Morgunblaðið - 11.06.2006, Page 26

Morgunblaðið - 11.06.2006, Page 26
26 SUNNUDAGUR 11. JÚNÍ 2006 MORGUNBLAÐIÐ fremst að vinna að því að rétta hlut þeirra sem lenda undir í lífsbaráttunni. Hlutverk stjórn- málamanna er að standa vörð um velferð og samfélagslegar skyldur gagnvart lítilmögnum. Ég er keppnismaður í mér og það er miklu meiri áskorun að vera í liði sem á móti blæs, þar sem þörfin er fyrir mann. Þannig var það og er bæði í fótboltanum og pólitíkinni.“ Blaðamennskan sjarmerandi Það brestur á logn eftir þennan pólitíska storm. Ellert verður eins og annars hugar og ég læt hann ráða ferðinni. „Það er svolítið ein- kennilegt,“ segir hann svo, „þegar ég lít til baka, að þá hefur líf mitt hlaupið á 15 ára köfl- um; í fótboltanum var ég fimmtán ár í fyrstu deild, formaður KSÍ var ég í fimmtán ár, stjórnmálaþátttakan stóð í ein fimmtán ár, svo var ég fimmtán ár ritstjóri og nú síðast 15 ár hjá ÍSÍ. Heldurðu að það megi lesa eitthvað út úr svona tölfræði?“ Ég kem mér hjá því að svara með spurningu um, hvers vegna blaðamennska hafi tekið við af þingmennskunni? „Blaðamannsferill minn hófst um 1960 þegar ég varð sumarmaður á Vísi, þar sem frændi minn Gunnar Schram var ritstjóri. Ég var svo þingfréttaritari tvo, þrjá vetur með námi. Ég þekkti því til blaðamennskunnar og hafði líkað hún vel. En það var nú ekki svo að ég ætti sjálfur frumkvæðið að því að fara í blaðamennsku, þegar ég datt út af þingi um áramótin ’79/’80. Ég var kominn hálfa leið út á sjó. Ég hafði áður verið á togara og líkað vel og fannst upplagt, þegar hér var komið, að fara til sjós og hugsa minn gang. Þá voru ritstjórar Vísis Hörður Einarsson og Ólafur Ragnarsson. Hörður vildi hætta og mér var boðinn ritstjórastóll. Svo ég settist í brúna á Vísi í stað þess að fara út með togaranum!“ – Þá kepptu Vísir og Dagblaðið á síðdeg- ismarkaðnum. „Já. Og það var hart barizt! Þetta var ákaf- lega skemmtilegt stríð fyrir okkur blaðamenn- ina, en gekk nærri báðum blöðunum svo eina góða veðurnótt voru þau sameinuð. Veggurinn milli ritstjórnanna í Síðumúla var laminn niður og DV leit dagsins ljós. Þetta kom ákaflega flatt upp á okkur sem unnum þarna, hvað þá fólk úti í bæ. En það sýndi sig að þeir Hörður Einarsson og Sveinn R. Eyjólfsson vissu sínu viti.“ – Eimdi ekkert eftir af því að blöðin höfðu verið keppinautar? „Nei. Það tókst strax ágætt samkomulag og samstarf og ég varð aldrei var við neinn ágrein- ing þess vegna. Það voru ekki við og þið, heldur bara við. Ég var svo ritstjóri DV til ’95 með Jónasi Kristjánssyni.“ – Hvernig gekk ykkur að vinna saman? „Menn segja, að Jónas sé ekki allra. En sam- starf okkar gekk snurðulaust. Hann kunni alla vega sitt fag. Og snarpur penni! Það er sorglegt hvernig sá ferill endaði.“ – Og dagblaðið DV. „Ójá. Sem gömlum DV-manni runnu mér þessi ósköp til rifja.