Fréttablaðið - 10.09.2006, Blaðsíða 15
SUNNUDAGUR 10. september 2006 15
Líbanon og hún var lengi vel vatns-
laus og rafmagnslaus og án allra
þæginda. Í minningunni fylgir
þessum svæðum ákveðið hljóð og
þefur; drunur í rafmótorum, sem
menn reyna að koma sér upp til að
hafa rafmagn, og hljóðið sem
kemur þegar gengið er á glerbrot-
um. „Maður virðist vera að labba á
glerbrotum allan daginn. Miklum
hamfara- og styrjaldarsvæðum
fylgir líka oft nálykt sem hvílir
yfir öllu, mikill hiti, sviti, stress
og ljósleysi.“
Jón telur að maðurinn sé að
grunni til góður en lendi stundum í
þannig kringumstæðum í lífinu að
hann verður verkfæri í höndum
annarra eða breytist í aðra persónu
en hann lagði upp með í lífið. Hann
veltir stundum fyrir sér hversu
mikinn tilgang hjálparstarf hafi.
„Það hefur kannski þann tilgang
að sýna samúð, gefa fólki von um
að lífið geti tekið aðra stefnu og
hjálpa því að sjá leiðir út úr vand-
anum. Mikið af þessu hjálparstarfi
hér er til þess að sýna fólki að
heiminum stendur ekki á sama um
afdrif þess og gefa því von um að
það séu til aðrar undankomuleiðir
en að taka upp vopn og halda áfram
að berjast,“ segir hann.
Palestínumönnum er alls staðar
útskúfað sem þjóð, þeir hafa alist
upp sem flóttamenn í hernumdu
landi og geta litla björg sér veitt.
„Við slíkar kringumstæður skap-
ast kynslóð af ofbeldisfólki sem
reynir að finna einhverja leið út úr
vandanum þegar vonin er ekki
lengur til staðar. Alheimurinn sýnir
þessu fólki gegnum hjálparstarfið
að það sé enn von, lífið verði ein-
hvern tímann annað en barátta,
eilíf styrjöld og hryðjuverk.“
Hittir helstu leiðtoga heims
Jón segir áhugavert að geta fylgst
með heimsviðburðunum „beint“
og hitta helstu leiðtoga heims. Í
Líbanon hefur hann til dæmis hitt
forseta landsins, forsætisráðherra
og forseta þingsins. Fróðlegt sé að
fylgjast með heimsviðburðum í
beinum tengslum við þá sem séu
leikarar í þessu sjónarspili.
Í Morgunblaðinu birtist nýlega
grein þar sem myndatökumenn
voru sakaðir um að falsa myndir
úr stríðinu til að breyta almenn-
ingsáliti heimsins. Jón var í þess-
um hópi. Sérstaklega var nefnd
fréttamynd hans af sjúkrabíl „með
gapandi sár á þaki sjúkrabílsins“,
eins og það var orðað í greininni.
Jón man eftir myndinni og kann-
ast við umræðuna sem hefur verið
um allan heim. Hann hafnar þessu
algjörlega.
„Það er þekkt staðreynd að
sannleikurinn er fyrsta fórnar-
lambið í öllum styrjöldum og því
þurfa fréttamenn að gæta sín
meira á þeim vettvangi en hvar-
vetna annars staðar. Fréttamanns-
starfið hefur kennt mér að trúa
aldrei neinu nema ég sjái það
berum augum og ég virði almenn-
ing sem tekur öllum fréttaflutningi
með varúð. Árásin á sjúkrabílinn
var hvorki fyrsta né síðasta árásin
sem gerð var á sjúkrabíl í þessu
stríði. Það hefði því ekki haft neinn
tilgang að falsa árás á þennan til-
tekna sjúkrabíl. Þar að auki ræddi
ég lengi við sjúkraflutningamenn-
ina og eins sérfræðinga í hernaðar-
aðgerðum áður en þessi mynd var
send til dreifingar á BBC. Ég er
ekki í minnsta vafa um að þessi
atburður átti sér stað. Þar að auki
kom afsökun frá Ísraelsmönnum
út af þessu.“
Ekki hægt að vinna stríð
Stundum er deilt á fréttamenn
fyrir að taka afstöðu í fréttaflutn-
ingi. Hlutleysið er Jóni eðlislægt
og því getur hann myndað og sagt
frá því sem hann upplifir í starfi
sínu eins og hann sér það. Hann
bendir þó á að hann hafi verið Líb-
anons-megin í stríðinu og segi því
frá lífinu þeim megin en reiknar
með að Ísraelar hafi upplifað þján-
ingar sín megin.
