Fréttablaðið


Fréttablaðið - 17.04.2003, Qupperneq 16

Fréttablaðið - 17.04.2003, Qupperneq 16
16 17. apríl 2003 FIMMTUDAGUR Innrás Rússa í Tsjetsjeníu átti að binda enda á sjálfstæðisvonir landsmanna. Tæpum áratug síðar er enn barist. Ný stjórnarskrá var samþykkt í vafasamri kosningu þar sem komið var í veg fyrir alþjóðlegt eftirlit. Dauðar sálir kjósa um stríðslok Það voru allar líkur á skamm-vinnu stríði ef aðeins var litið til þess vopnabúnaðar sem ríkin réðu yfir. Rússar með sinn fjöl- menna og tæknivædda her. Tsjetsjenar fámennir, lítt vopnað- ir og illa skipulagðir. Boris Jeltsín, þáverandi Rússlandsfor- seta, þótti því óhætt að hefja inn- rás í Tjsetsjeníu, lítið ríki sem freistaði þess að lýsa yfir sjálf- stæði. Tæpum áratug síðar setja bardagar enn svipmót sitt á land- ið. Bardagar og árásir Það er langt í frá friðsamlegt í Tsjetsjeníu. Barist er í sunnan- verðu landinu þar sem uppreisn- armenn eru sterkir. Árásir eru tíðar víðar í landinu, hvort tveggja á hermenn og almenning. Stutt er síðan átta létust þegar sprengja sprakk í rútu í höfuð- borginni Grosní. Ofbeldi er mikið og útbreitt í Tsjetsjeníu. Morð eru nær tífalt tíðari þar en í Moskvu að því er fram kemur í skýrslu rússneskra stjórnvalda sem mannréttinda- samtök komust yfir. Mannshvörf eru einnig tíð. Líkur hafa verið leiddar að því að rússneskir her- menn beri ábyrgð á mörgum af þessum glæpum. Vopnaðir menn, talandi lýtalausa rússnesku og keyrandi um á brynvörðum farar- tækjum, hafa sést grípa menn á heimilum þeirra og nema þá á brott. Síðar hefur ekki spurst til þeirra. Rússar hafa reynt að telja um- heiminum trú um að stöðugleiki væri að komast á í Tsjetsjeníu. Skýrslan sem Human Rights Watch komst yfir grefur undan þeim staðhæfingum. Grimmileg stríð Stríðin í Tsjetsjeníu eru í raun tvö. Það fyrra hófst með innrás Rússa síðla árs 1994. Jeltsín von- aðist til að berja andstöðu Tsjetsjena niður á skömmum tíma þrátt fyrir að í sögu Tsjetsjena sé að finna mörg dæmi um langvinna og miskunnarlausa baráttu gegn yfirvöldum Rússa. Því stríði lauk 1996 þegar rússneski herinn var dreginn til baka. Stríðsátök hófust aftur fyrir fjórum árum þegar rússneski herinn var sendur aftur inn í landið. Stríðinu í Tsjetsjeníu hefur verið lýst sem einu því grimmi- legasta á síðari árum. Rússar gerðu hrikalegar árásir á Grosní, lögðu borgina í rúst og gerðu lítið til að hlífa óbreyttum borgurum. Ásakanir á hendur rússneska hernum um mannréttindabrot hafa verið tíðar. Tsjetsjenskir uppreisnarmenn hafa gripið til hryðjuverka. Eins og alltaf í stríði hefur almenningur liðið fyrir átökin. Dauðar sálir Í skáldsögu Nikolaj Gogol frá því á 19. öld segir frá braskara sem ferðast milli stórbænda og kaupir af þeim dauðar sálir. Þá voru nýsett lög sem bönnuðu bændum að brugga brennivín nema ráða yfir 50 sálum á jarðar- eign sinni. Þar sem skrárnar voru ekki uppfærðar nema á fimm ára fresti mátti notast við dauðar sál- ir til að geta bruggað áfengi með löglegum hætti. Dauðar sálir gætu enn gegnt hlutverki í rússnesku þjóðlífi. Enska vikublaðið The Economist leiddi í það minnsta getum að því að úrslitum hefði verið hagrætt í atkvæðagreiðslu um nýja stjórn- arskrá í síðasta mánuði, að öðrum kosti væri erfitt að útskýra mikla kjörsókn. Rússar stjórnuðu kosn- ingunum, sem átti að gefa þeim lögmæti, og sögðu kjörsóknina vera 88%. Blaðamaður Economist á svæðinu segist ekki hafa orðið var við mikla kjörsókn þegar hann ferðaðist á milli kjörstaða. „...