Morgunblaðið - 22.09.2006, Qupperneq 24
matur
24 FÖSTUDAGUR 22. SEPTEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
Hneggjað í stóðréttum
Tilvalið er að hrista af sér slenið, kasta yfir
sig lopapeysunni og bregða sér í stóðréttir í
Undirfellsréttum í Austur-Húnavatnssýslu
sem hefjast kl. 10 á morgun. Njóta þess sem
þar fer fram, ýmist með því að aðstoða við að
koma höndum yfir ljónstygg hross, horfa á
slaginn, syngja með eða bara draga að sér súr-
efni og hestalykt.
Slátur og stuð
Að taka slátur er vanmetin skemmtun. Nú
þegar sláturtíðin stendur sem hæst er um að
gera að hlaupa út í búð og kaupa hræódýrt
hráefnið og blása til sláturgerðarveislu þar
sem allir í fjölskyldunni fá að taka þátt. Það er
svakalega gaman að syngja saman og sauma
keppi, hræra í blóðmör og stíga dansspor eða
gera hvað annað sem fólki dettur í hug á með-
an það sameinast um að búa til ódýrt fæði sem
gott er að grípa til í frystinum á köldum vetr-
arkvöldum.
Bíómyndin Börn
Algjört möst að sjá þessa mynd um íslensk-
an hversdagsraunveruleika og upplifa snilld-
arleik á hvíta tjaldinu.
Hjólreiðaferð á Þingvöll
Hressandi að skella sér í hjólreiðaferð á
morgun laugardag, á vegum Útivistar og upp-
lifa íslenska náttúru á hjólafák. Mæting kl. 10
við gamla Rafstöðvarhúsið í Elliðaárdalnum.
Farið verður á eigin bílum austur á Þingvöll.
Hjólað verður austan megin við Þingvallavatn
í Grímsnes. Þar mun Sveinn Davíðsson bjóða
hjólreiðarfólki í sumarbústað sinn og í heitan
pott. Greiða þarf 500 kr. fyrir trúss til baka.
Leiðin er létt, um 35 km, allt niður í móti og
næstum því öll á malbiki. Ekki gleyma nesti,
sundfötum og handklæði.
Karíus og Baktus á Akureyri
Gaman er að hoppa upp í flugvél með börnin
blíð og skjótast norður á morgun til að sjá
ólátabelgina Karíus og Baktus sem þar frum-
sýna sjálfa sig á leiksviði undir stjórn Ástrósar
Gunnarsdóttur. Þessir tannanna óvinir eru
miklir gleðigjafar fyrir þá sem ekki verða fyrir
höggum þeirra í munni sínum.
Lokaumferð Landsbankadeildarinnar
Allir á völlinn! Fimm leikir í fótbolta karla
verða víða um land á laugardag, allir á sama
tíma, klukkan tvö. Í Vestmannaeyjum, í Kefla-
vík, á Víkingsvellinum, í Grindavík og á Laug-
ardalsvelli. Valur og KR munu berjast um
annað sætið í Landsbankadeildinni en fimm lið
eru í fallhættu: Grindavík, Breiðablik, Fylkir
ÍA og Víkingur. Koma svo og hvetja sína
menn!
mælt með …
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Íeina tíð er hart var á dalnum voru mennþeim mun duglegri að birgja sig upp afgjöfum sumarsins til hins harða vetrar,en nú er íslenska uppskeran orðin e.k.
bónus við allar þær vörur sem fást árið um
kring. Í Suður-Evrópu og víðar nær upp-
skerutíminn yfir marga mánuði eftir því um
hvaða grænmetis- eða ávaxtategund er að
ræða, en haustið er samt sem áður alls staðar
tíminn þegar matarborð og markaðir sligast
undan ferskmeti.
Á Íslandi er uppskerutíminn mun skemmri
og menn verða því að vera vakandi og tilbúnir
að nýta hið frábæra hráefni sem haustið ber
með sér. Sveppi, ber, kartöflur, rófur, kál o.fl.
