Morgunblaðið - 17.01.2005, Blaðsíða 26
26 MÁNUDAGUR 17. JANÚAR 2005 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
kvartaði aldrei og var jafnan tilbúinn
til að slá á léttari strengi með bros á
vör. Á Skógarbæ naut hann frábærr-
ar umönnunar og var það hollt sál-
artetrinu og lyfti geðinu, að fylgjast
með þeirri einstöku umönnun og þol-
inmæði sem starfsfólkið sýndi vist-
mönnum heimilisins. Verður því úr-
valsliði seint fullþakkað fyrir þeirra
óeigingjarna og krefjandi starf.
Kvaddur er góður vinur, Hreinn
Benediktsson. Minningin um góðan
dreng og vammlausan mun ávallt lifa
með okkur sem enn erum eftir hérna
megin móðunnar miklu.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum.)
Sigurður Jónsson.
Dr. Hreinn Benediktsson prófess-
or var einn fremsti málvísindamaður
íslenskur fyrr og síðar. Auk þess var
hann framúrskarandi kennari og
braut blaði í málfræðikennslu við
Háskóla Íslands á sínum tíma sem
fyrsti samanburðarmálfræðingur Ís-
lendinga. Hreinn Benediktsson lauk
stúdentsprófi frá Menntaskólanum á
Akureyri 1946 með hæstu einkunn,
aðeins 17 ára að aldri, kenndi einn
vetur íslensku og ensku við sinn
gamla skóla, en hélt þá til náms í
samanburðarmálfræði í Ósló og síð-
an í París og lauk magistersprófi í
samanburðarmálfræði frá Óslóarhá-
skóla 1954 með latínu og hljóðfræði
sem aukagreinar. Eftir það stundaði
hann framhaldsnám í germanskri
samanburðarmálfræði í Þýskalandi
og við Harvard þar sem hann lauk
doktorsprófi 1958, tæplega þrítugur
að aldri. Sama ár var hann prófessor
í íslenskri málfræði við Háskóla Ís-
lands, en áður hafði hann verið ís-
lenskur sendikennari í Ósló og
Björgvin.
Meginrannsóknarefni Hreins
Benediktssonar var sérhljóðakerfi
íslenskrar tungu, einkum sérhljóða-
kerfi fornmáls, og fjallaði doktorsrit-
gerð hans um það efni. Auk þess
fjallaði hann í ritgerðum um þróun
sérhljóða í öðrum germönskum og
indóevrópskum málum. Eitt merk-
asta starf hans tengdist „Fyrstu mál-
fræðiritgerð Snorra Eddu“, sem svo
hefur verið nefnd, en sú ritgerð
fjallar um hljóðfræði og stafróf ís-
lenskrar tungu á 12tu öld og er eftir
óþekktan Íslending, sem kallaður
hefur verið fyrsti málfræðingurinn,
og er ritgerðin aðeins varðveitt í einu
handriti, Ormsbók, sem varðveitt er í
Kaupmannahöfn. Hreinn Benedikts-
son gaf út Fyrstu málfræðiritgerðina
orðrétta og stafrétta árið 1972 og er
það einkar vandað verk og gagnlegt
þeim sem um slíkt mál fjalla.
Ekki er unnt að gera grein fyrir
vísindastörfum og útgáfum Hreins
Benediktssonar hér, en þó verð ég að
minnast einu orði á útgáfu hans á ís-
lenskum handritabrotum frá 12tu og
13du öld frá 1965, en í þessari útgáfa
er að finna ómetanlegar upplýsingar
og leiðbeiningar um einkenni og þró-
un máls og skriftar í elstu handritum
íslenskum.
Við nám mitt í málfræði við Há-
skóla Íslands naut ég frábærrar
kennslu Hreins Benediktssonar og
við ritun magistersritgerðar minnar
um íslensk málfræðiheiti miðalda
naut ég þekkingar hans og glögg-
skyggni. Fyrir það vil ég þakka svo
og fyrir samstarf og vináttu lengi síð-
an.
