Morgunblaðið - 06.12.2005, Page 45
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 6. DESEMBER 2005 45
MENNING
TÓNLEIKRIT eftir Atla Ingólfsson
við texta eftir norska leikskáldið Jon
Fosse var frumsýnt í gærkvöldi í
Gautaborg á vegum Cinnober-leik-
félagsins. Atli lagði samnefnt leikrit
Fosse, Suzannah, til grundvallar
þegar hann samdi tónleikritið, en
það fjallar um eiginkonu norska
skáldsins Henriks Ibsens.
Verkið verður sýnt í Atalante-
leikhúsinu í Gautaborg í desember
og e.t.v. janúar og fyrirhugaðar eru
leikferðir til Stokkhólms og jafnvel
Bergen og Reykjavíkur á næsta ári.
Göteborg Kammarsolisterna, átta
hljóðfæraleikarar, leika tónlistina og
eru á sviðinu allan tímann, auk leik-
kvennanna þriggja sem fara með
hlutverk Suzannah á mismunandi
aldursskeiðum.
Á vef Cinnober-leikfélagsins er
tónleikritið kallað „músíkmarinerað“
leikrit þar sem tónskáldið láti tóna
og þagnir vefjast um orðin á allan
hátt. Af 70 mínútna leikverki er tón-
list til staðar í 60 mínútur og óhætt
að segja að hún leiki aðalhlutverk,
a.m.k. stundum. Fylgst var með
hluta af lokaæfingu sem vakti óneit-
anlega forvitni. Leikkonurnar þrjár
fara með texta sem verður eins og
hluti af tónlistinni. Tónlistar-
mennirnir verða einnig virkir þátt-
takendur í sýningunni.
Samband tónlistar og texta
Atli var beðinn um að semja tón-
listina en sænsku tónlistarmennirnir
þekktu til tónsmíða hans frá fyrri tíð
en Atli hefur þó nokkuð unnið í Sví-
þjóð. Hann var t.d. gestatónskáld á
Båstad-tónlistarhátíðinni fyrir
tveimur árum og geisladiskur með
kammerverkum eftir hann í flutningi
Caput og Arditti-kvartettsins var
gefinn út í Stokkhólmi síðasta vor.
„Það var ákveðið að fara út í sam-
vinnu og búa til verk þar sem tónlist
og texti féllu saman á nýjan hátt,“
segir Atli Ingólfsson sem staddur er
í Gautaborg til að fylgjast með loka-
æfingum og fyrstu sýningum. „Ég
hef haft mjög gaman af þessu og hef
mikinn áhuga á sambandi tónlistar
og texta en hef þó aldrei unnið áður í
leikhúsi … ef frá er skilið verk sem
ég samdi átján ára gamall fyrir tvo
látbragðsleikara og ballettdansara.“
Hann segir verkið hafa þróast sem
samtal á milli texta Jons Fosse og
tónlistar hans sjálfs. „Ég hafði hans
texta til að tala við. Textinn var skor-
inn niður um 10–20% og mikið er um
endurtekningar og ítrekanir í text-
anum sem er þægilegt fyrir tón-
skáldið.“
Atli var með frá upphafi í þróun-
arvinnunni sem hófst fyrir 2–3 árum
og segist hafa fengið að koma sínum
sjónarmiðum að í leikstjórninni. „Við
vorum sammála um að í þessu ætti
ekki að vera mikið drama og er það í
stíl við stefnu Fosse. Það er nokkuð
erfitt fyrir leikkonurnar að leika
ekki textann heldur að koma honum
frá sér eins og hljóðfæraleikarar. Ef
maður er að spila eitthvað fallegt á
fiðlu þarf ekki að gráta líka, það er
nóg að spila.“
Beygir sig undir þarfir
leikhússins
Atli segist beygja sig undir þarfir
leikhússins í þessu verki og tónlistin
sé ólík öðrum verkum hans. „Ég gef
mér meiri tíma hér, yfirleitt eru
verkin mín hraðari og segja meiri
sögu en hér. Í þessu verki er tónlist-
in til skiptis víkjandi og ríkjandi.
Hún er eins og músíkölsk leiktjöld
þar sem karakterar og texti eru
stundum í forgrunni og stundum í
bakgrunni.“
Atli hefur búið lengi í Bologna á
Ítalíu en er nú fluttur til Íslands.
Hingað til hefur hann einbeitt sér að
hreinni tónlist, þ.e. ekki blöndu tón-
listar og annarra listforma, en í síð-
ustu þremur verkum sínum hefur
hann farið út fyrir þann ramma. Auk
Suzannah,eru það tónverk með
vídeóverki sem frumflutt var í
Frakklandi fyrir skömmu og á næsta
ári verður flutt verk eftir Atla í sam-
vinnu við elektrópoppsveit.
Jon Fosse er núorðið vel þekktur
sem leikskáld en verk eftir hann
verða í fyrsta skipti á fjölunum á Ís-
landi í vetur. Upphaflega var hug-
myndin að biðja hann að semja sér-
stakan texta fyrir tónleikritið í
Gautaborg en ekki gat orðið af því og
verkið Suzannah var valið.
