Morgunblaðið - 19.06.2004, Blaðsíða 35
LISTIR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 19. JÚNÍ 2004 35
G
jörningaklúbburinn er, ásamt
Finnboga Péturssyni, fyrstu ís-
lensku listamennirnir sem sýna
verk sín hjá íslensku galleríi á
Art Basel í Sviss, mikilvægustu
listastefnu í heimi. Klúbburinn sýnir á þeim
hluta stefnunnar sem helgaður er ungum og
upprennandi listamönnum og voru þær valdar
úr á þriðja hundrað umsækjendum, en það er
gallerí i8 sem stendur að sýningu þeirra. Alls
17 listamenn eru kynntir á Art Statements.
Gjörningaklúbburinn átti möguleika á því
að vinna 25.000 franka verðlaun, svokölluð
Baloise-verðlaun, 1,5 milljónir íslenskra
króna, en svo fór þó að verðlaunin fóru til
breska listamannsins Tino Sehgal og Aleks-
andra Mir frá Póllandi. Verk Sehgal er mjög
sérstakt. Inni í básnum hans eru alltaf öllum
stundum staddir ýmsir galleristar að tala á
leikrænan hátt um hvað nútímamyndlist sé
frábær, og er verkið fullt af kaldhæðni og á að
vera einhvers konar ádeila á listheiminn. Bás-
inn er ómerktur, það er ekkert inni í honum
nema galleristarnir, og listamaðurinn vill eng-
ar ljósmyndir teknar af verkinu til birtingar.
Verk Aleksandra Mir er risastór regnhlíf sem
hún gengur með um göturnar og skýlir fólki
fyrir rigningunni.
Þær Eirún, Jóní og Sigrún, liðsmenn Gjörn-
ingaklúbbsins, og Finnbogi, eru reyndar ekki
einu íslensku listamennirnir sem kynntir eru í
Basel. Verk þeirra bræðra Sigurður og Krist-
jáns Guðmundssona eru á bás norska gallerís-
ins Gallery Riis og Ólafur Elíasson er á mála
hjá a.m.k. þremur galleríum á listastefnunni.
Þá sýnir Katrín Sigurðardóttir verk sín á hlið-
arsýningu Art Basel, Liste, hjá Gallerí Maze,
en þar kynna yngri og minna þekkt gallerí
sína starfsemi.
Liðsmenn Gjörningaklúbbsins segja að það
sé áhugavert að sjá berum augum við-
skiptalegu hliðina á myndlistarheiminum sem
sést hvergi betur en einmitt á listastefnunni í
Basel. „Fólk labbar um og prúttar um listina,
og karlar í skærgrænum buxum með úttroðin
veski punkta hjá sér verð eins og þeir væru að
labba um í risastórum stórmarkaði, sem þetta
auðvitað er,“ segja liðsmenn Gjörningaklúbbs-
ins. Það er mikill bissness í loftinu.
Dorothée Kirch, fulltrúi i8, sem sér um að
kynna verk Gjörningaklúbbsins og Finnboga
Péturssonar á Art Basel, segir að Gjörn-
ingaklúbburinn hafi fengið góðar viðtökur. Nú
þegar séu nokkur verkanna seld og viðræður
standi yfir um kaup á öðrum verkum lista-
mannanna. Þá sé fjöldi manns áhugasamur og
vilji frekari upplýsingar.
Liðsmenn Gjörningaklúbbsins segja að það
sé ómetanlegt að gallerí ákveði að kynna
þeirra list sérstaklega í heila viku á jafn mik-
ilvægum stað og Art Basel er. Fjöldi fólks
sem aldrei hefur séð list þeirra fær að kynn-
ast henni og út úr því geta komið margvísleg
ný tækifæri.
