Morgunblaðið - 26.08.2005, Blaðsíða 39

Morgunblaðið - 26.08.2005, Blaðsíða 39
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 26. ÁGÚST 2005 39 MINNINGAR sitjandi í stólnum sínum, gólfteppis- bútur undir fótum hans, ríghaldandi í stólinn, og leikandi á als oddi. Hann fléttaði vísur og kvæði inní sögurnar sem hann sagði og þegar afi talaði þögðu hinir, meira að segja börnin. Við barnabörnin áttum nefnilega bandamann í afa því heimsóknum heim á Reynistað lauk yfirleitt með ferð niður í kjallara þar sem nammið var geymt. Og afi var óspar á það. En sögurnar og ljóðin höfðu tilgang. Hann var sífellt að kenna manni það sem honum þótti mikilvægast, þar bar manngæskuna hæst því hann var fyrst og fremst mannvinur. Að ræða við hann stjórnmál var sífelld skemmtun þótt við værum gjarnan ósammála um dægurpólitísk mál. Þegar hann lét af störfum varð mér ljós hversu stóran sess bókmenntirn- ar áttu í hjarta hans. Hann las mikið og minnisstætt þótti mér þegar ég kom eitt sinn á Reynistað og spurði hann hvað hann væri að lesa í þetta skiptið. Hann svaraði því til að hann væri að þræla sér í gegnum Sturl- ungu í þriðja sinn. Hann hafði nefni- lega aldrei getað klárað hana því hún væri svo blóðug og ljót. Hann hafði samúð með þeim sem þjáðust. Betri gestgjafi verður vart fundinn, hann hafði unun af því að veita og viðkvæð- ið var alltaf, „það er aldrei svo lítið að það gleðji ekki“. Hann var hlýr, glað- ur, fróður, glæsilegur og elskaði ömmu. Samband þeirra var einstakt og órjúfanlegur þáttur í lífi okkar fjölskyldunnar. Ástvinir skipa gjarn- an þann sess í hjarta manns að maður telur þá ósjálfrátt eilífa. Enginn er þó eilífur hér á jörð, en jafnljóst er, að minning afa míns lifir um ókomna tíð í hjörtum þeirra sem þekktu hann. Þei, þei og ró. Þögn breiðist yfir allt. Hnigin er sól í sjó. Sof þú í blíðri ró. Við höfum vakað nóg. Værðar þú njóta skalt. Þei, þei og ró. Þögn breiðist yfir allt. (Jóhann Jónsson.) Einar Þorsteinsson. Nú er vinur minn, hann afi, dáinn. Af honum lærði ég svo margt sem ég hefði ekki getað lært af neinum öðr- um. Hann kenndi mér reglur og siði sem ég hef reynt af bestu getu að fara eftir. Hann afi var mjög merki- legur maður. Hann var duglegur í starfi sínu og var svo góður við fjöl- skyldu og vini. Hann var barngóður og fór ekki úr minni þeirra sem höfðu þó aðeins séð hann einu sinni. Ljóðin og kvæðin sem hann kunni voru ótelj- andi og alltaf gat hann farið með eitt- hvert ljóð þegar eitthvað gerðist. Til dæmis má nefna það ljóð sem er efst í huga mér þegar ég fann svo fallegt gult og rautt lauf út í garði heima hjá ömmu og afa. Það var síðasta kvöldið sem hann var á lífi og þetta var fyrsta fallna laufið sem ég hef fundið í haust og hann sagði: Lastaranum líkar ei neitt lætur hann ganga róginn: Finni hann laufblað fölnað eitt, þá fordæmir hann skóginn. (Steingrímur Thorsteinsson.) Guð geymi hann afa minn. Vigdís María. Haustið er að birtast í gróðri ís- lenskrar náttúru. Berin eru að verða fullþroskuð, laufið farið að fölna. Fegurstu litir og birta eru einkenni þessa tíma. Ekkert af þessu kemur á óvart en undur lífsins minnir okkur sífellt á hvað dýrmætt það er. Guð- mundur Benediktsson kunni að njóta lífsins og meta það. Hann gekk til starfa af reisn og gleði. Fas hans og framgangur bar þess skýr merki að þar fór maður sem unni íslenskum bókmenntum, listum og náttúru. Guðmundur var fyrsti ráðuneytis- stjóri forsætisráðuneytisins eftir að sú skipan komst á Stjórnarráð Ís- lands árið 1970 sem haldist hefur í öllum meginatriðum síðan. Guð- mundur starfaði sem ráðuneytis- stjóri til ársloka 1991. Á starfstíma hans í ráðuneytinu skapaðist sú festa og þær hefðir í starfsháttum Stjórn- arráðsins