Morgunblaðið - 18.04.2004, Side 12
12 SUNNUDAGUR 18. APRÍL 2004 MORGUNBLAÐIÐ
F
rá mánudagsmorgni til þriðju-
dagskvölds í síðustu viku veiddu
um fimm þúsund selveiðimenn á
línubátum 147.000 selkópa úti-
fyrir norðausturströnd Ný-
fundnalands, en alls hafa kanad-
ísk yfirvöld veitt heimild til
veiða á 350.000 selum á þessari
vertíð, samkvæmt fréttum Kan-
adíska ríkisútvarpsins, CBC. Kvótinn hefur
ekki verið svona stór síðan 1956, og hafa veið-
arnar núna því vakið athygli fjölmiðla og dýra-
verndunarsinna.
Reyndar voru menn helst til stórtækir þessa
tvo daga í byrjun síðustu viku, því að línubáta-
kvótinn var 140 þúsund selir, ekki 147 þúsund.
CBC hefur eftir Jan Woodford, fulltrúa kanad-
íska sjávarútvegsráðuneytisins, að þegar sé bú-
ið að veiða 260 þúsund seli á vertíðinni. Þeir
níutíu þúsund sem eftir eru verði veiddir á
smærri bátum.
Þótt mótmæli gegn veiðunum séu ekki jafn
hörð nú og þau voru á sjöunda áratugnum –
Greenpeace-samtökin hafa til dæmis ekki
mótmælt nú, þar sem þau segja vöðuseli ekki
vera í útrýmingarhættu – hafa dýravernd-
arsinnar samt látið í sér heyra. „Þetta er ein-
hver umfangsmesta slátrun sem ég hef nokk-
urntíma orðið vitni að,“ hefur CBC eftir
Rebeccu Aldworth, félaga í dýravernd-
unarsamtökunum IFAW (International Fund
for Animal Welfare), en hún fylgdist með veið-
unum.
Í skeyti fréttastofunnar AFP frá Montréal á
mánudaginn, þegar veiðarnar hófust, kemur
meðal annars fram, að kanadísk stjórnvöld full-
yrði að selastofninn sé orðinn svo stór að hann
ógni þorskstofnum í Atlantshafinu. Auk þess
fari veiðarnar fram með mannúðlegum hætti.
Samkvæmt tölum kanadíska sjávar-
útvegsráðuneytisins hafi selastofninn í Atlants-
hafi stækkað úr 1,8 milljónum árið 1970 í 5,2
milljónir nú.
Kanadísk stjórnvöld heimiluðu veiðar á sam-
tals 975.000 selum á tímabilinu 2003–2005, og
verði sá kvóti veiddur allur ætlar ráðuneytið að
árið 2006 verði selastofninn um 4,7 milljónir,
eða vel yfir 70% þess sem hann sé nú. „Stjórn-
un selveiða byggist á verndunarsjónarmiðum
sem eiga að tryggja nýtingarmöguleika nú og í
framtíðinni,“ sagði Robert Thibault, fyrrver-
andi sjávarútvegsráðherra, er hann greindi frá
nýja kvótanum í fyrra. „Selir eru mikilvæg
náttúruauðlind, sé nýting þeirra sjálfbær, og
mikilvæg tekjulind fyrir um 12 þúsund sel-
veiðimenn og fjölskyldur þeirra.“
Segja reglur þverbrotnar
En IFAW og bandamenn þeirra, til dæmis í
Sea Shepherd, gefa lítið fyrir fullyrðingar um
mannúðlegar veiðiaðferðir og segja að veiði-
menn þverbrjóti reglur sem eigi að tryggja að
farið sé mannúðlega að. Og eftirlitsmenn yfir-
valda líti fram hjá þessum reglubrotum. Segja
fulltrúar IFAW að á undanförnum árum hafi
þeir horft upp á veiðimenn flá seli lifandi, setja í
þá króka og draga þá yfir ísinn lifandi og láta
þá deyja hægt og rólega.
