvember kl. 20.30 og hins
vegar leikur Kvartett Jonasar Kull-
hammar, sem útnefndur var djass-
hljómsveit ársins 2002 af gagnrýn-
endum sænska djassútvarpsins, í
Norræna húsinu föstudaginn 7. nóv-
ember kl. 20.
Ógetið er svo mikillar kynningar á
sænskri kvikmyndalist sem fram fer í
Regnboganum og Kvikmyndasafni Ís-
lands í Hafnarfirði. Við opnun kvik-
myndavikunnar mánudaginn 3. nóv-
ember mun Bertil Jobeus, sendiherra
Svía á Íslandi flytja ávarp, auk þess
sem fram fara pallborðsumræður um
sænska kvikmyndagerð og áhrif henn-
ar á bæði kvikmyndafólk og hinn al-
menna áhorfanda. Myndirnar sem
sýndar verða þessa viku eru bæði með
því nýjasta sem er að gerast í sænskri
kvikmyndagerð og sígildar kvikmynd-
ir. Opnunarmynd hátíðarinnar er
Grabben i graven bredvid eftir Kjell
Sundvall.
Hér hefur aðeins gefist tækifæri til
að stikla á stóru varðandi dagskrá vik-
unnar, en allar nánari upplýsingar um
menningarvikuna má finna á heima-
síðu sænska sendiráðsins og er slóðin:
www.swedenabroad.com.
Sænsk menningarvika dagana 1.–8. nóvember
Alhliða menningarkynning
Úr myndinni Lilja í garði listmálarans eftir Lenu
Anderson sem sýnd verður í Safni Ásgríms Jónssonar.
SÝNINGIN „Hvað er heimsminja-
skrá UNESCO?“ verður opnuð í
dag í Þjóðmenningarhúsinu kl. 16.
Að sýningunni standa Þjóðminja-
safn Íslands, sem annast sýning-
arstjórn, Þjóðmenningarhúsið,
Þingvallanefnd, Umhverfisstofnun,
Náttúrufræðistofnun Íslands, Land-
mælingar Íslands, Húsafriðunar-
nefnd ríkisins, Fornleifavernd rík-
isins og Örnefnastofnun Íslands. Á
sýningunni er heimsminjaskrá
UNESCO kynnt auk þess sem
fjallað verður um tilnefningu Þing-
valla og væntanlega tilnefningu
Skaftafells á heimsminjaskrá. Það
er Margrét Hallgrímsdóttir þjóð-
minjavörður og formaður Samráðs-
nefndar um samning UNESCO um
menningar- og náttúruarfleifð
heimsins frá 1972 sem opnar sýn-
inguna.
Samningurinn um verndun menn-
ingar- og náttúruminja heimsins er
alþjóðlegt samkomulag sem gert
var á þingi UNESCO árið 1972. Það
grundvallast á þeirri forsendu að
ákveðnir staðir á jörðinni hafi sér-
stakt alþjóðlegt gildi og eigi sem
slíkir að tilheyra arfleifð mannkyns-
ins. Að sögn Margrétar væri mjög
mikils virði að fá Þingvelli viður-
kennda sem einstakan stað á jörð-
inni. Ekki aðeins væri það gott
framlag Íslendinga til mannkyns
heldur myndu Þingvellir öðlast
verðskuldaða alþjóðlega athygli.
Miðvikudaginn 5. nóvember verð-
ur haldið málþing í tengslum við
sýninguna í Þjóðmenningarhúsinu
milli kl. 15 og 17. Þar taka til máls
Birgitta Hoberg, ráðgjafi samráðs-
nefndar og sérfræðingur sænska
þjóðminjavarðarembættisins, Ragn-
heiður H. Þórarinsdóttir, deildar-
stjóri í menntamálaráðuneytinu,
Sigurður Líndal, fulltrúi Þingvalla-
nefndar, Jón Gunnar Ottósson, for-
stöðumaður Náttúrufræðistofnunar
Íslands, Ragnar Frank Kristjáns-
son, þjóðgarðsvörður í Skaftafelli,
og Agnes Stefánsdóttir, fornleifa-
fræðingur hjá Fornleifavernd rík-
isins. Fundarstjóri er Margrét Hall-
grímsdóttir þjóðminjavörður, en að
hennar sögn var Birgitta Holberg
einn allra mikilvægast ráðgjafi Ís-
lendinga við tilnefningu Þingvalla.
Sýningin stendur til 31. desember
nk.
Unnið var að uppsetningu sýningarinnar í Þjóðmenningarhúsinu í gær.
Kynning á heimsminjaskránni
Morgunblaðið/Jim Smart
Á NÆSTU tónleikum í tónleikaröð-
inni 15:15 í Borgarleikhúsinu í dag
flytja Þórunn Guðmundsdóttir
sópransöngkona og Hrefna Unnur
Eggertsdóttir píanóleikari, söngva
eftir rússneska tónskáldið Modest
Mussorgsky. Einnig koma fram
leikarar úr leikfélaginu Hugleik.
