Fréttablaðið - 23.08.2003, Page 26
■ Bandaríkin
26 23. ágúst 2003 LAUGARDAGUR
Byssuhvellir hafa undanfariðrofið kyrrðina í Charleston í
Vestur-Virgíníufylki sem er ein af
náttúruperlum Appalakíufjalla í
Bandaríkjunum. Charleston er
friðsæll staður sem er fjölsóttur
af ferðamönnum og í Vestur-Virg-
iníu er glæpatíðni einna lægst í
öllu landinu. En nú er friðurinn
úti. Fyrir fáeinum dögum féllu
þar þrjár manneskjur fyrir byssu-
kúlum.
Að kvöldi fimmtudagsins 7.
ágúst var Jeannie Patton skotin til
bana á bensínsstöð skammt fyrir
sunnan Charleston, þegar hún
hafði lokið við að setja bensín á
bílinn sinn og var á leiðinni inn til
að borga. Hún var einstæð móðir
og lét eftir sig 14 ára gamlan son.
Klukkutíma síðar varð Okey Mea-
dows fyrir banaskoti fyrir utan
verslunarmiðstöð austan við bæ-
inn. Meadows var 26 ára gamall.
Hann fékk byssukúlu í höfuðið
þar sem hann stóð við verslunar-
lúgu og ætlaði að kaupa mjólk.
Hann var fráskilinn og átti 3 ára
son.
Sunnudagskvöldið 10. ágúst
féll svo þriðja fórnarlambið fyrir
byssukúlu úr launsátri. Það var
Gary Carrier, 44 ára gamall, þar
sem hann var að nota almennings-
síma fyrir utan verslunarmiðstöð
vestan við Charleston. Hann var
fráskilinn, fjögurra barna faðir.
Dökkur pallbíll
Vitni sáu dökkan pallbíl fyrir
utan verslunarmiðstöðina þar
sem Gary Carrier var skotinn.
Eitt vitnanna, kona sem var að
tala í almenningssíma í námunda
við Carrier, segist hafa séð
„svartan pallbíl með lengdu
húsi.“ Önnur vitni segja að pall-
bíllinn hafi verið dökkleitur,
jafnvel vínrauður.
„Við teljum að leyniskyttan
hafi skotið úr pallbílnum,“ segir
lögreglustjórinn í Kanawha-sýslu,
Phil Morris, „vegna þess að um
leið og skotinu var hleypt af var
bílnum ekið burt í skyndi með
ískrandi hjólbörðum.“
Hvítur maður
Engin tóm skothylki fundust á
staðnum, sem er enn ein ástæða
fyrir því að lögreglan telur að
leyniskyttan hafi skotið úr bifreið.
Vitni sáu dökkan pallbíl, ef til vill
Ford F-150, standa fyrir utan versl-
unarmiðstöðina í fullar 20 mínútur
áður en morðið var framið, en eina
lýsingin sem fengist hefur á bíl-
stjóranum er sú að hann sé „hvítur
maður, þreklega vaxinn“.
Þrátt fyrir þessar vísbendingar
er enginn hægðarleikur að hafa
uppi á pallbílnum. Dökkir pallbílar
eru vinsæl farartæki í fjölsóttri
Vestur-Virginíu. Bæjarstjórinn í
Charleston, og að minnsta kosti
tveir menn úr lögregluliði bæjar-
ins, aka um á slíkum farartækjum.
Lögregluyfirvöld á svæðinu vilja
ekki kveða upp úr með að sami eða
sömu aðilar hafi verið á ferðinni í
öllum þremur tilvikum, þótt margt
bendi óneitanlega til þess. Lögregl-
an segist ekki vilja vekja óþarfa
ótta meðal almennings og einnig er
mönnum mikið í mun að eyðileggja
ekki friðsama ímynd Vestur-Virgín-
íu, en það gæti dregið mjög úr að-
sókn ferðamanna.
Áhrif Malvos og
Muhammads
Ástæðan fyrir því að íbúar
Kanawh-asýslu eru felmtri slegn-
ir er sú að skemmst er að minnast
þess þegar leyniskytturnar John
Allen Muhammad og Lee Boyd
Malvo fóru í tortímingarherferð
og drápu á annan tug fórnarlamba
úr launsátri í Louisiana, Alabama,
Georgíu og Washington í október
á síðasta ári. Hið blóði drifna
ferðalag þeirra stóð í þrjár vikur
uns lögreglan hafði hendur í hári
þeirra, en réttarhöld yfir þeim
hefjast í október og nóvember
næstkomandi.
