Morgunblaðið - 07.08.2005, Blaðsíða 37

Morgunblaðið - 07.08.2005, Blaðsíða 37
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 7. ÁGÚST 2005 37 MINNINGAR Elsku Gísli minn, það var alltaf svo gaman að ræða við þig um heimsmálin og annað. Þú varst svo vel að þér í þeim málum, sífellt að lesa um hvað var að gerast í heim- inum. Ég veit að Ágúst hefur það frá þér. Mér varð það ljóst eitt kvöldið í maí í Washington, þegar við vorum að ræða um stjórnmál og sögu Bandaríkjanna. Þá fóruð þið fegðarnir að telja upp alla forseta Bandaríkjanna og mér til undrunar gátuð þið munað eftir hverjum ein- asta af hinum fjörutíu og þremur forsetum landsins í röð. Þannig var kunnáttan ykkar. Elsku bróðir, þrátt fyrir hinn sorglega atburð, sem tók þig frá okkur, mun ég að eilífu vernda í hjarta mínu allar hinar dýrðlegu minningar af okkar samvistum. Ég mun ætíð sakna þín og bið Guð að gæta þín og veita þér ró. Þín systir, Katla. Kær bekkjarbróðir, Gísli Þorkels- son, er fallinn frá. Hvorki aldur né sjúkdómar gáfu tilefni til brottfarar. Ógæfufólk tók sér vald Guðs í hend- ur. Við skólasystkini Gísla leitum í minningar um góðan dreng til að reyna að sætta okkur við orðinn hlut. Vor. 1. maí 1974. Í áratugi höfðu nemendur Samvinnuskólans, fyrst í Reykjavík, síðan á Bifröst í Norður- árdal, útskrifast þennan mánaðar- dag. Nú vorum það við, hópurinn okkar, sem var að kveðja skólann, kennara og hvert annað. Við stóðum 46 á verönd hins lágreista en virðu- lega seturs, uppstillt til myndatöku. Ilmur vors og gróðurs í vitum, ákafi og vonir í augum ungs fólks. Stolt kennara og meistarans, sr. Guðmundar Sveinssonar, hefði ver- ið hægt að festa á filmu. Í tvo vetur höfðum við búið saman, unnið sam- an, deilt frítíma og skemmtun hvert með öðru. Markmiðum var náð. Samvinnu- skólapróf er fól ekki eingöngu í sér faglega menntun í verslun og við- skiptum, heldur var mikil áhersla lögð á félagslegan þroska. Menning- ar- og listasaga jók víðsýni og skiln- ing á hinum ýmsu menningarheim- um, trúarbrögðum og listum. Inntak samvinnuhugsjónarinnar var kennt í orði og á borði. Áhersla var lögð á mátt samtaka og fé- lagshyggju. Samheldni okkar nem- enda var mikil, alúð og virðing gagnkvæm milli skólasystkina og kennara. Bönd er seint trosna. Í hópnum okkar hefur fækkað um enn einn, Gísla Þorkelsson. Fréttin um andlát Gísla kom sem reiðarslag. Hann var maður sem valdi sér vini af varúð og kostgæfni. Hann var seintekinn, og þeir sem þekktu hann best vissu að þar fór sá er gat treyst á hugboð sín, einnig hvað varðar kynni af mannfólkinu. Því frekar var slíkri harmafregn vart trúað. Við andlát vinar kvikar hugurinn ósjálfrátt til fyrstu kynna. Bak- grunnur okkar var mismunandi eft- ir að hefðbundinni skólagöngu lauk. Hans var sveipaður ævintýraljóma. Í augum okkar var hann ævintýra- maðurinn. Togarasjómennska, nám í dönskum lýðháskóla, leiðangrar til framandi landa, jafnvel þeirra sem þá voru talin fyrir austan járntjald. Slík reynsla var einstæð í þá daga hjá ungum manni. Gísli hafði tekið þátt í lífi og störfum fólks í öðrum löndum ef svo bar undir sér til ánægju og viðurværis. Á Bifröst sást strax að Gísli var sérstakur og áhugaverður maður. Hann hafði sig lítt í frammi í fyrstu, stjórnaði því sjálfur hvenær og hvern hann vildi fá í sitt lið, en er upp var staðið átti hann virðingu og væntumþykju okkar allra. Gísli var