“ Og Ellert horfir hugsi út um stofugluggann, vill ekki ræða þessi endalok meira. En endalok hans sjálfs hjá DV? „Ég er alinn upp í íþróttahreyfingunni, var lengi keppnismaður, svo tóku við stjórn- unarstörf; fyrst hjá KR og síðan Knattspyrnu- sambandi Íslands. Ég var formaður þess í 16 ár. Íþróttirnar voru mínar ær og kýr. Voru og eru mitt áhugamál. Þegar ég hætti hjá KSÍ lof- aði ég konu minni og vinnuveitendum, að nú skyldi ég láta starf í íþróttahreyfingunni gott heita. En svo dróst ég inn í þetta aftur, þegar ég var beðinn að gefa kost á mér til varafor- mennsku Íþrótta- og ólympíusambands Ís- lands með öðlinginn Svein Björnsson á for- mannsstóli. Það lá í loftinu að varaformaðurinn myndi taka við og það reyndist því miður alltof snemma rétt, því Sveinn lézt ári seinna. Ég get vel viðurkennt að ég hætti ekki á DV til þess að stýra ÍSÍ. Ég hafði verið formaður KSÍ og tekið þátt í starfi UEFA, knattspyrnu- sambands Evrópu, meðfram ritstjórastörfum á DV. Þegar ÍSÍ bættist svo við gekk það einfald- lega ekki upp. Út af því urðu árekstrar og nið- urstaðan varð sú að ég samdi um starfslok á DV og fór alfarinn yfir til íþróttahreyfing- arinnar.“ En Ellert lagði síður en svo stílvopnið niður, þótt hann hætti í blaðamennsku. Hann var eftir það fastur pistlahöfundur í Morgunblaðinu um árabil og skrifar nú reglulega í Fréttablaðið. „Mér hefur alltaf fallið vel að skrifa. Blaða- mennskan átti vel við mig. Hún er svo spenn- andi! Alltaf ný og ný viðfangsefni og stundum veit maður hreint ekki að morgni, hvað starfs- dagurinn ber í skauti sínu. Það finnst mér sjarmerandi og eftirsóknarvert. Þetta er eins og í fótboltanum, þar sem hver leikur er öðru- vísi en allir hinir! Ætli ég sé bara ekki spennufíkill?“ Hann horfir spyrjandi til mín. Ekki er það að sjá eins rólegur og yfirvegaður og hann er og stutt í brosið. Það fellur kannski allt af honum þegar hann heyrir flautað til leiks. Svo kveður hann sjálfur upp úr um sjálfan sig: „Ég hefði alla vega aldrei orðið einhver níutilfimm-maður.“ Man alla leikina og megnið af mörkunum – Breytingar í íþróttahreyfingunni? „Það gefur augaleið að það hafa orðið margar og miklar breytingar á þeim 45 árum sem liðin eru síðan ég settist í stjórn knattspyrnudeildar KR og þar til nú að ég stend upp úr formanns- stól ÍSÍ. Þótt æfingarnar á Melavellinum séu stórkostlegar í minningunni og maður sakni stundum þessara gömlu, góðu daga, þá hefur allt annað og betra tekið við. Íþróttagreinunum hefur fjölgað; við höfum stofnað félög um dans, hestamennsku, íshokkí og taekwondo, svo dæmi séu nefnd og í burð- arliðnum eru til dæmis félög hnefaleika, vél- hjólakeppni og skylminga. Þeim, sem iðka íþróttir, stórfjölgar og íþróttamannvirkin verða æ betri. Svo er allt starf og skipulag í fastari skorðum. Í starfi mínu fyrir íþróttahreyfinguna hef ég kynnzt fjöldanum öllum af frábæru fólki og duglegu og það hafa verið mikil forréttindi að fá að starfa fyrir þessa öflugu hreyfingu. En allt hefur sinn tíma; nú hætti ég og aðrir taka við keflinu.“ „Það er nú svo, að þótt ég muni ekki í dag, hvað ég gerði í gær, eða hvað ég á að kaupa, þegar ég er kominn út í búð, þá man ég alla leiki sem ég spilaði og megnið af mörkunum sem ég skoraði. Þegar ég var í boltanum var ég í vandræð- um, þegar ég lagðist til svefns. Ég gat alls ekki fest blund, heldur spilaði ég síðasta leik upp aftur og aftur í huganum.