Morgunblaðið - 13.12.2005, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 13.12.2005, Blaðsíða 18
18 ÞRIÐJUDAGUR 13. DESEMBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ ERLENT Sydney. AFP, AP. | Kynþáttaóeirðir blossuðu upp í Sydney í Ástralíu í gær, annan daginn í röð. Bílar voru skemmdir og rúður í verslunum brotnar. Sjónarvottar sögðu að „ringulreið“ hefði ríkt í grennd við verslanamiðstöð á Cronulla-strönd í suðurhluta Sydney og lögreglan hefði handtekið menn sem gengu berserksgang um göturnar. Fregnir hermdu að hleypt hefði verið af byssum nálægt hóteli á ströndinni en lögreglan hafði ekki staðfest það í gær. Einn borgarbúanna sagði að hópur ungra manna, sem virtust af arabískum ættum, hefði komið saman við verslanamiðstöðina og ráðist á bíla með hafnaboltakylfum. Um 500 ungmenni lokuðu vegum nálægt mosku í hverfinu La- kemba, sem aðallega er byggt múslímum, þar sem þeir óttuðust að ráðist yrði á hana. Ný-nasistum kennt um Óeirðirnar hófust daginn áður þegar yfir 5.000 manns söfnuðust saman á Cronulla-strönd til að ráðast á unga menn sem eiga ættir að rekja til Mið-Austurlanda. Tugir manna urðu fyrir meiðslum í óeirðunum. Yfirvöld sögðu að ný- nasistar og öfgamenn, sem trúa því að hvítir menn séu öðrum æðri, hafi staðið fyrir ofbeldinu. Hermt er að rekja megi óeirðirnar til ásakana um að ungir menn af arabískum uppruna, sem venja komur sínar á Cronulla-strönd, hafi ráðist á tvo lífverði og áreitt konur. John Howard, forsætisráðherra Ástralíu, for- dæmdi ofbeldið og sagði ekkert hæft í vangavelt- um um að stjórnin hefði stuðlað að óeirðunum með því að vara við því nýlega að öfgamenn úr röðum ástralskra múslíma kynnu að fremja hryðjuverk í landinu. Af um 20 milljónum íbúa Ástralíu eru um 300.000 múslímar. AP Lögreglumenn reyna að fjarlægja óeirðaseggi á Cronulla-strönd í Sydney þar sem kynþáttaóeirðir hófust í fyrradag. Tugir manna urðu fyrir meiðslum. Kynþáttaóeirðir í Sydney Beirút. AFP. | Þekktur líbanskur þing- maður týndi lífi ásamt þremur öðrum í sprengjutilræði í Beirút, höfuðborg Líbanons, í gær. Að sögn lögreglu var þingmaður- inn, Gibran Tueni, á ferð í brynvarinni bifreið sinni í Mekallis-hverfinu í austurhluta Beirút-borgar þegar sprengingin varð. Hún var svo öflug að bíllinn þeyttist út í skurð í um 100 metra fjarlægð þar sem kviknaði í honum. Rúður brotnuðu í húsum í um 500 metra fjarlægð. Tueni var á leið til vinnu um kl. níu að staðartíma (sjö að ísl. tíma) þegar hann var myrtur. Hann var 48 ára gamall. Auk þess að sinna þing- mennsku fyrir kristna íbúa Líbanons var hann framkvæmdastjóri An-Nah- ar, sem er mest selda dagblað Líb- anons. Hann var ákafur talsmaður sjálfstæðis Líbanons og þekktur bar- áttumaður gegn áhrifum Sýrlendinga í landinu. Auk hans fórust bílstjóri hans og tveir menn aðrir í tilræðinu. Tueni hafði á undanliðnum mánuð- um haldið til í París að sögn af ótta við að honum kynni að verða sýnt bana- tilræði. Hann var kjörinn þingmaður í júnímánuði. Margir urðu til þess að skýra til- ræðið með tilvísun til baráttu Tuenis gegn sýrlenskum áhrifum í heima- landi sínu. Þingmaðurinn Walid Jumblatt, leiðtogi Drúsa í Líbanon, sagði böndin berast að þeim. Í viðtali við breska ríkisútvarpið, BBC, sagði