Morgunblaðið - 13.09.2004, Blaðsíða 10
FRÉTTIR
10 MÁNUDAGUR 13. SEPTEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ
INNBROT í Reykjavík voru 12%
færri á fyrstu átta mánuðum ársins
en á sama tíma í fyrra. Lögregla
þakkar þetta að hluta til bættum
starfsháttum sínum en segir jafn-
framt ljóst að mun fleiri þættir hafi
áhrif á tíðni afbrota.
Í upphafi ársins setti lögregla sér
ýmis markmið og var eitt þeirra að
draga úr innbrotum um 20%. Meðal
þess sem átti að stuðla að fækkun var
að auka skipulagt eftirlit á merktum
og ómerktum lögreglufarartækjum.
Þá var ákveðið að taka upp mark-
vissa samvinnu við tryggingarfélög
og fjölmiðla.
Hinrik Pálsson, rannsóknarlög-
reglumaður og afbrotafræðingur,
var umsjónarmaður verkefnisins. Á
blaðamannafundi sagði hann að mikil
áhersla hefði verið lögð á bætta sam-
vinnu og upplýsingagjöf milli vakta
og deilda auk þess sem samvinna við
borgaryfirvöld og öryggisfyrirtæki
var aukin. Þá hefðu gagnagrunnar
lögreglu verið notaðir til að finna út í
hvaða hverfi afbrot væru tíðust
hverju sinni og eftirlit miðað við það.
Nú væri stefnt að því að vinna upp-
lýsingar úr tölvukerfi lögreglu yfir á
kortagrunn en með því móti yrði
auðveldara að greina „heit svæði“,
þ.e. hverfi þar sem innbrot eru tíð.
Seig á ógæfuhliðina í mars
Eins og áður sagði var stefnt að
20% fækkun innbrota. Horfurnar
voru bjartar í byrjun árs þegar inn-
brot voru allnokkuð færri en í fyrra.
Í mars og apríl seig á hinn bóginn
talsvert á ógæfuhliðina þegar inn-
brotum fjölgaði skyndilega á nýjan
leik. Þeim fækkaði síðan töluvert í
sumar og voru um þriðjungi fátíðari
en í fyrra.
Hinrik sagði að yfirleitt væri fá-
mennur hópur manna, harður kjarni,
ábyrgur fyrir flestum innbrotunum.
Í ár hefði lögregla lagt aukna áherslu
á að fylgjast með þekktum afbrota-
mönnum og þeir sem taldir væru
virkastir hverju sinni. Þetta hefði
gefið mjög góða raun.
Frá janúar til ágúst voru 162 ein-
staklingar kærðir fyrir innbrot, sum-
ir oftar en einu sinni. Innbrotsþjófar
eru yfirleitt karlkyns en aðeins 19
konur voru kærðar fyrir innbrot á
þessu tímabili. Ein kvennanna var þó
kærð í átta tilvikum, oftast allra inn-
brotsþjófa. Líkt og fyrr voru innbrot
í bifreiðar allt að helmingur allra inn-
brota. Hinrik sagði að þar væri
helsta sóknarfærið, með því að skilja
ekki verðmæti eftir í bílum sínum
gætu bíleigendur verulega minnkað
líkur á innbrotum.
Skilvirkari vinna en áður
Hinrik taldi að góður árangur
hefði orðið af þeim áherslum sem
settar voru í byrjun árs og taldi hann
vinnuna skilvirkari en fyrr. Lögregl-
an byggi einnig yfir betri upplýsing-
um og gæti gripið fyrr inn en áður.
Meiri og nýrri upplýsingar væru nú
tiltækar en áður og það leiddi til þess
að lögregla gæti gripið fyrr inn í ef
afbrotahrina væri í uppsiglingu. Hin-
rik segir ljóst að ýmislegt annað en
starf lögreglu hafi áhrif á fjölda af-
brota, m.a. skipti upplýsingar frá al-
menningi miklu máli.
