Réttur - 01.01.1972, Síða 24
Sósíaliskur flokkur hefur því harla mikilvægu
hlutverki að gegna, þótt ekki sé hægt að tala um
„forystuhlutverk" hans í þeim þrönga forréttinda-
skilningi, sem lengi hefur verið lagður í orðið.
Reynslan hefur sýnt, hve alvarlegar hættur fylgja
einokunaraðstöðu flokksins við uppbyggingu nýs
þjóðfélags; og eigi að forðast þær hættur, verður
hreyfingin að miða starfsemi sína við það þegar
í upphafi og afneita þesskonar einokunaraðstöðu
í orði og verki. Baráttan fyrir sósíalisma krefst nú
í ýmsu annarra vinnubragða en áður. Eigi hin sósí-
alíska hreyfing að sigrast á háþróuðu auðvalds-
skipulagi, er eitt frumskilyrði þess miklu meiri út-
breiðsla sósialískrar vitundar en þekkzt hefur hing-
að til i byltingum 20. aldar. Þvi verður í fyrsta lagi
lika að koma til sjálfstætt hlutverk ýmissa fjölda-
samtaka, einkum hinnar faglegu verkalýðshreyfing-
ar, bæði í baráttunni fyrir sósíalisma og síðar í upp-
byggingu hans; og i annan stað hlýtur þróun og
útbreiðslu sósíalískra hugmynda að ná langt út
fyrir flokkinn og getur ekki lotið stjórn hans.
Hinn fræðilegi sósíalismi hefur frá upphafi litið
svo á, að verkalýðsstéttin væri hið félagslega afl,
sem framkvæmd hans yrði fyrst og fremst að styðj-
ast við. Þetta sjónarmið heldur enn gildi sinu í
öllum höfuðatriðum, en þó getur nútíma sósíal-
ískur flokkur ekki verið verkalýðsflokkur í þeim
þrönga skilningi, sem lengi vel gilti bæði um
kommúnista og sósíaldemókrata. Innri greining
verkalýðsstéttarinnar hefur farið vaxandi á síðustu
áratugum. Hinsvegar hefur þróun auðvaldsskipu-
lagsins haft það í för með sér, að hin forna sjálf-
stæða millistétt hefur dregizt mjög saman, en þess
í stað komið fram ný, fjölmenn starfs- og þjónustu-
stétt, sem á meiri samstöðu með verkalýðnum, þar
sem hún hefur tekjur sínar af launavinnu, en ekki
eignarhaldi á framleiðslutækjum. Við þessar að-
stæður verður sósíalískur flokkur að vinna að
sköpun breiðrar samfylkingar, sem ekki sé reist á
undirgefni allra annarra undir sjónarmið eins þátt-
takandans, heldur sósíalískri samþættingu hinna
ýmsu viðhorfa.
FRJÁLS ÞRÓUN EINSTAKLINGS
OG HEILDAR
Sósíalískt þjóðfélag kemst ekki á þegar í stað,
þótt sósíalísk hreyfing hafi náð yfirráðum yfir
ríkisvaldinu. Sósíalismi hefur að vísu oft verið
skilgreindur sem afnám einkaeignaréttar á fram-
leiðslutækjum og tilkoma þjóðfélagslegrar eignar
í hans stað, en þessi skilgreining er ófullnægjandi.
I fyrsta lagi ber að gæta þess, að þótt sósíalismi
krefjist þjóðfélagslegrar eignar, beinnar þjóðnýt-
ingar á höfuðmiðstöðvum efnahagslífsins, má gera
ráð fyrir, að utan þeirra haldist einkaeign um all-
langt skeið, einkum í allskonar smárekstri — og
erfitt að segja fyrir um, hvaða mynd félagsleg eign
mundi taka á sig á þeim sviðum þegar þar að kem-
ur. I öðru lagi nægir þjóðnýtingarformið eitt ekki
til þess, að hægt sé með fullum rétti að tala um
sósíalískt skipulag. Þar verður líka að koma til
bein þátttaka framleiðendanna sjálfra í stjórn efna-
hagslífsins. Síðast en ekki sízt eru allar breytingar
á eignarréttinum aðeins tæki, en ekki takmark i
sjólfu sér. Markmið sósíalismans er að breyta um-
hverfi og tilveruskilyrðum mannsins í það horf, að
þau leyfi alhliða þroska mannlegra hæfileika, eða
eins og það er orðað í sígildri skilgreiningu þeirra
Marx og Engels: „Sósialisminn er þjóðfélag þar
sem frjáls þróun einstaklingsins er skilyrði fyrir
frjálsri þróun heildarinnar."
Nærtækt verkefni sósíalískrar hreyfingar í þró-
aðri hluta heims er að skilgreina nánar tengslin
miili sósialisma og lýðræðis og framfylgja þeirri
skilgreiningu i verki. Hér er ekki um það að ræða
fyrst og fremst að samræma sósíalismann ríkjandi
lýðræðisformum, heldur varðar þetta hið sögulega
hlutverk sósíalismans: Að skapa miklu fullkomnara
og raunhæfara lýðræði en nokkurt stéttaþjóðfé-
lag getur gert. Þetta tekur til allra höfuðþátta lýð-
ræðisins, jafnréttis þegnanna, virkrar þátttöku
þeirra í pólitískum ákvörðunum, réttarins til opin-
berrar gagnrýni og pólitísks samtakafrelsis og
tryggingar á réttindum einstaklingsins gagnvart
fulltrúum almannavaldsins. Verkalýðsstéttin og
flokkar hennar hafa átt hvað rikastan þátt í að
efla og endurbæta borgaralegt lýðræði, enda hug-
sjón sósíalismans til orðin öðrum þræði sem beint
og rökrétt framhald af lýðræðishugmyndum síðari
alda — og miðar að hvoru tveggja í senn:
1. að tryggja undirstöðu lýðræðis með félagslegu
skipulagi á efnalegum tilveruskilyrðum mann-
anna og
2. gefa því ákveðnara inntak með því að skapa
skilyrði fyrir alhliða þroska einstaklinganna.
Þar sem borgaralegt lýðræði hefur skotið rótum,
verður sósialísk hreyfing að taka tillit til þess í
starfi sínu og verja það áföllum úr afturhaldsátt.
24