Fréttablaðið - 03.11.2007, Blaðsíða 52
Í
kjallara Krabbameinsfélagsins reka
þær Jórunn Erla Eyfjörð, prófessor
við læknadeild Háskóla Íslands, og
Helga Ögmundsdóttir metnaðarfulla
rannsóknarstofu. Rannsóknarstofa
Háskóla Íslands og Krabbameinsfé-
lags Íslands í sameinda- og frumulíffræði
verður tvítug á næsta ári.
Jórunn hefur helgað starf sitt grunnrann-
sóknum á brjóstakrabbameini. Hún hefur
augljósan áhuga á viðfangsefni sínu og lýsir
með aðdáun rannsóknum nemenda sinna.
Þar sem blaðamaður þekkir til áhuga-
samra fræðimanna ákveður hann að byrja
viðtalið á heimavelli.
Hvernig er rannsóknarstofa sem þessi
rekin?
„Við sækjum um styrki í styrktarsjóði,
bæði hjá íslenskum og erlendum, meðal ann-
ars hjá Rannís og Háskólasjóði Eimskipafé-
lagsins. Við tökum líka þátt í erlendum verk-
efnum,“ svarar Jórunn.
Líkt og aðrar vísindamenn reiða Jórunn
og nemendur hennar sig á styrki fyrir
hverja rannsókn. Framlög einstaklinga eru
af skornum skammti en nýlega barst þeim
þó veglegur styrkur frá vöskum gönguhópi,
Göngum saman, sem nemur samtals þrem-
ur milljónum.
„Erlendis er mun meira um styrki frá ein-
staklingum til rannsóknastarfs heldur en
tíðkast hér. Jafnvel heilu stofnanirnar eru
reknar með styrkjum frá ríkum einstakling-
um,“ segir Jórunn.
Tengist það ekki skattlagningu líka?
„Jú, það þarf að breyta skattalöggjöfinni á
Íslandi – þetta verður greinilega mjög alvar-
leg grein, segir Jórunn Erla og skellir upp úr
en verður svo jafnskjótt alvarleg. „Það er
ýmislegt sem þarf að breyta. Í Kanada var
útbúið kerfi svo vísindamennirnir þurfi ekki
sjálfir að leita að peningum. Okkur hefur
gengið nokkuð vel að afla styrkja en þetta er
hálfgerður bútasaumur.“
En Krabbameinsfélagið sjálft?
„Það rak þessa rannsóknarstofu til ársloka
2006 og var þá stærsti rekstraraðilinn, en
hún var rekin á styrkjum samt sem áður.
Þeir gáfu ákveðinn stuðning. Þannig að það
hefur breyst.“
„Svo má ekki gleyma að ýmsir minni
styrkir koma úr minningarsjóðum,“ skýtur
Sigríður Klara inn.
„Já, það má minnast á styrkinn úr minn-
ingarsjóði Margrétar Björgúlfsdóttur, það
er styrkur sem skiptir máli,“ segir Jórunn,
en bendir á að aðstoðin er ekki aðeins fjár-
hagsleg heldur eigi rannsóknarstofan í góðu
samstarfi við aðila á borð við Krabbameins-
skrá Krabbameinsfélagsins og meinafræði-
stofnun Landspítalans.
Sigríður Klara tekur að sér að útskýra málið.
„Eining eins og þessi er mjög háð styrkjum
því yfirleitt eru það bara prófessorarnir sem
eru á föstum launum. Við sem vinnum að
rannsóknum í masters- eða doktorsnámi
erum háð því að fá þessa styrki til að fá fram-
færslu.“
„Nú á að fara að setja meiri peninga í
nýdoktorastöður svo hægt sé að styðja færa
vísindamenn til að stunda rannsóknir,“ segir
Jórunn. „Það er í raun ekki hægt að gera
þetta öðruvísi. Ég ætlast til meira af þeim en
kannski góðu hófi gegnir, það er að segja, ég
ætlast til þess að þau vinni sjálfstæðar held-
ur en kannski tíðkast annars staðar.“
Skiptir þetta ekki líka máli fyrir framþró-
un rannsókna á Íslandi?