skarpgreindur, fylgdist grannt með því sem efst var á baugi á hverjum tíma í þjóðmálum og yfir höfuð öllu því sem honum þótti þess virði að eyða hugsun sinni í. Froðusnakk þoldi Gísli illa og ef hann varð var við illt umtal í annarra garð dró hann sig í hlé. Minnið var einstakt, en hann flíkaði ekki þekkingu sinni nema á reyndi, þá til rökstuðnings sínum skoðunum eða í kappræðum í púlti. Gísli hafði djúpt og vandað skopskyn sem gat breytt depurð í hlátur, meiddi engan og enn er vitn- að til. Námið reyndist Gísla auðvelt. Hafði hann unun af menningarsög- unni og öllu því sem henni tengdist. Þessi áhugi leiddi oft til þess að heims- og eilífðarmálin voru mikið rædd í herbergi 201, einkum er menn höfðu lagst til hvílu. Sjálfsagt hefur oft verið vakað of lengi við lausn vandamála samtímans, snarp- ar umræður um hvernig hlutirnir hefðu getað farið ef sagan hefði þróast á annan hátt og hvað fram- tíðin bæri í skauti sér. Á Bifröst var félagslíf í miklum blóma og fyllti nánast upp í lausan tíma frá námi. Íþróttir, skák, leik- list, myndlist, tónlist og útgáfustarf, að ógleymdri prýðis hljómsveit. All- ir gátu fundið eitthvað við sitt hæfi. Útsjónarsemi og skipulagshæfi- leikar Gísla nýttust vel er mikið var um að vera, einkum í þágu leik- listar- og skákfélags. Í okkar hópi var Gísli framúrskarandi skákmað- ur og hefði án vafa getað náð langt á þeim vígvelli hefði hann gefið sig í slíkt. Við kveðjum minnisstæðan skóla- bróður, góðan og skemmtilegan fé- laga, kæran vin. Tíminn með Gísla á Bifröst er varðaður ógleymanlegum atvikum, þroskandi vinnu og gleði í leik. Við vottum Ágústi, syni Gísla, systkinum Gísla og öðrum ástvinum hans samúð okkar. Blessuð sé minning hans. F.h. bekkjarsystkina SVS 1972– 1974, Gísli Haraldsson. Ég man vel eftir því hvernig við Gísli kynntumst, við vorum báðir í jakkafötum og biðum eftir lyftu sem ætlaði aldrei að koma, þá spyr Gísli: Var verið að koma úr Þórskaffi? og hló. Ég skildi strax hvað hann átti við og sagði svo vera (við vorum jú báðir kvenmannslausir að koma af balli). Þetta var árið 1982 og við vorum að spjalla saman í fyrsta skiptið þrátt fyrir að við byggjum í sömu blokk. Á leiðinni upp stakk Gísli upp á því að við fengjum okkur í glas í hans íbúð, og tækjum eina skák fyrir svefninn. Skákin var tek- in og að sjálfsögðu vann hann, hún var í rauninni upphafið að langri vináttu okkar. Gísli var alla tíð góð- ur skákmaður og skákin eitt af mörgum áhugamálum hans, eins og til dæmis sund, lyftingar, líkams- rækt, kvennafar, landafræði, man- kynssaga, sagnfræði og ferðalög. Hann átti líka oftast frumkvæði að því sem við tókum okkur fyrir hendur, og hafði sérstakt lag á því að gera ómerkustu hluti áhuga- verða með sinni einstöku frásagn- arsnilld. Svo var það árið 1995 að við feng- um frábæra hugdettu að okkur fannst þá, við ætluðum að fara í langt ferðalag, byrja í Bandaríkj- unum og fara þaðan til Karíbahafs- ins og kaupa skútu eða bát og sigla á milli eyjanna. Við lögðum af stað og eftir hálfan mánuð í Bandaríkj- unum komum við loksins til eyju í Karíbahafinu sem heitir San Mart- ins, lítil eyja sem er að hálfu frönsk og að hálfu hollensk. Þar var mikið af skútum og bátum til sölu, en við sáum að það var eitthvað að á þess- ari eyju, og áttuðum okkur fljótlega á því hvað það var. Hollenski hlut- inn var eitt risastórt spilavíti og sá franski dópbæli, fátækt