Íbúar Vestur-Virginíu hafa
áhyggjur af því að á meðal
þeirra sé einhver eða einhverjir
sem hafi hugsað sér að vekja ótta
og skelfingu á meðal almennings
í Bandaríkjunum með því halda
áfram launvígum að hætti þeirra
Malvos og Muhammads, sem nú
bíða þess að réttarhöld hefjist í
málum þeirra. ■
Michael Moore, rithöfundur ogkvikmyndagerðarmaður,
hefur gert meira en flestir aðrir
til að vekja athygli á því að hugs-
anlega sé samband á milli þess
hversu útbreidd byssueign er í
Bandaríkjunum og þeirrar stað-
reyndar að þar í landi falla fleiri
fyrir byssukúlum en í nokkru
öðru landi þar sem ekki ríkir
styrjaldarástand.
Börn og byssur
Morðleiðangur Malvos, sem er
sautján ára, og Muhammads um
nokkur fylki Bandaríkjanna í
fyrra, þegar þeir myrtu á annan
tug saklausra borgara úr laun-
sátri með riffilskotum vakti mik-
inn óhug og sömuleiðis sú stað-
reynd að skotvopn í höndum
barna og unglinga á skólaaldri
hafa kostað fjölmörg mannslíf.
Engu að síður ræður aðgerðaleysi
stjórnmálamanna, öfugt almenn-
ingsálit og sterk hagsmunasam-
tök því að skotvopn í einstaklings-
eigu eru nú álitin vera um 250
milljón talsins í Bandaríkjunum,
og líklega mun þeim fjölga frem-
ur en fækka á næstunni.
Byssuglaðir Bandaríkjamenn
segja að það séu undirstöðumann-
réttindi að hver og einn, sem upp-
fyllir ákveðin skilyrði, fái að eiga
vopn til að stunda veiðimennsku,
verja hendur sínar, eða einfald-
lega sér til gamans. Andstæðingar
vopnaburðar segja hins vegar að
byssudýrkunin sé komin út í al-
gjörar öfgar og augljóst samhengi
milli byssueignar þjóðarinnar og
byssuglæpa.
Margir vilja kenna sjónvarp-
inu eða Hollywood um mikinn
fjölda ofbeldis- og byssuglæpa í
Bandaríkjunum, en svarið við því
er jafnan að afþreyingariðnaður
endurspegli fremur en móti þjóð-
félagið. Leikarinn Tim Robbins
benti á að meðan Clinton forseti
sakaði Hollywood um að eiga sök
á skotvopnadýrkun, hafi banda-
ríski herinn verið að kasta
sprengjum á Kosovo, samkvæmt
fyrirmælum forsetans.
Glettni örlaganna
Það er
undarleg grá
glettni örlag-
anna að tveir
menn með riffil
gætu sett þjóðfélag með
250 milljónir skotvopna
á annan endann. Það
gerðu þeir John Allen
Muhammad og Lee
Malvo, en þeir héldu
þjóð sinni í heljar-
greipum óttans í samfellt 23 daga
í októbermánuði á síðasta ári.
Morðæði Malvos og Muhamm-
ads hófst 2. október, í námunda
við Rockville í Maryland-fylki, og
áður en þeir voru handteknir
þremur vikum síðar höfðu þeir
skotið og sært 13 manns, þar af 10
til ólífis. Þeir höfðu skilið eftir sig
orðsendingar og hringt símtöl til
að krefjast 10 milljón dala fyrir að
láta af morðherferðinni, þegar
loksins tókst að handtaka þá.
Vopnið sem þeir notuðu var Bush-
master-riffill með hlaupvídd .223
og þeir höfðu innréttað bíl sinn,
Chevy Caprice, árgerð 1990,
þannig að leyniskyttan gat falið
sig inni í bílnum og miðað á fórn-
arlömb sín.
Fyrir utan þessar 13 skotárásir
eru Muhammad og Malvo grunað-
ir um að minnsta kosti átta
skotárásir til viðbótar og þrjú
morð.
Raðmorð algengust í
Bandaríkjunum
Margir fræðimenn á sviði
þjóðfélagsrannsókna og geð-
lækninga hafa velt vöngum yfir
þeirri staðreynd að raðmorð virð-
ast vera mun tíðari í Bandaríkj-
unum en í öðrum löndum. Talið
er að um 85% raðmorða í heimin-
um séu framin í Bandaríkjunum.
Rannsóknir alríkislögreglunnar,
FBI, benda til þess að raðmorð
verði sífellt algengari og að
hverju sinni leiki 20 til 50
raðmorðingjar lausum hala í
landinu.
Erfitt getur verið að hafa hend-
ur í hári raðmorðingja, einkum ef
þeir breyta um aðferðir til að
komast yfir fórnarlömb sín.
Fræðimenn hafa ýmsar hugmynd-
ir um hvað verður um þá
raðmorðingja sem lögregl-
unni tekst ekki að handtaka.
Sumir þeirra kunna að
fremja sjálfsmorð, deyja,
lenda í fangelsi af einhverjum
öðrum ástæðum eða á geðveikra-
hæli. Sumir flytja í önnur lands-
horn og aðrir láta af iðju sinni.
