Fréttablaðið - 02.06.2007, Blaðsíða 24
Fallegur dagur. Fórum í stúd-
entsveislu til nágranna okkar á
Bárugötunni, Jóhönnu og Ingólfs.
Jónas sonur þeirra var að út-
skrifast. Það hefur alltaf verið
mikil birta kringum þennan góða
dreng. Í stúdentsgjöf færðum
við honum tvær bækur
sem hann á vonandi
eftir að hafa gaman
af, „Moby Dick“
eftir Hermann Mel-
ville, en ég held að
betri skáldsaga hafi ekki
ennþá verið skrifuð
í veröldinni. Hin
bókin var „Íslend-
inga saga“ Sturlu
Þórðarsonar sem
mér finnst vera besta
bók sem samin hefur
verið á íslensku og Sturla
fremsti rithöfundur þjóðar-
innar, já, betri en Snorri frændi.
Eftir samkvæmið fór frú Sól-
veig á listahátíð að hlusta á menn-
ingarlegan djass. Við Andri horfð-
um á Köngulóarmanninn í sjónk-
anum.
Grillveisla í hesthúsun-
um hjá Fanneyju, Líneyju,
Óla og Finni og fólkinu
sem er með okkur í hest-
húsi. Nú fer að líða að
því að hrossunum verði
sleppt á græn grös og
þess vegna var haldið
vorblót. Sólin hamaðist við að
skína. Það var fallegt úti. En kalt.
Það er frú Sólveig sem hefur
haldið uppi merkjum okkar í
hestamennskunni í vetur. Hún
hefur farið nokkrum sinnum í
viku en ég hef verið heima með
grislingana.
Hestamennska er reyndar íþrótt
sem hjón þurfa að iðka
í sameiningu en
við erum ung
ennþá og höfum
tímann fyrir
okkur.
Ástandið í höfuð-
borginni er ekki vel gott.
Í nótt var tilkynnt um sjö
líkamsárásir „og voru 2
þeirra alvarlegar“ segir
í blaðafrétt án þess að
nánar sé útskýrt hvern-
ig þær líkamsárásir eru sem
ekki teljast alvarlegar.
Ef einhver hefur áhuga á að
fækka ofbeldisverkum í Reykja-
vík væri hægt að byrja á því að
fjölga í lögregluliði til að geta haft
sýnilega löggæslu og stytta jafn-
framt opnunartíma veitinga-
húsa.
Margir eru kannski þeirr-
ar skoðunar að veitingahús eigi
að vera opin allan sólarhring-
inn og að allir eigi rétt á því
að skemmta sér allan sól-
arhringinn ef þeim svo
sýnist.
Þar í móti kemur að
börn sem eiga foreldra
sem koma heim af öldur-
húsum rétt áður en
barnatíminn hefst í
sjónvarpinu á laug-
ardags- og sunnu-
dagsmorgnum eru
einfaldlega munaðarlaus
um helgar. Það hugsar enginn um
rétt þessara barna til að eyða helg-
um með foreldrum sínum en ekki
í einsemd fyrir framan sjón-
varp eða tölvu. Sömuleiðis
væri ágætt að fara að pæla
í rétti skikkanlegs fólks til
að lifa án þess að eiga von
á beinbrotum eða dauða
af hálfu drukkins og dóp-
aðs fólks á veitingastöðum,
gangstéttum og akvegum.
Rétturinn til að breyta sér
í frávita skepnu hefur ótvíræð-
an forgang í þeirri óábyrgu frjáls-
hyggjumaníu sem er tískubólan nú
um stundir. Fyrr eða síðar verður
farið að hugsa um rétt þeirra sem
eiga á hættu að verða fyrir barðinu
á þeim sem misnota frelsið. Á mið-
nætti aðfaranótt föstudags ganga
í gildi lög sem eiga að vernda fólk
sem ekki vill verða fyrir barðinu
á reykingamönnum. Þá hlýtur að
fara að verða tímabært að velta
því fyrir sér hvernig hægt sé að
takmarka tjón fólks af sjálfhverfri
hegðun annarra sem er hættulegri
en óbeinar reykingar.
Í dag var afmælisdagur frú Sól-
veigar. Í vetur hef ég lánað henni
hestinn minn, hann Vin, með þeim
afleiðingum að heitar ástir hafa
tekist með þeim. Ég ákvað því
að gefa henni klárinn í afmælis-
gjöf. Hún ætlaði varla að trúa mér
þegar ég afhenti henni gjöfina.
En svona er þetta. Það er eitthvað
gott í okkur öllum.
Hesturinn hennar Sólveigar er
alhliða gæðingur úr hinni frábæru
ræktun Viðars á Kaldbak. Vinur er
bleikálóttur undan Hilmi frá Sauð-
árkróki syni Ófeigs frá Flugu-
mýri og Vordísi frá
Höskuldsstöðum
undan Galdri
frá Sauðárkróki.
Hann er stór vexti
og höfðingleg-
ur, fallegur á tagl
og fax, hefur mikl-
ar hreyfingar og er
rúmur á öllum gangi.
Viljinn er ótakmarkaður
og lundin létt og jákvæð eins og
hjá nýskipuðum ráðherra.
