Morgunblaðið - 05.12.2003, Qupperneq 43
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 5. DESEMBER 2003 43
✝ Líney EmilíaFriðrika Bents-
dóttir fæddist á
Bíldudal 5. desem-
ber 1909. Hún lést á
hjúkrunarheimilinu
Sunnuhlíð í Kópa-
vogi 12. nóvember
síðastliðinn. For-
eldrar hennar voru
Bent Bjarnason,
kennari, ljósmynd-
ari og kaupmaður
frá Reykhólum í
Reykhólahreppi á
Barðaströnd, f. 17.2.
1876, d. 13.2. 1951,
og Karólína Friðrika Söebeck,
húsmóðir frá Reykjafirði á
Ströndum, f. 18.6. 1874, d. 18.3.
1935. Systkini Líneyjar eru: Lín-
ey (lést í æsku), Steinunn
Petronella (látin), Friðrik Ferd-
inald Söebeck (lést í æsku), Em-
ilía (lést í æsku), Valborg El-
ísabet (látin) og Bjarni Þorleifs,
búsettur í Kópavogi.
Líney giftist 14.10. 1933 Gesti
Gíslasyni, trésmiði og leikara.
Foreldrar hans voru Gísli Gests-
son frá Suður-Nýjabæ í Þykkva-
bæ, f. 8.9. 1878, d. 9.4. 1979, og
Guðrún Magnúsdóttir frá
Snotru í Háfssókn, f. 24.6. 1886,
d. 17.1. 1979.
Börn Líneyjar og
Gests eru: 1) Gísli,
f. 25.5. 1941, eig-
inkona Gerður
Bergsdóttir Gísla-
son, f. 21.4. 1943, d.
18.8. 1994. Börn
þeirra eru a) Ragn-
heiður, f. 26.4.
1969, og b) Bergur
Gestur, f. 9.10.
1970, kona hans er
Linda S. Guð-
mundsdóttir og
sonur þeirra er
Gísli Garðar. Síðari
kona Gísla er Edda Þórarins-
dóttir. 2) Sigrún Edda, f. 15.12.
1947, d. 24.7. 2003, eiginmaður
Marinó Ólafsson, f. 15.5. 1945,
d. 17.2. 1996. Börn þeirra eru a)
Líney Ólafía, f. 28.12. 1965,
maður hennar er Karl Magn-
ússon og börn þeirra Andri
Marinó og Sigrún Ósk. b) Bent,
f. 26.8. 1972, kona hans er Sif
Ásthildur Guðbjartsdóttir og
börn þeirra eru Andreas Máni
og Anna Marín.
Áður átti Gestur, Guðna, f.
1929, og Sólrúnu, f. 1939.
Útför Líneyjar fór fram í
kyrrþey að hennar ósk.
Líney Bentsdóttir, tengdamóðir
mín, kvaddi þessa jarðvist 12. nóv-
ember sl., en í dag hefði hún orðið
94 ára gömul. Það má segja að
vistin hafi verið nokkuð löng en
farsæl. Líney var vel gerð kona og
ólst upp við mikið ástríki í föð-
urhúsum, fyrst á Vestfjörðum og
síðar í Reykjavík. Hún var ung og
glæsileg stúlka um tvítugt þegar
hún kynntist Gesti Gíslasyni tré-
smiði og leikara og giftist honum
tuttugu og fjögurra ára gömul. Þau
eignuðust tvö börn, Gísla og Sig-
rúnu Eddu, og eiga nú fjögur
barnabörn og fjögur barnabarna-
börn.
Í rúm tuttugu ár bjuggu Gestur
og Líney í sambýli við Bjarna
bróður Líneyjar og fjölskyldu hans
í Miðstræti 10 í Reykjavík. Í því
húsi bjó því stórfjölskyldan, með
afa Bent sem miðpunkt tilverunn-
ar. Fljótlega byggðu þó mágarnir
sér sinn hvorn sumarbústaðinn í
Kópavogi og síðar einbýlishús í
þeim sama bæ. Það má því segja
að þessar fjölskyldur hafi verið
meðal frumbyggja Kópavogs og
þátttakendur í uppbyggingu og
menningarlífi bæjarins. Gestur var
um langt skeið einn aðalleikari
Leikfélags Kópavogs og Líney lét
sitt ekki eftir liggja og greip í þá
vinnu sem til þurfti til að hægt
væri að koma leiksýningu á fjal-
irnar. Ég minnist þess sjálf að hafa
margsinnis lagt land undir fót til
að sjá spennandi og forvitnilegar
leiksýningar í Kópavoginum.