sem það býr að enn þann dag í dag. Guðmundur var afar farsæll í störfum sínum og sérlega vel liðinn af öllu samstarfsfólki og þeim sem til hans þurftu að leita. Þeim sem hon- um kynntust varð snemma ljóst að þar fór fróður maður, víðsýnn og bráðskemmtilegur. Hann var sér- staklega vel að sér um sagnfræði og fornar bókmenntir þjóðarinnar voru honum ástríða. Hvernig svo sem at- vik skipuðust innan Stjórnarráðsins brást ekki að hann gat bent á hlið- stæður úr heimi Íslendingasagna og haft á hraðbergi glettnar tilvitnanir og spakmæli sem vitnuðu um gáska og skarpskyggni. Það kærleiksþel sem frá honum stafaði jafnan í garð meðbræðra hans og systra varð til þess að starfsfélag- ar hans leituðu til hans um margt og máttu jafnan vita að Guðmundur legði þeim til það besta sem hann átti. Við Sigurjóna erum þakklát fyrir góð kynni og vináttu hans og frú Kristínar. Við minnumst margra samverustunda á innlendum og er- lendum vettvangi. Það ríkti ávallt gleði og hlýja í návist þeirra En sálin á líf, hún syrgir og kætist. Sanntrú á heilagan grun, sem rætist. (E. Ben.) Bjartur andi Guðmundar mun áfram lifa með okkur og þau góðu verk sem hann skilur eftir sig. Samstarfsfólk í Stjórnarráði Ís- lands mun ávallt heiðra minninguna um mannvininn Guðmund Bene- diktsson. Ég vil fyrir hönd forsæt- isráðuneytisins votta frú Kristínu Claessen og fjölskyldu samúð okkar allra. Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra. Það var stíll yfir Guðmundi Bene- diktssyni, fyrrverandi ráðuneytis- stjóra í forsætisráðuneytinu. Hann var fyrirmannlegastur flestra hér á landi, en þó án allrar tilgerðar. Hon- um var eiginlegt að vera virðulegast- ur. Ég sá hann síðast 10 dögum áður en hann kvaddi, í góðu boði sameig- inlegs vinafólks. Tjaldað hafði verið yfir veislugesti og hann stóð við skör- ina og studdist við staf sinn og glettn- in skein úr augum. Menn drógust að Guðmundi þá eins og jafnan. Bæði var hann vinmargur og vinsæll, en hann var að auki allra manna skemmtilegastur og samt svo ólíkur öðrum skemmtilegum mönnum. Til- svör og talsmáti og fas báru hans sér- kenni, stuttar sögur er hæfðu hverju tilefni og svo sannarlega ekkert láns- efni. Aldrei var hnjóðað í nokkurn mann. Allt var þetta enn til staðar, allt til hins síðasta. Guðmundur starfaði lengi í stjórn- arráðinu og varð ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu fyrir 35 árum og starfaði við hlið 9 forsætisráðherra, frá Bjarna Benediktssyni til undirrit- aðs. Er ég ekki í neinum vafa um að allir þessir ólíku menn áttu það þó sameiginlegt að meta ráðuneytis- stjóra sinn mikils og kæmi mér ekki á óvart þótt þeim hafi öllum þótt veru- lega vænt um hann að auki. Enginn þeirra gat efast um samviskusemi Guðmundar Benediktssonar, holl- ustu og trúmennsku. Og þegar stund var á milli stríða, var það á við stutta dvöl á bærilegu hressingarhæli að skiptast á sögum við Guðmund Ben. og í mínu tilviki, hins yngsta í 9 manna hópi húsbænda hans, eins og hann kallaði þá gjarnan, var ég auð- vitað þiggjandi, svo miklu dýpri var reynslubrunnur hans og fróðleikur. Svo átti fyrir okkur hjónum að liggja að flytja í Skerjafjörðinn, í lén þeirra Guðmundar og Kristínar. Í mörgum sögum Agöthu Christie er sögusviðið sveitaþorpið með öllum sínum sérkennum, og að enskum sið var „The Manor House“ í öndvegi sagnanna. Reynistaður er herragarð- ur Skerjafjarðarins. Þar bjuggu þau Guðmundur og Kristín í hjarta „þorpsins“ í undurfögru menningar- heimili í yndislegu húsi. Mátti ekki á milli sjá, hvort fór hinu betur, þau eða húsið. Guðmundur Benediktsson er kvaddur með sorg og söknuði, en það er huggun harmi gegn að hann fékk að halda reisn sinni til síðasta dags. Það var mjög