„Þegar við tökumst á hendur stórt verkefni
látum við ekki deigan síga fyrr en við höfum
haft sigur,“ hafði AFP eftir Aldworth, sem
stjórnar herferð IFAW gegn selveiðunum við
Kanada. „Við héldum að við hefðum haft okkar
fram á níunda áratugnum, en veiðarnar eru
byrjaðar á ný – og eru umfangsmeiri en nokkru
sinni fyrr.“
Á fréttamannafundi sem IFAW-samtökin
héldu í Toronto í síðustu viku var sýnt mynd-
band af blóðugum, lifandi selum, að því er blað-
ið The Globe and Mail greindi frá og hafði eftir
Aldworth að myndirnar hefðu verið teknar á ís-
breiðunni norðan við Prince Edward-eyju í síð-
asta mánuði. Þar hefðu veiðimenn beitt hinum
grimmilegustu aðferðum við veiðarnar, alveg
að ástæðulausu. Eftirlitsmenn frá yfirvöldum
hefði hvergi verið að sjá.
Talsmaður kanadíska sjávarútvegsráðuneyt-
isins tjáði blaðinu að eftirlitsmenn á vegum
ráðuneytisins hafi ekki lagt fram neinar kærur
á þessu ári, en verið væri að rannsaka nokkur
tilvik þar sem grunur léki á að veitt hefði verið
á bönnuðum svæðum. „Ég er ósammála því að
við tökum þetta ekki alvarlega og framfylgjum
ekki reglum,“ sagði ráðuneytismaðurinn við
Globe and Mail. Samkvæmt nýjum reglum,
sem settar voru í fyrra, ber veiðimönnum að
snerta augun í selunum, eftir að þeir hafa verið
veiddir, til að ganga úr skugga um að þeir séu
dauðir áður en þeir eru flegnir. Sagði Aldworth
að veiðimennirnir sem hún hafi fylgst með hafi
sjaldnast fylgt þessari reglu.
Veiðarnar lengi verið að aukast
Veiðiheimildir á síðustu selavertíð voru 350
þúsund selir líkt og á vertíðinni nú, en ekki
voru veiddir nema um 289 þúsund selir, að því
er fram kemur á fréttavef blaðsins Toronto
Star. Segir blaðið ennfremur, að síðast hafi
kanadískir selveiðimenn drepið 350 þúsund seli
árið 1956, og því hafi dýraverndunarsinnar full-
yrt að veiðarnar nú verði að líkindum þær um-
fangsmestu í hálfa öld.
Þó sé fráleitt að nú séu veiðar að hefjast að
nýju, því þær hafi um árabil verið miklar og
farið smám saman vaxandi. Þótt markaður fyr-
ir selskinn hafi svo að segja alveg hrunið vegna
innflutningsbanna í Bandaríkjunum og Evrópu
á áttunda áratugnum hafi bæði markaðurinn
og veiðarnar verið að færast í aukana síðan
1996. Kanadískir sel-
veiðimenn hafi drepið um
240 þúsund seli árlega á
tímabilinu 1996–1999.
Árið 2000 féll verð á sel-
skinnum vegna of-
framboðs, segir Toronto
Star, en síðan hafi mark-
aðurinn tekið við sér og nú
sé mikil eftirspurn frá evr-
ópskum tískuhúsum.
Verðið hafi náð hámarki
2002, þegar rúmar fjögur
þúsund krónur fengust
fyrir hvert skinn, og þá
voru veiddir 312 þúsund
selir. Núna fáist rúmar
3.200 krónur fyrir fyrsta
flokks skinn.
Étur selurinn þorsk?