Líney var hins vegar orðin harð-
fullorðin kona og Gestur fallinn frá
þegar ég kynntist henni. Minnið
var þá farið að svíkja hana, en
bernskuna sá hún ljóslifandi fyrir
sér og rifjaði oft upp sögur af því
þegar faðir hennar sá um síma
sveitarinnar og hún fengin til að
hlaupa við fót, milli bæja eða jafn-
vel á milli fjarða, til að færa mönn-
um skilaboð sem þeim höfðu borist.
Í minningunni voru þessar ferðir
henni kærar, enda var hún mikill
göngugarpur og náttúruunnandi.
Hún tók aldrei bílpróf og fór því
fótgangandi flestra sinna ferða og
var um áttrætt þegar hún gekk síð-
ast á Esjuna.
Líney og Gestur voru miklir
ferðalangar og skoðuðu landið oft í
góðra vina ferðahópi í Kópavogi,
sem kallaði sig Hananú. En Líney
hafði líka annað brennandi áhuga-
mál og það var garðrækt. Snemma
í hjúskap þeirra Gests fór hún að
gera tilraunir með ræktun á alls
kyns grænmeti og tilheyrði það
nánast hverri máltíð á þeim bæ að
borið var á borð úrval grænmetis.
Að þessu leyti trúi ég að tengda-
móðir mín hafi verið svolítið á und-
an sinni samtíð.
Síðustu árin naut Líney mikillar
og góðrar aðhlynningar starfsfólks-
ins í Sunnuhlíð í Kópavogi og
þakkar fjölskyldan þá óeigingjörnu
umönnun.
En nú er hennar lífsins ferðalagi
lokið og fór jarðarförin fram í
kyrrþey að hennar eigin ósk. Ég
þakka fyrir þann tíma sem ég átti
með Líneyju. Hvíli hún í friði.
Edda Þórarinsdóttir.
Í dag, 5. desember, er afmæl-
isdagurinn þinn, elsku amma mín,
og við hæfi að minnast þín á þess-
um merkisdegi. Það eru 94 ár frá
fæðingu þinni en andlát þitt kom
okkur ekki á óvart þar sem þú
varst búin að vera þónokkurn tíma
að kveðja þennan heim. Ég er viss
um að þau hafa tekið vel á móti
þér, afi Gestur sem dó 1993, pabbi
sem fór frá okkur 1996, amma
Gugga 11. júlí síðastliðinn og Sig-
rún dóttir þín sem varð bráðkvödd
24. júlí síðastliðinn. Og enn og aft-
ur kveðjum við fjórða fjölskyldu-
meðliminn á síðastliðnum fjórum
mánuðum en í þessari viku kvödd-
um við hann Óla afa sem skyndi-
lega kvaddi þennan heim 21. nóv-
ember síðastliðinn.
Skammt er stórra högga á milli
og sorgin er þungbær. Sérstaklega
þegar nær dregur jólum. Þið
mamma áttuð báðar afmæli í des-
ember og voruð báðar miklar jóla-
konur svo það verður skrýtið að
halda jól án ykkar, söknuðurinn er
mikill.
Það verður vonandi glatt á hjalla
hjá ykkur þegar þið hafið nú sam-
einist á ný.
Þegar hún mamma mín lést í júlí
síðastliðnum fannst mér eins og þú
skynjaðir eitthvað þó svo þú værir
hætt að geta tjáð þig. Ég sá sorg-
ina og söknuðinn í augunum á þér
en hún mamma mín hugsaði um
þig af öllu sínu hjarta. Ég kom til
þín nokkrum sinnum í viku og
reyndi að feta í fótspor mömmu en
það var erfitt.
Ég gerði mitt besta og vildi með
því þakka þér fyrir það sem þú
gerðir fyrir mig. Þú varst mér sem
önnur móðir þegar mamma mín,
ung að árum, eignaðist mig.