Almennt segja þær að á listastefnu eins og
Art Basel vilji myndlistin sjálf oft gleymast í
öllum látunum og máttur auðvaldsins tekur
yfir, eins og þær orða það. „En svo er hér fullt
af ástríðufullum söfnurum sem koma hingað
af einskærri ást á myndlist. Maður finnur líka
sterkt fyrir þessari taumlausu virðingu sem
margir bera fyrir myndlistinni og maður er
auðvitað mjög ánægður að finna að fólk kunni
að meta svo mikils það sem maður er að
gera.“
Úlfurinn vaknar til lífsins
Gjörningaklúbburinn framdi gjörning á
stéttinni fyrir framan aðal sýningarhöllina,
tvo daga í röð. Nokkuð af áhorfendum dreif að
til að virða hann fyrir sér og tóku síðan virkan
þátt í gjörningnum. Gjörningurinn hófst á því
að liðsmenn Gjörningaklúbbsins keyrðu sof-
andi mann inn í hjólastól, Úlf Grönvold mynd-
listarmann, sem var sérstaklega ferjaður út til
Basel til að taka þátt í gjörningnum. Þær
byrjuðu að raka hann og klæða upp eins og
sirkusstjóra, en smám saman missa þær
stjórnina á aðstæðum, maðurinn rís upp úr
hjólastólnum, grípur svipu og fer að stjórna
þeim eins og sirkusdýrum. Hann lætur þær
gera alls kyns kúnstir. Fyrir þetta heimtar
hann lófaklapp áhorfenda og smápeninga í
pípuhatt sinn. Þær Eirún, Jóní og Sigrún
segja að kannski passi svona gjörningur ekki
inn í það andrúmsloft sem ríkir í Basel, sem
gerir framkvæmdina því skemmtilegri. „Fólk
er líklega ekki að leita að gjörningi til að
kaupa,“ segja þær og brosa kankvíslega. Þær
segja þó að á Basel sé einnig tækifæri til að ná
athygli annars konar fólks úr myndlistarheim-
inum, sýningarstjóra og safnstjóra til dæmis.
Gjörningaklúbburinn hefur sýnt víða á síð-
ustu misserum og þekkja marga úr listheim-
inum. Hafa þær hitt marga kunningja sína á
stefnunni?
„Já, við þekkjum marga hér og tveir í Art
Statements eru góðir vinir okkar. Þetta er lít-
ill heimur, þetta er eins og árshátíð myndlist-
armanna og aðstandenda þeirra í heiminum.
En svo hittir maður hér fullt af fólki sem hef-
ur aldrei séð verkin okkar og það er mjög
skemmtilegt.“
Varðandi þátttöku Úlfs í gjörningi þeirra í
Basel og það hvort hann sé orðinn fjórði með-
limur klúbbsins, segja þær svo ekki vera,
hann sé einungis aukaleikari sem hafi verið
kallaður til en hafi lagt sitt af mörkum í hug-
myndavinnunni. „Við fáum oft fólk til að vinna
með okkur. Til dæmis vinnur Ólafur Björn
Ólafsson hljóðmyndina sem við notum í inn-
setningunni á sýningunni og Páll Stefánsson
ljósmyndari tók myndirnar af okkur. Svo má
ekki gleyma gallerí i8 sem við erum auðvitað í
nánu og stöðugu samstarfi við.“
Milli lífs og dauða
Verk Gjörningaklúbbsins á Art Statements
samanstendur af ljósmyndum sem teknar eru
á Krísuvíkursvæðinu á Íslandi, og verki á
gólfi, sem samanstendur af hrafni búnum til
úr nælonsokkum, hrafnsungum og hrafns-
eggjum í hreiðri búnu til úr lakkrís.
Ljósmyndirnar og höggmyndirnar eru allar
nátengdar, en seljast þó í sitthvoru lagi.
Í stórum dráttum eiga myndirnar rætur
sínar í kvikmyndahandriti Gjörningaklúbbsins
sem fjallaði um þrjár manneskjur á ferð úti í
auðninni. Þá kemur til sögunnar vondur mað-
ur, leikinn af Úlfi, sem keyrir yfir þær á bíl.
Þar með lenda þær á milli lífs og dauða og
þurfa að grípa til þess ráðs meðal annars að
skera vonda manninn upp og lækna hans illa
hjarta, til að þær sjálfar eigi möguleika á að
snúa aftur til lífsins.
Þær Eirún, Jóní og Sigrún segja að veran í
Basel einkennist einnig af miklum veisluhöld-
um sem ná hámarki í sérstakri veislu að
kvöldi 17. júní sem haldin er til heiðurs ís-
lensku þátttakendunum, en að henni standa
meðal annars Francesca Von Habsburg
stjórnandi TBA 21, Sigurjón Sighvatsson
kvikmyndaframleiðandi, Sam Keller, að-
alstjórnandi Art Basel, Simon De Pury upp-
boðshaldari og gallerí i8. Vandað er til veisl-
unnar og til dæmis kemur hljómsveitin
Trabant gagngert til Basel til að leika tónlist
sína, en Trabant vakti athygli Francescu Von
Habsburg þegar hljómsveitin lék í veislu á
Bessastöðum síðastliðinn vetur sem haldin var
vegna opnunar sýningar Ólafs Elíassonar
myndlistarmanns í Hafnarhúsinu í Reykjavík.