Þetta eru ljóðaflokkarnir „Barna-
herbergið“ og „Söngvar og dansar
um dauðann“.
„Mussorgsky var eitt af frumleg-
ustu og bestu tónskáldum Rúss-
lands, og þykja þessi ljóð meðal
þess besta sem hann gerði,“ segir
Sigurður Halldórsson forsvarsmað-
ur 15:15. „Umfjöllunarefnið í þess-
um ljóðaflokkum er gjörólíkt, –
annars vegar barnslegar hugleið-
ingar og lýsingar á barnabrekum
eftir Mussorgsky sjálfan og hins
vegar ýmsar birtingarmyndir dauð-
ans, sem getur bæði verið huggandi
og skelfilegur,“ segir Sigurður
Halldórsson. „Þrátt fyrir ólíkt efni
eiga textarnir í þessum ljóðaflokk-
um það sameiginlegt að vera ákaf-
lega lifandi og dramatískir og var
því ákveðið að vinna með þá á leik-
rænan hátt í samstarfi við leikfélag-
ið Hugleik. Þannig munu hinar
ýmsu persónur í söngvunum birt-
ast á sviðinu í túlkun leikaranna
sem vinna með íslenska þýðingu
á textanum, en lögin sjálf verða
flutt á rússnesku.
Þetta form, sem ef til vill mætti
kalla tónleiklist, hefur lítið verið
notað á Íslandi, en þó vann hluti
af þessum hóp með það í
tengslum við Poulenc-hátíð fyrir
nokkrum árum. Leikstjóri er
Þorgeir Tryggvason og útlits-
hönnuður Hrefna Friðriksdótt-
ir.“
Tónleikalist á Nýja sviði Borgarleikhússins
Þórunn Guðmundsdóttir og Hrefna
Unnur Eggertsdóttir píanóleikari æfa
söngva eftir Mussorgsky.
Morgunblaðið/Þorkell
„AÐ sitja hérna og horfa á verkið
er eins og að horfa á sólarlag eða
mánann á himninum – eða hrein-
lega eitthvað allt annað. Maður get-
ur tengt það við svo margt.“
Breski myndlistarmaðurinn
Adam Barker-Mill situr og horfir á
meginverk sitt á sýningunni Litir
sem verður opnuð í Safni við
Laugaveg 37 í dag. Í lokuðu rými
fellur ljóshringur á vegg og á
hringlaga upplýst form, og litirnir
breytast í sífellu.
„Hvernig áhorfandinn upplifir
verkið getur hreinlega farið eftir
hugarástandi hans,“ segir Barker-
Mill. „Verkið tengist upplifunum
okkar af litum í raunheiminum – en
þótt það minni stundum á náttúr-
una þá munum við seint sjá sólina á
grænum himni,“ segir hann og
brosir.
Hann bætir síðan við: „Þetta er
einfaldasta verk sem ég hef nokkru
sinni gert – en því einfaldara sem
verkið er, því flóknara í raun.“
Hann þagnar og fylgist með litflæð-
inu breytast. Segir síðan: „Þetta er
fullkomin aðstaða hér fyrir verkin.“
Adam Barker-Mill fæst að jafnaði
við ljós og liti í verkum sínum og
notast jöfnum höndum við dagsbirt-
una og flóknasta hugbúnað. Hann
hefur áður sýnt hér á landi, árið
1988 í Gallerí Gangi.
Sýning Barker-Mills í Safni
stendur fram í mars, eða þar til sól
hefur hækkað talsvert á lofti.
Morgunblaðið/Einar Falur
Adam Barker-Mill í verkinu Litir, sem gert er úr litum og ljósi.
Sól á grænum himni
BANDARÍSKI listamaðurinn David
Diviney opnar sýninguna Foxfire í
Kling og Bang gallerí, Laugavegi 23,
kl. 17 í dag, laugardag.
Í fréttatilkynningu segir m.a.:
„David heillaðist ungur af sjálfs-
bjargarhandbókaseríum er gengu
undir nafninu Foxfire. Þessar bækur
festu á blað visku Fjallafólksins til
sveita í Norður-Ameríku og færðu í
letur munnlega geymd þessarar
menningar. Þótt listamaðurinn sé
ekki strangt til tekið fjallabúi (hill-
billy), eins og heiti sýningarinnar gef-
ur til kynna, þá sækir hann í brunn
þessarar menningar til að skoða
hrifningu samtímans á einföldu „al-
þýðufólki“ eins og honum sjálfum.
Innan þessa kallast skúlptúrar Divi-
neys á við frásagnarbyggingu ýmissa
Foxfire-kafla, stilla upp til sam-
anburðar á listsköpuninni og veiðum
(hið endanlega karlmannlega athæfi í
hnotskurn?) þar sem æfing, ná-
kvæmni, mið og að lokum verðlauna-
gripurinn (hluturinn, viðfangið) segja
til um árangurinn (sjálfsbjörgina).“
Sýningin stendur til 23. nóvember
og er opið fimmtudaga til sunnudaga
frá kl. 14-18.
Sótt í brunn
alþýðumenningar
Verk á sýningunni í Kling og Bang.