Morgunblaðið - 05.12.2003, Side 6
FRÉTTIR
6 FÖSTUDAGUR 5. DESEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ
SAMKVÆMT frumvarpi að fjár-
hagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir
árið 2004, sem Þórólfur Árnason
borgarstjóri mælti fyrir í borgar-
stjórn í gær, hækka heildarskuldir
borgarsjóðs og borgarfyrirtækja
samanlagt um tíu milljarða króna,
miðað við útkomuspá fyrir þetta ár.
Fara heildarskuldirnar úr 63,6 millj-
örðum í útkomuspá ársins upp í rúma
72 milljarða á næsta ári. Á sama tíma
er reiknað með að heildareignir borg-
arsamstæðunnar verði rúmir 180
milljarðar króna.
Hreinar skuldir, sem eru heildar-
skuldir að frádregnum peningalegum
eignum, hækka milli ára um tæpa níu
milljarða; fara úr 50,7 milljörðum á
þessu ári í 59,2 milljarða árið 2004.
Ef aðeins er litið til borgarsjóðs
hækka heildarskuldirnar um rúman
milljarð frá spá þessa árs, fara í rúm-
lega 21,1 milljarð, og þar af er skulda-
aukning um 885 milljónir vegna lán-
töku fyrir flýtiframkvæmdum sem
borgin ætlar að ráðast í á næsta ári til
að mæta slaka á vinnumarkaði. Er
ætlunin að greiða þau lán til baka á
árunum 2005 og 2006.
Heildartekjur borgarsjóðs árið
2004 eru áætlaðar 37,7 milljarðar,
sem er 8,7% hækkun frá útkomuspá
þessa árs. Hækkun skatttekna nemur
7,2% en hækkun heildartekna um-
fram hækkun skatttekna er rakin til
hærri tekna hjá Fasteignastofu og
Skipulagssjóði, m.a. vegna sölu bygg-
ingarréttar, að því er segir í grein-
argerð með frumvarpi að fjárhags-
áætluninni. Af áætluðum
heildartekjum eru 81% skatttekjur.
Rekstrargjöld næsta árs eru áætl-
uð rúmir 38 milljarðar króna, sem er
4,6% hækkun frá þessu ári. Þar af eru
18,4 milljarðar í laun og launatengd
gjöld, sem er nærri 6% hækkun milli
ára. Af áætluðum rekstrargjöldum er
launakostnaður 48%.
Staðan sögð traust
Rekstrarhalli borgarsjóðs, án tillits
til fjármagnsliða, er upp á 428 millj-
ónir, en ef 1,8 milljarða fjármagns-
tekjur eru taldar með er rekstraraf-
gangurinn 1,4 milljarðar. Arður frá
fyrirtækjum er áætlaður 1,5 milljarð-
ar, þar af 1,3 milljarðar af Orkuveitu
Reykjavíkur, 160 milljónir af Lands-
virkjun og 25 milljónir vegna Malbik-
unarstöðvarinnar Höfða.
Þórólfur Árnason, borgarstjóri,
kynnti fjárhagsáætlunina á blaða-
mannafundi áður en borgarstjórn
kom saman í gær. Er þetta hans
fyrsta áætlun frá því að hann tók við
embættinu í febrúar sl. af Ingibjörgu
Sólrúnu Gísladóttur.
Sagði hann mikla vinnu og undir-
búning liggja í áætluninni frá hendi
fjármáladeildar, meiri en hann hefði
getað ímyndað sér, enda væri borgin í
raun stærsta fyrirtæki landsins með
tugmilljarða króna veltu.
Hann sagði fjárhagsáætlunina
bera vott um trausta stöðu borgarinn-
ar og fyrirtækja hennar. Auka ætti
þjónustu við borgarbúa og fara í mikl-
ar fjárfestingar án þess að hækka
skatta. Útsvarið yrði óbreytt á næsta
ári, 12,7%, á meðan flest nágranna-
sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu
væru með hærra útsvar. Ákvörðun
borgarinnar lægi fyrir þrátt fyrir erf-
itt efnahagsástand, aukið atvinnu-
leysi, aukin útgjöld til félagsþjónust-
unnar og atvinnuátak fyrir skólafólk.
500 milljónir sparaðar
Borgarstjóri greindi frá starfi
sparnaðarnefndar borgarinnar, þar
sem tekist hefði að ná fram um 500
milljóna króna sparnaði. Aðspurður
hvaðan sá sparnaður kæmi sagði Þór-
ólfur að tekist hefði að sporna við
sjálfvirkri útgjaldaþenslu í ýmsum
rekstri, s.s. símakostnaði, ferðakostn-
aði og risnu borgarstarfsmanna.