þarf að nýta á sem fjölbreyttastan máta.
Ítalir eru snillingar í matargerð og virðing
þeirra fyrir hráefninu og meðvitund um það er
aðdáunarverð. Einfaldleikinn er ávallt í fyr-
irrúmi og hráefnið látið njóta sín til fulls, en
samt er mikið hugmyndaflug og fjölbreytni í
matargerðinni. Nú er sveppatínsla í algleym-
ingi þar í landi og sveppirnir matreiddir á ótal
vegu. Sveppatínsla hefur færst í aukana á Ís-
landi undanfarin ár með aukinni þekkingu við
tínslu og kunnáttu við matargerð, enda algjör
synd að nýta ekki þetta eðalhráefni. Sveppi
má nota ferska eða þurrkaða, t.d. í risotto, sós-
ur, fyllingar ýmiss konar, paté, súpur, soufflé,
meðlæti o.fl. Einnig er upplagt að sjóða þá nið-
ur með ediki og kryddi. Rótargrænmeti (kart-
öflur, rófur og rætur) er hægt að matreiða á
ótal vegu, t.d. bakað eða í buff og súpur. Berin
eru frábær í alls kyns eftirrétti og kökur, í
sultu- og saftgerð o.fl. Tilvalið er að frysta ber
í pokum með ögn af sykri (og e.t.v. sí-
trónuberki og ferskri myntu).
Suður-evrópska haustið býður upp á fjöl-
breytt ávaxta- og grænmetisúrval sem skilar
sér einnig á markaðsborð annarra landa.
Brýnt er að fólk kunni að matreiða úr hráefn-
inu (fyrir utan það að borða hráefnið ferskt),
því annars sitja bændur uppi með stóran hluta
framleiðslunnar. Það að borða í takt við árstíð-
irnar eins og kostur er hefur að auki marg-
sannað sig sem heilnæmasti lífsstíllinn. Hér
fylgja nokkrar hugmyndir að nýtingu haust-
grænmetis og -ávaxta.
Fíkjur eru frábærar með hráskinku og með
blöndu af mascarpone, gráðosti, hunangi og
ögn af vin santo. Þær eru líka dásamlegar syk-
urgljáðar á pönnu, bornar fram með þeyttum
rjóma eða ís. Henta líka vel í smjördeigs-
bökur.
Perur Perur eru gómsætar rauðvínssoðnar
með kanil og kardimommum, í kökur ýmiss
konar (t.d. með ljósu súkkulaðikremi) og í
ávaxtasalöt. Vel þroskuð pera fer einnig vel
með ýmiss konar ostum, sérstaklega bragð-
miklum s.s. gorgonzola og gráðosti.
Ferskjur Fyrir einfaldan ferskjueftirrétt
er vel þroskuð ferskja skorin í bita og þeir
settir í vínglas. Þurru hvítvíni eða rósavíni
hellt yfir. Ferskjur er sniðugt að fylla með t.d.
mascarpone og hnetum og e.t.v. ögn af líkjör
og baka í nokkrar mínútur.
Vínber Vínber er best að borða eins og þau
koma af trénu, e.t.v. með ostum, en geta líka
verið forvitnilegt meðlæti t.d. í sósum (með
t.d. svínakjöti).
Plómur Plómur henta vel í grappagerð.
Prófið að búa til sandkökutilbrigði þar sem
plómusteinarnir eru fjarlægðir og plómurnar
svo hitaðar í smjöri í nokkrar mínútur. Bætið
30 g af sykri saman við og sykurgljáið þær.
Skvettið smáplómugrappa yfir á háum hita og
látið vökva gufa upp. Hrærið plómum saman
við sandkökudeig og bakið eins og venjulega.
Morgunblaðið/Hanna Friðriksdóttir
Haustgnótt og hugarflug
Haustið er tími allsnægta.
Náttúran gefur af sér uppskeru
sumarsins og það er svo undir
okkur mönnunum komið, segir
Hanna Friðriksdóttir, hvernig
við nýtum þær gjafir.