við hæfi. Við Ástríður munum geyma meðan geymt verður minningu um hlýjan og góðan vin og er Kristín órjúfanlegur hluti þeirrar minningar. Davíð Oddsson. Guðmundur Benediktsson tók á móti mér, þegar ég kom í forsætis- ráðuneytið vorið 1983. Frá þeirri stundu varð hann minn leiðbeinandi og hægri hönd í öllu sem laut að reglum og siðvenjum í stjórnar- ráðinu. Á því sviði var Guðmundur betur að sér en nokkur maður annar, sem ég hef kynnst. Honum var það kappsmál að virðingu ráðuneytisins og ráðherra væri ekki misboðið. Kann ég Guðmundi þakkir fyrir þá miklu aðstoð, sem hann veitti mér. Guðmundur var minn ráðuneytis- stjóri öll þau ár, sem ég gegndi starfi forsætisráðherra. Hollusta hans og trúmennska brást aldrei. Af samstarfi okkar Guðmundar þróaðist fljótlega vinátta, sem aldrei bar á skugga og entist á meðan hann lifði. Guðmundur var góður félagi, ekki síst á ferðum bæði innanlands og utan. Frá þeim eigum við hjónin margar góðar minningar. Hann var á góðum stundum hrókur alls fagnað- ar, enda víðlesinn og fróður um marga hluti, ekki síst um þjóðleg efni. Hélt Guðmundur þá gjarnan uppi gleðskap með skemmtilegum sögum og vísum. Guðmundur var góður Íslendingur og hafði ákveðnar skoðanir á þjóð- málum. Þó minnist ég þess ekki að við höfum nokkru sinni rætt um stjórnmál. Hann gætti þess að láta ekki skoðanir sínar í þeim efnum hafa áhrif á sín störf. Hins vegar gat verið gott að leita álits Guðmundar á mönnum og málefnum. Þá lá hann ekki á sinni skoðun og svaraði af heil- indum. Ég er þakklátur fyrir kynni okkar Guðmundar. Þau voru og eru enn mér mikils virði. Um Guðmund get ég með sanni sagt, að hann var drengur góður. Við Edda sendum Kristínu, eigin- konu Guðmundar, og fjölskyldu sam- úðarkveðjur. Steingrímur Hermannsson. Með sanni má segja að Guðmund- ur Benediktsson hafi borið þingeyskt ættarmót sitt bæði vel og virðulega. Hann var vörpulegur á velli og sterkt svipmót embættismannsins leyndi sér ekki í hætti hans. Honum var skipað til hásætis í stétt íslenskra embættismanna þegar honum var trúað fyrir stöðu ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu og hlutverki rík- isráðsritara. Þar sem Guðmundur Benedikts- son sat í öndvegi embættismanna- stéttarinnar í gamla stjórnarráðs- húsinu við Lækjartorg mátti hann þjóna stjórnmálamönnum ólíkrar gerðar og úr röðum ólíkra stjórn- málaflokka. Þar þjónaði hann mönn- um, sem frá einum tíma til annars gat samið misjafnlega. En um Guðmund verður hins vegar ekki annað sagt en að öllum, sem raunverulega kynntust honum, hafi samið vel við hann. Skörp íhygli og aðgæsla voru ef til vill ríkari þættir í allri embættis- færslu hans en kappsemi. En kjarni málsins er sá að í samskiptum við Guðmund Benediktsson var aldrei neitt misjafnt. Þar mættu menn ær- legum dreng, heilum og hreinskiptn- um manni. Í því eðlisfari var fólginn styrkur hans og gifta á löngum emb- ættismannsferli. Það er happ að hafa verið í hópi þeirra stjórnmálamanna, sem rak á fjörur Guðmundar Benediktssonar í stjórnarráðshúsinu. Þau kynni urðu að öðru og meira en kunningsskap. Þar stofnaðist vinátta við hann og sæmdarkonuna Kristínu Claessen. Þó að árin liðu frá samverustundum okkar í forsætisráðuneytinu gerðu þau ekki annað en að treysta þau vin- áttubönd, sem þar voru hnýtt. Hlýja þeirra hjóna og vinsemd hefur ætíð verið kærkomin. Frásagnargleði Guðmundar Bene- diktssonar var einstök og alkunn. Hann kunni þá list öðrum mönnum betur að segja frá og skynja skopleg- ar hliðar tilverunnar. Og það gat að- eins verið ánægja að njóta þeirrar listar með honum En hann var einnig þeirrar gerðar að af honum sjálfum urðu margar sögur. Einhverju sinni lét hann sér vaxa virðulegt uppsnúið yfirvararskegg, sem