Áfram yrði unnið að auknum sparnaði
án þess að skera niður þjónustu við
borgarbúa. Benti hann á að 500 millj-
ónir væru aðeins 1,5% af rekstrar-
reikningi og hægt væri að gera betur.
Borgarstjóri nefndi nokkra áfanga
sem ætti að ná á næsta ári. Má þar til
taka áform um að bjóða börnum heit-
ar máltíðir í öllum grunnskólum
næsta haust, leikskólapláss á að vera
til reiðu fyrir börn niður að 18 mánaða
aldri með opnun sjö nýrra deilda,
ljúka á hreinsun strandlengjunnar,
hækka grunnframfærslu í félagslegri
aðstoð um 8,5%, taka innilaugina í
Laugardal í notkun, einnig þrjá nýja
gervigrasvelli, færa Hringbrautina,
koma á árlegri Listahátíð, halda und-
irbúningi áfram við tónlistar- og ráð-
stefnuhúsið, fjölga starfssamningum
menningarmála úr 15 í 25 og fjölga
bílastæðum við Laugaveg á lóð
Stjörnubíósins sáluga.
Þórólfur sagði að hjá fyrirtækjum
væri litið á rekstur sem eyðslu en
rekstur við samfélagsþjónustu borg-
arinnar væri ekki hvað síst fjárfest-
ing, þannig væru framlög til skóla,
tómstunda- og íþróttastarfs fyrst og
fremst fjárfesting í unga fólkinu.
Samanlagt væru þessir málaflokkar
með 53% af útgjöldum borgarsjóðs.
Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2004 lögð fram í borgarstjórn
Tíu milljarða
skuldaaukning
Áhersla er lögð á uppbyggingu og aðhald án þess
að hækka skatta á borgarbúa
!
"#
#
"!
"$
%
"#
"%
$
&' & $
&' & TENGLAR
..............................................
www.rvk.is
HELSTU fjárfestingar næsta árs
hjá Reykjavíkurborg og borgarfyr-
irtækjum eru vegna virkj-
anaframkvæmda á Nesjavöllum og
Hellisheiði, eða 8 milljarðar króna,
framkvæmdir við færslu Hring-
brautar, fjárfestingar í skóla- og
æskulýðsmálum, uppbygging Norð-
lingaholts og undirbúningur nýs
hverfis í Úlfarsárdal.
Heildarfjárfestingar nema 16,4
milljörðum og gert er ráð fyrir
aukningu hreinna skulda vegna
þeirra um 9,7 milljarða kr. Sem
fyrr segir mun Orkuveitan fjárfesta
fyrir 8 milljarða og síðan nema fjár-
festingar borgarsjóðs fjórum millj-
örðum, rúmur milljarður hjá Fé-
lagsbústöðum, 825 milljónir vegna
fráveituframkvæmda, aðallega síð-
asti áfangi hreinsunar strandlengj-
unnar, 810 milljónir hjá Bílastæða-
sjóði, tæpar 800 milljónir á vegum
Reykjavíkurhafnar, 243 milljónir
hjá Strætó, 224 milljónir á skíða-
svæðum borgarinnar, 89 milljónir
hjá slökkviliðinu, 87 milljónir hjá
vélamiðstöðinni, 69 milljónir á veg-
um Sorpu og aðrar fjárfestingar
nema rúmum 60 milljónum króna.
Fjárfest fyrir 16,4 milljarða
Morgunblaðið/Jim Smart
Þórólfur Árnason borgarstjóri kynnir fjárhagsáætlunina í Ráðhúsinu
ásamt Önnu Skúladóttur, fjármálastjóra borgarinnar, og Bjarna Ben
Bjarnasyni, starfsmanni fjármáladeildar.
ÞÓRÓLFUR Árnason, borgar-
stjóri, sagði að Reykjavíkurborg
hafi ekki gripið til þess ráðs að
hækka útsvarshlutfallið þrátt fyrir
að ákvarðanir ríkisvaldsins í
skattamálum hafi trúlega kostað
sveitarfélögin hátt á annan millj-
arð króna. Í gær mælti hann í
fyrsta skipti fyrir frumvarpi að
fjárhagsáætlun Reykjavíkur og
borgarfulltrúar sjálfstæðismanna
og F-listans gagnrýndu áætlunina.
