Morgunblaðið - 19.02.2004, Qupperneq 28
LISTIR
28 FIMMTUDAGUR 19. FEBRÚAR 2004 MORGUNBLAÐIÐ
GÓÐUR skáldskapur slær ekki alltaf um
sig. Hann á til að laumast að okkur hægt og
hljótt og muldra í eyru okkar. Þannig skáld-
skapur er oft ísmeygilegur í hógværð sinni,
margbrotinn í einfaldleika sínum, margræður
og gefandi. Geirlaugur
Magnússon er eitt þeirra
skálda sem þannig yrkir.
Ljóð hans í nýrri ljóðabók,
sem hann nefnir N er aðeins
bókstafur, bera þess vitni
að á ferðinni er íhugult
skáld sem að sönnu lítur
engum bjartsýnisaugum á
veröldina. Veröldin hefur
ekki þróast eftir óskum
hans. En myrkrið í ljóðun-
um er þó æðrulaust og ekki
alveg laust við kímni.
Í ljóði sem er einhvers konar eftirmæli
brostinna byltingarhugsjóna æskunnar biður
ljóðsegjandi menn að minnast ,,okkar / og
þeirra draumsýna / sem urðu úti á heiðum...“
og raunsæið gerist býsna grimmt og háðskt í
lok þess kvæðis er hann biður menn að minnast
þeirra sem féllu frá á leið
þeirra sem hikuðu
hörfuðu heltust úr lest
settust í hæg sæti
kveinkuðu sér
dóu út
minnist okkar
Bók Geirlaugs skiptist í þrjá hluta. Tveir
hinir fyrri eru flokkar ljóðsagna þar sem skáld-
ið dregur ýmist upp svipsterkar myndir af per-
sónum, nálgast á myndrænan hátt hugtök á
borð við sorg og myrkur eða rýnir í skynjanir
manna á tilverunni og upplifanir gagnrýnum
augum. Kaldranaleg er til dæmis myndin af
undrabarninu sem ekki var neitt stærðfræði-
séní heldur tíu ára togarajaxl. ,,búllurnar í bre-
merhaven og húll voru hans sunnudagsskóli og
sjálfgefið að slaga um þorpsgöturnar þétt-
drukkinn í landlegum...“ Afdráttarlaus er líka
mynd hans af myrkrinu. Þetta er ekki þægi-
legt myrkur skáldskaparins heldur myrkur
sem ,,þrúgar, þyngir, þegir / orðin verða að
kökk í hálsi myrkrakökk...“
Í þriðja hluta bókarinnar eru styttri ljóð og
hnitmiðaðri. Raunar tekur Geirlaugur þar
upp myrkurþráðinn og tilvistarlegar vanga-
veltur þar sem einsemd og grályndi virðast
nokkuð ríkjandi. Samt er eins og fegurðin og
vonin séu innan seilingar en samt í ósnert-
anlegri fjarlægð. Ljóðið ég er eyland er
kannski dæmigert fyrir þann hráslagalega
kaldrana einsemdarinnar sem oft einkennir
ljóðheim Geirlaugs á ytra borði en stafar þó
frá sér einhverri innri fegurð. Kvæðið hefst á
andófstilvísun í titil kvæðisins Enginn er ey-
land eftir John Donne.
enginn!
ég er eyland
rekald á úthafinu
sprek við ströndina
eyðiland
hrímþoka snjóblinda
ódáinsland
gisið fjörustrá
jökulbirta
skógarmyrkur
sólaruppkoma
Með stökum orðum dregur skáldið þannig
upp í senn eina mynd og ótal myndir sem vísa
í fleiri en eina átt svo að átakalína verður til
milli einsemdarinnar og fegurðarinnar í
kvæðinu.
Ljóð Geirlaugs Magnússonar mega oft á
tíðum virðast hljóðlát, myrk og köld en í þeim
er samt einhver sá skáldskapur sem togar
lesanda til sín, einhver áleitin og sérstæð
rödd sem sker sig úr kliði hversdagsleikans.
MyrkrakökkurBÆKURLjóð
eftir Geirlaug Magnússon. Lafleur. 2003.