Jumblatt að Gueni hefði verið „rödd frelsisins“ í heimalandi sínu. Hann hefði ekki reynt að dylja óbeit sína á Sýrlands- stjórn. „Hann sagði við almenning í Sýrlandi og arabaheiminn að slíkar ríkisstjórnir, ríkisstjórnir hryðju- verkamanna, gætu ekki lengur þrifist og að þær ættu að hverfa,“ sagði Jum- blatt. Mehdi Dakhlallah, upplýsingaráð- herra Sýrlands, vísaði þessari ásökun á bug og kvað „erlenda aðila“ hafa verið að verki, án þess að skýra þau orð sín nánar. Hann kvað Sýrlend- inga fordæma tilræðið. Tilgangurinn með því væri sá „að sverta“ Sýrland og ríkisstjórn landsins. Ný skýrsla um morðið á Hariri Á sunnudag fékk þýski dómarinn Detlev Mehlis framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Kofi Annan, skýrslu um rannsókn sína á morðinu á Rafik Hariri, fyrrum forsætisráð- herra Líbanons. Þetta er önnur áfangaskýrslan, sem Mehlis vinnur en Hariri var myrtur í Líbanon í febr- úarmánuði. Mehlis hefur m.a. yfir- heyrt Sýrlendinga sem talið er hugs- anlegt að tengist tilræðinu. Í fyrstu skýrslu Mehlis var fullyrt að Sýrlend- ingar og stuðningsmenn þeirra í Líb- anon hefðu komið að morðinu á Hariri. Tueni fyllti flokk þeirra, sem telja að Sýrlendingar hafi borið ábyrgð á morðinu á Hariri en Tueni var náinn vinur sonar hans. Sýrlendingar hafa jafnan neitað því að hafa tengst Hariri-morðinu. Eftir að hafa sætt miklum þrýstingi féllust þeir á að Detlev Mehlis gæti yfirheyrt nokkra Sýrlendinga í Vínarborg. Er talið að seinni áfangaskýrsla Mehlis byggist á framburði þeirra. Frá því að Rafik Hariri var myrtur hafa a.m.k. 13 sprengjutilræði verið framin í Líbanon. Ríkir nú upplausn í landinu, sem þykir um margt minna á borgarastríðið, sem þar var háð á ár- unum 1975-1990. Þingmaður ráðinn af dögum í Líbanon Var þekktur bar- áttumaður gegn áhrifum Sýrlend- inga í landinu Konur syrgja Gibran Tueni í Beirút í gær. Mikil reiði greip um sig í hverf- um kristinna manna í Beirút og komu íbúar saman til að fordæma morðið. Reuters Haag. AFP. | Ante Gotovina, fyrrum foringi í her Króatíu, lýsti sig sak- lausan af ákærum um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni er hann kom fyrir Stríðsglæpadóm- stól Sameinuðu þjóðanna, vegna Júgóslavíu fyrr- verandi, í Haag í Hollandi í gær. „Yðar náð, ég er saklaus,“ sagði Gotovina er lesnir voru upp sjö ákæruliðir á hendur honum. Gotovina var handtekinn á Kan- arí-eyjum í liðinni viku. Hann var sólbrúnn og klæddist dökkbláum jakkafötum er hann kom fyrir dómarann í gær. Hann brást illa við þegar dómarinn ákvað að ákæran öll, sem er 14 blaðsíður að lengd, skyldi lesin upp fyrir hann. Gotovina hafði hins vegar afþakk- að að fá að lesa ákæruna sjálfur. Gotovina er fimmtugur að aldri. Hann fór í felur árið 2001 eftir að gefin var út ákæra á hendur hon- um fyrir stríðsglæpi. Gotovina stjórnaði árið 1995 atlögu sem Króatar gerðu gegn Serbum er varð til þess að héraðið Krajina komst á ný undir yfirráð Króatíu. Um 200.000 Serbar flýðu undan hermönnum hans til Bosníu og Serbíu og er Gotovina sakaður um þjóðernishreinsanir og morð á 150 Serbum. Þessi umdeilda aðgerð króatíska hersins batt í raun enda á stríðið í Króatíu, tryggði full yf- irráð stjórnvalda í Zagreb yfir króatísku landsvæði og þannig