En að mati kanadískra ráðamanna er ekki
einungis um að ræða að fá tekjur af sel-
skinnum. Einnig þurfi að fækka selnum til að
hann éti ekki eins mikið af þorski og öðrum
nytjafiskum við austurströnd landsins. Þannig
sagði John Efford, auðlindaráðherra Kanada, í
viðtali við The Globe and Mail að úti fyrir
ströndum Nýfundnalands væru um átta millj-
ónir sela sem yllu stórskaða á kanadíska síld-
arstofninum, makríl, sandhverfu og öðrum
stofnum. Sagði Efford að selveiðarnar hefðu
áhrif á efnahagslífið á Nýfundnalandi, Québec
austanverðu, Prince Edward-eyju, New Bruns-
wick og Nova Scotia, en í öllum þessum fylkjum
byggist margt á fiskveiðum.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Efford hvet-
ur til aukinna selveiða á þeim forsendum að sel-
irnir éti þorskinn. Í frétt CBC frá því í mars
1999 segir, að Efford, sem þá
var sjávarútvegsráðherra
Nýfundnalands, hafi kallað
til fréttamannafundar til að
sýna myndband af þeim
áhrifum sem selastofninn
hafi á þorskinn. Á mynd-
unum hafi mátt sjá hundruð
hálfétinna þorska liggjandi á
hafsbotni. Aðrar myndir hafi
sýnt hungraða seli hrekja
þorska upp á land. Selir éti
140 þúsund tonn af þorski
árlega, sagði Efford, og á
sama tíma hafi margir sjó-
menn ekki í sig né á. Sjö ár-
um eftir að þorskveiðar hafi
alveg verið bannaðar við Ný-
fundnaland vegna hruns
stofnsins, 1992, sé ástand
þorskstofnsins verra en fyrir
1992, hafði CBC eftir Efford árið 1999.
Tveim árum síðar, í febrúar 2001, sagði CBC
aftur á móti frá því, að frumniðurstöður
rannsókna sem gerðar hafi verið á vegum
kanadískra stjórnvalda á áhrifum selsins á
þorskstofninn muni líklega valda mönnum á
Nýfundnalandi nokkrum vonbrigðum. Þessar
niðurstöður bendi til þess, að selirnir séu ekki
meginástæðan fyrir því að þorskstofninn við
Nýfundnaland hafi ekki endurnýjast.
Óháð rannsóknarnefnd á vegum kanadíska
sjávarútvegsráðuneytisins hafi komist að því,
að þótt óneitanlega éti selurinn reiðinnar býsn
af þorski finnist ekki vísindalegar vísbendingar
sem styðji fullyrðingar um að allt sé selnum að
kenna. „Ég held að í flestum tilvikum væri það
líklega rangt að fullyrða að [selurinn] sé megin-
ástæðan fyrir því hvernig komið er fyrir þorsk-
stofninum,“ hafði CBC eftir Ian McLaren, líf-
fræðingi við Dalhousie-háskóla í Halifax, sem
var formaður nefndarinnar.
Ófögur lýsing
Hvort sem ráðherrann hafði rétt fyrir sér
eða ekki hafði þessi röksemdafærsla hans eng-
in áhrif á dýraverndunarsinna, sem keyptu
heilsíðu auglýsingu í The New York Times fyrr
í mánuðinum þar sem vakin er athygli á því að
enn leyfi Kanada veiðar á litlum selkópum.
Efford brást hinn reiðasti við, og tjáði The
Globe and Mail að fullyrðingarnar í auglýsing-
unni væru ekki aðeins villandi, heldur beinlínis
rangar. Bannað væri að veiða kópa yngri en 12
daga, en þá sé hvíti feldurinn að mestu horfinn
af þeim. Yfirleitt séu selirnir ekki drepnir fyrr
en þeir séu um 25 daga gamlir.
Um svipað leyti birti The New York Times
forsíðufrétt, sem einnig birtist á forsíðu Int-
ernational Herald Tribune, um selveiðarnar.
Segir fréttamaður New York Times, að nú sé
selveiðikvótinn í Kanada orðinn stærri en
nokkru sinni í hálfa öld. Lýsing fréttamannsins
á veiðunum er ófögur:
„Hér á ísbreiðunni á St.Lawrence-flóa virð-
ast veiðarnar vera alveg jafn ruddalegar og áð-
ur. Svo langt sem augað eygir má sjá þrek-
vaxna menn með kylfur fara um ísinn á
vélsleðum og gaddastígvélum í leit að ungum,
silfurlitum vöðuselskópum. Með einu eða tveim
höggum í höfuðið brjóta þeir höfuðkúpuna, og
skilja stundum ung dýrin eftir í krampaflogum.
Mennirnir draga dauða selina að fiskibátum
sem bíða skammt frá eða flá þá á staðnum og
skilja eftir sig blóðugar slóðir á ísnum sem
bráðnar hægt og hægt.“
Haft er eftir selveiðimönnum að þeir stundi
veiðarnar peninganna vegna, „en þetta er líka
hefð sem er okkur í blóð borin,“ segir einn
þeirra, Jocelyn Theriault, við The New York
Times.