Það er ekki mikill hávaði kringum
vísindamenn á sviði hugvísinda og
sumir fremstu menn á því sviði eru
almenningi ókunnir. Fyrir allmörg-
um árum spurði blaðamaður DV mig
um það, hvort nokkuð hefði orðið úr
dúxum frá Menntaskólanum á Akur-
eyri. Ég spurði blaðamanninn á móti,
við hvað hann ætti með þessum orð-
um, hvort hann ætti við, að dúxarnir
hefðu orðið frægir í fjölmiðlum eða
auðugir að fé eða hvort þeir hefðu
unnið afrek á sviði vísinda, og svo
spurði ég hann, hvort hann þekkti til
þriggja dúxa frá Menntaskólanum á
Akureyri: doktors Sigurðar Helga-
sonar, prófessors í stærðfræði við
MIT, doktors Hreins Benediktsson-
ar, prófessors í íslenskri málfræði við
Háskóla Íslands, og doktors Jóhanns
Páls Árnasonar, prófessors í fé-
lagsfræði í Melbourne í Ástralíu.
Engan þessara manna hafði blaða-
maðurinn heyrt nefndan á nafn, og
voru þeir þó allir afburðamenn á sínu
sviði og höfðu ávaxtað vel sitt pund.
Nú kveður einn þessara „óþekktu“
afreksmanna. Blessuð sé minning
Hreins Benediktssonar prófessors.
Tryggvi Gíslason.
Fyrir mér var Hreinn Benedikts-
son alltaf „Frændi“ og ég kallaði
hann aldrei annað en það. Meðal vina
var ég oft spurð að því hvaða frændi
þetta væri eiginlega sem ég talaði
svo oft um en nefndi aldrei með nafni.
Þetta smitaðist yfir á börnin mín
þegar þau voru lítil en lengi vel vissu
þau ekki hvað hann hét heldur köll-
uðu hann alltaf Frænda eins og ég.
Minningarnar streyma fram nú
þegar frændi minn, sem var stóri
bróðir móður minnar heitinnar, er
fallinn frá.
Frændi lék alltaf stórt hlutverk í
mínu lífi alveg frá því ég man fyrst
eftir mér á Aragötunni, sem var mitt
annað heimili af og til fram yfir þrí-
tugt. Ég bjó í kjallaranum frá 2 ára
aldri fram til 9 ára og afi, amma og
frændi bjuggu sitt í hvorri íbúðinni á
efri hæðinni. Ef ég var eitthvað
óhress með foreldra mína þá lá
flóttaleiðin mín alltaf beint upp til
ömmu að borða nýbakað fransk-
brauð með sykri og smjöri og þá
brást heldur aldrei ísskápurinn hjá
frænda sem var alltaf fullur af app-
elsíni, kók og Sinalco. Ég var einnig
mikill aðdáandi framhaldsleikrit-
anna hér forðum sem voru á fimmtu-
dagskvöldum. Ég var of ung til að fá
að vaka þessi kvöld en þá kom frændi
mér til hjálpar og tók bara þættina
upp á segulband fyrir mig svo ég
gæti spilað þá seinna.
Á hverju ári þegar líða tók að jól-
um sýndi frændi í sér stríðnispúkann
sem bjó undir yfirveguðu jafnaðar-
geði fræðimannsins. Þegar ég gekk á
hann og spurði hvað ég fengi í jóla-
gjöf var svarið ávallt „eldspýtur“.
Það var sama hvað ég æsti mig. Ekki
breyttist svarið hjá frænda. Hann
bara hló og hló meira eftir því sem ég
gekk harðar eftir almennilegu svari.
Svo á aðfangadag reyndist vegleg-
asta jólagjöfin yfirleitt vera frá hon-
um. Ég hef oft hugsað aftur til þess-
ara æskudaga minna með frænda og
hve þolinmóður og óþreytandi hann
var. Tvö saman fórum við í óteljandi
ís-, pylsu- og appelsínbíltúra í flotta
Chevrolettinum hans afa og þó við
byggjum vestur í bæ þá var það topp-
urinn að fara í „vængjasjoppuna“ í
Mosfellsbæ.
