Morgunblaðið - 13.12.2005, Blaðsíða 45

Morgunblaðið - 13.12.2005, Blaðsíða 45
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 13. DESEMBER 2005 45 MENNING Ljósmyndarinn Marco Paoluzzo hafðikomið níu sinnum til Íslands, og íhvert sinn dvalið hér vikum saman. En þegar hann kom til að vera viðstaddur opnun sýningar á ljósmyndum sínum í Þjóð- minjasafninu á dögunum flaug hann í fyrsta sinn til landsins. „Það er allt öðruvísi að koma fljúgandi,“ sagði Paoluzzo þar sem við sátum yfir svörtu morgunkaffi hjá kollega okkar vestur í bæ. „Ég hef alltaf komið með ferjunni, með stóra trukkinn minn og get þá líka komið mér fyrir hvar sem er. Þetta er líka í fyrsta sinn sem ég er hér um miðjan vetur – það fer ekki að birta fyrr en klukkan ellefu! En síðdegisljósið er fallegt, í þessar fáu mínútur sem það var- ir.“ Paoluzzo opnaði ekki bara glæsilega sýn- ingu á myndum frá Íslandi og Færeyjum í Myndasal Þjóðminjasafnsins, heldur var hann líka að gefa út bók í stóru broti með þessum ljósmyndum og nefnir hana eftir sögusviðinu: North / Nord. Þetta er ekki fyrsta bók hans um Ísland því fyrir tíu árum sendi hann frá sér bók í sama broti og nefndi eftir landinu. Þá hef- ur hann einnig gert ljósmyndabækur um Kúbu, Bandaríkin og Sjanghæ.    Marco Paoluzzo byrjaði að taka myndirárið 1967 en eftir tíu mánaða flakk um Indland nokkrum árum seinna fannst honum hann vera farinn að ná valdi á miðl- inum. Þá ákvað hann að verða ljósmyndari, fór í skóla og útskrifaðist fimm árum síðar, 31 árs gamall. „Þá fannst mér ég verða að bretta upp ermarnar og fara að vinna. Ég opnaði stúdíó heima í Sviss og einbeitti mér að auglýsinga- og iðnaðarljósmyndun. Eftir 15 ár í þeim bransa safnaði ég saman af- rakstrinum og sá að ég átti í mesta lagi þrjár myndir sem ég var ánægður með. Þá ákvað ég að snúa mér aftur að ferða- ljósmyndun, vinna meira fyrir sjálfan mig.“ Hann keypti sér öflugan trukk með fjór- hjóladrifi og ákvað að leggja land undir fót, sumarið var að bresta á og hann vildi leita í kulda: Ísland varð fyrir valinu. „Þetta var 1991. Ég var sex vikur á Ís- landi. Þetta var afar ljúft sumar, falleg birta og ég náði mörgum góðum myndum, í lit og svarthvítu. Ritstjóri bókaforlags vildi gefa út bók með litmyndunum. Árið eftir kom ég því aftur og myndaði sérstaklega í lit, fór svo heim til að ljúka við bókina en þá var komin efnahagskreppa í Sviss. Út- gefandinn sagðist ekki geta ráðist í útgáf- una, áhættan væri of mikil. Ég var ekki sáttur við það en lagði bókina samt til hlið- ar. Árið 1993 tók ég mér árs leyfi og ákvað að eyða árinu í Bandaríkjunum með unn- ustunni, ferðast um og klára bók sem ég hafði unnið að um landið um tíma. Eftir þrjá mánuði var ég búinn að fá nóg! Ég þoldi Bandaríkin ekki lengur og við flýttum okkur til Evrópu. Ég var þunglyndur og leið illa eftir þenn- an þvæling, við vorum þreytt og þurftum að jafna okkur – svo við ákváðum að fara beint til Íslands,“ segir hann og hlær. „Þá eyddi ég rúmum mánuði hér. Ég ók um allt, mjög afslappaður og tók myndir í svarthvítu. Þegar ég sneri heim var ég kominn með lungann í svarthvíta bók. Þá fékk ég boð um að vera með stóra sýningu í Sviss og ákvað að hún yrði um Ísland. Sýningin tókst vel, viðtökurnar voru góðar, svo ég ákvað að fara í fjórðu Íslandsferðina strax árið eftir, 1994, og þá lauk ég við fyrri bókina. Ég kostaði hana líka sjálfur.