„Þegar frumvarp að fjárhags-
áætlun ársins 2004 er skoðað er
ekki hægt að greina að reynt sé að
spara, hagræða og sporna gegn sí-
fellt meiri útgjaldaþenslu,“ sagði
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, odd-
viti Sjálfstæðisflokksins, í borgar-
stjórn í gær. „Engar raunhæfar
aðgerðir eiga sér stað hvað varðar
endurskoðun á rekstri einstakra
starfsþátta, sviða, stofnana og fyr-
irtækja borgarinnar.“
Vilhjálmur sagði skuldastöðu
borgarinnar sífellt versna og spár
um skuldastöðu, ýmist sjálfs borg-
arsjóðs eða borgarinnar, þ.e. borg-
arsjóðs og fyrirtækjanna, ekki
standast. Heildarskuldir Reykja-
víkurborgar hafi vaxið úr 19 millj-
örðum árið 1994, þegar Reykjavík-
urlistinn tók við, í tæpa 64
milljarða á þessu ári. Á sama tíma
hafi hreinar skuldir aukist úr 9
milljörðum í tæplega 51 milljarð.
Rekstrarafgangur viðunandi
Þórólfur Árnason, borgarstjóri,
sagði að gripið hefði verið til
sparnaðaraðgerða í rekstri borg-
arinnar á þessu ári. Flötum nið-
urskurði upp á eitt og hálft pró-
sent hafi verið beitt við gerð
yfirstandandi fjárhagsáætlunar og
nú verði annað árið í röð lagt fram
frumvarp þar sem ráðist sé gegn
sjálfvirkri útgjaldaþenslu. „Þetta
sparnaðarátak nú mun skila var-
anlegum sparnaði sem nemur um
500 milljónum króna eða hálfum
milljarði, án þess að það bitni á
þjónustunni við borgarbúa,“ sagði
borgarstjóri.
Taldi hann viðunandi að rekstur
Reykjavíkurborgar skilaði 225
milljóna króna afgangi samkvæmt
fjárhagsáætlun næsta árs. Þá skili
rekstur borgarsjóðs einnig veru-
lega auknu veltufé frá rekstri, eða
33 þúsund krónum á hvern íbúa
borgarinnar. „Þetta er sú lykiltala
sem segir til um hversu mikið fé
er til ráðstöfunar þegar rekstr-
inum sleppir og sýnir afl borg-
arinnar, meðal annars til að takast
á við fjárfestingar,“ sagði Þórólfur.
Sjö nýjar leikskóladeildir
„Um leikskólana verður ekki
annað sagt en að þjónustu þeirra
hafi fleygt þannig fram í valdatíð
Reykjavíkurlistans að líkja má við
hljóðláta byltingu á fáum árum,“
sagði Þórólfur og fátítt væri að
tveggja ára börn þurfi að bíða eftir
skólavist. „Sú stefna hefur verið
mörkuð að börn frá 18 mánaða
aldri eigi kost á þjónustu leikskól-
anna og til að uppfylla þau fyr-
irheit verða opnaðir sjö nýjar leik-
skóladeildir á næsta ári.“
Þá sagði borgarstjóri að nýleg
könnun hefði sýnt að verulegur
hluti borgarbúa telji sig ekki
öruggan í miðborginni að kvöld- og
næturlagi. Ekki megi loka aug-
unum fyrir þessari vísbendingu því
sé hún staðreynd hafi fágæt verð-
mæti glatast. „Því er ákaflega
mikilvægt að í samstarfsnefnd ríki
og borgar, sem dómsmálaráðherra
skipaði nú í sumar, náist samstaða
um þær aðgerðir sem duga til að
tryggja öryggi í borginni,“ sagði
hann og talaði óbeint til Björns
Bjarnasonar sem sat einnig í borg-
arstjórn í gær.
Óvönduð meðferð fjármuna
Ólafur F. Magnússon, borgar-
fulltrúi F-listans, sagði að stjórn-
endur borgarinnar mættu gera
betur á ýmsum sviðum og nefndi
„óvandaða meðferð á fjármunum
Orkuveitu Reykjavíkur“ sem
dæmi. Þá benti hann á „þá stað-
reynd að hver fermetri skólahús-
næðis í Reykjavík er umtalsvert
dýrari en hjá nágrannasveitar-
félögunum á höfuðborgarsvæðinu,“
þótt búa ætti vel að skólabörnum.
Sagði hann að það væru ekki
síst umferðarmálin og lélegar al-
menningssamgöngur sem borg-
arbúar hafi áhyggjur af og vilji
bæta. „Ég vil efla almenningssam-
göngur og auka framlög borgar-
innar til þeirra,“ sagði Ólafur, svo
hægt væri að bæta þjónustuna um
leið og fargjöldum væri haldið lág-
um.
Sjálfstæðismenn í borgarstjórn
Ekki spornað
gegn út-
gjaldaþenslu