Morgunblaðið - 19.01.2005, Síða 20
20 MIÐVIKUDAGUR 19. JANÚAR 2005 MORGUNBLAÐIÐ
MENNING
Á SKÓLAÁRUM mínum man ég sérstaklega
eftir því að hafa fundist mikið til um skúlptúr
einn eftir Rosemarie Trockel, verk í naum-
hyggjustíl sem þó var unnið á allt öðrum for-
sendum en verk fyrirrennaranna, naumhyggju-
karlanna. Hér á ég við veggplötuna með
eldavélarhellunum þar sem kristallast nokkrir
þættir í list Rosemarie Trockel, launfyndin en
áleitin nálgun hennar við feminísk málefni, til-
vitnanir í listasöguna – hér nýliðna, og sterk og
eftirminnileg sjónræn framsetning í takt við
fagurfræði og áherslur samtímans. Ég hefði
varla trúað því að um tuttugu árum síðar ætti
ég eftir að fara að skoða þetta verk með eigin
augum uppi í Gerðubergi af öllum stöðum! En
sú er nú einmitt raunin og Gerðuberg skýtur
hér stærri og meiri sýningarsölum borgarinnar
ref fyrir rass með því að koma með dágóða sýn-
ingu á verkum þessarar dugmiklu þýsku lista-
konu sem síðan á níunda áratugnum hefur verið
í framlínusveit þýskrar samtímalistar, hefur
m.a. verið fulltrúi Þýskalands á Feneyjatvíær-
ingnum og unnið verk fyrir Dokumenta-
sýninguna stóru sem er á fjögurra ára fresti og
tekur púlsinn á alþjóðavísu.
Rosemarie Trockel vinnur á mjög skemmti-
legan hátt úr hversdagslegu og iðulega kven-
legu umhverfi, hún hefur unnið í marga miðla
gegnum tíðina en hefur í seinni tíð einbeitt sér
að myndböndum. Einn af stærri skúlptúrum
hennar má sjá í Gerðubergi, Málningarvél frá
1990, þar sem hún fjallar á írónískan hátt um
dýrkun samtímans á málurum og handverkinu.
Hér eru málverkin gerð vélrænt, með penslum
sem nota sumir langa lokka úr kvenmannshári,
en Trockel er það sérlega lagið að koma mál-
efnum eins og feminisma að í verkum sínum
með því að gefa þau í skyn frekar en að sýna
hlutina bókstaflega og verk hennar búa iðulega
yfir blöndu af leiftrandi húmor og djúpri ljóð-
rænni tilfinningu. Í Gerðubergi er fjöldi verka,
þau sem þegar hafa verið nefnd auk teikninga,
málverka, ljósmynda, ofinna veggverka, prjóna-
verka og myndbanda og um að ræða ágætis yf-
irlitssýningu á ferli listakonunnar.
Jafnréttismál og hlutverk konunnar eru í
brennidepli í vefnaði með tuskumynstri og
vélprjónuðum verkum með mótífum sem minna
á yfirborðinu á blekklessur Rocharch-prófs en
sýna þegar betur er að gáð þekkjanleg fyr-
irbæri úr samtímanum, verk á svipuðum nótum
og eldavélarhellurnar. Teikningar Trockel virð-
ast margar undir áhrifum frá súrrealisma og
fela í sér bæði ljóðræna sýn og samfélagsádeilu,
en auk þess eru mótíf hennar mörg klassísk.
Ljósmyndin af ungu konunni sem við fyrstu sýn
horfir bjartsýn fram á við en við nánari skoðun
og í lit ber litskrúðugt glóðarauga og sprungna
vör er eitt af áhrifaríkari verkum hennar, einnig
hér gætir hún þess að barsmíðarnar sem gefnar
eru í skyn séu ekki eini virki þáttur mynd-
arinnar heldur sviðsetur myndina á ákveðinn
hátt sem gerir hana margræðari en ella.
Málverk og myndir af sofandi mönnum eða
mönnum í hvíld eru ekki síður áhrifamikil verk í
allri sinni einfeldni, klassísk mótíf, mannleg við-
kvæmni og viðkvæm pólitísk málefni kallast á í
þessum verkum og gera þau afar sterk, frið-
sældin sem svífur yfir þeim býr yfir sterkri og
ógnvekjandi undiröldu.
Í myndböndum sínum nálgast Trockel við-
fangsefni sín á ekki ósvipaðan hátt og leyfir
ljóðrænni sýn að lifa um leið og list hennar felur
ávallt í sér ákveðinn boðskap sem það er síðan
áhorfandans að taka á móti eins og honum sýn-
ist. Trockel virðist alltaf takast að finna verkum
sínum farveg í takt við samtímann um leið og
hún er sjálfri sér og sinni sýn algerlega trú, eig-
inleiki sem er gulls ígildi.
