Pressan - 05.04.1990, Blaðsíða 28

Pressan - 05.04.1990, Blaðsíða 28
28 Fimmtudagur 5. apríl 1990 sjúkdómar og fólk Hjartabilun Ég lá uppi í sófa og las spennu- sögu einn laugardaginn í vetur. Þetta var einn þessara daga, þegar veðrið virtist ekki geta ákveðið sig hvernig það ætlaði að verða; eina stundina var rigningarsuddi, aðra hríðarbylur og stöku sinnum gægð- ist sólin feimnislega fram eins og til að minna á sig. Spennan í bókinni var að ná hámarki, söguhetjan hafði sloppið naumlega úr miklum lífs- háska en eftir lágu í valnum þrír úr liði vondu mannanna og þeldökkur göfuglundaður leiðsögumaður söguhetjunnar. Þá var allt í einu hringt á dyrabjöllunni. Ég reis upp með miklum erfiðismunum, enda orðinn stirður af langri legu yfir reyfaranum, gekk til dyranna og lauk þeim upp. Úti fyrir stóð lágvax- inn eldri maður, klæddur í brúnleita úlpu og bláar buxur með snjáða der- húfu á höfði. Hann virtist ákaflega móður, þó stigarnir væru litlir, og stundi upp, þegar hann sá mig: — Ég er að rukka fyrir Þjóðlíf. — Jæja, sagði ég, hvað var það mikið? Hann nefndi töluna og virtist enn jafn- móður. Ég náði í ávísanaheftið mitt og sagði svo, þegar ég var að skrifa á tékkann: — Helvíti ertu móður, ertu alltaf svona? Hann varð hugsi og svaraði; — Já, eiginlega er ég alltaf svona móður, þó finnst mér eins og þetta fari stöðugt versnandi. Þetta er ekkert sem ég get orðið gengið. Ég er eins og fýsibelgur af að ganga í smástigum. Svo er ég kominn með svo slæman bjúg á leggina. Ég leit upp og hætti að skrifa tékkann: — Láttu mig sjá. Hann dró upp buxnaskálmina, und- ir var hann í móbrúnum síðum nær- buxum sem hann lyfti upp stynj- andi. Fóturinn var bólginn og mikill bjúgur hafði sest við teygjuna á sokknum og niðurfyrir hana. Ég beygði mig niður og ýtti með þumal- fingrinum á holdið rétt fyrir ofan ökklann. Fingurinn sökk inn í húð- ina eins og í deig og skildi eftir sig djúpt far. — Já, þetta er ansi slæmur bjúgur, sagði ég, skoðaði síðan hinn fótinn og hann var alveg eins. Ég náði í hlustunarpípuna mína, sem var týnd einhvers staðar í drasli eins og venjulega, og brá henni á brjóst- ið á manninum, þegar hann hafði hneppt frá sér bláleitri skyrtunni og dregið upp gráan nærbolinn. Hann andaði djúpt að sér og ég heyrði hvernig brakaði og marraði í lung- unum eins og loftstreymið færi í gegnum vökva. Það lék enginn vafi á því, að þessi maður var með lungnabjúg á sama hátt og hann var með bjúg á fótunum. Einkenni frá hjarta? — Hefurðu haft einhver einkenni frá hjarta? spurði ég og var farinn að hafa verulegar áhyggjur af þessum móða rukkara. — Já, sagði hann, ég fékk kransæðastíflu fyrir nokkrum árum, en það hefur verið í lagi síð- an. — Hefurðu verið á einhverjum lyfjum, spurði ég. — Nei, engum, en ég hef verið að fá verkjaköst fyrir brjóstið öðru hvoru á undanförnum mánuðum en ekki mátt vera að því að fara til læknis. Á síðustu vikum hef ég orðið svona móður og átt í vaxandi erfiðleikum með að komast í skóna mína vegna þessa helvítis bjúgs á fótunum. — Þetta er ekki nógu gott, sagði ég, þú verður að fara á spítala strax. — Það get ég ekki, sagði maðurinn, ég er ekki nærri búinn að rukka allt hverfið, eins og ég ætlaði mér að gera fyrir kvöldið. Þú verður að minnsta kosti að borga mér, bætti hann við, ég er búinn að eltast svo mikið við þig, þú ert aldrei heima. Ég borgaði reikn- inginn, hringdi á spítalann, þar sem bráðavaktin var, lagði kallinn inn og fór svo aftur að lesa bókina mína. Bjúgurinn farinn Nokkrum dögum seinna átti ég leið á spítalann og hitti þá móða inn- heimtumanninn á ganginum. — Blessaður, sagði