Morgunblaðið - 22.09.2006, Blaðsíða 44
44 FÖSTUDAGUR 22. SEPTEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ Ívar Björnssoncand. mag., ís-
lenskukennari og
skáld, fæddist á
Steðja í Flókadal
28. júlí 1919. Hann
lést á Landspítala
háskólasjúkrahúsi –
Landakoti 14. sept-
ember síðastliðinn.
Foreldrar hans
voru Björn Ív-
arsson, f. 24. júní
1880, d. 1. apríl
1963, og Pálína Sig-
ríður Sveinsdóttir,
f. 25. nóvember 1880, d. 23. jan-
úar 1966. Bróðir Ívars var Krist-
inn Björnsson sálfræðingur, f. 19.
júlí 1922, d. 26. desember 2004 og
hálfsystir Ívars, sammæðra var
Þóra Jónsdóttir, f. 1. október
1907, d. 11. apríl 2004.
Ívar kvæntist 16. apríl 1949
Katrínu Sylvíu Símonardóttur frá
Vatnskoti í Þingvallasveit, f. 27.
september 1912, d. 27. maí 2001.
Börn þeirra eru: 1) Gunnar Páll
Katrín Sylvía kona Ívars átti
fyrir soninn Viggó Alfreð Odds-
son, f. 2. desember 1932, d. 7.
mars 1983.
Ívar Björnsson varð stúdent frá
Menntaskólanum á Akureyri árið
1946.Hann stundaði nám við Há-
skóla Íslands og lauk þaðan cand.
mag. í íslenskum fræðum vorið
1952. Hann kenndi fyrst íslensku
við gagnfræðaskólann í Vest-
mannaeyjum, síðar í Keflavík og
við Vogaskóla í Reykjavík. Lengst
af var Ívar íslenskukennari við
Verzlunarskóla Íslands eða í 25
ár.
Eftir Ívar liggja nokkur fræði-
rit í íslensku, sem enn eru notuð
við íslenskukennslu.
Ívar var mikill ljóðaunnandi og
á árunum 1992-2004 gaf hann út
fjórar ljóðabækur, en þær eru
„Liljublóm“, „Í haustlitum“, „Á
kvöldhimni“ og „Spuni“.
Ívar og Katrín bjuggu lengst af
í Hamrahlíð 9, en eftir lát hennar
flutti hann í Bólstaðarhlíð 41, þar
sem hann bjó síðustu ár ævi sinn-
ar.
Útför Ívars verður gerð frá
Grafarvogskirkju í dag og hefst
athöfnin klukkan 13.
Ívarsson, f. 7. ágúst
1949, kona hans er
Jónína Ragn-
arsdóttir, f. 6. janúar
1952, þau eiga tvær
dætur, Andreu Mar-
gréti, f. 25. sept-
ember 1968, og Katr-
ínu Sylvíu, f. 30. júlí
1974, gift Gunnþóri
Jónssyni. Synir And-
reu eru, Gunnar Páll
Torfason, f. 2. janúar
1988, og Heimir Páll
Ragnarsson, f. 12.
september 2001. 2)
Símon H. Ívarsson, f. 9. mars
1951, kona hans er María Jóhanna
Ívarsdóttir, f. 5. júní 1952, þau
eiga tvö börn, Ívar, f. 10. júní
1983, unnusta hans er Ástrún
Friðbjörnsdóttir, og Svandís Ósk,
f. 11. júlí 1990, unnusti hennar er
Axel Örn Sigurðsson. Símon á
eina dóttur frá fyrra hjónabandi,
Katrínu Sylvíu, f. 31. mars 1973,
sonur hennar er Hinrik Snær
Katrínarson, f. 3. desember 1999.