KARL Steinar Valsson aðstoðar-
yfirlögregluþjónn sagði að flestir
þeirra sem handteknir eru fyrir
innbrot væru fíkniefnaneytendur
sem notuðu þýfið til að fjármagna
neysluna. Hljómflutningstæki og
tölvubúnaður væru vinsæl skipti-
mynt og þar gilti ákveðið gengi,
t.d. hefði lengi fengist eitt gramm
af amfetamíni fyrir bílageislaspil-
ara.
Spurður um hvort markmiðið
um 20% fækkun innbrota myndi
nást sagði Karl Steinar að það yrði
erfitt. Fram til þessa hefði lög-
regla einbeitt sér að innra skipu-
lagi og starfsháttum en hann
minnti á að borgararnir gætu lagt
mikið af mörkum með því að hafa
samband við lögreglu ef þeir teldu
að eitthvað misjafnt væri á seyði.
Þá yrði fólk að vera á varðbergi
gagnvart sölumönnum þýfis. „Það
er ekki eðlilegt ef manni stendur
til boða að kaupa nýja fartölvu á
50.000. Þá er eitthvað að.“
Annað markmið sem lögregla
setti sér var að draga úr umferð-
arslysum um 5%. Karl Steinar
sagði að því miður myndi þetta lík-
lega ekki nást, umferðin hefði ver-
ið sérlega erfið í sumar.
Gramm fyrir geislaspilara
Innbrotum í Reykjavík hefur fækkað um 12% á fyrstu átta mánuðum þessa árs
Eftirlit með þekkt-
um afbrotamönnum
gefur góða raun
Morgunblaðið/Júlíus
Hinrik Pálsson og Karl Steinar Valsson ræddu um forvarnir og innbrot.
„ÉG TEL að ýmsir sóknarmögu-
leikar séu fyrir hendi varðandi auk-
ið bleikjueldi á Íslandi, við höfum
víða góðar aðstæður og auknar
rannsóknir og kynbætur er varða
vaxtarhraða og kynþroska gefa
meiri möguleika á hraðari fram-
leiðslu. Ísland er stærsti bleikju-
framleiðandi í heimi í dag enda sam-
keppnisfærari í því en ýmsu öðru
fiskeldi,“ segir Friðrik Steinsson,
framleiðslustjóri Hólalax að Hólum í
Hjaltadal, í samtali við Morgun-
blaðið.
Fiskeldisfyrirtækið Hólalax var
stofnað 1979 og framleiddi fyrst ein-
göngu laxaseiði til sleppinga vegna
fiskiræktar í ám á Norðurlandi
vestra en stærstu hluthafar fyr-
irtækisins eru nokkur veiðifélög
þar. Uppúr 1991 hóf stöðin að fram-
leiða bleikju til slátrunar og er það
aðalstarfsemin í dag. Allt að 95%
bleikjunnar fara á erlendan markað,
einkum til Bandaríkjanna og Evr-
ópulanda. Einnig er framleiðsla á
bleikjuseiðum sem seld eru til mat-
fiskeldisstöðva.
Áfram eru framleidd laxaseiði til
sleppinga og stendur nú fyrir dyrum
að sækja klakfisk í ár. „Bleikjueldið
gefur okkur jafnar tekjur allt árið
enda erum við að slátra og vinna tvö
til þrjú tonn af bleikju í hverri viku
en tekjur af laxaseiðasölunni koma
einkum yfir sumarið svo þær eru
mjög árstíðabundnar,“ segir Frið-
rik.
Starfsemi á þremur stöðum
Starfsemi Hólalax fer fram bæði á
Hólum og í Fljótum. Á Hólum er ein-
göngu bleikjueldi en í Fljótunum eru
laxaseiðin alin. Þá fer vinnsla á
bleikjunni fram í aðstöðu sem Hóla-
lax hefur til afnota hjá Fiskiðjunni á
Sauðárkróki en fyrirtækið keypti
fyrir alllöngu hlut ríkisins í Hólalaxi.