Það voru ófáar stundirnar sem
við sátum saman við vaskinn inni á
baði og þú greiddir hár mitt áður
en ég fór í leiksskólann. Alla daga
var ég rosalega fín og flott og þú
áttir heiðurinn af því. Oft sátum
við saman við eldhúsborðið og
drukkum saman kvöldkaffi, sem
var oftast tebolli og kexkaka og
ræddum um lífið og tilveruna enda
bjuggum við í sama húsi og því
stutt að fara, bara niður á næstu
hæð. Nokkur sumur fékk ég að
fara með ykkur afa í öræfaferðir
með ferðahópnum ykkar og ekki
leiddist mér ferðafélagarnir sem
var fólk komið á miðjan aldur og
þar fræddist ég um land og þjóð.
Þér þóttir gaman að tala, elsku
amma, og þú þekktir marga bæði í
starfi og leik. Þú áttir margar góð-
ar stundir með fólkinu í Leikfélagi
Kópavogs, Hana nú hópnum, og
svo stóðuð þið afi að undirbúningi
Sunnuhlíðar þar sem þið eydduð
ykkar ævikvöldum. Á sumrin vor-
um við saman í garðinum á Digra-
nesveginum og þú ræktaðir hinar
og þessar grænmetistegundir og
ég hjálpaði þér að halda garðinum
hreinum og fínum. Þú varst alltaf
vel til höfð og var fatnaður og tíska
mikið áhugamál hjá þér.
Elsku amma, ég þakka þér fyrir
alla þína hlýju, umhyggju og vin-
áttu í gegnum árin. Þín verður sárt
saknað.
Þín
Líney.
Það er stutt stórra högga á milli.
Sigrún frænka mín lést 23. júlí síð-
astliðinn og nú móðir hennar, Lín-
ey Bentsdóttir, hinn 12. nóvember.
Hún var skírð þó nokkrum milli-
nöfnum eins og Danadrottning.
Hún gekk ekki upp á Esjuna nær
áttræð heldur hljóp eins og smala-
hundur og náði hæstum tindum og
allir urðu furðu lostnir.
Ég og frænka eigum sama af-
mælisdag. Hún tjáði gestum og
gangandi að hún hefði fengið mig í
afmælisgjöf. Þær mæðgur báru
mig á herðum sér öll mín æskuár.
Líney Bentsdóttir gerði ekki að
vana sínum að halda upp á sinn af-
mælisdag. Hún bauð mér frekar í
bíó, jafnvel þó ég héldi pylsupartí,
eða einfalt barnafmæli. Þá var far-
ið á sýningar kl. 9. Stundum hafði
frænka áhyggjur af að myndin
væri ef til vill fullþung fyrir ungan
dreng. Ég þakkaði henni ekki í lif-
anda lífi fyrir að bjóða mér að sjá
Ævisögu Franz List eða aðrar
myndir sem voru bannaðar börnum
því hún sagði einfaldlega: „Hann er
með mér,“ við dyraverðina og þeir
urðu kjaftstopp. Það gekk enginn
yfir Líneyju Bentsdóttur.
Nú get ég sagt, kæra frænka,
sem ég ætlaði að heimsækja á af-
mælisdegi okkar í næsta mánuði:
Takk fyrir að bjóða mér í bíó þar
sem við hlógum og grétum eins og
leikhúsgrímurnar.
Takk fyrir mig, hvíl þú með
manni og dóttur í friði í faðmi engl-
anna. „Just like in the Movies.“
Jakob Bjarnason.
LÍNEY
BENTSDÓTTIR
✝ Hjörtur Guðjóns-son fæddist á Við-
borði á Mýrum 16.
janúar 1921. Hann
lést á Heilbrigðis-
stofnun Þingeyinga
27. nóvember síðast-
liðinn. Foreldrar hans
voru Pálína Jónsdótt-
ir og Guðjón Gíslason.
Systkini Hjartar eru:
Halldóra Nanna, d.
2000, Gísli Friðgeir,
d. 1986, Hlíf, býr á
Þorlákshöfn, Inga
Jenný, býr í Kópavogi
og Sigurlaug, d. 2003.
Kona Hjartar var Guðrún Ragna
Valgeirsdóttir, d. 26. janúar 1997.