Faðir minn, Ívar Björnsson, er
fallinn frá og farinn til forfeðranna
eftir stutta sjúkrahúslegu. Hann átti
því láni að fagna að vera að mestu
heilbrigður og virkur í lífi og leik allt
fram undir það síðasta þrátt fyrir
áföll á lífsleiðinni. Faðir minn var
frekar dulur í almennri umgengni,
en því virkari í því sem hann tók sér
fyrir hendur. Hann hneigðist fljótt
til bókmennta, en búskapur var hon-
um síður að skapi. Iðjusemi var hon-
um í blóð borin, og minnist ég hans
sem barn, gjarnan sitjandi við skrif-
borð að fara yfir verkefni nemenda
eða undirbúa kennsluna og leiðbeina
nemendum. Oft var gestkvæmt í
Hamrahlíðinni, stundum voru sam-
kennarar að fagna, eða ættingjar og
vinir komu í heimsókn og margir
komu utan af landi og fengu gist-
ingu. Allir voru velkomnir þótt hús-
rými væri ekki mikið. Þannig voru
foreldrar mínir sveigjanlegir og lög-
uðu sig að aðstæðum hverju sinni.
Móðir mín var mikill náttúruunn-
andi og smitaðist faðir minn af áhuga
hennar á þessum vettvangi. Reglu-
lega var farið í göngutúra og stað-
arheiti og kennileiti skoðuð, einkum
um helgar, en lengri ferðir voru
farnar þegar aðstæður leyfðu.
Myndavélin var þá gjarnan með í
farteskinu ásamt flatbrauðssneið og
öðru góðgæti. Á ég mjög ljúfar
minningar frá slíkum ferðalögum og
ósjaldan voru þessar stundir rifjaðar
upp með myndasýningum langt
fram á nætur með ljúfum veitingum.
Faðir minn þótti strangur kennari
og skiptust nemendur hans gjarnan í
tvo hópa, sumir dáðu hann, en öðrum
fannst hann vera kröfuharður. Eitt
er víst að nemendur hans komust
ekki upp með að læra ekki heima.
Eftir að hann hætti kennslustörf-
um settist hann niður við ljóðagerð,
en ljóðlist hafði alla tíð verið honum
einkar hugleikin. Eftir hann liggja
fjórar ljóðabækur, sem bera vott um
fjölbreytta ljóðagerð, ólíkar stílteg-
undir og ríkt hugmyndaflug. Ósjald-
an las hann upp úr ljóðum sínum á
mannamótum. Tvívegis var haldin
kynningardagskrá í Menningarmið-
stöðinni Gerðubergi, þar sem ljóð
hans voru kynnt, ýmist í upplestri
eða söng, en nokkur tónskáld hafa
fundið ástæðu til að semja lög við
texta hans.
Ég kveð föður minn með söknuði
og vona að hann sé kominn á stað
sem honum líður vel á.
Hvíl í friði.
Símon H. Ívarsson.
Elsku besti afi minn. Orð fá ekki
lýst hve mikið ég sakna þín. Þú munt
alltaf eiga stað í hjarta mínu og mun
ég aldrei gleyma þeim ófáu góðu
stundum sem við áttum saman. Allt-
af þótti mér svo vænt um þegar þú
komst til mín þegar ég var krakki í
Breiðholtinu og færðir mér uppá-
halds súkkulaðið mitt, sem á þeim
tíma var gull í augum barna. Meðan
ég borðaði súkkulaðið með bestu lyst
sátum við öll við eldhúsborðið og
spjölluðum um daginn og veginn. Á
unglingsárunum flutti ég norður og
þótt við hittumst ekki oft, þá töluð-
um við mikið saman í símann.