“ Ellert B. Schram spilaði á þriðja hundrað leiki með KR og 23 landsleiki á tíu ára lands- liðsferli. Hann skoraði hátt í 120 mörk fyrir KR. Það met stendur enn og vísast til lengi ennþá, því eins og Ellert segir er það svo nú, að ungu strákarnir eru ekki fyrr búnir að sýna eitthvað en þeir eru komnir til útlanda. – Kom atvinnumennska til greina hjá þér? „Ég fékk einu sinni eitthvert smátilboð, en ég var á kafi í fjölskyldumálum, félagsmálum og fyrirvinnu þannig að það varð ekkert úr því.“ – Hverjir voru eftirminnilegustu andstæð- ingarnir á knattspyrnuvellinum? „Það voru margir frægir kappar í þessu meðan ég var að spila. Þegar ég byrjaði var Ríkharður Jónsson aðalmaðurinn og þegar ég hætti var Hermann Gunnarsson skeinuhæt- tasti framlínumaðurinn. Þá var ég nú kominn í vörnina; búinn að spila flestar stöður á vell- inum.“ Sem varnarmaður var Ellert valinn knatt- spyrnumaður ársins og öðru sinni í framlínunni varð hann markakóngur. – Og hvert er uppáhaldsmarkið? „Ég gerði svo mörg mikilvæg mörk, að það væri ósanngjarnt að nefna eitthvert eitt öðrum fremur. Við vorum sigursælir á vellinum; sjö sinnum bikarmeistarar og fimm sinnum Ís- landsmeistarar. En kannski man ég bezt síð- asta tímabilið, ekki vegna þess að það var síð- asta tímabilið, heldur vegna hins að við björguðum okkur þá frá falli. Ég hætti að spila haustið ’70. En næsta sum- ar gekk allt á afturfótunum hjá KR og menn kvöddu mig aftur til þjónustu. Ég spilaði sex síðustu leikina, sem allir enduðu án taps og við héngum uppi í deildinni. Þetta var töff barátta, hörð og eftirminnileg. Þá skoraði ég dýrmætt mark; mitt síðasta og kannski það bezta. En blessaður taktu þetta nú ekki svo að það hafi allt farið í handaskolum hjá KR af því einu að ég hætti!“ – Manstu hvernig tilfinning það var að vera valinn í landsliðið? „Hvort ég man! Ég var bæði rígmontinn og stoltur. Reyndar var því haldið fram að ég kæmist í landsliðið út á pabba minn (Björgvin Schram), sem var forseti KSÍ, en ég held að mér hafi tekizt að afsanna það tiltölulega fljótt.“ – Kom ekkert annað en fótbolti til greina? „Ég er fæddur ’39 og alinn upp við Klam- bratún. Og eini strákaleikurinn fyrir utan fallna spýtu og snjóhúsagerð var fótbolti. Lífið var svo miklu fábreyttara þá en nú. Pabbi var frægur og góður knattspyrnumað- ur og það kveikti í mér áhugann. Það var svo sjálfgefið að nafnið Schram var ekki gjaldgengt í Fram eða Val þannig að ég hrökklaðist eig- inlega í KR út á nafnið og ætternið. Það voru mín örlög og þau réðu. En ég á góða vini í þess- um félögum sem öðrum. Ég var sendur í sveit frá sjö ára aldri til 14. Það voru langar útivistir og því fór ég ekki að spila fótbolta að einhverju ráði fyrr en ég var unglingur. Sveitadvölin var mér holl. Þótt ég sé borgarbarn held ég alltaf upp á sveitamann- inn.