Smælki með
kryddjurtum og
rauðum pipar
Fyrir fjóra sem aðalréttur en átta
sem meðlæti
1 kg litlar nýjar kartöflur
2 hvítlauksgeirar
3 ferskir timjanstönglar eða
blóðberg (eða 2 tsk. þurrkað)
4 ferskir marjóramstönglar
(eða 2 tsk. þurrkað)
5–6 fersk salvíulauf (eða 2 tsk.
þurrkuð)
1 lítill ferskur rauður pipar
½ glas jómfrúrólífuolía
gróft salt
nýmalaður pipar
Þvoið kartöflurnar og þurrkið.
Fínsaxið annan hvítlauksgeirann
ásamt salvíulaufunum og tveimur
timjanstönglum. Hitið olíuna á
pönnu eða fati sem einnig má fara
í ofn. Mýkið helming rauða pip-
arsins og annan hvítlauksgeirann
(sem hefur verið kraminn með
breiðu hnífsblaði) í olíunni og
veiðið svo upp úr. Bætið kart-
öflum út á pönnuna og brúnið á
háum hita í nokkrar mín. Bætið
söxuðum hvítlauk saman við
ásamt salvíu, timjan og hálfum
söxuðum rauðum pipar. Saltið eft-
ir smekk með grófu salti eða Mal-
don-salti. Bakið við 180°C í ca 40
mín. Veltið kartöflunum af og til
með trésleif. Raðið á diska, dreif-
ið restinni af timjan yfir og
skreytið með ferskum marjóram-
stönglum (má einnig nota t.d.
graslauk).
Saxið dálítið af ferskum rauðum
pipar og setjið í skál og hver og
einn getur bætt á eftir vild.
Gott er að búa til sósu úr sýrð-
um rjóma og ferskum krydd-
jurtum og dýfa kartöflunum í.
Rifsberjahlaup með
þeyttum rjóma
Margir hafa sultað af krafti und-
anfarið og sumir búa til svo mikið
að þeir komast varla yfir að inn-
byrða framleiðsluna. Sulta er ekki
bara góð ofan á pönnukökur,
vöfflur og ristað brauð, heldur
henta bæði bláberja- og rifsberja-
sultur vel í sósur t.d. með villi-
bráð, með ostum og í ýmiss konar
eftirrétti. Fyrir þá sem gerðu
stóran skammt af rifsberjahlaupi
í ár er hér hugmynd að gómsæt-
um eftirrétti. Rifsberjahlaup má
vel frysta og þannig má geyma
hluta þess til jóla og koma á óvart
með óvenjulegum og sumarlegum
eftirrétti. Hlaupið í þennan rétt
skyldi vera eins lítið sætt og hægt
er (ákjósanlegt sykurmagn 200 g
á móti ½ kg af berjum, en þá þarf
að nota matarlím, ca 25 g).
2 dl rjómi
50 g hveiti
60 g smjör
50 g pistasíuhnetur
30 g flórsykur
rifinn börkur af ½ sítrónu
örlítið salt
Saxið hneturnar og blandið
saman við hveitið, saltið og syk-
urinn. Bætið smjörinu saman við í
kubbum og hnoðið deigi saman
með fingrunum þar til úr verður
mulningsleg jöfn blanda. Dreifið
deiginu á smurða bökunarplötu og
bakið við 180°C í 20 mín. Skerið
hlaupið í kubba, dreifið í desert-
glös og skreytið með þeyttum
rjóma, pistasíumulningi og e.t.v.
grein af ferskum rifsberjum. Berið
fram strax.
Þessa útfærslu má yfirfæra á
allar tegundir eftirréttaávaxta-
hlaups eða ávaxtasalats. Prófið
t.d. með ferskjuhelmingum,
ferskum eða úr dós.
Kryddjurtasmælki Gott með steikinni eða eitt sér.
Morgunblaðið/Hanna Friðriksdóttir
Rifsberjahlaup Ljúffengt með þeyttum rjóma.