hann, og þakkaði mér fyrir síðast. Ég ætlaði ekki að þekkja hann aftur og smástund rugl- aði ég honum saman við söguhetj- una úr bókinni sem ég var að lesa þegar hann kom. Hann leit svo miklu betur út en þegar ég sá hann síðast. — Hvernig líður? spurði ég. — Miklu betur, sagði hann, það er búið að gefa mér alveg ógrynni af bjúglyfjum og ég er búinn að pissa fleiri lítrum af vökva, enda er bjúg- urinn að mestu horfinn núna. Sjáðu bara! Hann dró upp náttbuxna- skálmina og það stóð heima, bjúgur- inn var mun minni. Við settumst niður og hann sagði mér sjúkrasög- una. Hjartalínuritið hafði sýnt, að hann hafði fengið aðra kransæða- stíflu. Þessi stífla til viðbótar þeirri, sem hann hafði fengið fyrir nokkr- um árum, hafði veikt hjartavöðvann svo mjög, að hann dældi ekki blóð- inu eins og hann átti að gera og þess vegna hafði bjúgurinn myndast. — Verður þetta alltaf svona? spurði hann. — Nei, sagði ég, hjartað skipt- ist í tvo helminga, vinstri og hægri. Þeir geta báðir bilað eða annar hvor. Þegar sá hægri bilar bólgna bláæðarnar út sem flytja blóð til hægri helmings hjartans og þá myndast bjúgur á fótum eða jafnvel í kviðnum og lifrinni. Slíkir sjúkling- ar þyngjast oft vegna vökvasöfnun- ar á fætur og í kvið. Annað aðal- einkenni hægri hjartabilunar er mikil þreyta. Þegar sá vinstri bilar safnast blóð fyrir í lungunum, þar sem hjartavöðvinn annar því ekki lengur að dæla súrefnismettuðu blóði frá þeim og út í líkamann. Þá myndast lungnabjúgur. Einkennin eru mæði við áreynslu, næturmæði og hósti. Algengast er þó að menn hafi bæði einkenni frá hægri og vinstri hjartahelmingi eins og þú hafðir. Orsakir hjartabilunar eru margvíslegar en algengastar eru há- þrýstingur, lokugallar, kransæða- sjúkdómar og bólgur i hjartavöðv- anum. Meöferö Meðferðin felst í því að minnka álagið á hjartavöðvann með hvíld, reyna síðan að auka samdráttar- hæfni hans, en það er gert með lyfj- um eins og Digitalis. Ráðist er gegn bjúgnum með bjúglyfjum eins og Lasix (Furosemið), og þannig reynt að létta á starfsemi hjartans með því að minnka vökvamagnið í líkamanum. Svo þarf oft að með- höndla sjúkdóminn sem veldur ein- kennunum, skipta um hjartalokur eða lagfæra gangtruflanir o.fl. Hjartastœrö Þorgeirs Hávarssonar — Svo sögðu þeir, þegar ég kom inn, að hjartað væri alltof stórt. Það þótti mér helvíti hart, sagði hann og kímdi. — Af hverju? spurði ég. Jú, það stendur í fornsögunum að hug- prúðra manna hjörtu séu minni en huglausra. Manstu ekki eftir því sem sagt var um Þorgeir Hávarsson; Þórarinn ofsi hjó höfuðið af Þorgeiri dauðum og tók svo úr honum hjart- að til að athuga hvernig það væri skapað hjá þessum manni sem hvorki kunni að skelfast við líf né dauða. Það stóð heima, sem menn héldu, hjartað í kappanum var óvenju lítið, enda var sagt til forna, að minna blóð væri í litlu hjarta en stóru og miklu hjartablóði fylgdi mikil hræðsla og ótti. Laxness segir síðan í Gerplu, að strákar á Grænlandi hafi soðið hjartað úr Þor- geiri í graut og étið til að efla með sér hreysti og aflsauka. Mér þótti því djöfullegt að heyra að ég væri með svona stórt hjarta, því ég hef aldrei talið mig huglausan. Hann snerist á hæli, alvarlegur í bragði, kastaði á mig kveðju og fór en sneri sér svo við og sagði stundarhátt: — Held- urðu að það sé hægt að minnka hjartað aftur? ÓTTAR GUÐMUNDSSON f kynlHsdálkurinn Bréf til kynlífsdálksins má skrifa undir dulnefni. Utanáskriftin er: PRESSAN— kynlífsdálkurinn, Ár- múla 36, 108 Reykjavík. Meðferð við pedófiliu Maðurinn sem var handtekinn í febrúar síðastliðnum þegar hann hafði