Fréttablaðið - 11.09.2004, Blaðsíða 17
17LAUGARDAGUR 11. september 2004
Stuttklipptur með bindi
Fyrir rúmu þrjátíuogeinu ári gisti Richard
Nixon Ísland. Múgur og margmenni var
fyrir utan Stjórnaráðið þegar gestinn bar
að garði. Mest bar á ungu fólki, sumir
strákar síðhærðir og hippalegir í klæða-
burði. Aðrir voru stuttklipptir og snyrti-
legir, í jakkafötum og með bindi. Um leið
og Nixon birtist tóku hinir síðhærðu að
úa og baula ákaft, þeir stuttklipptu
klöppuðu og hrópuðu fagnaðaróp. Ég
var einn hinna síðhærðu sem úuðu.
Skammt frá mér stóð ungur stuttklipptur
maður með bindi sem klappaði forset-
anum lof í lófa. Næstu nótt mátti ég
gista fangaklefa lögreglunnar vegna
einkamótmæla gegn stefnu Nixons. Ári
síðar neyddist Nixon til að segja af sér
enda varð hann ber að valdamisferli.
Sautján árum eftir afsögnina varð ungi
maðurinn stuttklippti forsætisráðherra
íslenska lýðveldisins. Innan tíðar, þann
fimmtánda níunda, lýkur ferli hans sem
forsætisráðherra, a.m.k. að nafninu til.
Stefán Snævarr á kistan.is
Orð danska þjóðminjavarðarins
[Þjóðminja-]safnið og sýning þess ber
með sér glæsileika og settur er nýr
stuðull fyrir allar sýningar í landinu. Það
vakti athygli fleiri en mín, að danski
þjóðminjavörðurinn, sem flutti ávarp við
athöfnina sá ástæðu til að þakka stjórn-
málamönnum sérstaklega fyrir að staðið
væri jafnvel að endurgerð safnsins. Eitt
er víst, að án pólitískra ákvarðana hefði
ekki verið ráðist í þetta verk. Frá upphafi
hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar, að
það ætti að gefa endurreisn safnsins
þann tíma, sem þyrfti til að vel yrði að
henni staðið – í ljósi tímans og sögunnar
skipti það meira máli en að kippa sér
upp við nöldrið í pólitískum andstæð-
ingum, sem reyndu á framkvæmda-
tímanum að finna allt til að gera sem
minnst úr okkur, sem stóðum að því að
ákveða framkvæmdina og bárum á
henni pólitíska ábyrgð.
Björn Bjarnason á bjorn.is
Mótsagnir sjálfstæðismanna
Það er því áhugavert að fylgjast með
forystumönnum Sjálfstæðisflokksins í
ríkisstjórn þegja þunnu hljóði meðan
fyrirtæki í eigu ríkisins fjárfestir á sam-
keppnismarkaði meðan forystumenn
borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins
gagnrýna R listann harðlega fyrir að leyfa
Vélamiðstöð ehf., sem er í eigu Reykja-
víkurborgar og Orkuveitu Reykjavíkur, að
taka þátt í útboði á frjálsum samkeppn-
ismarkaði. Vaknar þá óhjákvæmilega
spurningin: Hvert ætla forystumenn
flokksins með fyrirtæki í eigu hins opin-
bera? Á að einkavæða þar sem þeim
hentar en láta önnur fyrirtæki fjárfesta á
samkeppnismarkaði þar sem þeim hent-
ar? Sjálfstæðismenn eiga heimtingu á
svörum við þessari spurningu tafarlaust!
Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson
á frelsi.is
AF NETINU
Við hvetjum lesendur til að senda okkur
línu og segja skoðun sína á fréttum
blaðsins, viðhorfum sem birtast í blaðinu
eða leggja orð í belg um málefni líðandi
stundar. Bréf skulu vera stutt og gagnorð,
50–200 orð að lengd. Ritstjórn áskilur
sér rétt til að stytta aðsent efni.
Vinsamlega sendið efnið í tölvupósti á
netfangið greinar@frettabladid.is.