Sýningin í Gerðubergi nú er samvinnuverk-
efni Gerðubergs með Goethe-Zentrum og
Listaháskóla Íslands. Það má vissulega velta
því fyrir sér hvort verk Trockel hefðu ekki notið
sín betur í umfangsmeiri og rúmbetri sýning-
arsölum einhvers safnanna í borginni en hér er
tvímælalaust á ferðinni sýning sem enginn list-
unnandi ætti að láta framhjá sér fara, viðburður
í listalífi borgarinnar og sannarlega flott fram-
tak hjá Gerðubergi og samstarfsaðilum.
Ljóðræn samfélagsádeila
MYNDLIST
Gerðuberg
Til 27. febrúar. Sýningin er opin virka daga frá kl.
11–19 og 13–17 um helgar.
Blönduð tækni, Rosemarie Trockel
„Gerðuberg skýtur hér stærri og meiri sýningarsölum borgarinnar ref fyrir rass með því að koma með dágóða sýningu á verkum þessarar dug-
miklu þýsku listakonu sem síðan á níunda áratugnum hefur verið í framlínusveit þýskrar samtímalistar,“ segir Ragna Sigurðardóttir m.a.
Ragna Sigurðardóttir
ÞAÐ er gaman og gott að loka
augunum og láta berast í aðra
heima fyrir tilstilli útgáfunnar
Dimmu sem hefur gefið út ein-
stakan grip. Ingibjörg Haralds-
dóttir, sem er eitt af okkar fær-
ustu ljóðskáldum, les nokkur vel
valin ljóð sín mjög vel á diskinum
með sinni fallegu rödd og fylgja
þau einnig á prenti. Fremst, aftast
og um miðbikið hljómar svo frum-
saminn, fallegur og viðeigandi
kontrabassaleikur Tómasar R.
Einarssonar.
Upplesturinn og tónlistin bera
hlustandann til óræðra og fjar-
lægra heima þar sem skáld-
skapnum eru engin takmörk sett
en um leið eru þessir heimar ná-
lægir vegna eðlis skáldskapar
Ingibjargar. Hún hefur einstakt
lag á ljóðagerð með einföldu og
knöppu myndmáli þar sem ein
mynd, tjáð með fáum orðum segir
allt sem segja þarf en vísar þó
langt út fyrir sig, í mannlega
reynslu og hugarflug. Það er í
rauninni sama hvar borið er niður
en ljóðið Fjallkona er nokkuð
dæmigert: ,,Mig dreymdi konu /
mig dreymdi fjall / mig dreymdi að
fjallið var kona / Ég gekk í draumi
í átt til fjallsins / í leit að skjóli við
rætur þess / En fjallið skautaði /
faldi hvítum / og kalt var við rætur
þess.“ Myndin af fjallkonunni er
hefðbundin fjallkonuímynd þar
sem móðir náttúra og konan eru
samsömuð en þegar kvenkyns ljóð-
mælandinn leitar þar skjóls verður
henni aðeins kalt. Hér vísar Ingi-
björg með háði til stöðu konunnar
en mörg ljóða hennar fjalla bein-
línis um stöðu kvenna. Ljóðin á
diskinum eru úr bókunum Hvar
sem ég verð og Höfuð konunnar en
samnefnt ljóð er allt þarna og flutt
með glæsibrag. Þarna eru líka
önnur dæmigerð ljóð fyrir Ingi-
björgu; þunglyndisleg vetrar- og
veðurljóð eins og nóvemberljóðin
þrjú sem bera með sér haustkvíða
aldanna, glettnisleg ljóð um eðli
mannskepnunnar og útlandaljóð
með votti af heimþrá eða dauða-
kvíða. Öll eru ljóðin afar áheyrileg.
Ónefnd eru ljóðin sem minna á
þulur á diskinum en þau fá nýja
vídd við að hlusta á skáldið fara
með þau. Dæmi um þau eru Dúfan
mín: ,,Gæti ég bara dansað við þig
/ dúfan mín á torginu… “ og Jan-
úarljóð: ,,Stöndum hér örvita / í
nístandi nepjunni / hrafnsvartir
flekkir / í náhvítri auðninni /
hversvegna hér? / líf okkar / nötr-
andi bláþráður / yfir og allt um
kring / þessi þögn / þessi nákalda
þögn.“ Þegar hlýtt er á þessi
,,þululjóð“ koma í hugann hinar
frægu þulur skáldkvennanna
Huldu og Teódóru Thoroddsen en
einnig draugaleg þjóðkvæði.
Þakka ber útgáfunni Dimmu
fyrir að gera unnendum skáld-
skapar kleift að hlusta á skáldið
lesa ljóðin sín og vanda svo vel til
verka. Friðrik Snær Friðriksson
hefur hannað látlaust og fallegt út-
litið en formið er lítil ljóðabók með
hólfi aftast fyrir diskinn. Þetta er
lítil perla sem er full af lífinu í
skáldskap Ingibjargar Haralds-
dóttur.
Einstök útgáfa
Hrund Ólafsdóttir
BÓKMENNTIR/TÓNLIST
Geisladiskur
Ljóð eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur.
Tónlist: Tómas R. Einarsson.
Ritstjórn: Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson.