„Ég get ekki lokað augunum
fyrir því að almennir borgarar
urðu verst úti í átökunum og það
er erfitt að sjá hvað vannst með
þeim. Það vannst ekkert með
þessu stríði. Styrjaldir síðustu ára
hafa sýnt að það er erfitt að vinna
nútímastríð með vöðvaafli. Ég sé
ekki að nokkuð hafi áunnist fyrir
málstað Ísraelsmanna í þessu
stríði nema síður sé,“ segir hann.
Jólagjöf frá Saddam Hussein
Jón hefur lent í mörgu og kann
ýmsar sögur úr starfi sínu. Hann
slær á létta strengi og kveðst ekki
alltaf vera í góðum félagsskap.
Um jólin hafi hann til dæmis feng-
ið þrjár jólagjafir, eina frá systur
sinni og tvær frá fjölskyldu Sadd-
ams Hussein, en þá var hann
nýkominn frá Tígris í Írak, þar
sem fjölskylda Saddams býr, og
Jemen, þar sem hluti fjölskyld-
unnar er í útlegð.
„Ég ætlaði að taka viðtal við
bróðurdóttur Saddams. Faðir
hennar er fyrrverandi innanríkis-
ráðherra og er í næsta klefa við
hlið Saddams. Hann verður næst-
ur þegar réttarhöldunum yfir
Saddam lýkur. Hún vildi ekki gefa
viðtal en leysti mig út með tveim-
ur jólagjöfum þannig að ég segi að
ég hafi fengið eina gjöf frá Sadd-
am og aðra frá henni. Ég vona að
það komi mér ekki á svartan lista
hjá Ameríkönum.“
Bin Laden I, bin Laden II...
Jón segir aðra sögu af vandræðum
sem hann lenti í þegar hann fór í
gegnum öryggisgæslu fyrir ára-
mótin. Hann var með spólur sem á
stóð: Bin Laden I, bin Laden II, bin
Laden III og bin Laden IV. „Það
fór allt í gang og kallaður til sér-
stakur ráðgjafi í öryggismálum
áður en ég gat útskýrt að ég hefði
nú ekki verið að taka viðtal við
Osama heldur Carmen, mágkonu
hans. Það var Carmen bin Laden
sem var á spólunum, ekki Osama
bin Laden. Maður lendir í ýmsu,“
segir hann.
Jón hefur þvælst víða um heim-
inn. Áður en hann fór til Líbanons
var hann í Sómalíu að gera heim-
ildarmynd fyrir breskan framleið-
anda. Myndin fjallar um konu sem
var að ná í heimanmund sinn,
hundrað kameldýr, tvo hesta og
einn riffil.
„Maður fer ekki um Sómalíu án
þess að vera með lífverði með sér.
Ég var með sjö lífverði með mér.
Tveir þeirra hafa fallið í átökum
frá því við vorum á ferð þannig að
það eru bara fimm eftir.“
ÖRYGGIÐ OFAR ÖLLU Í starfi sínu fer Jón
um sum hættulegustu svæði heimsins og
þá skiptir máli að hafa lífverði með í för.
MEÐ LÍFVÖRÐUNUM Á BÍLPALLI Jón Björgvinsson kvikmyndagerðarmaður með
lífvörðum sínum á bílpalli í Sómalíu. Hann var á ferð þar í landi til að gera heim-
ildarmynd fyrir breskan framleiðanda. Myndin fjallaði um konu sem var að ná í
heimanmund sinn, hundrað kameldýr, tvo hesta og einn riffil. Jón hafði sjö lífverði,
tveir þeirra eru nú fallnir.