Nokkrum dögum eftir að fréttin birtist birti
blaðið bréf frá Frederick M. O’Regan, forseta
IFAW, þar sem hann þakkaði blaðinu fyrir að
hafa gefið „nákvæma og skýra mynd“ af veið-
unum. Þrátt fyrir fullyrðingar selveiðimanna sé
raunin sú, að það sé ekkert vit í þessum veiðum,
hvorki efnahagslega né á annan máta. Veið-
arnar séu niðurgreiddar af kanadískum stjórn-
völdum og tekjur af veiðunum séu hvergi nærri
því að vera svo miklar sem kanadísk yfirvöld
fullyrði.
„Bull og vitleysa“
The Globe and Mail brást aftur á móti
ókvæða við frétt The New York Times í leiðara
6. apríl. „Selveiðarnar eru hafnar, svo sem vera
ber,“ er fyrirsögnin á leiðaranum. Þar segir, að
fréttamaður New York Times hafi átt erfitt
með að leyna fyrirlitningu sinni á veiðunum og
lýsing hans á veiðunum hafi helst minnt á sögur
eftir Jack London. Það sé rangt hjá verndunar-
sinnum að selirnir séu í útrýmingarhættu, og
þar að auki séu þeir ógn við þorskstofninn.
En selirnir séu sætir, eins og franska leik-
konan Brigitte Bardot hafi bent á með góðum
árangri á áttunda áratugnum, alveg ofboðslega
sætir. Lítill vöðuselur minni helst á Labrador-
hvolp með hreyfa. „Í augum vestrænna borgar-
búa, sem kynntust náttúrunni fyrst í gegnum
Walt Disney, er þetta eitt nóg til að tryggja sel-
unum stöðu tegundar í útrýmingarhættu.“
Blaðið segir ennfremur, að selveiðimenn séu nú
á dögum í engu frábrugðnir starfsfólki á slátur-
húsum, nema hvað sláturdýrin séu mun meira
augnayndi en dæmigert ungnaut. „Hryllingur!
segir Times. Því svörum við: Bull og vitleysa.“
Earle McCurdy, forseti stéttarfélags fólks í
fisk- og matvælaiðnaði í Kanada, tekur í sama
streng í viðtali við Globe and Mail nokkrum
dögum síðar. Selveiðarnar séu mikilvæg tekju-
lind fyrir marga félagsmenn. Svo að segja allir
selveiðimennirnir stundi líka fiskveiðar.
McCurdy segir baráttu dýraverndarsamtaka
einkennast af skammsýni og gera lítið úr veiði-
mönnunum. Eini munurinn á selveiðunum og
slátrun annarra nytjadýra sé sá, að selveið-
arnar fari fram fyrir allra augum.
„Kjúklingabú og sláturhús eru í einkaeigu,
þannig að maður fær aldrei að sjá hvað fer
fram þar innandyra,“ hefur Globe and Mail eft-
ir McCurdy. „Þetta er nátengt borgarlífinu. Í
augum þess sem býr í borg er matur eitthvað
sem kemur í sellófanumbúðum og öll óþrifa-
vinnan og óþægindin að baki. Þeir sem alist
hafa upp við búskap, veiðar eða sjósókn vita
hvernig málum er háttað. Það er erfið vinna að
framleiða matvæli og koma þeim í verslanir, og
það eru ekki öll handtökin sérlega skemmti-
leg.“
Hefð í
blóð borin
Selveiðar við austurströnd Kanada hafa vakið miklar deilur undanfarið, og segja dýraverndarsinnar þær aldrei hafa verið um-
fangsmeiri. Kristján G. Arngrímsson kynnti sér umfjöllun fjölmiðla vestra um málið.
AP
Með selskinnshúfu á höfði landar veiðimaðurinn Dean Penny selskinnum í St. Anthony á Nýfundna-
landi á föstudaginn. Selveiðarnar hafa vakið mikla athygli.
!
"# $
%#
$&'
$%
#% (