Forsetaframbjóðandi demókrata,
John Kerry, á í vök að verjast eft-
ir stöðugar barsmíðar repúblik-
ana síðastliðinn mánuð. Fram-
ganga Kerrys í Víetnamstríðinu,
sem átti að vera helsta tromp
hans, hefur reytt af honum fylgi í
kjölfar áhrifamikillar auglýsinga-
herferðar fyrrum kollega hans á
vígvellinum. Í fyrsta sinn á árinu
er Bush forseti með örugga for-
ystu í skoðanakönnunum og nú
eru aðeins 50 dagar til kjördags.
Vandræði Kerrys speglast hér í
Minnesota, sem hefur verið eitt
helsta vígi demókrata í áratugi.
Héðan komu tveir foringjar
demókrata sem gerðu atlögu að
forsetastólnum, Hubert H.
Humphrey varaforseti Lyndons
B. Johnsons sem tapaði naumlega
fyrir Nixon árið 1968 og Walter
Mondale varaforseti Jimmy
Carters sem var flengdur af
Reagan árið 1984. Demókratar
eru hins vegar enn í sárum hér
eftir sviplegt fráfall hins skelegga
Paul Wellstone sem lést í flugslysi
árið 2002.
Demókratar hafa unnið
Minnesota í 10 af 11 forsetakosn-
ingum síðan 1960 en nú er fylkið
talið í hópi þeirra tólf þar sem
úrslit séu óhemju tvísýn. Clinton
vann hér tvívegis með yfirburðum
á síðasta áratug en Al Gore sigraði
Bush með aðeins 2% mun árið
2000. Nýjustu kannanir benda til
þess að munurinn á fylgi Kerrys og
Bush í Minnesota sé innan skekkju-
marka. Kerry hefur verk ad vinna
því ef hann vinnur ekki Minnesota
þá er hann dauðadæmdur.
Ýmislegt verður demókrötum
að óhamingju hér um slóðir. Borg-
arstjórinn í höfuðborginni St.
Paul, demókratinn Randy Kelly,
olli nýlega miklu uppnámi þegar
hann lýsti yfir stuðningi við Bush
og hyllti hann á kosningafundi.
Demókratar trylltust og nú er
hafin undirskriftasöfnun þar sem
kjósendur í borginni eru hvattir
til að fella borgarstjórann í auka-
kosningum í nóvember. Eins og
nærri má geta hefur þetta mál
ekki aukið á eininguna í hópi
demókrata. Ef af verður hefst
sama ferli og felldi demókratann
Ed Davis í Kaliforníu og opnaði
leið fyrir „stórleikarann“ Arnold
Schwarzenegger inn í pólitíkina.
Kjósendur í Minnesota eru svo-
lítið svag fyrir sterum líka. Þeir
komu öllum á óvart fyrir nokkrum
árum er þeir höfnuðu báðum stóru
flokkunum en lyftu glímukappan-
um Jesse Ventura í hásæti fylkis-
stjóra. Sú kosning endurspeglaði
megna óánægju kjósenda með
frammistöðu gömlu flokkanna.
Hér í Minnesota er óvenju sterk
hefð fyrir því að óháðir frambjóð-
endur nái góðum árangri í kosn-
ingum. Ralph Nader fekk 5% hér í
síðustu forsetakosningum og
getur átt von á svipuðu fylgi nú,
sem er helmingi meira en hann er
að fá í könnunum á landsvísu.
Nýlegar kannanir sýna að 75%
kjósenda hér í Minnesota geti
hugsað sér að kjósa aðra en fram-
bjóðendur stóru flokkanna
tveggja í forsetakosningunum.
Það er því ekki furða að svita-
perlunum fjölgi á enni Johns
Kerrys þessa dagana.
Höfundur stundar nám í
Minnesota og mun á næstunni
skrifa fleiri pistla um forseta-
kosningarnar í Bandaríkjunum.
Nauðvörn á „heimavelli“
Ameríkubréf
SKÚLI HELGASON