Morgunblaðið - 17.05.2006, Side 15
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 17. MAÍ 2006 15
ERLENT
Sheer Driving Pleasure
BMW 5 lína
www.bmw.is
HOLLENSKA þingkonan Ayaan
Hirsi Ali skýrði frá því á blaða-
mannafundi í Haag í gær að hún
ætlaði að segja af sér þingmennsku
og flytjast úr landi. Tók hún þá
ákvörðun eftir að rifjaðar voru upp
upplýsingar um að hún hefði logið
til um hagi sína er hún fékk land-
vistarleyfi í Hollandi 1992. Hirsi Ali
er kunn fyrir andstöðu sína við ísl-
amska öfgamenn og hefur í nokkur
ár verið undir lögregluvernd vegna
líflátshótana þeirra.
„Í dag mun ég segja af mér sem
þingmaður og fara frá Hollandi. Ég
geri það með hryggð í hjarta en finn
þó um leið til nokkurs léttis,“ sagði
Hirsi Ali en í heimildamynd, sem
sýnd var í hollenska sjónvarpinu í
síðustu viku, kom fram að þegar
Hirsi Ali sótti um landvist 1992
hefði hún sagst koma beint frá hinni
stríðshrjáðu Sómalíu. Vegna þess
var umsóknin afgreidd á fimm vik-
um. Sannleikurinn var hins vegar sá
að þá hafði hún búið lengi sem lög-
legur flóttamaður í Keníu og síðan í
Þýskalandi þar sem hún bjó áður en
hún kom til Hollands. Á hvorugum
staðnum var henni nein hætta búin.
Þar að auki sagði hún ekki rétt til
nafns en að réttu lagi heitir hún
Ayaan Hirsi Magan.
Gamalt vín á nýjum belgjum
Þessar upplýsingar eru raunar
ekki nýjar af nálinni. Fyrir fjórum
árum viðurkenndi Hirsi Ali að hún
hefði hagrætt sannleikanum til að fá
hæli í Hollandi og þá í því skyni að
sleppa úr nauðungarhjónabandi.
Hollenska útvarpið hefur líka skýrt
frá því að Ali hafi greint frá þessu
öllu þegar hún varð frambjóðandi
hollenska hægriflokksins VVD árið
2002. Hirsi Ali fékk hollenskan rík-
isborgararétt 1997 og hefur verið á
þingi í fjögur ár en pólitískir and-
stæðingar hennar kröfðust þess að
henni yrði vikið af þingi og hún
svipt ríkisborgararétti.
Rita Verdonk, ráðherra innflytj-
endamála í hollensku ríkisstjórn-
inni, sagði síðastliðinn föstudag að
ekkert yrði gert í málinu en á
mánudag sendi hún hins vegar
þinginu bréf þar sem segir að eftir
að staðreyndir málsins hafi verið
kannaðar verði „að líta svo á að
Hirsi Ali hafi aldrei fengið hollensk-
an ríkisborgararétt“. Er það í sam-
ræmi við nýlegan hæstaréttardóm
en í honum segir að lygar eða til-
raunir til að villa á sér heimildir
ógildi fyrri ákvarðanir um útgáfu
vegabréfs.
Hér er um að ræða mikil tíðindi,
ekki síst í Hollandi þar sem Hirsi
Ali hefur verið mjög áberandi í um-
ræðunni, ekki síst um íslam, og ekki
bara þar, heldur í Evrópu og jafnvel
víðar.
Segja má að Hirsi Ali hafi orðið
heimskunn er kvikmyndaframleið-
andinn Theo van Gogh var myrtur í
nóvember 2004 en hún hafði skrifað
handritið að mynd hans, „Undir-
okun“, sem fjallar um illa meðferð á
konum meðal múslíma.
Margir múslímar reiddust yfir
myndinni og morðingi van Goghs,
sem nú afplánar lífstíðarfangelsi,
skildi eftir bréf til Hirsi Ali og festi
það við líkama van Goghs með
hnífnum, sem hann notaði til að
myrða hann. Í því voru alls kyns
hótanir og trúarrugl.
Hirsi Ali hefur síðan verið undir
lögregluvernd og voru yfirvöld að
finna henni nýtt hús í Haag eftir að
nágrannar hennar kvörtuðu yfir því
að öryggisráðstafanirnar vegna
hennar gerðu þeim eðlilegt líf mjög
erfitt.
Hirsi Ali á sér marga stuðnings-
menn og aðdáendur í Hollandi og
víðar og þeir eru hneykslaðir á því
að nú skuli allt í einu brugðist við
upplýsingum, sem hafa verið op-
inberar í fjögur ár. Segjast þeir,
meðal annarra Neelie Kroes, sem
fer með samkeppnismál í fram-
kvæmdastjórn Evrópusambandsins,
„skammast sín fyrir Holland“ en
meginskýringin er líklega Rita
Verdonk, ráðherra innflytjendamála
og samflokksmaður Hirsi Ali.
Ráðherra sem vill sýna hörku
Verdonk sækist eftir formennsku
í VVD og hún hefur getið sér orð
fyrir hörku í innflytjendamálum.
Nýlega lét hún reka úr landi unga
stúlku frá Kosovo, sem búið hafði í
Hollandi frá 12 ára aldri, og hún
neitaði knattspyrnumanninum
Salomon Kalou, sem kemur frá
Fílabeinsströndinni, um ríkisborg-
ararétt þótt landsliðsþjálfarinn
Marco van Basten talaði máli hans.
Hirsi Ali hefur hlotið marg-
víslegar viðurkenningar vegna bar-
áttu sinnar fyrir rétti múslímskra
kvenna og hún er höfundur met-
sölubókarinnar „Mærin í búrinu:
Frelsisyfirlýsing kvenna í íslam“.
Hún er sómölsk að þjóðerni en var
alin upp í Sádi-Arabíu, Eþíópíu og
Keníu. Þegar hún var 23 ára var
hún nauðug gift frænda sínum í
Kanada en flýði frá honum er þau
voru í Evrópu. Segist hún hafa
breytt nafni sínu af ótta við hefnd-
araðgerðir fjölskyldu sinnar.
Hollenska dagblaðið De Volks-
krant sagði í fyrradag að Hirsi Ali
ætlaði að setjast að í Bandaríkj-
unum en þar hefði hún þegið stöðu
hjá American Enterprise Institute,
sem er íhaldssöm hugveita í Wash-
ington.
Lætur af þing-
mennsku og
flyst frá Hollandi
Ayaan Hirsi Ali er orðin heimskunn fyrir baráttu
sína fyrir rétti kvenna í íslam en nú allt í einu
verður hún að gjalda þess að hafa ekki sagt alveg
rétt frá er hún fékk landvist í Hollandi, segir í
grein Sveins Sigurðssonar. Upplýsingar um það
hafi þó legið á borðinu í fjögur ár.
AP
Ayaan Hirsi Ali er hún skýrði frá því á fréttamannafundi í Haag í gær, að
hún myndi segja af sér þingmennsku og fara frá Hollandi.
svs@mbl.is