Morgunblaðið - 20.09.2005, Page 32
32 ÞRIÐJUDAGUR 20. SEPTEMBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
um í Kit-Kat-klúbbnum orðið ljóslif-
andi á nýjan leik …
Kæri Bessi, hafðu þökk fyrir allar
unaðsstundirnar í leikhúsinu og fyrir
ljósið sem þú kveiktir í hjarta okkar, í
því mun minningin um frábæran
listamann lifa um ókomin ár.
Kolbrún Halldórsdóttir.
Þegar við, sem stóðum að Sumar-
gleðinni, kveðjum Bessa Bjarnason
rifjast upp fjölhæfni hans í leiklist-
inni. Allir þekkja feril hans í leikhús-
um og í kvikmyndum en Bessi kom
víðar við. Um árabil fóru hann og
Gunnar Eyjólfsson mikinn á sam-
komum og árshátíðum og við tilkomu
Sjónvarpsins varð Bessi að sjálf-
sögðu vinsæll í sjónvarpsþáttum og
sjónvarpsauglýsingum. Stjarna hans
skein sem aldrei fyrr þegar hann
gekk til liðs við Sumargleðina árið
1976 og fór með henni hringferðir um
landið í ellefu ár. Við trúðum því
varla að þessi stórleikari fengist til að
slást í för með okkur sem ekki höfð-
um leiklistarmenntun. En Bessi
gerði aldrei mannamun og varð mik-
ill happafengur fyrir Sumargleðina
þegar hún þurfti þess einna mest við.
Án hans hefði hún aldrei orðið það
sem hún varð. Hann bjó til dæmis yf-
ir undratækni við það að ná sam-
bandi við fólkið í salnum með því að
leika lausum hala innan um það. Þá
ljómaði af honum leikgleðin og lífs-
gleðin sem heillaði þjóðina til sjávar
og sveita. Leiktækni hans, uppá-
tækjasemi og útgeislun var einstök.
Lítið dæmi: Í einum þættinum lék
hann eiginmann, sem þrætir fyrir
það að hafa lent á fylleríi í veiðiferð;
reynir að bjarga sér með því að
kaupa fisk í fiskbúð og segir blákalt
við eiginkonuna að laxarnir sem hann
veiddi séu geymdir niðri í kjallara.
Hún svarar og segist hafa skoðað
fiskana og þetta séu grásleppur. Þeg-
ar hann reynir að bjarga sér með því
að söðla um og segjast hafa veitt grá-
sleppur svarar hún: „En grásleppur
ganga ekki upp laxveiðiár.“ Þannig
endaði leikþátturinn á fyrstu
skemmtun en endirinn þótti ekki
nógu góður. En Bessi fann ráð. Á
næstu skemmtun þegar eiginkonan
sagði: „Grásleppur ganga ekki upp
laxveiðiár,“ svaraði hann: „Jú, það er
búið að breyta því.“ Hárfínni tíma-
setningunni, tóninum í röddinni og
svipbrigðunum er ekki hægt að lýsa á
prenti, en salurinn sprakk í hlátri
eins og það er kallað. Nú hefur þessi
yndislegi ferðafélagi okkar endað sitt
skeið hér á jörðinni og eins og Sum-
argleðin rann sitt skeið á enda mun-
um við, sem að henni stóðum, einnig
gera það. Örlagadómi sínum tók
hann með einstöku æðruleysi sem
speglaðist í því síðasta sem hann
sagði við einn okkar þegar hann var
minntur á 75 ára afmælið: „Ætli ég
láti það bara ekki duga,“ sagði hann.
En það er huggun harmi gegn að hjá
þjóðinni lifir minningin um þennan
einstaka listamann. Við þökkum fyrir
að hafa fengið að eiga hann að sam-
ferðamanni og sendum aðstandend-
um hans samúðarkveðjur.
Sumargleðin.
Æfing á sviði Þjóðleikhússins.
Bessi Bjarnason æfir, ásamt nokkr-
um samleikurum sínum, eitt af mörg-
um atriðum söngleiksins „Ó, þetta er
indælt stríð“, stuttan leikkafla þar
sem Bessi fer á kostum í hlutverki
liðþjálfa við að þjálfa nýliða í hernum.
Eins og fæddur í hlutverkið, topp-
atvinnuleikari sem kann textann upp
á punkt og prik. Daginn eftir er kafl-
inn æfður aftur en nú bregður svo við
að Bessi fer að bæta inn í hann
nokkrum óborganlegum smáatrið-
um, sem fá alla viðstadda til að velt-
ast um af hlátri. Hvílíkur snillingur
er þessi maður! Þessi leikkafli verður
augljóslega beittari og fyndnari á Ís-
landi en nokkurs staðar annars stað-
ar. En Kevin Palmer, breski leik-
stjórinn, biður Bessa um að sleppa
endurbótum sínum á næstu æfingu.