Fimm manns starfa alls hjá fyr-
irtækinu. „Í svona rekstri er tvennt
einna mikilvægast, annars vegar
nægilegt rennandi kalt vatn og hins
vegar aðgangur að heitu vatni til að
hita kalda vatnið í 8 til 10 gráður
sem er kjörhitastig fyrir bleikjueldi.
Eldið gengur hægar fyrir sig í kald-
ara vatni en í svona rekstri eins og
flestum öðrum er mikilvægast að ná
sem mestum hraða í allri veltu.“
Bleikjueldið hjá Hólalaxi er ein-
göngu í ferskvatni og segir Friðrik
stöðina hafa verið lausa við sjúk-
dóma, ekki hafi þurft að koma til
bólusetningar á eldisfiski í stöðinni.
Nábýlið við Hóla í Hjaltadal hefur
að sögn Friðriks ýmsa kosti og nefn-
ir hann þar sérstaklega rannsókn-
irnar á kynbótum á bleikju. „Við
njótum góðs af því þar sem við get-
um stundum verið fyrri til að hag-
nýta okkur nýjar upplýsingar og
þekkingu sem þar verður til,“ segir
Friðrik.
Slátrað eftir 14 til
18 mánaða eldi
Hjá Hólalaxi eru framleidd milli
100 og 120 tonn af bleikju árlega og
er henni yfirleitt slátrað eftir 14 til
18 mánaða eldi, þegar hún er eitt til
tvö pund. Friðrik segir Evrópu-
markað ekki vilja mikið stærri en
kílós fisk en á markað í Bandaríkj-
unum er yfirleitt sendur fiskur sem
er um og yfir eitt kíló. Hann segir
fiskinn flakaðan og fluttan út fersk-
an með flugi en fiskurinn er unninn
og tilbúinn til útflutnings að kvöldi
sláturdags. Er honum þá ekið í flug í
Keflavík. Friðrik segir útflutninginn
hafa gengið vel síðustu misserin,
markaður hafi verið stöðugur og
verðið þokkalega hátt. Hólalax er
þriðji stærsti bleikjuframleiðandinn
hérlendis næst á eftir Silungi á
Vatnsleysuströnd og Silfurstjörn-
unni í Þingeyjarsýslu. Nokkrir
bændur stunda einnig bleikjueldi og
selja bæði á markað heima og heim-
an. Friðrik segir Kanada og Noreg
vera næst á eftir Íslandi í bleikju-
framleiðslu.
Friðrik segir til athugunar hjá
Hólalaxi hvort unnt sé að auka fram-
leiðsluna og gera hana enn hag-
kvæmari. Til að svo megi verða
þurfi að útvega meira heitt vatn eða
endurnýta vatnið en það þýði dæl-
ingu í hringrás sem bæði kosti fjár-
festingu og sé nokkuð dýr í rekstri.
Segir hann þessar hugmyndir allar á
frumstigi og vera vangaveltur til
framtíðar. „Ég er ágætlega bjart-
sýnn á bleikjueldið hjá okkur og hér-
lendis yfirleitt og tel nokkuð örugga
framtíð í því meðan gæðin sitja í fyr-
irrúmi og markaðsstarfið er í lagi,“
segir Friðrik Steinsson að lokum.
Morgunblaðið/jt
Friðrik Steinsson, framkvæmdastjóri Hólalax, hugar að fóðrinu.
Ýmsir sóknarmöguleikar
fyrir Íslendinga í bleikjueldi
Hólalax framleiðir 100 til 120 tonn af bleikju á ári sem fer aðallega á erlendan markað
KYNBÆTUR á bleikju fara fram í
tengslum við fiskeldisdeildina í Hóla-
skóla en unnið hefur verið að þessum
kynbótum í meira en 12 ár. Þeim
stýrir í dag Einar Svavarsson og ann-
ast skólinn kynbótaverkefnið sam-
kvæmt samningi við landbún-
aðarráðuneytið en stjórn verkefnisins
er skipuð fulltrúum ráðuneytisins,
bleikjuframleiðenda og Hólaskóla.
