Fréttablaðið - 06.12.2007, Page 68
48 6. desember 2007 FIMMTUDAGUR
bio@frettabladid.is
Kvikmyndin Good Heart í leikstjórn
Dags Kára Péturssonar fer væntanlega í
tökur í byrjun janúar á næsta ári og á
föstudaginn verða áheyrnarprufur fyrir
aukahlutverk í myndinni. Fara þær fram
í Alþjóðahúsinu milli klukkan þrjú og
sex.
Þar sem myndin gerist öll í New York
er verið að leita að leikurum af erlendum
uppruna sem eru tuttugu ára og eldri.
„Myndin verður nánast öll tekin upp hér
á landi og því þurfum við að búa til alþjóð-
legt umhverfi á Íslandi,“ segir Dagur og
tekur skýrt fram að íslenskukunnátta sé
ekki skilyrði. Myndin verður tekin upp
bæði í myndveri og svo úti á fyrrverandi
varnarsvæði Bandaríkjanna í Reykjanes-
bæ. „Þar eru öll smáatriði fyrir hendi,
bandarískar innstungur og þar fram eftir
götunum. Margar af byggingunum þar
eru tómar sem hentar vel fyrir okkur,“
bætir Dagur við.
Good Heart segir frá lífsreyndum bar-
eiganda sem tekur að sér ungan heimilis-
leysingja. Handrit myndarinnar vakti
strax mikla athygli og fékk meðal annars
styrk á Sundance-kvikmyndahátíðinni og
eftir velgengni Nóa albínóa og Voksne
mennesker á kvikmyndahátíðum bíða
menn spenntir eftir því að sjá fyrstu
kvikmynd Dags Kára á ensku. Sam-
kvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur
bandaríska ungstirnið Paul Dano gefið
vilyrði sitt fyrir því að leika eitt aðalhlut-
verkanna í myndinni en hann sló í gegn í
hinni eftirminnilegu kvikmynd Little
Miss Sunshine. Að sögn Dags Kára eru
viðræður við hinn aðalleikarann á við-
kvæmu stigi en þau mál ættu að skýrast
á allra næstu dögum. - fgg
Dagur Kári leitar að útlendingum
Á UPPLEIÐ Paul Dano mun að
öllum líkindum leika í Good Heart
en hann fór á kostum í kvikmynd-
inni Little Miss Sunshine.
LEITAR AÐ LEIKURUM Áheyrnar-
prufur fyrir statista í kvikmyndina
Good Heart verða á föstudaginn.
Íslenskukunnátta er ekki skilyrði.
> HAGGIS Í MÁL
Paul Haggis hyggst
draga framleið-
endur Crash fyrir
dómstóla sökum
þess að hann telur
sig eiga inni sinn
hluta af gróða
myndarinnar.
Haggis leikstýrði
myndinni sem
fékk þrenn Ósk-
arsverðlaun, þar
á meðal sem besta myndin 2006 og
finnst hann hafa farið heldur slyppur
og snauður frá borði.
Varla telst það til tíðinda
þegar trúarhópar rísa upp
á afturlappirnar og mót-
mæla sið- og guðleysi frá
afþreyingariðnaðinum. En
sú deila sem nú er sprottin
upp er harla óvenjuleg enda
eru bæði guðleysingjar og
trúaðir ósáttir.
Kvikmyndin The Golden Compass
verður frumsýnd hér á landi strax
eftir jól en hún er byggð á fyrstu
bók Philips Pullman af þremur í
bókaflokknum His Dark Materi-
als. Stórstjörnurnar Nicole Kid-
man og Daniel Craig leika aðal-
hlutverkin og er búist við því að
hún eigi eftir að njóta mikilla vin-
sælda.
Kirkjan er hið illa
Kvikmyndaútgáfan af bókinni
kemur líka á besta tíma. Vinsældir
bóka og kvikmynda sem skora trú-
arbrögðin á hólm hafa aldrei verið
meiri og almenningur virðist sólg-
inn í heimspekilegar vangaveltur
um lífið og tilgang þess.
Philip Pullman er einn þekktasti
guðleysingi Breta og er meðal
annars meðlimur í bresku húman-
istasamtökunum auk þess að vera
heiðursfélagi í Landssamtökum
um trúlaust samfélag. Hann hefur
ekki farið leynt með skoðanir
sínar á trúarbrögðum, hvorki í
viðtölum né bókum sínum enda
segir fyrrverandi nunna í einni
bókanna við aðalpersónuna:
„Kristnin er mjög valdamikil og
sannfærandi mistök,“ og sjálfur
lét Pullman hafa eftir sér að hann
vildi gera lítið úr grunnstoðum
kristninnar. Og engan skyldi undra
að bæði mótmælendur og kaþól-
ikkar líti bækur Pullmans horn-
auga, í bókinni heitir hið illa til að
mynda „The Church“ eða Kirkj-
an.