Eftir að ég flutti aftur suður urðu
heimsóknirnar margar. Það var svo
þegar ég varð ófrísk að Hinrik Snæ
að samband okkar varð sterkara og
þá kynntist ég henni Ólöfu vinkonu
þinni sem var þér svo kær. Hún hef-
ur reynst þér og okkur öllum mjög
vel og þið nutuð góðs félagsskapar
hvort annars. Við þrjú áttum oft
skemmtilegar stundir og ferðirnar
sem við fórum voru oft fróðlegar. Þið
gátuð sagt manni allt milli himins og
jarðar, um hitt og þetta. Það verður
svolítið skrýtið að fá ekki hringingu
frá þér og plana hvað við eigum að
gera og fara þessa vikuna. Það var
alltaf svo gaman hjá okkur þegar við
vorum að þvælast um borgina. Fólk-
ið í búðunum sem við fórum í var far-
ið að þekkja okkur svo vel og hvað þá
stelpurnar í blóðrannsókn á Borga-
spítalanum, þær voru alltaf bros-
mildar og hressar. Oft var sagt við
okkur: „Jæja, eru þrjú amigos kom-
in?“ sem voru ég, þú og Hinrik
Snær. Ég var nú alltaf með ykkur
sinn í hvorri hendinni litlu englana
mína og vilduð þið báðir halda fast í
hana. Hinrik var nú orðinn fær að
hjálpa okkur síðustu árin, að halda
hurðunum og sitja hjá þér á meðan
ég þurfti að hlaupa og ná í bílinn til
að koma með hann sem næst dyr-
unum til að þú þyrftir ekki að labba
langt, því þú varst orðinn hræddur
við vindinn.
Ég er svo þakklát fyrir að hafa
fengið að eiga þig sem afa, þú hefur
alltaf stutt mig í öllu því sem ég hef
tekið mér fyrir hendur og sagt við
mig: „Maður þroskast ekki nema að
gera mistök, Katrín mín.“
Jæja, afi minn, þú áttir gott líf hér
á jörðinni og áttir marga að. Núna
ertu kominn til elsku ömmu, sem
mér finnst svo gott að vita af, því þá
veit ég að þú ert ekki einn. Ég gæti
skrifað og skrifað endalaust um þig,
en ég ætla bara að láta þetta duga og
eiga mínar minningar í hjarta mínu.
Ég elska þig og sakna, elsku besti afi
minn.
Ástar- og saknaðarkveðjur.
Katrín Sylvía Símonardóttir.
Elsku langafi. Ég sakna þín, þú
varst alltaf svo skemmtilegur og
góður við mig. Margar voru ferðirn-
ar sem ég fór með þér og mömmu
um bæinn. Þegar heim var komið þá
bauð Ólöf okkur alltaf til sín í kaffi
og kökur sem við borðuðum með
bestu lyst. Ég spilaði á píanóið nokk-
ur lög fyrir ykkur, sem var nú bara
eitthvað út í loftið. Ég kunni engar
nótur en þið sögðuð ekki neitt heldur
leyfðuð mér bara að spila (þótt
mamma væri að verða gaga).
Ég á mér unaðsreit
í einangraðri sveit
við fjörð í fjallasal
í fögrum skógardal.
Ég átti æsku þar
og unaðslegt það var
Nú er það eyðibyggð,
hún á þó mína tryggð.
Í hennar fang ég flý
og fagna enn á ný
að mega mæta’ um stund
á minninganna fund.
Þar finn ég aftur fró
og frið og sálarró
og eftir liðið líf
að lokum þangað svíf.
(Ívar Björnsson frá Steðja)
Langafi minn, ég veit að núna líð-
ur þér vel og þú ert kominn til Guðs.
Ég kveð þig og eitt er víst að þú átt
eftir að kíkja í heimsókn til mín og
mömmu og láta okkur vita að þér líði
vel.
Saknaðarkveðja.
Hinrik Snær Katrínarson.
Ívar Björnsson, skáld og kennari,
er látinn. Vinskapur okkar stóð lengi
og var náinn. Hann hófst þegar við
hófum kennslu við framhaldsdeild
Langholtsskóla árið 1957. Nokkur
næstu ár kenndum við báðir við þá
deild í Vogaskóla, en síðan ein 30–40
ár við Verslunarskóla Íslands þar til
kennsluferli okkar lauk á eftirlauna-
aldri. Strax við fyrstu kynni urðum
við góðir vinir og entist vinátta okk-
ar allt til láts Ívars og bar aldrei
skugga á. Tvennt var það aðallega,
sem við Ívar áttum sameiginlegt:
lífsskoðanir og náttúrudýrkun. Við
hófum snemma dagsferðir til ná-
lægra staða og hafði Ívar þá mynda-
vélina með. Átti hann mjög gott
myndasafn og skoðaði oft með vinum
sínum öllum til mikillar ánægju.