“ „… að tala við lögfræðinginn sjálfan“ – Af hverju valdirðu lögfræðina? „Það verður bara að segjast eins og er að því réð allt annað en löngun til þess að læra lög- fræði! Ég varð stúdent frá Verzlunarskólanum 1959 og ég náði stúdentsprófinu, þótt ég hefði gætt þess vandlega að láta námið hvorki spilla fyrir mér dægrastyttingum né fótbolta. Guðfræðin lá nú ekki fyrir mér! Og lækn- isfræðin ekki heldur. Laganámið var ósköp þægilegt að því leytinu til að menn gátu verið endalaust í deildinni án þess að taka próf. Um þetta leyti var ég að festa ráð mitt, eignast mitt fyrsta barn og ég var á kafi í stúdentapólitík og knattspyrnu. Það var ósköp þægilegt með þessu öllu saman að kalla sig stud. jur.!“ Ellert er maður tvíkvæntur. Með fyrri konu sinni; Önnu Ásgeirsdóttur, eignaðist hann fjög- ur börn. Seinni kona hans er Ágústa Jóhanns- dóttir og eiga þau tvö börn. Auk þessa á Ellert einn son. „Sjö börn. Það er glæsilegur árang- ur,“ segir hann og brosir stoltur. – Langleiðina í eitt fótboltalið! „Það er heilt handknattleikslið!“ En aftur til háskólaáranna. „Svo kviknaði nú áhugi hjá mér á faginu; þetta var góð deild og góður félagsskapur. Ég varð cand. jur. vorið ’66 og tók þá strax til starfa á lögmannsstofu Eyjólfs Konráðs Jóns- sonar, Hjartar Torfasonar og fleiri. Um haustið sótti ég um og fékk ráðningu sem skrif- stofustjóri borgarverkfræðings og átti þar fimm skemmtileg og viðburðarík ár.“ – Praxisinn varð sem sé ekki langur! „Ég fékk mér reyndar réttindi héraðsdóms- lögmanns. En ekki get ég gripið til þeirra nú, þótt ég vildi, því ég varð að leggja þau inn aftur eftir fjörutíu ára hlé. Og vísast yrði ég að fara í meiriháttar endurhæfingu til þess að geta beitt lögfræðinni. Hvað sem því líður hefur hún nýtzt mér vel í lífinu. Þegar ég settist inn á Al- þingi var útséð um frekari lögfræðipraxís. En lögfræðingur er ég og get því vel sett mig í há- tíðlegar stellingar og tekið undir með Tómasi Guðmundssyni: Ég hugsaði mér röddina, sem hæversklega spyrði: Er hægt að fá að tala við lögfræðinginn sjálfan?“ – Hvernig verður svo næsta 15 ára tímabilið hjá þér? Hann hlær við spurningunni. „Ég ætla að byrja á því að lesa, læra og leika mér. Það er fyrir öllu að vera góður til heils- unnar og ég legg mikið upp úr því að lifa heilsu- samlegu lífi, ég hreyfi mig; syndi, lyfti og spila golf. Það er satt að segja ærinn starfi að halda sér í formi á mínum aldri. En hver veit nema eitthvert spennandi verk- efni komi upp í hendurnar á mér einn góðan veðurdag. Þá verð ég tilbúinn, þegar flautað verður til leiks!“ Frá föður til sonar; fyrirliði KR, Ellert B. Schram, tekur við Íslandsmeistarabikarnum 1965 úr hendi föður síns; Björgvins Schram, formanns Knattspyrnusambands Íslands. Á sjó. Þegar blaðamennskan kallaði var Ellert á leið út á sjó, en þar hafði honum áður liðið vel. Á framboðsfundi í Ísbirninum. freysteinn@mbl.is ’Að bindast íþrótta-félagi er háð tilfinningu en þú aðhyllist stjórn- málaflokk vegna skoð- ana. Á þessu er mikill munur. Ég hef skipt um flokk. […] En ég efast um að nokkur myndi virða það við mig að ganga úr KR. Sjálfum finnst mér það óhugs- andi. Ég er KR-ingur í hjarta mínu!‘

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.