„Algjörlega,“ samsinnir Sigríður Klara.
„Háskóli Íslands vill verða meðal hundrað
bestu háskóla í heimi og til þess þarf að
byggja upp vísindasamfélagið og meðal ann-
ars störf nýdoktora því þeir afkasta venju-
lega mestu.“
Þetta er ákveðin þekking og æfing og fólk
þarf að halda sér heitu er það ekki?
„Jú, þetta dettur alveg niður,“ segir Jór-
unn Erla. „Það er það sem gerist í mörgum
fögum vegna eftirspurnar eftir fólki í vinnu
og svo er kaupið í vísindum náttúrulega ekki
gott. Það er því orðið spurning hvernig
maður getur látið þetta ganga.“
Sigríður Klara segir það á hinn bóginn
vera mjög skemmtilegt að vinna að vísind-
um. „Sérstaklega í umhverfi Háskóla Íslands
því við getum haft mikið frumkvæði að því
sem við gerum og hvernig við gerum hlut-
ina. Við getum rannsakað það sem okkur
þykir vera mest spennandi. Við eru háð því
að rannsóknarhugmynd okkar fái styrki og
sé metin, en við getum nokkurn veginn stýrt
þessu sjálf.“
„Við erum náttúrulega algjörlega háð því að
við skilum árangri,“ segir Jórunn með
áherslu. „Þetta er mjög árangurstengt. Kraf-
an um að birta greinar í viðurkenndum tíma-
ritum er orðin mikið ákveðnari, eins hún ætti
auðvitað að vera. Við þurfum að sýna fram á
að við séum að gera góðar rannsóknir og
birtar greinar er sá mælikvarði sem við
notum.“
En stuðla greinarnar ekki að betri rann-
sóknum?
„Þannig ganga vísindi fyrir sig og það er
nauðsynlegt að komast inn í það alveg strax.
Mér þykir mjög mikilvægt að meistaranem-
ar séu þegar komnir í rannsóknir sem eru
birtingarhæfar og niðurstöður fáist. Linda
til dæmis hefur nú birt nokkrar,“ segir Jór-
unn og blikkar Lindu sem stendur gegnt
henni við hátt borð inni á rannsóknarstof-
unni og verður eilítið vandræðaleg þegar
athyglin beinist að henni.
„Það er líka mikilvægt að halda í fært fólk
sem búið er að þjálfa upp,“ bætir Sigríður
Klara hughreystandi við. „Ef fólk fer strax
þá tapast ákveðin reynsla og þekking. Linda
er núna komin í þjálfun við að skrifa greinar
og vinna rannsóknir. Ef hún hættir í dag
stendur eftir verkefni sem við hin þekkjum
ekki eins vel.“
Blaðamaður ákveður að svo búnu að henda
sér í djúpu laugina.
Hvað eru þið svo að rannsaka?
„Við erum fyrst og fremst að rannsaka
brjóstakrabbamein,“ segir Sigríður Klara.
„Já, þótt við höfum verið að leggja meiri
áherslu en áður á blöðruhálskirtilskrabba-
mein,“ bætir Ólafur við.
Af hverju er það?
„Ja, við þurfum fyrst aðeins að skýra frá
forsögunni,“ segir Sigríður Klara og setur
sig í stellingar. „Ef við tökum brjóstakrabba-
mein, þá má tíunda hver kona búast við því
að fá brjóstakrabbamein. Aðaláhersla okkar
er á ættlæg brjóstakrabbamein. Ættlægnin
er að hluta til vegna erfðaþátta og tengjast
svonefndum BRCA1-geni og BRCA2-geni,
sem eru þekktar arfgengar stökkbreytingar
hér á Íslandi,“ útskýrir hún. Af þeim sem
greinast með brjóstakrabbamein eru um sex
til sjö prósent með arfgenga stökkbreytingu
í þessum genum og þær konur sem bera
þessa stökkbreytingu eru í mun meiri áhættu
heldur en aðrar konur.