Börn Hjartar og Guðrúnar eru:
Þórveig, hún á þrjú börn og sjö
barnabörn. Pálína, gift Grétari
Sigurðarsyni, þau eiga fjögur börn
og fimm barnabörn. Valgeir Gunn-
ar, kvæntur Ingi-
björgu Valdísi Harð-
ardóttur, þau eiga
þrjú börn og fjögur
barnabörn. Guðjón,
kvæntur Kristjönu
Jensdóttur, þau eiga
þrjú börn og þrjú
barnabörn. Kristján
Már, kvæntur Ingi-
björgu Höskuldsdótt-
ur, þau eiga sjö börn
og átta barnabörn.
Signý Ingibjörg,
maður hennar er
Ingvar Grétarsson,
þau eiga fimm börn
og þrjú barnabörn. Hjörtur Ragn-
ar, kvæntur Nönnu Gunnarsdótt-
ur, þau eiga tvö börn, annað lést af
slysförum í ágúst 2000.
Útför Hjartar verður gerð frá
Laugarneskirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 15.
Elsku pabbi, tengdapabbi, afi og
langafi.
Og svona lauk þessu ljóði –
Það leið út í þögulan bláinn
sem söngur úr skógi, sem blærinn ber
með blómilmi út yfir sjáinn.
Við sungum það eina sumarnótt.
Við syngjum það aftur við djúpið rótt,
þegar dagurinn hinzti er dáinn.
Það leið frá hlæjandi hjörtum –
um hug okkar vornóttin streymdi
með húm sitt og ilm, og enginn veit
nema æskan, hvað sál okkar geymdi.
Svo djúp var gleðin og himinheið
og hugurinn frjáls eins og blærinn, sem leið
um voginn, er vakandi dreymdi.
Ég kveð þig, ljóð mitt, í ljóði –
Þú líður ennþá um bláinn
sem söngur úr skógi, sem blærinn ber
með blómilmi út yfir sjáinn.
Við sungum það eina sumarnótt –
Við syngjum það aftur við djúpið rótt,
þegar dagurinn hinzti er dáinn.
(Tómas Guðmundsson.)
Við minnumst þín vinur.
Pálína, Grétar, börn og
fjölskyldur þeirra.
Elsku pabbi, hvíl þú í friði.
Ég á eina minning, sem mér er kær:
Í morgundýrð vafinn okkar bær
og á stéttinni stendur hann hljóður,
hann horfir til austurs þar ársól rís,
nú er mín sveit eins og Paradís.
Ó, hvað þú, Guð, ert góður.
Ég á þessa minning, hún er mér kær.
Og ennþá er vor og þekjan grær
og ilmar á leiðinu lága.
Ég veit að hjá honum er blítt og bjart
og bærinn hans færður í vorsins skart
í eilífðar himninum bláa.
(Oddný Kristjánsdóttir.)
Þín dóttir,
Þórveig.
Elsku afi, við systkinin ætlum að
kveðja þig með þessu ljóði.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt.
Þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti,
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð.
Þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir.)
Megi minningin um þig, elsku afi,
lifa með okkur alla tíð.
Þín barnabörn
Ingólfur Þór, Eyrún Huld,
Berglind og Hrönn.
Móðurbróðir minn Hjörtur Guð-
jónsson hefur nú kvatt þetta líf farinn
að kröftum og sennilega hvíldinni
feginn.
Hann bjó flest sín ár á Höfn í
Hornafirði þar sem jökulinn ber við
himin og fjöllin eru svo tær. Kona
Hjartar var Guðrún Valgeirsdóttir
frá Höfn, hún er látin fyrir nokkrum
árum. Hann missti mikið þegar hún
dó, hún var stoð hans og stytta í líf-
inu, en börnin þeirra studdu pabba
sinn eftir bestu getu og síðustu árin
bjó hann hjá Pálínu dóttur sinni og
hennar manni, Grétari, á Húsavík.
Hjörtur hafði mikið og gott sam-
band við systkini sín í gegnum árin.
En hann var ekki margmáll eða
kvartsár þótt ýmislegt hefði hann
mátt reyna. Hjörtur var smiður og
rak sitt eigið trésmíðaverkstæði á
Höfn um árabil. Hann var velvirkur
og vandvirkur, fór sér að engu óðs-
lega en skilaði sínu með sóma.