Nú þarf ég að fara að svipast
um eftir snotrum klár handa sjálf-
um mér. Hann þarf að hafa eitt-
hvað við sig svo að ég verði Vini
og Sólveigu ekki til skammar. Ég
ætla að vanda valið. Sá hestur á
að endast mér þar til ég verð átt-
ræður og verður sennilega síðasti
reiðhesturinn minn.
Þegar maður er ekki alveg heill
heilsu gefst góður tími til að velta
fyrir sér alls konar spurningum
sem ekki eru áleitnar svo lengi
sem maður hamast frá morgni til
kvölds við að taka þátt í lífsbarátt-
unni og þjóðfélaginu.
Ég var að velta því fyrir
mér hvort það líf sem ég lifi er
skemmtilegt og fullnægjandi.
Það væri leiðinlegt eftir dauðann
að híma í gröfinni og naga sig í
handarbökin fyrir að hafa ekki
gengið á tindana sjö, safnað auði,
átt fjallajeppa, verið á móti virkj-
un fallvatna og bjargað heilum
þjóðum frá hungursneyð.
Það sem ég geri er
að ég starfa við heim-
ilisstörf, einkum að-
drætti til búsins og
eldamennsku, ég
sinni barna-
uppeldi og
vinn við
ritstörf.
Allt þetta
finnst
mér
frem-
ur
skemmtilegt, nema kannski helst
að kaupa inn til heimilisins. Hér í
eina tíð voru einokunarkaupmenn
frægir fyrir að selja Íslending-
um maðkað mjöl. Nú um stund-
ir er mjölið ætt en í staðinn er sí-
fellt verið að pranga inn á mann
mygluðum og skemmdum ávöxt-
um og lífvana grænmæti. Maður
á að geta gert þá lágmarkskröfu
til matvöru sem er á boðstólum í
verslunum að hún sé æt. Væri ekki
hægt að fela einhverjum góðum
aðila að fylgjast með því?
Heimilisstörfin mín mestan part
í eldhúsinu þykja mér skemmtileg.
Ekkert sem ég hef tekið mér fyrir
hendur um dagana hefur upp-
skorið jafnmikið lof og matseldin.
Þegar ég er að elda hlusta ég á út-
varpið og fylgist með fréttum. Þar
fyrir utan er hugurinn frjáls, ég
get upphugsað útsmognar lausnir
á vandamálum eða látið hugann
reika frjálsan og glaðan.
Barnauppeldi er ábyrgðarhlut-
verk. Það á víst að vera innprent-
að í eðli hverrar manneskju að
hugsa um afkvæmi sín og koma
þeim á legg og vissulega hjálp-
ar eðlisávísunin eða brjóstvitið
langt á leið. En stundum koma upp
flóknar spurningar sem maður
kann engin svör við. Þá er þrauta-
lendingin að láta umhyggju og
kærleika ráða þegar skynsemina
þrýtur.
Þá er eftir að nefna brauðstritið.
Ég valdi mér sjálfur að eyða
starfsævinni í kvikmyndagerð
og ritstörf. Í kvikmyndagerðinni
var ég orðinn leiður á að þurfa að
eyða mestöllum vökutíma mínum
í að hugsa um peninga. Ritstörf
eru ekki eins kostnaðarsöm. Ég
setti mér það markmið að samlag-
ast ekki staðalímynd rithöfund-
ar með tilheyrandi orðagjálfri um
yfirskilvitlega náttúru bókmennta
og lista og guðdómlegan innblást-
ur. Allt vel um slíka staðalhöfunda
en mig langar ekki til að vera í
þeim hópi. Maður sem sem aflar
sér lífsviðurværis (félaga og and-
stæðinga) með penna, það vil ég
vera. Hér og nú.
Þar með er lokið þessum tilvi-
starpælingum mínum á þriðju-
degi. Niðurstaðan er sú að á hverj-
um degi gerist eitthvað skemmti-
legt. Er hægt að fara fram á meira
í þessum besta heimi allra heima?
Það virðast vera lítil takmörk
fyrir því ofbeldi sem kraumar
undir sléttfeitu yfirborði þjóðfé-
lagsins. Ég var að lesa á blogginu
hans Ómars Ragnarssonar að ein-
hver ofbeldismaður reyndi að ráð-
ast á hann og lemja hann um dag-
inn. Þetta er eins og að lumbra á
Fjallkonunni!
Alþingi kom saman í dag. Í
kvöld var Geir Haarde í sjónvarp-
inu. Hann sagði meðal annars um
nýju stjórnina:
„Þessir flokkar hafa einsett
sér að mynda frjálslynda umbóta-
stjórn um kraftmikið efnahags-
líf, öfluga velferðarþjónustu,
bættan hag heimilanna og
aukna samkeppnishæfni
atvinnulífsins.“
Þetta ætla ég að leggja
á minnið og vona að Geir
geri það líka.
Svona munnsöfnuður
um frjálslyndi og vel-
ferð hefði ekki alls fyrir
löngu verið
kallað-
ur hreinn
og klár
kommún-
ismi.
Að lumbra á Fjallkonunni!
Í Dagbók Þráins Bertelssonar er sagt frá stúdentsveislu, grillveislu, ofbeldi, heimilishaldi, hrossaættum, möðkuðu mjöli,
skemmdum ávöxtum og lífvana grænmeti. Einnig er minnst á tilganginn í lífinu og skuggalegan munnsöfnuð forsætisráðherrans.