fullt sjálfstæði Króatíu, sem lýst hafði verið yfir 1991. Handtökunni mótmælt Hefur Gotovina notið mikilla vinsælda meðal almennings í Kró- atíu fyrir þátt sinn í þessum að- gerðum og öðrum í sjálfstæðisbar- áttu Króata, margir álíta hann stríðshetju. Tugþúsundir manna komu sam- an í króatísku borginni Split á sunnudag og mótmæltu handtöku hans. Veifað var þjóðfánanum og myndum af Gotovina og hrópuð ókvæðisorð um ríkisstjórnina og Carla Del Ponte, aðalsaksóknara stríðsglæpadómstóls Sameinuðu þjóðanna í Haag. „Ante Gotovina: Ættjörðin er hreykin af honum“ stóð á svörtum skyrtum sem sumir þátttakenda á fundinum skrýdd- ust. Í augum margra annarra, þ.á m. saksóknara í Haag, gerðist hann hins vegar sekur um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni. Verði Gotovina fundinn sekur um öll ákæruatriðin kann lífstíð- ardómur að vofa yfir honum. Svo langur dómur hefur aðeins einu sinni verið kveðinn upp í Haag. Dæmdir í Serbíu Dómstóll í Belgrad kvað í gær upp dóma yfir 14 Serbum, sem sakaðir eru um fjöldamorð á föng- um í Júgóslavíu-stríðinu árið 1991. Átta mannanna fengu 20 ára dóm en hinir sex dóma á bilinu fimm til fimmtán ár. Tveir voru sýknaðir. Mennirnir voru fundnir sekir um að hafa myrt 200 króatíska fanga nærri bænum Vukovar í Króatíu árið 1991 og ræðir þar um hroðalegasta fjöldamorð á föngum, sem framið var í stríðinu í landinu. Niðurstaða dómsins þykir söguleg en málið var talið prófsteinn á hvort réttarkerfið í Serbíu gæti tekist á við glæpaverk sem unnin voru þegar Júgóslavía leystist upp. Ante Gotovina Gotovina kveðst saklaus 14 Serbar dæmdir fyrir fjöldamorð í Króatíu árið 1991 NÝLEG skoðanakönnun bendir til þess að Írakar séu yfirleitt bjart- sýnir á framtíðina þrátt fyrir of- beldið sem geisað hefur í Írak. Um 1.700 manns tóku þátt í könn- uninni sem var gerð fyrir breska ríkisútvarpið BBC og fleiri fjöl- miðla í október og nóvember. 71% aðspurðra kvaðst lifa mjög eða nokkuð góðu lífi en 29% sögðu líf sitt mjög eða nokkuð slæmt. 64% sögðust telja að lífið myndi batna á næsta ári en 12% töldu að það myndi versna. Rétt rúmur helmingur Íraka, eða 53%, taldi að ástandið í landinu al- mennt væri slæmt en 44% sögðu að það væri gott. Þorri þeirra var hins vegar bjart- sýnn á framtíðina. 69% sögðu að ástandið í Írak myndi batna en 11% töldu það versna. Fram kom þó greinilegur munur eftir lands- hlutum; íbúar miðhluta landsins voru miklu svartsýnni en íbúar Bagdad, suðurhlutans (þar sem sjít- ar eru í meirihluta) og Kúrdahér- aðanna í norðri. Þátttakendurnir voru beðnir að velja forgangsverkefni stjórnvalda eftir þingkosningarnar á fimmtu- daginn kemur og 57% þeirra sögðu að ráðstafanir til að tryggja öryggi landsmanna ættu að ganga fyrir. 10% svöruðu að leggja bæri mesta áherslu á að sjá til þess að erlendu hersveitirnar í landinu yrðu fluttar þaðan. Helmingur aðspurðra sagði að Írak þyrfti einn, öflugan leiðtoga eftir kosningarnar en 28% sögðu að lýðræði væri mikilvægara. Afstaðan breyttist hins vegar þegar spurt var hvað Írak þyrfti eftir fimm ár. Aðeins 31% sagði þá að þörf væri á einum, öflugum leið- toga og 45% töldu lýðræði mik- ilvægara. Írakar bjartsýnir á framtíðina

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.