Frændi elskaði alla tíð að keyra og
ferðast og lét sig ekki muna um það
að aka hundruð kílómetra á áfanga-
stað og til baka. Þetta þótti honum
álíka mikið mál öðrum að aka til og
frá vinnu. Þegar ég var 9 ára gömul
flutti ég til Vínarborgar með foreldr-
um mínum. Ekki leið á löngu þar til
frændi boðaði komu sína og auðvitað
kom hann akandi alla leið frá Kaup-
mannahöfn til systur sinnar sem oft
kallaði hann Renna. Frændi var
sjaldnast búinn að taka upp úr tösk-
unum þegar ég var búin að plata
hann til að koma með mér í Prater
sem er tívolí Vínarborgar og það var
ekki farið heim fyrr en ég hafði dreg-
ið hann með mér í öll tækin í tívolíinu.
Eftirminnilegasti „bíltúrinn“ hans
mun þó vera frá þeim tíma er ég bjó í
Oregon með manni og barni. Frændi,
sem var á ferðalagi, ákvað að koma
okkur á óvart og heimsækja okkur.
Því miður höfðum við ákveðið að
gera slíkt hið sama á nákvæmlega
sama tíma og heimsækja hann í San
Francisco. Þegar þangað kom var
okkur var sagt að frændi hefði farið
fyrr um daginn í ferðalag og héldum
við því heim á leið svekkt yfir að
missa af honum. Þegar heim var
komið eftir 11 tíma akstur sáum við
miða á hurðinni sem á stóð „Ætlaði
að heimsækja ykkur en enginn var
heima. Ég skýst til Los Angeles og
hringi svo.“ Svona var frændi. Búinn
að keyra í 11 tíma frá San Francisco
og skrapp svo í 22 tíma akstur í við-
bót til Los Angeles eins og ekkert
væri. Flestir hefðu talið þetta nægan
akstur í bili en mikið hló hann að
svipnum á okkur þegar hann birtist
svo aftur í dyragættinni, kátur og
hress, degi seinna eftir að hafa heim-
sótt borg englanna.
Síðasta ár mitt í menntaskóla flutti
ég enn og aftur í Aragötuna og þá var
það frændi sem var eins og minn
einkaþjónn enn á ný. Hann sá um að
ég vaknaði á réttum tíma á hverjum
morgni í skólann, en frændi var ár-
risull maður og var yfirleitt vaknaður
milli 5 og 6 á morgnana. Þegar ég svo
birtist syfjuleg í eldhúsinu brást það
ekki að búið var að elda beikon og
egg, rista brauð með sultu og hita te
og allt snyrtilega framreitt eins og á
besta hóteli.
Árið 1984 fluttum við frá Oregon
með elstu dóttur okkar í kjallarann á
Aragötunni. Þá var það ósjaldan sem
frændi var settur í barnapíuhlut-
verkið en dóttir okkar tók þessum
nýja umburðalynda vini sínum opn-
um örmum. Reyndar hafði ég mjög
gaman af því að sjá dóttur okkar taka
upp sömu siði og mér hafði þótt svo
vænt um en líkt og ég þá minnist hún
enn sagnanna sem frændi átti á spól-
um og spilaði fyrir hana, svo ekki sé
minnst á kókómjólkina og súkku-
laðikexið með myntukreminu sem
alltaf var til staðar.
Það voru erfiðar stundir þegar
Parkinsonveikin fór að taka frá hon-
um kraft og það sem hann hafði
mesta ánægju af, bíltúrana, göng-
urnar og ferðalögin. Aldrei heyrði ég
hann þó kvarta yfir einu eða neinu
nema þá helst að komast ekki sjálfur
út í búð til að kaupa jólagjafirnar.
Svona hugsaði hann. Svona maður
var hann.
Elsku Frændi. Nú ertu frjáls frá
veikindunum, nú skaltu ferðast.
Fríða Sigurðardóttir.
Prófessor Hreinn Benediktsson
starfaði nánast allan sinn starfsaldur
við heimspekideild Háskóla Íslands.