Hollywood fær á baukinn
Bækur Pullmans um ferðalag
Lyru og Wills Parry milli ólíkra
heima njóta mikilla vinsælda hjá
smáfólkinu sem drekkur í sig fant-
asíuveröldina. Og það er kannski
helst sú staðreynd sem veldur
kristnum samtökum hvað mestum
áhyggjum, það að börnin skuli
vera „fórnarlömb“ guðleysingja-
stefnu Pullmans.
Og nú þegar Hollywood, með
allar sínar markaðsmaskínur á
milljón, hefur hoppað um borð í
skip Pullmans þá er draumaverk-
smiðjan að mati kirkjunnar manna
að matreiða veröld ofan í börn þar
sem öll trúarbrögð eru vond.
Aðkoma kvikmyndaborgarinnar
féll í það grýttan jarðveg hjá
íhaldssömum armi kaþólsku kirkj-
unnar í Bandaríkjanna að hún sá
sig tilneydda til að hvetja alla fylg-
ismenn sína til að sniðganga The
Golden Compass.
Aðrir hafa sagt Pullman vera að
ráðast gegn ævintýrum hins
rammkristna C.Ss Lewis um Narn-
íu. Og vissulega eru þar hliðstæð-
ur. Báðar bækurnar fjalla um börn
sem þurfa að taka siðferðislega
erfiðar ákvarðanir; þarna eru tal-
andi dýr, stórir og miklir bardagar
að ógleymdum fataskáp sem
kemur víst við sögu í báðum bóka-
flokkunum.
Trúleysingjar ósáttir
Það eru ekki eingöngu hinum trú-
uðu sem er meinilla við kvik-
myndaútgáfuna af The Golden
Compass. Trúleysingjarnir í
Bandaríkjunum benda á að Holly-
wood hafi látið undan ritskoðun-
arstefnu hinna valdamiklu
kristnu þrýstihópa þegar þeir
skírðu hin illu öfl upp á nýtt en
þau heita Magisterium í mynd-
inni í staðinn fyrir Kirkjan. Þessi
ákvörðun snerist þó í höndunum
á handritshöfundum myndarinn-
ar því magisterium er latneska
heitið yfir kennarastéttina hjá
kaþólikkum.
En ekki eru öll kristin samtök
ósátt við kvikmyndina. Þau telja
að bækur Pullmans séu einmitt sú
áskorun sem trúaðir þurfi til að
verða staðfastir í sinni sannfær-
ingu. „Bækur Pullmans eru ekki
árás á kristni sem trúarbrögð held-
ur föst skot á þau öfl sem misnota
sér vald sitt í krafti þeirra,“ segir
Donna Freitas, aðstoðarprófessor
við trúarbragðadeild Háskólans í
Boston í samtali við fréttavef
CNN.
Framleiðandi myndarinnar,
Deborah Forte, vísar hins vegar
allri gagnrýni til föðurhúsanna og
segir að fólk eigi að láta vera að
túlka hlutina svart og hvítt. „Ég
hef unnið að gerð þessarar myndar
í tólf ár og aldrei hefur nokkurt
barn spurt mig hvort bækur Pull-
mans séu árásir á trúarbrögðin.
Þau elska bara bókina og persón-
urnar.“ freyrgigja@frettabladid.is
Mikill trúarhiti í kringum jólamynd
UMDEILDUR UM JÓLIN Nafn Philips Pullman hefur verið töluvert í umræðunni vegna
ævintýramyndarinnar The Golden Compass sem frumsýnd verður hér um jólin.
Barna- og ævintýramyndin
Dugguholufólkið verður frum-
sýnd um helgina en þetta er
fyrsta kvikmynd Ara Kristins-
sonar í tíu ár eða síðan hann leik-
stýrði verðlaunamyndinni Stikk-
frí. Dugguholufólkið segir frá
Kalla, tólf ára gömlu borgarbarni
sem hefur alist upp hjá einstæðri
móður sinni í Reykjavík. Hann er
sendur til pabba síns á Vestfjörð-
um yfir jólin en kemst fljótlega
að því að þar er ekki allt eins og á
mölinni. Úrvalið af sjónvarpsefni
er heldur takmarkað og varla
tölvuleikur í sjónmáli. Kalli tekur
því þá stórtæku ákvörðun að flýja
en lendir í snjóbyl og týnist. Og
þá hefjast ævintýrin fyrir alvöru
enda kemst Kalli í kynni við
ísbjörn og drauga.
Dugguholufólkið er fyrsta
íslenska barnamyndin í háa herr-
ans tíð og því má reikna með að
börnin teymi foreldrana í kvik-
myndahúsin á næstu dögum. Ari
fékk að notast við græna tjaldið
hjá Latabæ fyrir margar af
tökum myndarinnar og hún þykir
mikið augnakonfekt. Í helstu
hlutverkum eru þau Bergþór Þor-
valdsson, Þórdís Hulda Árnadótt-
ir og Árni Beinteinn Árnason sem
öll eru frekar ung að aldri en þau
eru dyggilega studd af þeim
Brynhildi Guðjónsdóttur, Mar-
gréti Vilhjálmsdóttur og Erlendi
Eiríkssyni.
Dugguholufólkið
frumsýnt
ÆVINTÝRI Kalli lendir í miklum hremmingum fyrir vestan.