sannarlega féll vel að öllu yfir- bragði hans. Í heimsókn í Hvíta hús- inu spurði þáverandi forseti Banda- ríkjanna mig hvort hér væri einstakur maður á ferð eða hvort þeir væru fleiri í stjórnarráðinu á Íslandi með þetta prússneska embættis- mannayfirbragð. Og ég þykist vita að Guðmundi hafi ekki mislíkað spurn- ingin. Á degi síðustu vegferðar Guð- mundar Benediktssonar blandast til- finningar þakklætis hluttekningu með þeim, sem næst honum stóðu og kveðja mannkostamann. Þorsteinn Pálsson. Guðmundur Benediktsson kallaði mig alltaf frænda þegar við hittumst og rifjaði gjarnan upp sögur af for- feðrum okkar í Þingeyjasýslu. Guð- mundi voru æskustöðvar sínar hug- leiknar og af honum fræddist ég um margt sem gerðist á Húsavík fyrr á árum. Guðmundur var embættismaður í stjórnarráðinu í þrjátíu ár, frá 1962 til 1992. Hann hóf störf í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu árið 1962 og fór þar með málefni kirkjunnar, und- irbjó meðal annars hina glæsilegu Skálholtshátíð árið 1963. Árið 1964 flutti hann sig um set í forsætisráðu- neytið og starfaði þar til 1. janúar 1992, en hann varð ráðuneytisstjóri og ríkisráðsritari 1. janúar 1970, þeg- ar lögin um stjórnarráð Íslands tóku gildi. Guðmundur var fyrstu ár sín í for- sætisráðuneytinu í lítilli skrifstofu fyrir framan skrifstofu forsætisráð- herra, sem þá var einnig fundarher- bergi ríkisstjórnarinnar, austanvert í stjórnarráðshúsinu þar sem nú er biðstofa og skrifstofa aðstoðarmanns forsætisráðherra. Enginn gekk því á fund forsætisráðherra án þess að hitta Guðmund og þar kynntumst við fyrst þegar hann starfaði fyrir föður minn, en með foreldrum mínum og þeim Kristínu og Guðmundi var góð vinátta. Þá og endranær var ljúft að hitta Guðmund. Hann sagði skemmtilega frá og var glaður og reifur. Guðmundi var sýnt mikið traust í störfum og brást því ekki. Hann sinnti störfum sínum af samviskusemi hins varkára embættismanns. Hann varð fyrsti reglulegi ritarinn á fundum ríkis- stjórnarinnar og ávann því starfi trúnað sem dugað hefur til þessa dags. Fyrir gildistöku stjórnarráðslag- anna var forsætisráðuneyti sameig- inlegt með menntamálaráðuneyti og einn ráðuneytisstjóri yfir þeim báð- um, Birgir Thorlacíus. Þetta breytt- ist eins og áður sagði 1. janúar 1970 og síðan stjórnaði Guðmundur for- sætisráðuneytinu sem ráðuneytis- stjóri til ársins 1992. Eðli máls samkvæmt er ráðuneytisstjóri for- sætisráðuneytisins fremstur meðal jafningja auk þess að gegna störfum ríkisráðsritara. Á starfsárum Guð- mundar sem ríkisráðsritari fóru miklu fleiri skjöl um hendur hans til forseta en nú, eftir að þáttur forseta Íslands í skipun manna í embætti var takmarkaður með lagabreytingum á síðasta áratug. Auk þessara starfa var Guðmundur jafnframt í embætt- ismannanefnd norrænu ráðherra- nefndarinnar frá 1971 til 1985, sem krafðist mikilla ferðalaga allan ársins hring. Þegar ég kom til starfa í forsæt- isráðuneytinu haustið 1974 var orðið rýmra um ráðuneytið í stjórnarráðs- húsinu en 10 árum fyrr og var ráðu- neytið í góðu sambýli við forseta- skrifstofuna. Þetta voru tveir fámennir vinnustaðir þar sem valinn maður var í hverju rúmi og yfir vötn- um sveif góðsemi og gestrisni Guð- mundar og Kristínar, en þau opnuðu okkur reglulega sitt fagra heimili að Reynistað á ógleymanlegum stund- um. Bundumst við starfsfólkið í hús- inu þá vináttuböndum sem ekki hafa rofnað. Síðast skiptumst við Guð- mundur á vinsemdar- og kveðju- orðum fyrr í þessum mánuði þegar Anna Fríða Björgvinsdóttir efndi til mannfagnaðar í tilefni af því að hún var að láta af störfum í forsætisráðu- neytinu eftir 33 ára starf þar. Þá var mínum góða frænda nokkuð brugðið, þótt enn væri hann glaður