Hann var aðeins þrítugur að aldri
þegar hann varð prófessor við deild-
ina og hafði þó numið fræði sín víða
um lönd. Hann hófst þegar handa um
að efla fræðasvið sitt en hafði einnig
mikinn áhuga á skipulagi heimspeki-
deildar og stjórn háskólans í heild. Í
deildarforsetatíð hans, og mest fyrir
hans frumkvæði, var BA-nám og BA-
próf tekið upp í öllum greinum við
heimspekideild í stað fyrrihluta-
prófsins gamla sem var aðeins
áfangapróf. Á þeim grunni var svo
framhaldsnám í ákveðnum greinum
endurskipulagt. Hreinn átti einnig
frumkvæðið að því að komið var á
rannsóknastofnunum við heimspeki-
deild því fyrirmynd þeirra varð sú
stofnun er hann kom á fót árið 1972,
Rannsóknastofnun í norrænum mál-
vísindum. Hreinn var einnig allra
manna fróðastur um reglur, reglu-
gerðir og lög sem vörðuðu deildina
og háskólann og mun margur deild-
arforsetinn og skrifstofustjórinn
hafa leitað til hans um ráð og fróðleik
á því sviði.
Með fræðastarfi sínu og stjórnun-
arstörfum lagði Hreinn grunninn að
margvíslegu starfi sem nú er unnið á
vegum hugvísindadeildar Háskóla
Íslands, eins og deildin nefnist nú.
Deildin þakkar honum vel unnin
störf og vottar aðstandendum inni-
lega samúð.
Oddný G. Sverrisdóttir,
forseti hugvísindadeildar.
Hreinn Benediktsson prófessor,
sem nú er fallinn í valinn, var höf-
uðskörungur íslenskrar málfræði og
tímamótamaður. Hann fékk hægt
andlát í svefni aðfaranótt 7. janúar sl.
og hafði þá átt við vanheilsu að stríða
mörg undanfarin ár.
Við kynntumst fyrst sem ungling-
ar í menntaskóla. Síðar urðum við
samverkamenn í Háskóla Íslands og
áttum þá um skeið mjög nána sam-
vinnu. Margar af bestu minningum
mínum frá starfsárunum á ég frá
þeim tíma og samverustundum með
Hreini. Það var nautn að blanda við
hann geði á góðum stundum.
Við fráfall Hreins vakna margar
minningar. Hann kom barnungur
austan af Eskifirði í Menntaskólann
á Akureyri og tók gagnfræðapróf
1943, aðeins 14 ára. Þá um vorið var
ég að taka inntökupróf í skólann,
ófermdur. Um haustið hóf hann nám
í lærdómsdeild en ég í 1. bekk. Þarna
var langur vegur á milli. Við kynnt-
umst því ekki fyrr en síðar, en fljót-
lega vissu allir í skólanum hver
Hreinn var. Hann var talinn undra-
barn. Í latínu fékk hann aldrei lægri
einkunn en 8 (hæstu einkunn á
Örsteds-stiga), alla þrjá veturna til
stúdentsprófs, hvort sem það var
vetrareinkunn eða prófeinkunn
kennara eða prófdómara. Slíkt var
einsdæmi. Frammistaða hans á stúd-
entsprófi var líka einstök í máladeild.
Hann var þá 17 ára.
Auðvitað vissum við hvor af öðrum
í skóla þótt við þekktumst ekki bein-
línis, en ég hygg að fundum okkar
hafi ekki borið saman fyrr en um það
leyti sem hann var að ljúka stúdents-
prófi og veturinn þar á eftir þegar
hann var stundakennari í skólanum.
Eftir stúdentspróf, að loknu þessu
eina kennsluári á Akureyri, hélt
Hreinn til náms í samanburðarmál-
fræði í Ósló, og þar hygg ég að Hall-
dór Halldórsson, íslenskukennari
okkar beggja fyrir norðan, hafi verið
með í ráðum. Enginn Íslendingur
hafði áður lokið háskólaprófi í sam-
anburðarmálfræði enda ekki á hvers
manns færi. Til þessa náms hlaut
Hreinn fjögurra ára styrk, stóra
styrkinn, sem svo var stundum
nefndur, og nýtti hann vel.