Dimma, Reykjavík 2004.
Upplestur og kontrabassaleikur
Tómas R.
Einarsson
Ingibjörg
Haraldsdóttir
Á BLAÐAMANNAFUNDI í Skál-
holti í gær var greint frá því að á
Listahátíð í Reykjavík í vor verður
frumflutt tónverk í Skálholtsdóm-
kirkju eftir Ragnhildi Gísladóttur
við texta eftir Sjón. Japanski slag-
verksleikarinn StomuYamash’ta
tekur einnig þátt í tónleikunum sem
og Sigtryggur Baldursson, Barna–
og kammerkór Biskupstungna og
Skólakór Kársness, sem samtals
skipa um hundrað börn. Hilmar Örn
Agnarsson organisti í Skálholts-
dómkirkju og Þórunn Björnsdóttir
stjórnandi Kársneskórsins leggja
einnig hönd á plóginn.
Spilar á eldforna
japanska steina
Stomu Yamash’ta er einn þekktasti
ásláttarleikari heims og er sagður
hafa breytt ímynd slagverksins.
Hann mun í tilefni þessara tónleika
flytja til landsins hljóðfæri sem búið
er til úr þriggja milljón ára gömlum
japönskum steinum og vegur um eitt
tonn. Sérstakri tækni hefur verið
beitt við að saga og skera steinana til
að ná fram réttum tón í hverjum
þeirra. Stomu hefur unnið með
heimsþekktum hljómsveitum eins og
Rolling Stones og Pink Floyd en auk
þess hefur hann fengið fjölda verð-
launa fyrir bæði tónlist sína og tón-
listarstjórn. Á síðari árum hefur
hann helgað sig japanskri tónlist og
tónlist tengdri friði í heiminum.
Mannsröddin og grjótið
Sjón, sem er textahöfundur verks-
ins, upplýsti að það hefði fengið
nafnið Bergmál, enda væri það sam-
sett úr samtali barns og steins, eða
mannsraddar og grjóts. „Aldurs-
munur hljóðfæranna gerir þetta
verk einstakt. Börnin sem syngja í
því eru ungt og lifandi hljóðfæri á
hreyfingu, en grjótið sem Stomu
spilar á er þriggja milljón ára gam-
alt og kyrrt. Viðfangsefnið er barnið
og eilífðin. Í þessu verki erum við
Ragga að skoða barnið í augnablik-
inu, eins og það birtist okkur í allri
sinni gleði og yndi en einnig eins og
það birtist okkur í skelfilegum frétt-
um. Við ætlum að sjá hvort svarið
við hörmungum heimsins sé kannski
einhverskonar kærleikur.“
Kom fram með Stomu í Japan
Höfundur tónlistarinnar í verkinu,
Ragnhildur Gísladóttir, mun láta
rödd sína hljóma á tónleikunum en
hún segir það mikinn heiður að fá að
starfa með Stomu. „Ég kynntist
Stomu í Japan árið 2002 fyrir til-
stuðlan Einars Más Guðvarðarsonar
myndlistarmanns og fór þar á tón-
leika með honum og var mjög hrifin.
Stomu fékk mig þá til að spinna með
sér og öðrum tónlistarmönnum frá
hinum ýmsu heimsálfum og sama
vetur fór ég aftur út til Japan til að
spila með honum á tónleikum. Í vet-
ur sem leið fór ég svo og kom fram
með honum á einstökum tónleikum í
japönsku hofi, þar sem munkar kirj-
uðu og fóru með bænir. Tónlistin
hans Stomu er mjög sérstök og í
henni er heilun. Það er mikill fengur
fyrir okkur að fá Stomu hingað til
okkar.“
Listahátíð færir út kvíarnar
Þórunn Sigurðardóttir listrænn
stjórnandi Listahátíðar sagði þessa
tónleika vera stærsta verkefnið á
Listahátíð í vor og óvenju stórt og
flókið samstarfsverkefni. Hún sagð-
ist fagna því að tónleikarnir væru
frumfluttir í Skálholti enda löngu
tímabært að slíkt höfuðvígi menn-
ingar í gegnum aldirnar tengdist
Listahátíð. Auk þess sagði hún það
vera stefnu Listahátíðar í framtíð-
inni að færa hana að hluta út fyrir
borgarmörkin. Frumflutningurinn í
Skálholti verður 21. maí en aðrir
tónleikar verða í Langholtskirkju
24. maí. Einnig stendur til að fara
með tónverkið til Japan í sumar á
heimssýninguna Expo 2005.
Í Skálholti var undirritaður sam-
starfssamningur Listahátíðar í
Reykjavík við Skálholt vegna tón-
leikanna sem og við stuðningsaðil-
ana Toyota og Baug Group.
Tónlist | Ragnhildur Gísladóttir og Sjón í Skálholti
Tengja saman heimsálfur
Ljósmynd/Sigurður Sigmundsson
Höfundar Bergmáls, Ragnhildur Gísladóttir og Sjón, í Skálholti.
khk@mbl.is