Bessi gerir það að vísu en í staðinn
koma bara ný viðbótaratriði frá hon-
um sem kalla fram enn meiri hlátur
en áður. Sumt af því, sem hann leikur
af fingrum fram, er orðalaust svo að
leikstjórinn getur ekki skammað
hann fyrir að bæta við textann. Á
næstu æfingum er svo komið að þeir
sem eru í húsinu keppast um að vera
viðstaddir til að sjá nýjustu útgáfu
Bessa því það er ekki á hverjum degi
sem menn fá ókeypis að horfa á ný
gamanatriði, sem fá menn til að halda
um magann. Loks fer svo að Palmer
harðbannar Bessa að hrófla hið
minnsta við því sem hann uppáleggi
honum. Ástæðan sé sú að atriðið sé
orðið svo frábært og fyrirferðarmik-
ið að það riðli því jafnvægi, sem þurfa
að vera í sýningunni. Þessu hlýðir
fagmaðurinn Bessi að sjálfsögðu og
leikur eftir þetta atriðið af nákvæmni
og óbrigðulli tækni og slær í gegn.
En samt situr eftir hjá okkur, sem
urðum vitni að snilld hans, hve mikils
leikhúsgestir fóru á mis. Að ekki sé
nú talað um að þetta skuli ekki varð-
veitt á filmu. Kynni okkar hófust
þegar við urðum nær samferða inn á
svið íslenskra skemmtana 1959. Enn
nánari urðu þau í Sumargleðinni. Og
nú, þegar þessi mikli gleðigjafi og öð-
lingur er allur, spretta fram ótal
minningar okkar, sem kynntumst
honum og unnum með honum, um
einstaka hæfileika hans og fágæta
náðargáfu við að gera mikið úr litlu
fyrir jafnt háa sem lága, aldna sem
unga. Minningar um óteljandi gleði-
stundir jafnt á sviðinu sem utan þess,
allar skemmtilegu uppákomurnar,
uppátækin og tilsvörin sem auðguðu
líf okkar og allra í kringum hann. Síð-
ast gaf hann kannski einna mest af
sér með þeim hetjuskap sem hann
sýndi í glímunni við manninn með ljá-
inn. Missirinn er sár og ég bið að-
standendum hans blessunar.
Ómar Þ. Ragnarsson.
Lítil stúlka situr úti í sal og horfir á
uppáhalds leikarann sinn í Ferðinni
til tunglsins, hann hafði boðið henni.
Í hita leiksins kallar hún: „Bessi,
Bessi, löppin er uppi í trénu,“ og
skildi ekki af hverju mamma sagði
þetta má ekki. Jú, hún þekkti Bessa
vel, vinnufélagi pabba í Landsmiðj-
unni til fjölda ára og síðan fór hann
að vinna við sölu hjá bróður mínum
ásamt því að vera einstakur lista-
maður á leiksviðinu.
Hann var vinur pabba og mömmu
og okkar allra bæði í sorg og gleði.
Hittumst einu sinni í London og þá
var Sigþór sonur hans heitinn með í
för og við áttum góðar stundir þar.
Hin síðari ár hittumst við oft í
Sundlaugunum í Laugardal og spjöll-
uðum saman í heita pottinum. Í síð-
asta skipti sem ég hitti hann var fyrr
í sumar í yndislegu veðri í Sundlaug-
unum. Ég sat á sólbekk og hann sett-
ist hjá mér. Hann var einstakur vinur
og forréttindi fyrir mig að hafa
kynnst þessum einstaka manni. Ég
votta börnum hans, eiginkonu og öll-
um ástvinum samúð mína við fráfall
þessa stórkostlega leikara og þakka
þá vináttu sem hann sýndi mér og
fjölskyldu minni alla tíð.
Sigrún Böðvarsdóttir.
Góðir leikarar deyja aldrei, þeir
bara hverfa af sviðinu. Þannig er með
Bessa Bjarnason. Hann mun alltaf
vera ofarlega í hjarta þjóðarinnar,
hann skemmti okkur og fékk okkur
til að hlæja með leik sínum í barna-
leikritum sem maður ólst upp með.
Hann gat leikið allt og fór létt með
það. Bessi var leikari af Guðs náð.
Það voru forréttindi að fá að leika á
móti honum, það var svo stutt í húm-
orinn hjá honum og hann tók mann
með sér á flug og maður skemmti sér
jafn mikið og áhorfendur.