það virtist sem það væru ekki lifandi sálir heldur dauðar sem stóðu á bak við fjölda atkvæða.“ Komið í veg fyrir eftirlit Kosningaeftirlitið var ekki mikið. Þannig er sagt frá tveimur erlendum blaðamönnum sem léku sér að því að greiða atkvæði. Eina eftirlitið var af hálfu Rússa. Lára Margrét Ragnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur unnið mikið í málefn- um Tsjetsjeníu á vettvangi Evr- ópuþingsins, segir að Rússar hafi gert erlendum aðilum ókleift að hafa eftirlit með kosningunum. Kröfur þeirra um öryggisvernd hafi verið slíkar að eftirlitsmönn- um hafi ekki verið gert kleift að sinna starfi sínu. Rússar gáfu upp mikla kjör- sókn í Tsjetsjeníu. Einna mest var hún þó meðal þúsunda rúss- neskra hermanna sem höfðu at- kvæðisrétt. Í flóttamannabúðum í Ingúsetíu, þar sem margir Tsjetsjenar hafast við, var þátt- takan lítil. Alþjóðleg hjálparsamtök og stofnanir hafa að stórum hluta haldið sig fjarri landinu. Evrópu- ráðið hefur fjallað um stöðu mála. Sendinefnd Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu var sparkað úr landinu seint á síðasta ári. Læknar án landamæra láta í það minnsta ein landamæri stöðva sig. Þeir fara ekki inn í Tsjetsjeníu. Litlar líkur á friði Rússar sögðu nýja stjórnar- skrá Tsjetsjeníu eiga að tryggja frið. Þannig hljómaði áróður þeirra í aðdraganda kosning- anna. Eini sýnilegi árangurinn er þó sá að framtíð Tsjetsjeníu innan rússneska ríkjasambands- ins er staðfest. Kosningar fara fram síðar á árinu. Þær tak- markast þó af því að Rússlands- forseti getur vikið leiðtoga Tsjetsjeníu frá hvenær sem honum sýnist. Rússar virðast því vera að styrkja tök sín þó margir voni að stjórn svæðisins færist í auknum mæli úr hönd- um hersins í hendur borgara- legra yfirvalda. Friðarhorfur eru öllu minni. Áður er vitnað í samtökin Hum- an Rights Watch, sem sjá ekki að miklar breytingar hafi orðið. Ítrekað hefur verið bent á að Rússar verði að hefja viðræður við uppreisnarmenn um frið, en því hafa þeir neitað. Uppreisn- armenn neita að gefast upp. Á sama tíma hefur spillingin grasserað. Glæpir, þeirra á með- al mannrán og svartamarkaðs- brask, hafa reynst drjúg tekju- lind, hvort tveggja fyrir upp- reisnarmenn og hermenn. Þeir hafa því ef til vill ekki hag af því að stríðinu loki. Meðan stjórn rússneskra stjórnvalda á hern- um er dregin í efa getur það ráð- ið úrslitum. brynjolfur@frettabladid.is Læknar án landamæra láta í það minnsta ein landamæri stöðva sig. Þeir fara ekki inn í Tsjetsjeníu. ,, FRIÐ Í TSJETSJENÍU 1.500 manns komu saman í Tsjetsjeníu á laugardag til að mótmæla stríðinu þar í landi. Slík mótmæli eru fátíð en hafa þó átt sér stað nokkrum sinnum frá því stríðið hófst aftur 1999. SPRENGJUÁRÁS Í GROSNÍ Átta manns létu lífið þegar bifreið var sprengd í loft upp í höfuðborg Tsjetsjeníu, fimm lögreglumenn og þrír óbreyttir borgarar.

x

Fréttablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.