„Markmið kynbótanna er að rækta
hraðvaxta bleikjustofna til eldis og
seinka kynþroskanum en við kyn-
þroska missir fiskurinn holdlit og
horast og verður ekki lengur góð
söluvara,“ segir Einar í samtali við
Morgunblaðið.
Kynbætur hófust með samanburði
á stofnum úr nokkrum ám og vötnum
árið 1989 og stóðu þær til 1992. Þá
var ákveðið að kynbæta tvo stofna,
ljósan stofn að mestu úr Ölvesvatni á
Skagaheiði og dökkan stofn úr Gren-
læk í Landbroti, Litluá í Kelduhverfi
og fleiri ám. Er stofnunum haldið að-
skildum við kynbæturnar.
Stærstu fiskarnir í úrvalið
Einar segir að í stuttu máli gangi
kynbæturnar þannig fyrir sig að úr
hópi 5 þúsund fiska séu valdar um 170
hrygnur og 60–70 hængar til undan-
eldis á ári. Aðeins stærstu fiskarnir
komast í úrvalið og úr þeim úrvals-
fiski eru myndaðar um 170 fjöl-
skyldur. Úrtak úr hverjum systk-
inahópi er síðan alið áfram í
kynbótastöðinni og fiskum úr sömu
hópunum jafnframt komið fyrir í
tveimur öðrum fiskeldisstöðvum, Silf-
urstjörnunni og Glæði, til að kanna
hvort ólík uppvaxtarskilyrði hafi
áhrif. Við tveggja ára aldur eru allir
fiskarnir þyngdar- og lengdarmældir
og kynþroski skráður og eru þessar
mælingar grundvöllur einkunnar til
að velja úr fiska til undaneldis.
Einar segir alltaf talsverðan mun á
vexti fiska í svo stórum hópi og
byggjast kynbæturnar á því að velja
til undaneldis þá einstaklinga sem
vaxa hraðast og verða ekki kyn-
þroska fyrr en við þriggja ára aldur.
Núna í haust verður úrval 5. kyn-
slóðar notað til undaneldis. Hann seg-
ir að árangur megi m.a. meta út frá
því að fyrst hafi milli 20 og 30% fiska
orðið kynþroska of snemma en nú séu
það innan við 5%. Segir hann fiskinn
nú yfirleitt ekki ná kynþroska fyrr en
eftir þrjú ár og hluti hans ekki fyrr en
eftir fjögur ár. Einnig segir hann
meðalþyngd tveggja ára fiska hafa
aukist verulega.
Hyggjast leita uppi erfðavísa
Síðasti hlekkurinn í starfseminni
er síðan sala hrogna frá þessum hæf-
ustu fjölskyldum og segir Einar
flesta bleikjuframleiðendur nú kaupa
hrogn af kynbótastöðinni. En hvenær
verður kynbótunum lokið? „Kynbæt-
ur eru í sjálfu sér eilífðarverkefni og
meðan bleikjueldi fer fram í landinu
munum við stunda kynbætur. Þær
munu áfram snúast um vaxtarhrað-
ann og kynþroskann en menn hafa
líka verið að gefa gaum að sjálfu fisk-
holdinu, hvort fiskurinn sé of feitur
eða slíkt en markaðurinn hefur samt
ekki kvartað yfir því. Það má geta
þess að kynbótaverkefnið hefur verið
undirstaða ýmissa annarra rann-
sókna á bleikju. Núna í haust fer t.d.
af stað rannsókn, í samstarfi við kan-
adíska vísindamenn, þar sem þess
verður freistað að leita uppi einstaka
erfðavísa sem hafa afgerandi áhrif á
vaxtarhraða og kynþroskaaldur.“
Rækta hraðvaxta
bleikjustofna
Morgunblaðið/jt
Einar Svavarsson (t.h.) og Jóhann
Gestsson eru hér við föturnar sem
seiðin eru alin í fyrstu mánuðina.