Ég kveð Bessa með miklum sökn-
uði og þakka öll árin sem ég fékk að
kynnast og vinna með honum.
Ég votta öllum aðstandendum
mína dýpstu samúð. Guð veri með
ykkur.
Magnús Ólafsson.
Við erum nýkomnir upp úr strák-
arnir. Búnir að klæða okkur í og mál
að halda heim á leið. Þá verður okkur
litið í austurhorn klefans. Og hver
stendur þar annar en sjálfur Bessi
Bjarnason. Með litlu strákana sína.
Mér verður svo mikið um að ég verð
að tylla mér. Ekki svo sem háum
aldri eða heilsuleysi fyrir að fara,
fjallhraustur sjö ára snáðinn, en nær-
vera þessa ómótstæðilega leikara
tekur á.
Þeir eru að fara oní. Mér finnst
hæpið að elta þá enda þótt mig langi
til þess. En afræð þó að tefja svolitla
stund. Svona tækifæri gefst ekki á
hverjum degi. Hann er eins og ég
hafði ímyndað mér hann. Hann er
auðvitað ekki í ræningjagervinu eins
og ég þekki hann best en eins að
flestu öðru leyti. Ef til vill ívið alvar-
legri á svip en ég átti von á. En blíð-
legur. Vingjarnlegur til augnanna og
einstaklega kómískur auðvitað, enda
þótt hann sé bara að hengja upp af
sér hvunndagsfötin í sturtuklefanum
í gömlu sundlaugunum í Laugardal.
Ég kannast við strákana hans.
Þekki þá að vísu ekki persónulega en
veit þeir heita Bjarni og Sigþór. Ég
hef tyllt mér á trébekk undir vest-
urglugganum þar sem lítið ber á en
hef þó afbragðsfínt útsýni. Þaðan get
ég skoðað Bessa í návígi. Feðgarnir
líta upp og koma auga á mig. Hvað
skyldi hann ætla að sitja lengi þarna
drengurinn fullklæddur. Þeir brosa
til mín. Eru vanir þessu. Bessi má
ekki fara út fyrir hússins dyr án þess
að í kringum hann safnist fólk. Til
þess að skaffa mér afsökun rek ég
handklæðisstrangann í sundur, vind
aftur úr sundskýlunni og rúlla henni
inn í handklæðið á ný. Lúshægt. Og
stari. Hvað þeir eiga gott þessir
strákar. Að eiga óskiptan aðgang að
þessum manni. Ég vildi óska að hann
væri pabbi minn. Ekki að minn sé
slæmur, síður en svo. En ég er með
Bessa á heilanum. Og ég öfunda
strákana.
Þegar ég kem heim úr skólanum á
daginn teikna ég myndir af honum.
Mér finnst ég ná rödd hans býsna
vel. Og reyni að líkja eftir honum.
Eins og hann kom fyrir í hlutverki
Tóbíasar í Undraglerjunum sem var
fyrsta leiksýningin sem ég sá í Þjóð-
leikhúsinu. Þegar þessi ofursnjalli og
drepfyndni leikari gekk um sviðið og
söng, vissi ég samstundis hvað mig
langaði til að taka mér fyrir hendur í
framtíðinni.
Ég safna upplýsingum um átrún-
aðargoð mitt. Að vísu ekki hæg
heimatökin löngu fyrir daga allra
netupplýsinga. En get þó engu að
síður grafið upp hvar hann á heima.
Veit hvernig bíl hann á. Gráan Vaux-
hall. Eftir það finnst mér engir bílar
jafnast á við Vauxhall. Ég veit meira
að segja símanúmerið hjá honum. Í
skránni stendur Bessi Bjarnason
skrifstofumaður. Finnst það svolítið
kyndugt. En ég veit þetta er hann.
Hinn eini og sanni.
Lánið leikur við mig. Ég er sendur
á sumardvalarheimili. Þar dvelur
eldri sonur Bessa. Aldeilis happ.
Hann er afar vinsæll. Auðvitað í
fyrstu einvörðungu vegna þess að
hann er sonur þessa ástæla upptroð-
ara. En drengurinn er svo dæma-
laust geðþekkur að það verður fljótt
aukaatriði í samhenginu og allir
strákarnir á Jaðri sækjast eftir því
að verða vinir hans. Á fimmtudögum
er kvöldvaka og eitt kvöldið veit ég
ekki til fyrr en Bessi Bjarnason
stendur í miðjum matsal. Ég drúpi
höfði í lotningu og dreg mig í hlé.