Hreinn lauk meistaraprófi í sam-
anburðarmálfræði í Ósló 1954 og
hafði þá jafnframt verið einn vetur
við nám í Sorbonne í París. Eftir
þetta hélt hann til framhaldsnáms í
Þýskalandi, sneri síðan í vesturátt og
lauk doktorsprófi í málvísindum frá
Harvard 1958 undir handleiðslu
Romans Jakobsons. Á þessum náms-
árum var hann einn vetur sendikenn-
ari í íslensku í Ósló og Björgvin.
Þegar Hreinn Benediktsson kom
heim frá námi 1958 var hann fulltygj-
aður til að taka við prófessorsemb-
ætti af Alexander Jóhannessyni, að-
eins þrítugur að aldri. Mátti segja
um hann líkt og sagt var forðum um
Pál biskup, að trautt voru dæmi til að
nokkur maður hefði áður jafnmikið
nám numið.
Með Hreini barst hingað nýr hugs-
unarháttur í málvísindum, formgerð-
arstefnan, sem svo er nefnd, og var
þá í hávegum höfð vestan hafs, en lít-
ill gaumur gefinn í Norðvestur-Evr-
ópu allt fram yfir 1960. Menn lærðu
að gera mun á sögulegri málfræði og
samtímalegri málgreiningu, sem var
bandarískum málvísindamönnum
hugstæð. Sjálfur lagði Hreinn stund
á sögulega málfræði. Doktorsritgerð
hans fjallaði um sérhljóðakerfið
forna og þróun þess, og íslensk mál-
saga varð síðan aðalviðfangsefni
hans, einkum saga hljóðkerfisins.
Auk fjölda ritgerða í tímaritum, þar á
meðal í Íslenzkri tungu, sem byrjaði
að koma út 1959 og hann ritstýrði í 6
ár, tók hann saman sýnisbók ís-
lenskra miðaldahandrita með mjög
vönduðum inngangi um þróun ís-
lenskrar skriftar á miðöldum og
vensl stafa og málhljóða. Þá bjó hann
undir útgáfu „Fyrstu málfræðirit-
gerðina“, eitt merkasta miðaldaverk
okkar Íslendinga. Henni fylgdi mikill
og lærður inngangur ásamt texta-
skýringum.
Hreinn var bæði fljótur og vand-
virkur, og afköst hans voru ótrúleg.
Þegar mest gekk undan honum sagði
ég einu sinni við hann að ég hefði
ekki undan að lesa það sem hann
skrifaði, og það voru litlar ýkjur.
Í stjórnsýslunni lét hann ekki síð-
ur til sín taka. Hann var forseti heim-
spekideildar 1963–65 og beitti sér þá
fyrir endurskipulagningu á öllu námi
deildarinnar. Hennar gætti mest í
námi til BA-prófs, einkum í íslensku.
Sú umbylting hafði djúptæk áhrif og
var ekki sársaukalaus. Hið nýja fyr-
irkomulag krafðist meiri kennslu-
krafta en áður, og voru þegar í stað
stofnaðar tvær nýjar lektorsstöður í
íslensku 1965 og urðu fleiri síðar. Ég
fékk aðra þeirra en hafði verið
stundakennari áður. Við þetta jukust
samskipti okkar Hreins.
Aðra mikilsverða breytingu vil ég
nefna sem Hreinn hafði forgöngu um
1969. Hann tók sig þá til og samdi
frumvarp til reglugerðar um rann-
sóknastofnun á vegum heimspeki-
deildar. Slíkar stofnanir innan deilda
voru þá ekki til í Háskóla Íslands. Í
framhaldi af því var sett á fót Rann-
sóknastofnun í norrænum málvísind-
um (nú Málvísindastofnun Háskól-
ans), sem hann veitti forstöðu fyrstu
árin (1972–74), en ég var stjórnarfor-
maður. Fyrsta ritið sem þessi nýja
stofnun gaf út var „Fyrsta málfræði-
ritgerðin“ með inngangi og skýring-
um Hreins. Honum var metnaðarmál
að stofnunin gæfi bókina út, en það
var mikið átak og kostaði okkur báða
mikla vinnu og baráttu. Fjárveiting-
ar voru brigðular og allt stóð tæpt, en
við unnum náið saman.