“    Paoluzzo einbeitti sér nú alfarið aðferðaljósmyndun. Hann kom til Íslands árið 1995 til að kynna bókina, næst var hann hér 1997, þá tók við tímabil þar hann var upptekinn í öðrum hlutum heimsins. „Konan mín, sem er kínversk, vildi endi- lega koma til Íslands og þess vegna komum við hingað með bílinn undir haust 2002. Það rigndi nánast hvern einasta dag, ljósið var mjög fallegt og litirnir í landinu. Við fylgdumst með smalamennsku á fjöllum – og tíu mánuðum seinna vorum við aftur mætt til landsins. Við komum fjórum sinn- um á síðustu þremur árum og dvöldum allt- af í fjórar til sex vikur.“ Á Þjóðminjasafninu kom upp áhugi á að sýna myndir Paoluzzos frá þessum síðustu ferðum og Edda útgáfa hafði lengi vel hug á að gefa bókina út. „Þeim fannst hún síðan vera of dýr en mér fannst ég vera kominn of langt með hana og kostaði bókina því sjálfur.“ Paoluzzo segir bók sem þessa vissulega vera dýra, „en þegar þú gefur út svona persónulega ljósmyndabók gleymirðu allri vinnunni og ferðunum; ef þú ert ánægður með útkomuna er gott að ná bara kostnaðinum aftur. Mér finnst ég hafa af- rekað eitthvað. Mér finnst ég vera á ferð eftir eins konar stíg, sérhver bók er eins og varða á leiðinni. Og ég er ekki búinn með Ísland, kannski kem ég á næsta ári og held áfram að mynda, kannski seinna. Eitt er öruggt; í hvert sinn sem ég kem hingað tek ég öðruvísi myndir en í fyrri ferðum.“    Í myndum bókarinnar er mikið um form-fasta ramma af klettum og svörtum sandi, gjarnan þar sem ströndin mætir hafi. Paoluzzo segir að fyrir 15 árum hafi Mýr- dalssandur verið sinn eftirlætisstaður á landinu en nú sé hann orðinn of gróinn fyr- ir sig. En hann haldi mikið upp á mörg svæði, eins og umhverfi Veiðivatna. „Eftir sex ferðir komst ég að því að ég kann ekki að meta Norðurland. Það er of grænt.“ Hann bætir við að þegar hann komi á nýjan stað, sem honum þyki vænlegur til mynda- töku, fari hann út með myndavél og þrífót og rannsaki hann ítarlega. „Ég mynda frá ýmsum sjónarhornum og lýk alltaf að minnsta kosti einni filmu, kannski tveimur eða þremur. Ég reyni að fara nálægt mynd- efninu, sökkva mér djúpt í landið.“ Síðustu fimm ár hefur Marco Paoluzzo unnið mikið í Eþíópíu og þrátt fyrir að 80% myndanna sem hann hefur tekið þar séu í lit er hann nú að leggja lokahönd á svart- hvíta bók um landið. „Hún verður gjörólík þessum bókum um Ísland. Það er mjög erf- itt að flokka mig sem ljósmyndara, verk mín eru mjög fjölbreytileg. Ég hef líka í huga að gera litmyndabók frá Eþíópíu en það ætti að vera auðvelt að fá útgefanda að henni, hún verður túristavænni.“ Seinni hluti bókar Paoluzzos um norðrið eru ljósmyndir frá Færeyjum. „Ég hef alltaf komið þar við með ferjunni en nú dvaldi ég þar í fyrsta skipti í átta vikur. Ég vildi ekki kalla þessa bók Ísland II og ákvað því að hafa Færeyjar og Skot- land með. En Skotland varð útundan, bíll- inn bilaði og áætlanir breyttust þannig að Norðrið varð bara Ísland og Færeyjar. En mér finnst að myndirnar af þessum tveimur löndum styðji hver við aðra. Færeyjar eru vissulega grænar en þær eru líka dökkar og þar rignir látlaust! Ég á erfitt með að finna jafn ósnortið landslag í Færeyjum og á Íslandi enda eru eyjarnar litlar og alls staðar ummerki um menn. En þetta er oft gróf og heillandi náttúra; fyrir mér eru Færeyjar í sömu fjölskyldu og Ísland.“ Vörður á leið ljósmyndarans ’Paoluzzo opnaði ekki baraglæsilega sýningu á myndum frá Íslandi og Færeyjum í Myndasal Þjóðminjasafnsins, heldur var hann líka að gefa út bók í stóru broti með þessum ljósmyndum og nefnir hana eftir sögusviðinu: North / Nord.‘ AF LISTUM Einar Falur Ingólfsson Morgunblaðið/Einar Falur Marco Paoluzzo: „Eftir sex ferðir komst ég að því að ég kann ekki að meta Norðurland. Það er of grænt.