Borgarfjörðurinn og Dalasýsla voru
ákveðnir uppáhaldsstaðir því báðir
erum við barnfæddir Borgfirðingar.
Ívar fræddi mig um Borgarfjörðinn
fyrr og nú. Hann var nánast með alla
sögu héraðsins á hreinu: mannlíf og
búskaparhætti fyrr og nú, sögustaði
og ýmislegt úr íslensku fornsögun-
um. Þessi ferðalög með Ívari voru
hreint ævintýri því að hann kunni
flestum betur að segja frá.
Í nágrenni höfuðborgarinnar voru
flestar gönguferðir okkar hjónanna
farnar í Heiðmörk. Katrín var fædd
og alin upp í Þingvallasveit, í Vatns-
víkinni, þar sem hraunið, mosinn og
kjarrið skapa undurfagra náttúru-
paradís allt frá vatninu til fjallstind-
anna. Hún var einkar lagin við að
lesa alls konar form og kynjamyndir
úr Heiðmerkurhrauninu og færa í
söguform.
Sem kunnugt er kenndi Ívar ís-
lensku við Verslunarskólann. Þekk-
ing hans á því sviði var einkar víð-
feðm. Hann var góður kennari, sem
námfúsir nemendur kunna vel að
meta.
Síðari æviár sín, þegar meiri tími
gafst frá kennslustörfum, samdi
hann með stuttu millibili nokkrar
ljóðabækur. Hann samdi ljóð allt til
þess honum þraut þrek vegna aldurs
og veikinda. Ljóð hans fjalla um lífið
og tilveruna, ástir okkar og sorgir og
víða finnast skemmtilegar, heim-
spekilegar hugleiðingar og oft er
stutt í kímnina.
Ívar naut mannfunda, maður er
manns gaman, örlátur var hann og
heilmikill heimsborgari.
Ívar varð fyrir þó nokkrum áföll-
um á lífsleiðinni. Eitt það versta var
þegar honum dapraðist svo sjón að
hann gat ekki ekið bíl sínum lengur
né annast bóklestur. Hann reyndi þó
að lifa eðlilegu lífi allt til dauðadags.
Þannig stundaði hann sund að stað-
aldri til að berjast við hrörnunina og
sjúkdóma, sem oftast ágerast með
ellinni og loks leggja okkur öll að
velli.
Við hjónin vottum okkar dýpstu
samúð sonum Ívars og Katrínar,
þeim Símoni og Gunnari, fjölskyld-
um þeirra svo og öllu skyldfólki og
góðum vinum Ívars.
Bjarni Jónsson.