virtist vera almenn meðal íbúa á allri eyjunni, og bátar sem buðu upp á ferðir með túrista voru bundnir við bryggju svo dögum skipti, en það var ein- mitt þannig sem við hugðumst vinna fyrir okkur. Gísli hafði á yngri árum farið til Suður-Afríku með frænda sínum, og hafði greinilega eins og margir aðrir heillast af því landi. Eftir að hafa verið þar í ein- hvern tíma fréttu þeir af því að það vantaði menn í herinn í grannríkinu Ródesíu sem nú er Zimbabwe. Gengu þeir í herinn og voru í hon- um þar til kosningar voru haldnar í landinu, en þá leystist herinn upp og sneru þeir því aftur til Suður- Afríku. Sögurnar sem Gísli sagði stundum með sinni einstæðu snilli af þessu ferðalagi voru sumar hverjar með ólíkindum og get ég ekki annað sagt en ég hafi verið orðinn spenntur fyrir Afríku. Við vorum því farnir að velta þeim möguleika fyrir okkur, fljót- lega eftir að við sáum að peningar stoppuðu ekkert við á þessari eyju og efnahagslífið virtist vera í rúst, að fara til Suður-Afríku. Eftir nokkrar vikur á eyjunni snerum við aftur til Bandaríkjanna á leið okkar til Afríku. Fljótlega eftir að við komum til Suður-Afríku skildi leiðir okkar Gísla á þann máta að Gísli fór að búa með suður-afrískri konu af Búaættum og ég leigði herbergi hjá manni af enskum ættum sem kom- inn var á eftirlaun, samt vorum við allan tímann í ágætu sambandi á meðan ég var þarna. Við bjuggum í Jóhannesarborg, þar gerðust furðu- legustu hlutir og fyrstu vikurnar velti ég því oft fyrir mér hvert ég væri eiginlega kominn. Ég var ekki búinn að vera þarna í marga daga þegar maður var skotinn í næsta húsi. Hann var í heimsókn hjá við- haldi sínu þegar eiginkonan birtist og skaut hann. Gömul hjón voru myrt í næstu götu og búslóðinni stolið. Ung kona var skotin í höfuðið gegnum hliðarrúðu á bílnum sínum, og bílnum stolið, þetta gerðist á gatnamótum rétt við húsið þar sem ég bjó. Á þessum tíma voru þarna að meðaltali 60 morð á dag, en í raun vissi enginn hvað þau voru mörg, fólk gufaði líka upp í stórum stíl. Fyrst í stað las maður blöðin spjaldanna á milli um þessi mál, en eftir smátíma fór maður að leiða þetta hjá sér. Þetta var bara svona! Ég var í Afríku í fimm mánuði og ferðaðist nokkuð mikið um landið miðað við þann tíma sem ég var þar. Suður-Afríka er gríðarlega fal- legt land og ég skil vel að Gísli hafi heillast af landinu. Ég gerði það líka. Þegar ég fór heim hafði Gísli gifst konunni sem hann bjó með og var alls ekki á leiðinni heim, þarna ætl- aði hann að búa. Þau skildu síðar. Gísli kom tvisvar í heimsókn til Íslands á þeim tíu árum sem hann bjó í Afríku. Við hittumst í bæði skiptin og ekki stóð á sögum um það sem á daga hans hafði drifið. Ég hef aðeins talið til það helsta sem varpar ljósi á það að Gísli tók þá örlagaríku ákvörðun að fara og búa í Afríku. Hann var með greind- ari mönnum sem ég hef þekkt og vissi vel að í þessu landi gat allt gerst. Ég kveð þig með söknuði, þar fór góður drengur. Gísli, hvíl þú í friði og megi Guð varðveita sálu þína. Þinn vinur Einar Gunnarsson. ✝ Fjóla Sigur-geirsdóttir fæddist í Grindavík 8. mars 1929. Hún lést á heimili sínu aðfaranótt sunnu- dagsins 24. júlí síð- astliðinn. Foreldrar Fjólu voru Ingi- björg Stefánsdóttir, f. 24. ágúst 1906, d. 16. ágúst 1996, og Sigurgeir Guðjóns- son, f. 9. september 1900, d. 14. maí 1993. Fjóla giftist 5. desember 1953 Gunnari Þór Þorsteinssyni, f. 12. júlí 1930, d. 19. nóvember 1974. Börn þeirra eru: 1) Ragnar Guð- mundur, f. 23. desember 1953, synir hans eru a) Ragnar Ingi, f. 23. október 1972, maki Lára Ragnarsson, saman eiga þau dótturina Kamilu Sól, f. 1. febr- úar 2003, fyrir átti Ragnar son- inn Tristan Inga, f. 8. maí 1999, b) Gunnar Þór, f. 18. janúar 1977, maki Ásdís Fjóla Ólafs- dóttir, dætur þeirra eru Emilía, f. 27. nóvember 1999, og Ísabella, f. 19. febr- úar 2004. 