lokkað sjö ára strák inn til sín er pedófíl — hann laðast kynferðis- lega að ungum drengjum. Þetta er glæpsamlegt athæfi og alls ekki við- urkennd kynhegðun í okkar þjóðfé- lagi — ekki frekar en annars konar kynferðislegt ofbeldi eins og sifja- spell og nauðganir. Rétt eftir að hann var handtekinn og færður í vörslu lögreglunnar komu upp háværar raddir um að hinn handtekna ætti að vana. Mig langar þess vegna að gera meðferð- arúrræði við pedófílíu að umfjöllun- arefni mínu í dag. Vönun er ekki mannúd- legasta medferdin Fórnarlömb kynferðisafbrota- manna upplifa mikla niðurlægingu og sjálfsvirðing þeirra bíður hnekki. Það er ofur skiljanlegt að tilfinning- ar eins og reiði og hefndarhugur í garð afbrotamannsins geti nær bor- ið aðstandendur ofurliði þegar þeir frétta að barn þeirra hafi orðið fyrir slíku athæfi. En líkt og fórnarlömb afbrotamanna eiga skilið að fá eins góða hjálp og völ er á til að græða sárin er nauðsynlegt að huga að mannúðlegum meðferðarúrræðum fyrir kynferðisafbrotamennina. Ég tel að ómannúðlegar aðferðir geti gert illt verra og geri engan að betri manni ef það á að kallast tilgangur meðferðar. Vönun er það kallað þegar eistun eru fjarlægð. Flestöil höfum við heyrt sögur af geldingum (menn sem hafa gengist undir vönun) sem höfðu þann starfa að gæta kvenna- búra. Vönun hefur verið þekkt í fleiri þúsund ár og tilgangur verið margvíslegur — andleg hreinsun, til að minnka kynhvötina og til að hækka röddina. Þaö er hœgt aö endurheimta kynhvötina Af níu hundruð Dönum sem voru vanaðir á árunum 1929—1959 héldu aðeins tíu uppteknum hætti og frömdu ný kynferðisafbrot. Þrátt fyrir að þetta virðist góður árancur fylgja margvísleg vandamál vönun sem meðferðarúrræði. Ef eistun eru fjarlægð fyrir kynþroska verður kynhvötin nær engin síðar, en ef karlmaður, sem orðinn er kyn- þroska, er vanaður getur kynhvötin í einhverjum mæli verið enn til stað- ar eftir aðgerðina. Sá vanaði getur líka keypt sér hormónalyf, annað- hvort löglega eða ólöglega, og end- urheimt fyrri kyngetu. Að auki er dálítið magn af andrógenhormón- um framleitt i nýrnahettunum þann- ig að viðkomandi hefur enn ein- hverja kynhvöt. Síðan getur sjálf vönunin valdið það lágu sjálfsáliti og þunglyndi að viðkomandi á það á hættu að fremja sjálfsmorð. Aðstandendur fórnar- lamba yrðu kannski ekkert ósáttir við þær afleiðingar vönunar, en tæpast er hægt að segja að aðgerðin sé mannúðleg. Líkt og okkur finnst varla að það að aflima glæpamenn í íran sé ákjósanlegasta leiðin til að bæta glæpamanninn og koma í veg fyrir frekari glæpi. Menntum heilbrigöisstéttir okkar Vönun hlýtur að teljast neyðarúr- ræði þeirra sem ekki hafa kynnt sér aðrar leiðir í meðferð við pedófílíu. Nú þekki ég ekki hvers konar með- ferð umræddur kynferðisafbrota- maður hlaut í fangelsinu í Sviþjóð. Nútímameðferð við pedófílíu er kostnaðarsöm og krefst þess að þeir sem hafa sérþekkingu í meðferð kynferðisafbrota taki hana að sér. Við höfum mikið af hæfu starfsfólki innan heilbrigðisstéttanna sem gæti vel kynnt sér nútímameðferðarúr- ræði. Að sjálfsögðu kostar það pen- inga, en þegar skoðaðir eru kostir þess að leggja í þau fjárútlát hlýtur að koma í ljós sparnaður á öðrum sviðum þegar til lengdar lætur, s.s. minni kostnaður við sálfræðimeð- ferð fórnarlamba og mun minna um að afbrotamenn þurfi að dvelja í fangelsi eða á geðdeild. í næsta pistli verða kynnt ný með- ferðarúrræði við pedófílíu.

x

Pressan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Pressan
https://timarit.is/publication/298

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.