N ER AÐEINS BÓKSTAFUR
Geirlaugur
Magnússon
Skafti Þ. Halldórsson
GRÓSKAN og gæðin í íslensku
tónlistarlífi voru útgangspunktur í
síðustu skrifum mínum um tónleika-
hald í höfðuborginni að undanförnu.
Engu að síður er eins og síðustu árin
hafi gætt ákveðinnar stöðnunar. Það
vinna allir vel; – tónlistarmenn skila
afbragðs góðu dagsverki, en það
þarf sárlega að fara að brýna eggina.
Það er varla fréttnæmt lengur að
tónlistarmenn vinni vinnuna sína vel
og samviskusamlega og að tónleikar
á Íslandi séu góðir. Það þykir frekar
tíðindum sæta ef þeir eru það ekki,
þegar atvinnufólk á í hlut. Þó er alls
ekki átt við að allt sé einhver með-
almennska, öðru nær. Vísbendingar
um að eitthvað stærra gæti gerst,
sjást og heyrast oft á tónleikum; –
kannski í einu verki af nokkrum, eða
jafnvel bara í einum kafla. En hvort
sem það er úthaldið sem vantar eða
beittari músíkalskari egg, þá er
grundvöllurinn til staðar. Að sjálf-
sögðu þarf standardinn að vera hár
og jafn, til að það einstaka geti orðið
til, en svo sérkennilega sem það
kann að hljóma verður biðin eftir því
óþreyjufyllri, því fleiri sem fylla hóp
mjög góðra og frambærilegra tón-
listarmanna. Neista þess einstaka í
tónlistarflutningi heyrir maður
stundum á tónleikum Sinfóníuhljóm-
sveitar Íslands, þegar best tekst til,
– eins á tónleikum einstaklinga og
kammerhópa, – eins og í upphafi
verks Pendereckis á tónleikum Ca-
merarctica á Myrkum músíkdögum.
Innblásið tríó hjá Árna
Á miðvikudagskvöld voru síðustu
tónleikar Myrkra músíkdaga haldnir
í Ými, þar sem tvö verk voru frum-
flutt, Frá myrkri til ljóss eftir Óliver
Kentish og Ferð eftir Elínu Gunn-
laugsdóttur.
Það er ekki hægt að segja um
klarinettukvintett Ólivers að minna
sé meira, því þar var lítið kjöt á bein-
um, svo ekki sé meira sagt. Verkið
var samið undir áhrifum af frásögn-
inni í Njálu þegar Þorgeir Ljósvetn-
ingagoði lagðist undir feldinn og tók
þá ákvörðun að Íslendingar skyldu
gerast kristnir en fá þó að blóta að
heiðnum sið á laun. Einhvern veginn
ímyndar maður sér að sú ákvörðun
um framtíðarheill þjóðarinnar á
miklum umbrotatímum hafi ekki
verið tekin án mikillar hugarglímu,
þótt undir feldi hafi verið. En það
var fátt um átök í verki Ólivers, og
fátt ófyrirsjáanlegt eða óvænt, eins
og þó ákvörðun goðans var. Því
vaknar spurning um tengsl hug-
myndarinnar við tónlistina sjálfa; –
tónverk þarf auðvitað ekki að vera
beinlínis lýsandi, þótt það kvikni af
ákveðinni hugmynd; þ.e. það þarf
ekki endilega að lýsa dramatískri
framvindu sögunnar sem að baki
liggur, og gæti allt eins lýst hughrif-
um sem tengjast henni. En á hvorn
veginn sem er verður þetta verk
sennilega seint talið til bestu verka
Ólivers. Það sem upp úr stóð var
lokakaflinn, byggður á sálmalagi eft-
ir Óliver sjálfan við sálm Sigur-
björns Einarssonar, Á mótum tu-
galda. Lagið hljómaði dulúðugt og
fallegt í fornum blæ samstígra fim-
munda.