Svante Aulis Löwenborg er leik-
stjóri verksins og segist ánægður
með útkomuna. Hann er áhugamað-
ur um nútímatónlist og er einnig á
meðal þeirra sem kynnt hafa verk
Jon Fosse fyrir Svíum, m.a. með því
að þýða leikrit hans og leikstýra
þeim. Hann segir vel við hæfi að
verkið Suzannah hafi verið valið,
m.t.t. þess að Ibsen-ár er á næsta
ári.
„Þetta er ný tegund tónleikrits,
þetta er ekki venjulegt leikrit með
leikhústónlist í bakgrunni heldur
verk þar sem tónlistin tekur stund-
um völdin af orðinu,“ segir leikstjór-
inn. Cinnober var stofnað árið 1996
og hefur sett upp fimmtán sýningar
síðan þá þar sem verk eftir norður-
evrópsk leikskáld hafa verið í fyrir-
rúmi og tónlist oft leikið stórt hlut-
verk.“ Verkin eru sett upp í mismun-
andi leikhúsum í Gautaborg en
Atalante-leikhúsið sem nú varð fyrir
valinu er uppáhaldssenan. Salurinn
tekur um 100 manns í sæti og nú
þegar hafa sjö sýningar í desember
verið bókaðar.
Tónleiklist | Verk eftir Atla Ingólfsson frumsýnt í Gautaborg
Tónar og þagnir vefjast um orðin
Eftir Steingerði Ólafsdóttur
steingerdur@mbl.is
Morgunblaðið/Steingerður
Atli Ingólfsson tónskáld og Svante Aulis Löwenborg leikstjóri.
ÞAÐ er lán hvers liðs að eiga góðan
stjórnanda. Lúðrasveitin Svanur
getur sannarlega hrósað happi að
hafa fengið Rúnar Óskarsson klarin-
ettuleikara sem stjórnanda. Gagn-
rýnandi þekkir vel til verka Rúnars
á öðrum vettvangi – bæði sem ein-
leikara, úr dúóleik með Söndru de
Bruin, úr kammermúsík með
Hnúkaþey, Caput og fleirum, en
þessa hlið Rúnars hafði hann ekki
upplifað fyrr en á Jólatónleikum
Svansins í Ými á sunnudagskvöld.
Það fer ekki alltaf saman að vera
góður hljóðfæraleikari og góður
stjórnandi – um það eru mörg dæmi,
sum jafnvel sorgleg. En Rúnar hef-
ur þetta gjörsamlega í hendi sér í
orðsins fyllstu merkingu. Taktslagið
var skýrt og öruggt og músíkölsku
leiðbeiningarnar beinskeyttar og
ákveðnar. Svanurinn var líka eins og
leir í höndum hans og spilaði glæsi-
lega. Rúnar er afburða músíkalskur,
gegnheill og flinkur tónlistarmaður
– sama í hvers konar tónlist er borið
niður og leikur Svansins endur-
speglaði það.
Efnisskrá jólatónleikanna var
ekkert tengd jólum, nema lokalagið,
Sleðaferðin eftir Leroy Anderson.
Það sem hæst bar var Satchmo!
syrpa Teds Ricketts, lítil svíta með
lögum sem Louis Armstrong gerði
fræg á sínum tíma. Þar spilaði Svan-
urinn feiknarvel og skapaði áhrifa-
miklar andstæður milli hægu og
ljúfu laganna,
What a wonder-
ful world, og St.
Louis Blues, og
hinna kraftmiklu
og fjörugu When
the saints go
marching in og
Hello Dolly. Út-
setning Ricketts
bar þess merki að
hann er flinkur
útsetjari – enda lengi á mála hjá
Disney við að útsetja, semja og
spila. Ammerland eftir Jacob de
Haan var líka fallegt verk – nátt-
úrustemning frá svissnesku Ölp-
unum, sem hófst á dimmum og nán-
ast mystískum inngangi tréblásar-
anna.
Einleikari kvöldsins, Þorvaldur
Ólafsson var stórfínn í litlu lagi
Wolpes, Turn yourself around, og
ekki síðri í kompaníi við hina þrjá
básúnuleikara sveitarinnar í stand-
ardasyrpu eftir Tom Skjellum. Þar
fóru trompetarnir á kostum í Tico
Tico, klarinetturnar möluðu mun-
úðarfullt Petit fleur í mögnuðu lagi
Sidneys Bechets, básúnurnar blésu
I’m getting sentimental over you og
saxófónarnir voru frábærir í sveifl-
unni í Four brothers. Þarna heyrðist
vel hvað hver og ein rödd Svansins
er fín og pottþétt – engin ástæða til
að ætla að þær raddir sem ekki
fengu sóló séu neitt síðri. Discovery
fantasían eftir Jan de Haan var
prýðilega leikin, en verkið ekkert
sérstakt. Dagskránni lauk á jafn
glæsilegan hátt og hún hófst, með
Sleðaferðinni sem gneistaði af
hneggjandi sveiflu og fjöri.