Nýr unglingaskóli tók til starfa í
Reykjavík haustið 1957, unglinga-
deild Vogaskóla. Hann var til húsa í
Ungmennafélagshúsinu við Holta-
veg. Það var ekki byggt með kennslu
fyrir augum, stofur voru langar og
mjóar sumar hverjar og aðgreindar
með vegg úr texi. Hljóðbært var í
húsi þessu og heyrðu nemendur sem
aftast sátu stundum betur í kenn-
aranum í næstu stofu en þeim sem
þeim átti að kenna. Fjórir kennarar
komu þarna til starfa haustið 1957,
sá sem þetta ritar, Bjarni Jónsson,
Ívar Björnsson og Jóhanna Þor-
geirsdóttir. Við Bjarni vorum þá að
hefja feril okkar sem kennarar en
Ívar hafði þegar hlotið eldskírnina
og það bæði í Keflavík og Vest-
mannaeyjum. Næsta ár flutti skól-
inn í nýbyggt hús í Vogunum, raunar
ekki fyrr en upp úr áramótum. Á
þessum árum fór ég stundum í
smiðju til Ívars sem reyndari manns
í starfinu og fékk ætíð góðar viðtök-
ur. Haustið 1959 breyttust unglinga-
deildir Langholtsskóla í Vogaskóla
og störfuðum við þremenningarnir
þar næstu árin. Við höfðum mikinn
metnað fyrir hönd þess skóla og hitt-
umst stundum og lögðum á ráðin um
betrumbætur á honum. Ekki náðu
þær allar fram að ganga enda hurf-
um við af vettvangi áður en fullreynt
var. Ívar réðst til starfa við Verzl-
unarskóla Íslands árið 1964 og við
Bjarni komum í humátt á eftir. Ívar
kenndi síðan við Verzlunarskólann
þar til hann varð að láta af störfum
fyrir aldurs sakir. Kennsla var lífs-
starf hans. Ívar samdi nokkrar
kennslubækur í kennslugrein sinni
sem var íslenska. Skýrleiki í fram-
setningu einkennir þessar bækur
sem og alla kennslu Ívars. Hann var
ágætlega hagmæltur en stundaði
skáldskap lítt fyrr en á efri árum.
Ferðalög eru minnisstæð. Við
hjónin fórum ásamt þeim Ívari og
Katrínu konu hans til Helsingfors og
Leningrad ásamt fleiri Verzlunar-
skólakennurum. Frá Helsingfors til
Leningrad var farið með skipi og
þegar það nálgaðist ósa Nevu
glumdi í öllum hátölurum að allar
myndatökur væru bannaðar. Ívar
skeytti þessu engu og komst upp
með það að taka þarna myndir.
Hann var mikill áhugamaður um
myndatökur. Síðar eyddum við jól-
um og áramótum á Kanaríeyjum
ásamt þeim hjónum og mörg haust lá
leiðin að Bifröst í góðu boði kennara
þar. Ívar var oft hrókur alls fagn-
aðar í samkvæmum þessum en ætíð
hafði ég á tilfinningunni að hann nyti
sín betur í fámennum hópi en fjöl-
menni.
Við Ívar Björnsson vorum sam-
starfsmenn í yfir 40 ár. Þetta er
langur tími. Ég vil að leiðarlokum
færa honum heila þökk fyrir sam-
starfið og vináttuna. Ívar var traust-
ur samstarfsmaður og góður félagi.
Við hjónin flytjum aðstandendum
Ívars Björnssonar hugheilar samúð-
arkveðjur.
Lýður Björnsson.
Ívar Björnsson
Innilegar þakkir fyrir auðsýnda samúð og hlýhug
vegna andláts og útfarar
UNNAR ZOËGA
fyrrverandi póstfulltrúa.
Guðný Jónsdóttir, Herbert Benjamínsson,
Halldóra Jónsdóttir, Gunnar Jónsson,
Steinunn Jónsdóttir, Jón Stefánsson,
Unnur Jónsdóttir, Sigurjón Valdimarsson,
barnabörn og barnabarnabörn.
Innilegar þakkir fyrir auðsýnda samúð og hlýhug
við andlát og útför móður okkar, tengdamóður,
ömmu, langömmu og langalangömmu,
HELGU GUNNLAUGSDÓTTUR,
dvalarheimilinu Hlíð,
Akureyri,
áður til heimilis í Laugargötu 3.
Sérstakar þakkir færum við starfsfólki á Hlíð fyrir
kærleiksríka og góða umönnun.
Þórey Sveinsdóttir, Hreinn Hreinsson,
Gunnlaugur Búi Sveinsson, Signa Hallsdóttir,
Tómas H. Sveinsson, Rannveig Sigurðardóttir.
ÁSLAUG ODDSDÓTTIR,
Álfhólsvegi 12,
Kópavogi,
lést á Borgarspítalanum aðfaranótt þriðjudagsins
19. september.
Útför auglýst síðar.
Aðstandendur.