Síðustu starfsárin vann hann á
Stokksnesi og var þar vel liðinn af
samstarfsmönnum enda ekki hægt
annað en lynda við þennan dagfar-
sprúða mann, það var ekkert sem gat
haggað honum.
Hjörtur var af hjarta lítillátur fyrir
sjálfan sig og mölur og ryð fær ei
grandað auðlegð hans, en hún lá í
börnunum og fjölskyldunni. Það sem
hann gaf sérstaklega til þeirra var
hjartahlýjan og vísdómurinn.
Mér þykir leitt að geta ekki fylgt
þessum kæra frænda mínum hinsta
spölinn en sendi aðstandendum sam-
úðarkveðjur frá Hlíf og fjölskyldu.
Pálína T.
Í dag kveð ég minn fyrrverandi
tengdaföður, Hjört Guðjónsson, og
verður hann til moldar borinn í Gufu-
neskirkjugarði og mun hvíla þar við
hlið konu sinnar, Guðrúnar Valgeirs-
dóttur, er lést fyrir nokkrum árum.
Ég sem þessar línur rita kynntist
þeim hjónum er ég kvæntist dóttur
þeirra árið 1962. Þau voru bæði fædd
í Austur-Skaftafellssýslu og bjuggu
þar mest allan búskap sinn, lengst af
á Höfn í Hornafirði og eignuðust sjö
börn er lifa þau. Ekki ætla ég að
rekja æviferil Hjartar eða hennar,
heldur einungis að þakka þeim fyrir
hlýhug og vináttu í minn garð til
hinstu stundar. Hjörtur kom mér
fyrir sjónir sem snaggaralegur mað-
ur, fríður sýnum, líkamsbygging fín-
gerð, greindur vel og víðlesinn en í
skapi var hann dulur og heldur fá-
skiptinn um eigin hag og annarra,
þótt þau hjónin væru vinmörg. Enda
var þeirra heimili rómað fyrir greiða-
semi og gestrisni í hvívetna og alltaf
var til „hola“ að sofa í og hlaðið mat-
arborð af ýmsum þjóðlegum mat-
föngum. Svo vel þekkti ég Hjört að
ekkert myndi hafa verið honum
meira á móti skapi en að kastljósið
beindist að honum í orðmörgu lofi.
Hann var að mörgu leyti hlédrægur
einfari með rætur djúpt í íslenskri
bændamenningu, er vildi komast
undan fánýti hversdagsins og alls
tildurs og leið best að vera einn með
sjálfum sér, með bók í hönd. Vegur
lífsins er ekki alltaf beinn og breiður
því á honum eru ýmsar hindranir er
við mennirnir glímum við og reynum
að vinna bug á. Hjörtur átti lengi við
heilsuleysi að stríða, þjáðist mjög af
astma sem hamlaði honum oft frá
vinnu. Í lífi hans skiptust á skin og
skúrir eins og gengur. En hann var
vinnusamur, vandvirkur smiður og
heill sinni lífsskoðun, sjálfstæðis-
stefnunni, til hinstu stundar.
Hann andaðist 27 nvóember sl. á
Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, í
faðmi dóttur sinnar Pálínu og tenda-
sonar Grétars en hjá þeim bjó hann
frá því er hann missti sína góðu og
elskulegu eiginkonu og eiga þau
miklar þakkir skildar að veita honum
öruggt og friðsælt skjól í ellinni þar
sem hlýja og ástríki ríkti í hans garð.
Nú ertu horfinn sjónum okkar yfir
móðuna miklu til þinnar miklu ástar
og vina er á brautu eru gengnir.
„Dauðinn er blanda tíma og eilífðar.
Þegar góður maður deyr eygjum við
eilífðina gegnum tímann.“ (Goethe.)
Eftirlifandi börnum hans og öðrum
aðstandendum sendi ég mínar inni-
legustu samúðarkveðjur. Blessuð sé
minning þín. Þú átt góða heimkomu
vísa.
Hvíl í friði, mæti vinur.
Eyjólfur Magnússon.
HJÖRTUR
GUÐJÓNSSON