Enda þótt mig fýsi auðvitað að taka
hann tali. Bessi er kominn til að
sækja strákinn og fara með hann í
sveitina. Á kvöldvökunni er boðið
upp á bíómyndsýningu. Bessi situr
aftast í salnum og skrafar við for-
stöðumann heimilisins. Á kvik-
myndatjaldinu fremur frægasti gam-
anleikari sögunnar Charlie Chaplin
kúnstir sínar. Útskeifur og skondinn.
En áhorfendur á kvöldvöku eru ekki
með augun á tjaldinu. Fimmtíu
strákar og stelpur snúa öfugt í stól-
um sínum allt kvöldið og horfa á út-
skeifa gamanleikarann úr Reykjavík
sem situr afsíðis á rökstólum við for-
stöðumanninn.
Foreldrar mínir taka mig með sér
á Kardemommubæinn. Önnur upp-
ljómun. Skæðari en sú fyrri á Undra-
glerjunum. Hann er svo makalaust
heillandi þessi maður.
Bekkjarfélagi minn einn er svo
lánsamur að vera fjarskyldur leikara
sem fer með hlutverk eins ræningj-
ans á móti Bessa. Ég kem með krók á
móti bragði og skrökva því að honum
að Bessi sé móðurbróðir minn. En
vopnin snúast í höndum á mér. Fé-
lagi minn er tíður gestur á heimili
mínu og af þeim sökum verð ég að
grípa til örþrifaráða í því skyni að
hann komist ekki að hinu sanna.
Sumsé að við Bessi erum ekki einu
sinni fjarskyldir. Ég stofna til flók-
inna sviðsetninga þessu viðvíkjandi
og heppnast þær misbærilega. Raun-
ar stend ég fyrir sviðssetningum í
kjallaratröppunum heima hjá mér
alla daga og byggi þær á framgöngu
Bessa á sviði. Og við það heygarðs-
horn hef ég verið æ síðan, fyrst og
fremst vegna þess að Bessi Bjarna-
son kveikti í mér ungum ákafa löng-
un og þrá.
Bessi hefur verið fjölda íslenskra
leikhúsmanna lærifaðir. Þó sagði
hann aldrei nokkrum einasta manni
til. Og hafði aldrei neitt um frammi-
stöðu annarra að segja. Og sjálfs sín
raunar ekki heldur. En með einstöku
fordæmi sínu varð hann okkur öllum
fyrirmynd og ósvikinn innblástur.
Bessa voru gefnar fágætar vöggu-
gjafir sem gerðu honum kleift að
hrífa fólk með hætti sem fáheyrður
er. Hvorum megin hryggjar á tilfinn-
ingasviðinu sem honum hentaði. Í
skopi jafnt sem harmi. Og þessi að-
sópsmikli sviðsmaður var ekki við
eina fjölina felldur. Fjölhæfni hans
var viðbrugðið. Hann fór ógleyman-
lega með sönghlutverk í óperettum
og söngleikjum; tróð upp á skemmt-
unum og lék í útvarpi. Með djúpum
og dramatískum málróm lokkaði
Bessa tilheyrendur að viðtækjunum
með minni fyrirhöfn en flestir aðrir;
róm sem gat líka átt það til að verða
ógnarskrækur og fyndinn þegar sá
gállinn var á honum. Skjárinn varð
einnig vettvangur Bessa og í árdaga
sjónvarps þegar dagskrá var með fá-
brotnara móti tæmdust göturnar
jafnan á svipstundu þegar út spurðist
að von væri á nýrri sjónvarpsauglýs-
ingu með Bessa.
Það var og viðtekið að jafnskjótt
og Bessi birtist í sýningum á sviði
Þjóðleikhússins breiddist samstund-
is eftirvæntingarkurr um salinn.
Bessi var tæpast kominn inn úr
sviðsvængnum þegar þrálátt hvískur
barst úr öllum hornum.
Kemur Bessi, var viðkvæðið.
Og þá mátti einu gilda hvaða hlut-
verk hann var að leika eða í hvaða
leikriti; þegar hann var á annað borð
kominn í sjónmál fékk áhorfendasal-
urinn ætíð slagsíðu af hlátri. Og í
raun án þess að Bessi gerði nokkurn
skapaðan hlut. Annað en standa svo
gott sem svipbrigðalaus og útskeifur
í miðju sviðsljósi. Stundum þurfti
hann ekki einu sinni að fara með text-
ann sinn til að framkalla hlátur. Bessi
réð yfir töfrum sem gáfu honum vald
yfir áhorfendum sem flestir öfund-
uðu hann af.