Eitt atvik er mér sérstaklega
minnisstætt frá þessu skeiði. Þegar
ég hafði lesið verk Hreins í handriti
kom hann heim til mín að kvöldi dags
til að ræða um athugasemdir. Ég átti
þá heima efst í Árbæjarhverfi í út-
jaðri Reykjavíkur. Við sátum og
spjölluðum saman tveir einir allt
kvöldið og alla nóttina uns dagur
rann og fram á bjartan morgun. Við
ræddum um gömlu málfræðiritgerð-
ina og þá nýju sem Hreinn hafði nú
bætt við og síðan um allt milli himins
og jarðar. Við toguðumst á um álita-
mál í hinum forna texta, rétt til að
reyna á röksemdirnar. Þannig var
það jafnan í okkar samskiptum að vel
fór á með okkur, þótt við værum ekki
á sama máli um allt. Þegar við kvödd-
umst bjóst ég ekki við að sjá hann
aftur næsta sólarhring, en eftir svo
sem klukkustund er dyra kvatt, og er
þar kominn Hreinn Benediktsson.
Hann hafði þá farið rakleitt niður í
menntamálaráðuneyti, ósofinn og
órakaður, til að reka erindi og fengið
góðar fréttir sem komu mér við og
hann vildi segja mér í eigin persónu.
Annars var það háttur Hreins að
hann var kominn á fætur fyrir allar
aldir á morgnana og búinn að vinna
gott dagsverk þegar aðrir komu til
vinnu. Hann lagði sig allan og óskipt-
an í það sem hann tók sér fyrir hend-
ur og var líka kröfuharður við þá sem
með honum störfuðu eða við hann
skiptu. Það fékk ég að reyna. Þetta
voru líka umbrotatímar og uppreisn-
arandi í stúdentum, en verst var að
þurfa að berjast við samkennara sína
um fjárveitingar til rannsókna.
Eins og títt er um gáfumenn var
Hreinn viðkvæmur og auðsærður og
gat verið þver og ósveigjanlegur. Ef
hann taldi sér misboðið eða skuld-
bindingar hafa brugðist sigldi hann
málum frekar í strand en una því. En
stundum var erfitt að átta sig á við-
brögðum hans. Í hversdagsháttum
var hann hæglátur og óáleitinn, gaf
sig lítt að öðrum að fyrra bragði og
var oft þurr á manninn og fálátur.
Hann var einfari.
Síðari hluta starfsævinnar fluttist
ég á annan vettvang, og við áttum lít-
ið saman að sælda. En aldrei stóð svo
á að hann væri ekki til viðræðu um
mál og málfræði. Stundum hringdi
hann að fyrra bragði en kynnti sig
aldrei í síma þótt margir mánuðir eða
misseri liðu á milli samtala. Honum
nægði að segja „blessaður“ á sinn
sérstaka hátt.
Þegar ég heimsótti hann á sjúkra-
heimilinu þar sem hann dvaldist síð-
ast var hann farinn að heilsu. Honum
féll verst að geta ekki lengur skrifað,
geta engu komið frá sér. Hann átti
orðið bágt með að tala skýrt, en
hugsunin var skýr og minnið virtist
óskert. Gamanmálum tók hann sem
jafnan fyrr og ljómaði allur þegar
honum var skemmt. „Ertu ekki full-
ur af málfræði?“ sagði ég við hann.
„Jú,“ sagði hann. Svo fórum við að
tala um málfræði eins og í gamla
daga, um sérhæft atriði sem mig
langaði að bera undir hann. Allt var á
sínum stað.
Hreini Benediktssyni á ég þökk að
gjalda fyrir alla þá fræðslu sem hann
veitti mér og stuðning í starfi. Mér
þykir vænt um að hafa verið honum
samtíða og notið trúnaðar hans og
vináttu. Ég hefi aðeins drepið á fátt
eitt úr okkar góðu kynnum. Flest er
ósagt um hann og verk hans. En
minning hans mun lifa.
Baldur Jónsson.
Fleiri minningargreinar
um Hrein Benediktsson bíða birt-
ingar og munu birtast í blaðinu
næstu daga. Höfundar eru:
Höskuldur Þráinsson, Jón G. Frið-
jónsson, Haraldur Bernharðsson,
Ármann Jakobsson.
HREINN BENEDIKTSSON