Aukalagið, Gamlir félagar eftir
Árna Björnsson var fínn útgöngu-
mars eftir stórskemmtilega og lif-
andi jólatónleika Svansins.
Spilagleði hjá
góðum stjórnanda
TÓNLIST
Ýmir
Jólatónleikar Svansins. Flutt voru verk
eftir John Tatgenhorst, Jan de Haan,
Dave Wolpe, Ted Ricketts, Jacob de
Haan, Camille Saint-Saëns, Tom Skjell-
um, Leroy Anderson og Árna Björnsson.
Einleikari: Þorvaldur Ólafsson. Stjórn-
andi: Rúnar Óskarsson.
Sunnudag kl. 20.
Lúðrasveitartónleikar
Bergþóra Jónsdóttir
Rúnar
Óskarsson
ÞAÐ er hreint ótrúlegt að ekki skuli
hafa verið húsfyllir í Hallgríms-
kirkju á sunnudag, þegar Björn
Steinar Sólbergsson organisti Akur-
eyrarkirkju lék þar franska jóla-
músík frá átjándu öld til okkar daga.
Fyrir það fyrsta ætti hljóðfærið eitt
að trekkja, þessi magnaði og hreint
stórfenglegi hljóðabelgur sem Klais
orgelið er. Í öðru lagi er franska
jólamúsíkin stórskemmtileg; alþýð-
leg, en um leið hrein og klár snill-
ingamúsík. Síðast en ekki síst er
Björn Steinar afburða organisti,
sem allt of fá tækifæri gefast til að
heyra í hér syðra. Þetta þrennt fór
fullkomlega saman á tónleikunum;
þeir voru í senn hrein skemmtun, en
líka andlega hugvekjandi.
Franski orgelskólinn býr við
sterka hefð í spuna, og flest verkin á
efnisskránni voru byggð á spunalist-
inni þar sem oftar en ekki reynir á
hæfileika og fingrafimi organistans.
En organistinn þarf líka að hafa til-
finningu fyrir því að velja raddir
smekklega saman. Björn Steinar
sýndi allar flottustu hliðar orgelsins
í frábærum leik sínum.
Tilbrigði Louis-Claude Daquins
við franska jólalagið sem við þekkj-
um sem Skín í rauðar skotthúfur er
mögnuð smíð – með undirtitilinn
Grand jeu – eða stór leikur. Leikinn
vantaði ekki í verkið, hvaða merk-
ingu sem leggja má í orðið. Það kann
að hljóma sérkennilegt og mótsagn-
arkennt að tala um húmor í jóla-
músík fyrir kirkjuorgel – en hvílík
skemmtun sem þetta verk er. Björn
Steinar lagði líka allt í sölurnar í
þessari krefjandi gleðimúsík, og
skapaði um leið
innlifaða stemn-
ingu fyrir það
sem á eftir kom.
Bjartar flautu-
raddir í öðru jóla-
lagi Daquins
sýndu allt aðra
hlið á tónskáldinu
– og líka organ-
istanum, hér var
maður minntur á
að gleðinni fylgir líka alvara.
Eftir önnur þokkafull 18. aldar til-
brigði, eftir Balbastre, lék Björn
Steinar yndislegt og melódískt verk
eftir Alexandre Guilmant, Hugleið-
ingu um jólalag frá Carcassonne.
Magnaðasta verk tónleikanna var
stórbrotin smíð Marcals Duprés,
Tilbrigði um jólalag – lagið reyndist
vera það sem við þekkjum sem
páskasálminn Fræ í foldu sefur.
Dupré fer með hlustandann í gegn-
um allt litróf tilfinninganna, einfald-
ar og íhugular útleggingar á þessu
fallega sálmalagi, brjálæðiskenndar
og djarfar og allt þar á milli: hring-
ekjuvals, tignarlegt tilbrigði í dúr,
annað með laglínu í fótspili undir
dulúðugum flautuhljómum og enn
eitt með laglínu í háfleygri flautu-
rödd yfir flúruðu fótspili. Þetta
mikilfenglega verk lék Björn Steinar
af mikilli fimi og djúpri tilfinningu.
La Nativité eftir Jean Langlais
var stemningsríkt og fallegt, en tón-
leikunum lauk með Fantasíu eftir
Naji Hakim um jólalagið Frá ljós-
anna hásal, þar sem val á röddum
var hrífandi fallegt. Aukalagið var
viðeigandi – hugleiðing um jólasálm-
inn Kom þú, kom vor Immanúel, og
eins og annað, afar fallega spilað.
Gott til þess að vita að tónleikarn-
ir verða sendir út í Sjónvarpinu á að-
fangadagskvöld.
Frönsk orgeljól
gleðja sál og sinni
TÓNLIST
Hallgrímskirkja
Björn Steinar Sólbergsson lék.
Sunnudag kl. 17.
Orgeltónleikar
Bergþóra Jónsdóttir
Björn Steinar
Sólbergsson