Talsvert meiri andagift var að
finna í tríóinu In the Twilight eftir
Árna Egilsson, fyrir flautur, fiðlu og
víólu, og satt að segja er þetta eitt
besta verk Árna sem gagnrýnandi
hefur heyrt í þessari tegund tónlist-
ar. Þarna skiptust á heit ljóðræna,
hvínandi rytmík, kóralar og glettur;
fjölbreytileikinn mikill og hvergi
dauður punktur í uppbyggingu og
framvindu. Auk þess var verkið firna
vel leikið af þeim Hallfríði, Hildi-
gunni og Guðmundi. Hápunktur
þessara tónleika var þó án efa Kvart-
ett fyrir klarinettu og strengjatríó
frá 1993 eftir Krzysztof Penderecki,
einkennilega léttúðugt með dönsum
og dillandi, en stefnir þó allt mark-
visst að þungum harmrænum loka-
kafla. Leikur Hildigunnar, Guð-
mundar, Sigurðar og Ármanns var
áhrifamikill, vel samhæfður, og
gneistaði af honum þegar best lét, í
mögnuðu næturljóðinu í upphafinu.
Einradda strengir í öðrum þætti
voru líka vel samstilltir, en þó vant-
aði þar meiri snerpu og ákefð til að
byggja upp sannfærandi andstæð-
una við tregann í lokin.
Verk Elínar Gunnlaugsdóttur,
Ferð, fyrir píanó, flautu, klarinettu
og strengi, var samið sérstaklega
fyrir Miklós Dalmay og Camerarc-
tica fyrir þessa tónleika, og því glæ-
nýtt. Verkið er í sex litlum þáttum,
einhvers konar endurminningum
eða myndum úr ferðum, en segir
ekki eina heilsteypta ferðasögu.
Þriðji og fimmti þáttur verksins eru
rytmískir, en hinir ljóðrænir, og sá
fyrsti beinlínis angurvær. Elín bygg-
ir verkið talsvert á þrástefjum og
pizzicato, en plokkaðir strengir eru
áberandi hjá strengjahljóðfærunum.
Þótt margt væri áheyrilegt í verkinu
náði það ekki flugi, og var fremur lá-
dautt og litlaust. Það vantaði í það
meiri andstæður, annaðhvort í tón-
vefnum, í blæ eða dýnamík; and-
stæður í rytmík og ljóðrænu náðu
ekki að skapa næga spennu til að
gera verkið áhugavert.
Kjalnesingar í góðum
félagsskap
Söngskemmtun er réttnefni á tón-
leika Kjalnesingakórsins á fimmtu-
dagskvöld, því þar var troðið upp
með danstríó og söngkonu og flutt
gömul dans- og dægurlög (að mestu)
– lög sem allir þekkja og kunna frá
liðnum árum. Útsetningar laganna
voru í höndum söngstjórans, Páls
Helgasonar, og píanóleikarans Ósk-
ars Einarssonar, sem leiddi þetta
stórfína tríó af miklum myndugleik.
Um söng Guðrúnar Gunnarsdóttur
þarf ekki að fara mörgum orðum;
hún var einfaldlega frábær, dæma-
laust músíkölsk með sína blæfögru
og heilsteyptu rödd.
Kórinn söng nokkur lög einn með
tríóinu, en flest með einsöng, ýmist
Guðrúnar eða tveggja kórfélaga, Jó-
hannesar Freys Baldurssonar og
Ólafs Magnússonar tenóra.
Karlakór Kjalnesinga er kannski
ekki fullburðugur sem „hljóðfæri“; –
raddirnar eru misjafnar – innraddir
of daufar miðað við fyrsta tenór og
annan bassa og tæknilegri þjálfun er
ábótavant. Innkomur voru til dæmis
víða losaralegar og söngurinn ekki
alltaf tandurhreinn. Margt af þess-
um hnökrum hvarf í skuggann þegar
hljóðfæraleikurinn bættist við og
þegar einsöngvari var kominn á svið-
ið líka var kórinn ekki í aðalhlutverki
og reyndi ekki eins á hans þolrif. Út-
setningar Páls Helgasonar fyrir kór-
inn voru líka smekklegar – ekkert of-
hlaðnar og hæfðu kórnum prýðilega.
Af lögum kórsins með tríóinu
stóðu fyrstu tvö lögin upp úr, Káta
Víkurmær og Við gengum tvö, með
elegant rúmbutakti tríósins. Í þriðja
laginu, Frelsi ég finn, heyrðist lag-
lína í innrödd til dæmis illa, og yf-
irrödd fjölmennari og vísast söng-
glaðari tenórs skyggði á hana.