Löngu fyrir daga sjónvarps og
annarra myndmiðla vissi hvert ein-
asta mannsbarn góð deili á Bessi
Bjarnasyni. Og fékk aldrei nóg af
honum. Og hvernig skyldi hann hafa
farið að því þegar ekki naut við þeirr-
ar tækni sem gerir skemmtikröftum
og öðrum sem vilja koma sér á fram-
færi kleift að vaða inn á stofugólf hjá
landsmönnum. Jú, hann fór sjálfur á
fund fólksins. Í eigin persónu. Um
land allt. Og ef hann var ekki að troða
upp, áhorfendum til ómældrar gleði,
var hann á faraldsfæti með alls kyns
varning til sölu. Og seldi vel. Sá
kaupfélagsstjóri var ekki til á byggðu
bóli sem lét sig ekki hafa það að
kaupa eitthvað af Bessa Bjarnasyni.
Návígi við Bessa eitt og sér var tíð-
falað, hvernig svo sem til þess var
stofnað.
Persóna Bessa og öll hans fram-
ganga á sviði einkenndist af
áreynsluleysi og hógværð en sömu-
leiðis þeirri ástríðuþrungnu dýpt
sem jafnan prýðir þá sem skara fram
úr í skapandi listum. Bessi var eft-
irsóknarverð manneskja í öllu sam-
neyti og kenndi okkur kollegunum að
það má ná framúrskarandi árangri
án þess að eiga í útistöðum við
nokkra skepnu.
Ég vil þakka einstökum manni fyr-
ir að hafa átt með honum samfylgd í
starfi og ekki síður að fá að eignast
vináttu hans. Ég vil þakka honum
fyrir að hafa með hjartanlegri kúnst
sinni sýnt mér hvernig á að fara að
því að gera góða hluti enda þótt ég
muni sjálfur seint getað leikið þá eft-
ir.
Þjóðin syrgir einn af sínum vænstu
sonum. En mestur harmur er kveð-
inn að hans nánustu og þeim flyt ég
mínar dýpstu samúðarkveðjur.
Gísli Rúnar Jónsson.
Hinsta kveðja frá
Félagi íslenskra leikara
Í dag kveðjum við einn virtasta og
vinsælasta leikara þjóðarinnar Bessa
Bjarnason, sem fallinn er frá eftir
skammvinn veikindi. Bessi var einn
af ötulustu félagsmönnum Félags ís-
lenskra leikara. Í áratugi starfaði
hann af miklum heilindum og dugn-
aði fyrir félagið. Hann var kjörinn
gjaldkeri 1957 og gegndi því starfi
óslitið til ársins 1985. Árið 1992 var
hann gerður að heiðursfélaga FÍL.
Hans er nú sárt saknað af „collegum“
eins og hann kallaði félaga sína
gjarnan. Hann kenndi okkur sem
tókum við stjórn félagsins að sýna
því fullan trúnað og að standa fast á
okkar rétti í samningum og þá ekki
síst að halda á lofti virðingu fyrir
leiklistinni.
Bessi var einn vinsælasti leikari
þjóðarinnar í 50 ár. Minnst þrjár
kynslóðir hafa elskað hann og dáð.
Hann hafði einstaka hæfileika sem
hann nýtti út í ystu æsar bæði sem
gamanleikari og einnig sem frábær
dramatískur leikari.
Við í stjórn Félags íslenskra leik-
ara þökkum Bessa samstarfið í gegn-
um árin. Við munum sakna félagans,
leikarans og ekki síst mannsins
Bessa Bjarnasonar sem var svo
mörgum kostum búinn.
Bessi er einhver besti fulltrúi leik-
listarinnar sem við höfum átt. Þjóðin
hefur misst mikið en minningin lifir.
Megir þú hvíla í friði, kæri vinur.
Möggu og fjölskyldunni sendum við
okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Stjórn Félags íslenskra leikara.
Randver Þorláksson.
BESSI BJARNASON
Minningarkort
535 1825
www.hjarta.is 5351800
Steinsmiðjan MOSAIK
Hamarshöfða 4 • 110 Reykjavík • sími 587 1960 • www.mosaik.is
MIKIÐ ÚRVAL AF LEGSTEINUM
OG FYLGIHLUTUM
Sendum myndalista
Helluhrauni 10, 220 Hfj.
Sími 565 2566
www.englasteinar.is
Fallegir legsteinar
á góðu verði
Englasteinar
Sendum
myndalista
Fleiri minningargreinar
um Bessa Bjarnason bíða birtingar
og munu birtast í blaðinu næstu
daga. Höfundar eru: Þorvaldur
Tryggvason og Þórhallur Sig-
urðsson.