„Nú er verið að þróa lyfjahindra sem gætu
samkvæmt mínum niðurstöðum hentað
konum sem bera þessa BRCA2-stökkbreyt-
ingu og fá brjóstakrabbamein. Það er enn
verið að prófa þetta lyf og verkefni Lindu er
að prófa það á brjóstafrumulínur sem bera
BRCA2-stökkbreytinguna.“
Hvernig hefur það gengið?
„Það er munur á þessum línum og það er
eins og þær svari betur hindranum heldur en
línurnar sem hafa ekki þessa stökkbreyt-
ingu,“ svarar Linda Viðarsdóttir masters-
nemi.
„Við höfum mikla trú á þessu lyfi sem von-
andi kemur einhvern tíma á markað til með-
ferðar á þessum sjúklingum,“ segir Sigríður
Klara og kippir blaðamanni aftur inn í raun-
veruleikann. Brjóstakrabbamein hefur áhrif
á líf fjölda kvenna ár hvert.
„Það er tiltölulega lítill hópur sem mun
hafa gagn af þessu, en þeir sem fá þá gerð af
brjóstaæxli sem ég er að kanna gætu haft
gagn af. Í dag eru engin sértæk meðferðar-
úrræði fyrir þann hóp. Það er voða lítið hægt
að gera annað en að beita krabbameinslyfja-
meðferð sem er drastísk aðför að líkaman-
um,“ segir Ólafur, sem notið hefur aðstoðar
Nimblegen Systems á Íslandi við tæknilega
framkvæmd rannsókna sinna.
„En BRCA2 getur líka haft áhrif á önnur
krabbamein,“ bendir Linda á. „Við erum þá
jafnvel að hugsa hindrann fyrir aðra ein-
staklinga, eins og þá sem fá blöðruhálskirtil-
skrabbamein.“
Haldið þið að meðferðarúrræðin verði skil-
virkari og betri í framtíðinni?
„Það er verið að sníða meðferðirnar betur
að hverjum og einum og komast að uppruna
krabbameinsins,“ segir Ólafur.
„Reyndar er það þannig að brjóstakrabba-
mein er tiltölulega auðlæknalegt en svona ný
meðferðarúrræði geta samt haft lykiláhrif á
að lækna krabbameinið,“ segir Sigríður
Klara.
„Svo er þetta náttúrlega spurning um
aukaverkanir. Það skiptir gífurlega miklu
máli að minnka þær,“ segir Jórunn. „Og vera
ekki að meðhöndla fólk með einhverju sem
kemur ekki til með að hjálpa neitt. En þetta
er allt mjög viðkvæmt og vandmeðfarið. Við
erum að tala um fólk og allir sem eru með
þennan sjúkdóm vonast eftir nýjum lausn-
um.
Við þurfum að vanda okkur við að gefa
ekki falskar vonir, en segja samt að það er
verið að vinna að rannsóknum sem vonandi
leiða til betri meðferða. Það er mikilvægt að
trúa því líka, annars værum við nú ekki að
þessu.“
Það er fátt annað hægt en að dást að hug-
vitinu og hugsjóninni sem leynist í kjallara
Krabbameinsfélagsins og vona að þar verði
áfram framkvæmdar rannsóknir sem hjálpa
munu konum um ókomna framtíð.
Við þurfum að vanda okkur við að gefa ekki
falskar vonir, en segja samt að það er verið að
vinna að rannsóknum sem vonandi leiða til
betri meðferða. Það er mikilvægt að trúa því
líka, annars værum við nú ekki að þessu.
Mikilvægt að halda í fært fólk
Við lok októbermánaðar, sem tileinkaður var baráttunni við brjóstakrabbamein, ræddi Eva Bjarnadóttir við Jórunni Erlu Ey-
fjörð og masters- og doktorsnema hennar þau Ólaf Andra Stefánsson, Sigríði Klöru Böðvarsdóttur og Lindu Viðarsdóttur,
um rannsóknirnar, árangurinn, vonina og eilífðarmálin, peninga og manneklu, í kjallara Krabbameinsfélagsins.