2) Sigríð- ur Ingibjörg, f. 3. júní 1957, sambýlis- maður Vignir Ingi Garðarsson. Dóttir Sigríðar er Eva Mjöll Ágústsdóttir, f. 16. nóvember 1983. Fjóla bjó til tveggja ára aldurs í Grindavík en ólst svo upp á Bú- stöðum í Fossvogsdal í Reykja- vík. Lengst af bjó Fjóla í Mark- landi í Reykjavík en fyrir nokkrum árum fluttist hún til Þorlákshafnar. Útför Fjólu fór fram frá Foss- vogskapellu, í kyrrþey. Elskuleg amma mín kveður okk- ur öll og langar mig til að minnast hennar og þakka fyrir dýrmæta æsku. Hún var sú manneskja sem stóð mér næst í uppeldinu og var alltaf reiðubúin að rétta mér sinn hlýja verndarvæng, jafnvel eftir að ég var orðinn fullvaxta og farinn að búa sjálfur. Hún var fyrsta manneskjan sem ég leitaði til þeg- ar ég átti erfitt. Ótal stundir koma upp í huganum, þar sem við sátum saman og ræddum málin. Þá hlust- aði hún vandlega dágóða stund og sagði svo: „Hvað ætlaði ég að segja en ekki þegja?“ Henni var greinilega ekkert hulið með sínu einstaka æðruleysi og góðu ráðum. Ef ég meiddi mig eða varð sár í hjarta, sagði hún oft við mig: „Þetta grær áður en þú giftir þig.“ Hún gat líka orðað hlutina svo fínt að ég áttaði mig stundum ekki á því fyrr en löngu seinna, og ég brosi oft að hennar ábendingum þegar ég hugsa til baka. Því miður náðum við fjölskyldan ekki að sýna henni okkur öll, því það var ætlunin að koma fljótlega í heimsókn frá Noregi. Þá hefði hún séð tveggja ára dóttur okkar, Ka- millu Sól, í fyrsta sinn. Ég er föður mínum ævinlega þakklátur fyrir að hafa gefið ömmu minni mikinn tíma og sýnt henni umhyggju öll þessi ár. Hún átti það svo sannarlega skilið eins og hún var öllum góð og hjálpsöm. Amma skilur eftir mikið tóma- rúm sem seint verður fyllt. Ragnar Ingi Ragnarsson. Það eru ófáar stundirnar sem rifjast upp þegar ég hugsa um ömmu Fjólu. Það var einhvernveg- inn þannig heima hjá henni þegar ég var lítil að nánast allt var leyfi- legt. Hvort sem það var að vaka fram eftir þar til maður sofnaði yf- ir sjónvarpinu, fara út í sjoppu og kaupa nammi, sulla út á svölum eða að sullumalla eitthvað í eld- húsinu. Allt mátti ég nánast gera. Ef svo ósennilega vildi hinsvegar til að eitthvað var bannað eða ömmu þótti einhver uppátækin mín ekki sniðug var alltaf hægt að tala hana til. Það þurfti reyndar stundum smálagni og sakleysislegt bros til en á endanum var allt leyfilegt og amma yfirleitt til í hvaða þá vitleysu sem mér datt í huga að gera. Við amma sátum oft í eldhúsinu í Marklandinu og spiluðum og var þá iðulega annaðhvort spilað olsen olsen eða langavitleysa sem gjarn- an endaði í einhverri langri vit- leysu þar sem amma leyfði mér að vinna (þó að ég hefði alltaf haldið því fram að ég hefði bara unnið). Þolinmæði hennar hefur líka verið ansi mikil þar sem hún kenndi mér bæði að hekla og prjóna en aldrei sat ég þó lengi við þá handavinnu. Náði samt í eitt skipti sennilega að prjóna eins og 1/8 úr trefli áður en ég gafst upp