Hatursfélag eða ástarfélag?
Gjörningaklúbburinn var einn fjögurra
listamanna sem valdir voru úr þátttakendum
á Art Statements, sem þátt tók í sérstöku
listamannaspjalli á listastefnunni. Í spjallinu
kom meðal annars fram að klúbburinn hefur
hannað sitt eigið merki sem einn liðsmanna,
Jóní, er með flúrað á upphandlegg sinn og
gekk listamaðurinn um og sýndi áhorfendum
merkið, sem samanstendur af fjórum hjörtum,
á listaspjallinu. Markús Þór Andrésson, sem
staddur er á listastefnunni, tók að sér að flytja
stuttan inngang um list klúbbsins og þar kom
meðal annars fram að samstarf listamannanna
hófst árið 1996 og hefur því varað í 8 ár.
Reyndar varð kveikjan að samstarfi þeirra ár-
ið 1995 þegar þær stúlkur sóttu ráðstefnu í
Finnlandi og kynntust þar dönsku lista-
mannateymi, Superflex. Þær sögðust í spjall-
inu hafa heillast af kraftinum sem bjó í sam-
starfi þeirra og ákveðið að vinna sjálfar saman
í framtíðinni. Í inngangi Markúsar kom einnig
fram að umfjöllunarefni Gjörningaklúbbsins
er ást og hatur, sætleiki og ljótleiki meðal
annars en ástin sem vísað er til í ensku heiti
klúbbsins, „The Icelandic Love Corporation
(Íslenska ástarfélagið)“ vísar ekki endilega til
ástar milli manns og konu heldur almennt í
ástina í stóru samhengi, ást á lífinu, eins og
þær sjálfar vilja skýra það. Nafnið, The Ice-
landic Love Corporation, olli reyndar spyrl-
inum á listaspjallinu einhverjum heilabrotum
og spurði ítrekað um tilvísanir í ástina, hvar
þær væri að finna. Sagðist hann sjá meira af
hefnd en ást í verkunum, og vísaði þar í verkin
á sýningunni. „Þið ættuð kannski frekar að
heita „íslenska hefndarfélagið“,“ sagði spyrill-
inn og brosti og sagðist skynja ákveðið „Bad
Girls“-viðhorf í verkunum. Þá sagðist honum
finnast heimur þeirra barnalegur og sagðist
greina áhrif frá sjöunda áratugnum. Gjörn-
ingaklúbburinn tók ekki fyllilega undir við-
horf spyrilsins og sögðust vísa í almenna hluti
og nota myndlíkingar og tákn sem væru mjög
hrein og bein, sem gætu kannski virkað
barnaleg. „Hrafninn er ekki barnalegur, hann
er klár og sjálfbjarga.“ Þá sögðu þær að ástin
kæmi glögglega í ljós í hrafnaverkinu, þar
væri fjölskyldan saman komin með þeirri ást
sem því fylgir, og eggin væru tákn fyrir lífið.
Spyrillinn vildi að síðustu fá að vita um fram-
tíðarsýn listamannanna, ætla þær að vinna
alltaf saman sem hópur og þá hvernig?
„Einu sinni datt okkur í hug að fá 75 ára
gamlar konur til að framkvæma gjörning eftir
okkur til að sjá hvernig við komum til með að
líta út í framtíðinni,“ sögðu þær Eirún, Sigrún
og Jóní en að öðru leyti sögðu þær að ómögu-
legt væri fyrir þær að spá fyrir um framtíðina.
Ómetanlegt að fá slíka kynningu
Gjörningaklúbburinn tekur
þátt í Art Statements sem er
hluti af listastefnunni Art
Basel sem nú stendur yfir í
Sviss. Þóroddur Bjarnason
ræddi við þær Eirúnu, Jóní
og Sigrúnu um hrafnana,
úlfinn og menn í skær-
grænum skyrtum.
Morgunblaðið/Þóroddur
Frá gjörningi Gjörningaklúbbsins á Art Basel. Sirkusstjórinn er vaknaður til lífsins og stjórnar meðlimum klúbbsins eins og sirkusdýrum.
Stund milli stríða í Basel. Gjörningaklúbburinn: Jóní, Eirún og Sigrún.
tobj@mbl.is