“ efi@mbl.is Reykjanestá. Ein margra mynda Paoluzzos þar sem strönd mætir hafi. MÚSÍK og matur geta átt vel sam- an, sérstaklega ef hvort um sig er gott og hæfir hinu. Í sífelldri sam- keppni tónlistarfólks um að komast að í viðburðaflóðinu er sniðugt að flétta þetta saman og fá meira áreiti sem hvetur til tónleikasókn- ar. Þar má til dæmis nefna vel heppnaða hádegistónleika á vegum Tónlistarfélags Akureyrar í vetur þar sem fólk getur smakkað á spennandi réttum á og hlýtt á metnaðarfullan tónlistarflutning á meðan. 10. desember voru haldnir tónleikar í Íþróttahöllinni á Ak- ureyri á þessum nótum og boðið upp á jólahlaðborð á eftir. Sinfón- íuhljómsveit Norðurlands spilaði, einsöngvarar voru Óskar Pét- ursson tenór og Björg Þórhallsdóttir sópran og auk þess söng Stúlknakór Ak- ureyrarkirkju með í mörgum laganna. Á efnisskránni voru nær eingöngu þekkt jólalög enda var yf- irskrift tónleikanna: Aðventuveisla. Þeir hófust á jólalaga- syrpu eftir Leroy Anderson með þekkt- um stefjum. Þessi Kani er tengdari Ís- landi en marga grun- ar því hann mun hafa talað íslensku, skrifað íslenska málfræðibók og gegnt herþjónustu í Keflavík á stríðsárunum. Það kom strax fram í upphafsstykkinu að hljómsveitin var í fínu formi. Næstu lög voru í hljómsveitarbúningi Guðmundar Óla stjórnanda, fyrst Á jólunum er gleði og gaman, fúmm, fúmm, fúmm með stúlkna- kórnum. Einu sinni var textaviðkvæðið hó, hó, hó notað í stað fúmms- ins og hljómar sú út- gáfan betur í söng og mætti heyrast oftar. Þá kom lagið Jólasveinn- inn minn með Óskari og Það á að gefa börn- um brauð, með stúlknakórnum. Allt vel flutt og í góðu jafn- vægi en endurómun í íþróttahöllinni er bág- borin og stúlknakórinn var heldur magur í því hljóðkerfi sem notað var til að magna upp hljómburðinn. Í hvert sinn sem farið er á tónleika í Íþróttahöllinni minnir þörfin á nýj- um hljómleikasal á Akureyri á sig og nú ríður á að engar tafir verði á byggingu Menningarhússins í bæn- um sem mun hýsa þess háttar sal. Önnur lög á tónleikunum í útsetn- ingu stjórnandans voru, Þá ný- fæddur Jesús þar sem Óskar söng einsöng, og María í skóginum. Allar útsetningarnar voru áheyrilegar og jólalegar og skemmtilegt hvernig fagott var notað í þeim á háu tón- sviði. Óskar söng líka í smekklegri útsetningu Jóns Hlöðvers á laginu Betlehemsstjarnan eftir föður Jóns, Áskel Jónsson. Hann söng allar melódíurnar afar fallega eins og hann á vanda til. Kannski hefði síðastnefnda lagið mátt vera hálf- eða heiltóni hærra og rödd hans hefði þar með notið sín enn betur í því lagi. Björg Þórhallsdóttir söng einsöng í nokkrum laganna og fór á kostum í Ave Maríu, Kaldalóns, Intermezzói úr Cavalleria Rustic- ana við sama texta og Panis Angeli- cus. Björg hefur glæsilega rödd og hefur aldrei verið betri, tónarnir eru fágaðir og lága tónsviðið sér- staklega breitt og ríkt. Þau Óskar sungu líka dúetta sem hljómuðu mjög laglega eins og síðasta lagið Frá ljósanna hásal (Adeste fideles). Þó máttu mennirnir við hljóðblönd- unina stundum passa að Óskar væri ekki of lágvær miðað við Björgu. Söngur stúlknakórsins var í heild mjög góður. Hljómsveitin átti líka marga mjög góða spretti. Þættirnir úr Hnotubrjótnum voru reyndar í óþarflega hröðu tempói og músíkin hefði notið sín betur aðeins hægari, eins og verið væri að dansa ballett við hana. En hljómsveitin lék al- mennt mjög vel og greinilegt að hún er miklu betri en hún var á tí- unda áratugnum. Jólamúsíkveisla á Akureyri TÓNLIST Íþróttahöllin á Akureyri Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Stjórn- andi Guðmundur Óli Gunnarsson. Laug- ardaginn 10. desember 2005. Sinfóníutónleikar Ívar Aðalsteinsson Guðmundur Óli Gunnarsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.