og hún tók við. Amma prjónaði nefnilega handa mér alla þá trefla, sokka og vettlinga sem mig vantaði og langaði í. Einhvernveginn var það líka þannig að allt smakkaðist betur heima hjá ömmu, það var sama hvort það var ristað brauð með osti og mjólkurglas eða lambalæri með brúnuðum kartöflum, alltaf smakkaðist þetta allt saman miklu betur heima hjá ömmu. Nú verða stundirnar með henni hins vegar ekki fleiri í bili en veit ég samt að hún mun alltaf fylgja mér hvert sem ég fer. Því þó að hún sé dáin þá mun minning hennar lifa áfram með mér. Þín Eva Mjöll. Fjóla Sigurgeirsdóttir ólst upp á Bústöðum, sem var eitt síðasta sveitabýlið í ábúð innan lögsögu Reykjavíkur, en þar var móðir hennar Ingibjörg Stefánsdóttir ráðskona Ragnars Jónssonar bónda og síðar eiginkona hans. Flestöll austurhverfi Reykjavík- ur eru kennd við jarðirnar, sem færðar voru undir lögsögu Reykja- víkur um og eftir næstsíðustu aldamót. Þannig færðust jarðirnar Bústaðir, Breiðholt og hlutar Ár- túns og Árbæjar undir lögsögu Reykjavíkur árið 1923. Ekki er víst, að Reykvíkingar al- mennt viti hvar bærinn Bústaðir stóð, en bæði Bústaðavegur og Bú- staðakirkja eru kennd við hann. Lágreistur bærinn stóð austan kirkjunnar, handan vegarins, og þar var rekið blómlegt býli til árs- ins 1970. Fjóla átti margar góðar minn- ingar frá uppvaxtarárum sínum á Bústöðum, sem ekki voru í alfara- leið. Fossvogsdalurinn var enn ekki byggður, eins og síðar varð. Þar undi hún sér vel við leik og störf, eins og títt var um unglinga til sveita. Aðaluppistaðan í bú- rekstrinum á Bústöðum var mjólk- urframleiðsla. Lengi var mjólkinni ekið með hestvögnum til neytenda, en næstu nágrannar komu gjarnan sjálfir með brúsa á bæ til að fá áfyllingu, uns annað fyrirkomulag var tekið upp. Ragnar Jónsson þótti dugmikill bóndi og með þær mæðgur Ingi- björgu og Fjólu sér við hlið voru Bústaðir myndarbýli í fögru um- hverfi Fossvogsdalsins. Fjóla kynntist elsta bróður mín- um Gunnari Þór upp úr 1950, en þau gifta sig í lok árs 1953. Þau eignuðust tvö börn, þau Ragnar og Sigríði, og bjuggu lengi í íbúð á Víðimelnum. Það var jafn- an tekið vel á móti yngri fjöl- skyldumeðlimum. Enda þótt hús- rými væri ekki stórt, sá Fjóla til þess, að veitingar væru ekki af skornum skammti. Síðar fluttu þau í rúmgóða íbúð í Álftamýri. Eftir lát Gunnars, sem lést aðeins 44 ára gamall, flutti Fjóla í Markland í Fossvogi þar sem hún hélt heim- ili fyrir börn sín og móður, en Ragnar á Bústöðum hafði látist nokkru áður. Síðar bættist son- arsonur hennar Ragnar Ingi í hóp- inn, en segja má að Fjóla hafi gengið honum í móðurstað. Þannig tengdust nokkrar kynslóðir undir verndarvæng hennar. Eftir að Gunnar lést stundaði Fjóla ýmiskonar störf, lengst af í bakaríi Mjólkursamsölunnar. Var hún vel liðin af samstarfsfólki og yfirmönnum þess fyrirtækis, enda samviskusöm með afbrigðum. Fyrir örfáum árum flutti Fjóla með syni sínum Ragnari til Þor- lákshafnar, þar sem hún lést 24. júlí sl. eftir nokkur veikindi. Segja má, að Fjóla hafi helgað líf sitt fjölskyldu sinni alla tíð. Hún hlúði vel að aldraðri móður sinni og afkomendum sínum, sem áttu öruggt skjól hjá henni. Lífsmottó hennar var að þjóna og liðsinna öðrum, en gera ekki kröfur fyrir sjálfan sig. Guð blessi minningu Fjólu Sig- urgeirsdóttur. Alfreð Þorsteinsson. FJÓLA SIGURGEIRSDÓTTIR
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.