Einsöngur Jóhannesar Freys í
Santa Lúsía hófst svo vel, en von-
brigðin voru ekki langt undan, því
hann vantaði tónhæð og þindar-
stuðning, og kannski umfram allt yf-
irvegun, til að halda lagið út. Ólafur,
með talsvert skólaðri rödd, söng
Torna a Sorriento, og vantaði ekkert
upp á hæðina og músíkalska dýna-
mík – en röddin ennþá helst til ójöfn
milli raddsviða.
Guðrún söng ein með tríóinu Lít-
inn fugl, lag Sigfúsar Halldórssonar,
og lag Oddgeirs og Ása í Bæ, Ég veit
þú kemur, en bæði lögin gerði Ellý
Vilhjálms ódauðleg. Guðrún er
smekkleg söngkona og auðnaðist að
setja sinn persónulega karakter á
bæði lögin; – ekkert að stæla snilld-
artakta Ellýjar – en samt svo góð.
Eitt besta atriðið á þessum hluta
tónleikanna var gamli smellurinn
Svo ung og blíð sem norski dægur-
tónlistarkóngurinn Egil Monn-Iver-
sen fékk Noru Brocksted til að
syngja á íslensku á sínum tíma, með
hljómsveit sinni Monn-keys. Þetta
gerðu Guðrún, tríóið og kórinn afar
skemmtilega.
Þrátt fyrir það sem hér hefur ver-
ið sagt um söng Karlakórs Kjalnes-
inga var eitt besta atriði tónleikanna
eina alvöru karlakórslagið á efnis-
skránni, Þú komst í hlaðið. Þetta er
lag sem virðist bara alltaf steinliggja
í sinni frábæru raddsetningu, og Páll
Helgason leiddi kórinn í mjög mús-
íkölskum söng.
Hvítu mávar lukkuðust ekki nógu
vel. Tempóið var of hratt og lagið
missti við það nostalgískt vagg haf-
djúpanna bláu í 6⁄8-taktinum.
Ítalski smellurinn Marina, Marina
var hins vegar stórskemmtilegur,
enda lagið afbragðsgott dægurlag.
Lokalagið var Kveiktu ljós, sem
blandaður kvartett frá Siglufirði,
hljómsveitin Gautar og Karlakórinn
Vísir gerðu ofurvinsælt á sínum
tíma. Það var virkilegt drif í útsetn-
ingunni, en í sönginn vantaði þó þá
fyllingu sem fjórar raddir kvart-
ettsins gáfu á móti einni rödd Guð-
rúnar.
Þetta var prýðileg skemmtun, þar
sem áhugamenn nutu góðs af af-
bragðsgóðu fagfólki, í samvinnu sem
fékk góðan hljómgrunn meðal tón-
leikagesta.
Myrkrinu
léttir og Mar-
ina dillar sér
Bergþóra Jónsdóttir
TÓNLIST
Ýmir
KAMMERTÓNLEIKAR
MYRKIR MÚSÍKDAGAR
Camerarctica lék verk eftir Óliver Kent-
ish, Árna Egilsson, Krzysztof Penderecki
og Elínu Gunnlaugsdóttur. Hópinn skip-
uðu Miklós Dalmay á píanó, Hallfríður
Ólafsdóttir á flautur, Ármann Helgason á
klarinettu, Hildigunnur Halldórsdóttir og
Sigurlaug Eðvaldsdóttir á fiðlur, Guð-
mundur Kristmundsson á víólu og Sig-
urður Halldórsson á selló.
Miðvikudag 11. febrúar kl. 20.
Salurinn
KÓRTÓNLEIKAR
Karlakór Kjalnesinga, Guðrún Gunn-
arsdóttir og tríó, skipað Óskari Ein-
arssyni, Jóhanni Ásmundssyni og Gunn-
laugi Briem, fluttu gömul dans- og
dægurlög. Einsöngvarar úr röðum kór-
félaga voru Jóhannes Freyr Baldursson
og Ólafur M. Magnússon tenórar, en
stjórnandi var Páll Helgason.
Fimmtudag 12. febrúar kl. 20.
Guðrún Gunnarsdóttir og Karlakór Kjalnesinga komu fram á tónleikum í Salnum síðastliðinn fimmtudag.