Auðvelt að hneykslast
Það er auðvelt að hneykslast á
byssudýrkun Bandaríkjamanna.
En svo að allrar sanngirni sé
gætt á bandarískt þjóðfélag sér
aðeins tveggja alda sögu, sem
vissulega er mjög stuttur tími í
samanburði við evrópsk þjóðfé-
lög. Menning og minning land-
nemanna lifir enn góðu lífi í
Bandaríkjunum. Í villta vestrinu
væntu menn þess ekki að réttlæt-
ið kæmi úr munni dómara, heldur
úr byssukjafti.
Stjórnir Bandaríkjanna hafa
einnig verið tilkippilegri en flest-
ar aðrar stjórnir til að grípa til
vopna á síðustu öld og í upphafi
þeirrar sem við nú lifum. Evópu-
menn voru að sönnu fegnir þátt-
töku Bandaríkjanna í heimsstyrj-
öldunum tveimur, þótt önnur
stríð sem Bandaríkjamenn hafa
háð hafi verið umdeildari.
En þótt byssudýrkun Banda-
ríkjamanna eigi sér ýmsar skilj-
anlegar forsendur og byggi á
þjóðfélagslegum hefðum er ekki
þar með sagt að þessar forsendur
réttlæti áframhaldandi byssu-
dýrkun og vígamóð. Byssan, sem
er í augum margra Bandaríkja-
manna tákn um frelsi og sjálf-
stæði og ákvörðunarrétt einstak-
lingsins, virðist vera orðin að
plágu sem líkja má við landfar-
sótt sem leiðir af sér skelfingu og
dauða. Byssan, þetta tákn rétt-
lætis í lófa hvers borgara, þetta
tákn landnemans, er líklega orðin
úrelt í tæknivæddu fjöldasamfé-
lagi nútímans, eins og dæmi Mu-
hammads og Malvos sýnir svo
glöggt. Og kannski var þetta
kærleikssnauða tákn ekki heldur
gott til að byggja samfélag á í
upphafi.
thrainn@frettabladid.is
GLÆPATÖLFRÆÐI
FRÁ BANDARÍKJUNUM
Eitt morð er framið á 34 mínútna fresti.
Einn ofbeldisglæpur á sér stað á hverjum
5 sekúndum.
Eitt rán er framið á 43 sekúndna fresti.
Ein líkamsárás á 24 sekúndna fresti.
Einn þjófnaður aðra hverja sekúndu.
Eitt innbrot á 9 sekúndna fresti.
Einn bílþjófnaður á 34 sekúndna fresti.
Ein nauðgun aðra hverja mínútu.
172 konur verða fyrir ofbeldi eða
nauðgun á hverri klukkustund af
hálfu einhvers nákomins aðila.
Tvö börn eru misnotuð og/eða vanrækt á
hverri mínútu.
Manneskja er myrt á vinnustað
sínum annan hvern dag.
Árið 1999 dóu 1492 börn á skólaaldri af
völdum skotsára.
EFTIRLÝSTUR
Lögreglan í Bandaríkjunum lýsir nú eftir
þessum manni í sambandi við launsáturs-
morð í Vestur-Virginíu sem framin hafa
veirð undanfarið.
Ekkert lát er á morðum í Bandaríkjunum. Nú leita lögreglan að leyniskyttu í Vestur-Virginíu:
Skothvellir rjúfa kyrrðina
Talið er að um 85%
af raðmorðum í
heiminum séu framin í
Bandaríkjunum. Rannsóknir
Alríkislögreglunnar, FBI,
benda til þess að raðmorð
verði sífellt algengari, og að
hverju sinni leiki 20 til 50
raðmorðingjar lausum
halda í landinu.
,,
BUSHMASTER .223
Leyniskytturnar Malvo og Muhammad
skutu fórnarlömb sín á færi m.a. með
stolnum Bushmaster-riffli.
JOHN ALLEN MUHAMMAD
Ásamt Lee Boyd Malvo er Muhammad ákærður fyrir að hafa
drepið eða sært ríflega 20 manns í nokkrum fylkjum Bandaríkjanna,
þar af myrt 10 manns í Washington-borg á þriggja vikna tímabili
í október í fyrra. Hér gengur Muhammad inn í réttarsal í byrjun
vikunnar, umkringdur öryggisvörðum og lögmönnum.
Réttarhöld yfir leyniskyttunum Malvo og Muhammad, sem grunaðir eru um að hafa myrt 10 manns úr launsátri í Washington í fyrra, hefjast
í október. Að vonum hefur málið hleypt nýju lífi í umræðu um skotvopnaeign og morð. Um 250 milljón skotvopn eru skráð í Bandaríkjunum
Byssan - úrelt tákn um frelsi?