og reifur. Við Guðmundur eigum ekki eftir að hittast oftar í þessu lífi en ég minn- ist hans með gleði og söknuði, gleði yfir þeim góðu stundum, sem við átt- um saman, og söknuði yfir að þær verða ekki fleiri. Við Rut sendum frú Kristínu, börnum þeirra hjóna og ástvinum öll- um innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Guðmundar Benediktssonar. Björn Bjarnason. Okkur fóstrum er orða vant að minnast Guðmundar Benediktssonar eins og við kysum og vert væri. Ávallt eru menn óviðbúnir slíkum ótíðind- um. Var okkur þó kunnugt um, að síðustu árin sótti á hann meinvættur, sem ætla mátti að bera myndi sigur úr býtum fyrr en varði. Samt sem áð- ur kom dauði hans okkur í opna skjöldu, enda er að Guðmundi hinn mesti sjónarsviptir. Við höfum átt hann að vini og félaga í meira en hálfa öld. Bar aldrei skugga á samskipti okkar á þeirri löngu vegferð. Guðmundur var drengur góður og vinfastur. Hann hafði gamanmál og sögur á hraðbergi og hrókur alls fagnaðar á gleðifundum. Íslenzkt mál lék honum á tungu betur en öðrum mönnum flestum. Ágæta vel lesinn og gagnkunnugur íslenzkum bók- menntum að fornu og nýju. Á stund- um ræddum við fóstbræður um það okkar í milli, að álitlegur hefði verið sá kostur að Guðmundur hefði valið sér að ævistarfi nám og kennslu í móðurmálinu og bókmenntum þjóð- arinnar. Því fremur, sem okkur hefur virzt fátt mikilvægara á þeim sviðum en góðir uppfræðarar nú um stundir óþarfra erlendra áhrifa á tungu og menningu Íslendinga. Guðmundur var hinsvegar kvadd- ur til annarra starfa og eigi síður mikilvægra. Að loknu embættisprófi í lögum var hann starfandi lögmaður í höfuðborginni, en tók um miðjan sjö- unda áratug síðustu aldar við emb- ætti deildarstjóra í forsætisráðuneyt- inu í tíð Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra. Og í framhaldi var Guðmundur skipaður ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis- ins. Gegndi hann því ábyrgðarmikla starfi í rúma tvo áratugi, eða til starfsloka sinna á öndverðum tíunda áratug aldarinnar. Um störf hans þar erum við ekki í færum um að dæma, en látum við það sitja að vísa til þess álits, sem mörgum málsmetandi mönnum er kunnugt um að Bjarni Benediktsson hafði á honum, og þess vinfengis, sem þeir bundust. Guðmundur var alvörumaður að skapgerð og fastur fyrir um öll hin mikilvægari mál, sem hann tók að sér eða var trúað fyrir. Hann var hins- vegar á góðri stund gleðimaður í þess orðs fyllstu og beztu merkingu. Eiginkona Guðmundar er Kristín Claessen og var jafnræði með þeim hjónum í hvívetna. Kristínu prýðir einstakur gerðarþokki. Húsmóður- stöðu á gestkvæmu heimili þeirra á Reynistað í Skerjafirði gegndi hún af skörungsskap og stakri kostgæfni. Þau hjón eiga miklu barnaláni að fagna og er Kristín að því leyti ekki á flæðiskeri stödd nú þegar Guðmund- ur er genginn fyrir ætternisstapann. Hinsvegar hlýtur brotthvarf Guð- mundar að vera henni þrautin þyngri, enda þótt minningin um frá- bæran mann og ektamaka verði henni mikil harmabót. Við undirritaðir vinir Guðmundar Benediktssonar og konur okkar, Greta og Lúlú, sendum Kristínu og fjölskyldu hennar hugheilar samúð- arkveðjur. Við söknum vinar í stað, en hugg- um okkur við að við munum aftur hittast „á feginsdegi fyra“. Láti Guð honum nú raun lofi betri. Barði Friðriksson, Sverrir Hermannsson.  Fleiri minningargreinar um Guð- mund Benediktsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. Höfundar eru: Anna Jóhann- esdóttir, Soffía Kristín, Jónas Krist- jánsson, Jón Ármann Héðinsson, Bjarni Bjarnason, Ragnheiður Erla Bjarnadóttir, Helgi Ágústsson, Pálmi Jónsson, Unnur Eggerts- dóttir, Elías og Ólöf, Ólafur Egilsson.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.