Morgunblaðið - 22.09.2006, Side 40
40 FÖSTUDAGUR 22. SEPTEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
bar saman í sumar. Nú þegar hann
er horfinn verður forsjóninni ekki
nógsamlega þakkað fyrir þá mý-
flugumynd. Magnús var nefnilega
þannig maður að það var sama hve
sjaldan maður hitti hann, það var
eins og hann hefði kvatt mann deg-
inum áður. Formálalaust gat hann
viðrað hugðarefni sín og boðið manni
í samræður, sem aldrei voru froðus-
nakk. Sem viðmælandi var hann svo
gefandi að samtal við hann virkaði
ævinlega sem kveikja að einhverju
óvæntu og þýðingarmiklu.
Þannig var Magnús öðru fremur
heimspekingur, tæpitungulaus væri
honum misboðið, en glöggur, víð-
sýnn og fordómalaus gagnvart öllu
sem var einhvers virði. Hann hafði
mikla skömm á þröngsýni og skiln-
ingsleysi, sem hann tengdi gjarnan
hópsálarmenningu og ótta manna við
að vera ærlegir, og koma til dyranna
eins og þeir væru klæddir. Hvort
sem hann fékkst við myndlist, dytt-
aði að heimilinu eða ræktaði garðinn
sinn velti hann vöngum yfir tilver-
unni í smáu sem stóru. Ekkert var
svo ómerkilegt að ekki mætti af því
draga leiftrandi ályktanir. Þannig
fyllti Magnús líf sitt merkingu, sem
hann miðlaði öðrum takmarkalaust,
svo mönnum fannst þeir snöggtum
ríkari eftir að hafa verið í návist
hans.
Verk hans voru eins og framleng-
ing af samræðulist hans, hugmyndir
leiknar af fingrum fram til að vekja
okkur til vitundar um list allra tíma,
skapa umræðu um eðli hennar og
möguleika, og vekja athygli á öðrum
hliðum hennar en þeim sem voru í
farvatninu hverju sinni. Magnús fór
með öðrum orðum sínar eigin leiðir
og hikaði ekki í þeim efnum við að
gera tilraunir sem gengu nærri hon-
um, líkamlega sem andlega. Þannig
var list hans tilvistarleg, gráglettin
og sársaukafull, þótt hún væri um
leið bæði leikandi, litrík og fjörug.
Slíkar andstæður voru að hans dómi
eðlilegur hluti af lífinu og þar af leið-
andi einnig listinni.
Það er eftirsjá að svo frjálsum
huga sem Magnús var og óskiljan-
legt að þurfa að sjá á bak honum í
blóma lífsins. Við sem eftir sitjum,
hnípin, getum fátt gert annað en
senda okkar innilegustu samúðar-
kveðjur til Kolbrúnar, Elsu og Guð-
brands, um leið og við þökkum fyrir
þær stundir sem við áttum með þess-
um ógleymanlega vini.
Margrét og Halldór Björn.
Ævibók Magnúsar Ólafs Kjart-
anssonar var lokað svo snögglega að
sú tilfinning eða hugsun að tregt sé
tungu að hræra fær raunsanna
merkingu og inntak. Það var svo
margt ósagt og ógert. Við vorum
nafnarnir í bekknum, ólíkir um flest
en varð aldrei sundurorða og flug-
umst aldrei á. Umræðuefnin voru
einhvern veginn of merkileg til þess.
„Það sem þú gast sagt af sögum“
sagði hann við mig í eitt af síðustu
skiptunum sem við skröfuðum sam-
an. Í okkar samskiptum og samtöl-
um voru aldrei fyrirvarar um neitt.
Þannig er vináttan. Hann var alltaf
mjög harður við sjálfan sig, lagði að
manni fannst alltaf of hart að sér í
hverju sem hann tók sér fyrir hend-
ur. Og þegar hann lenti í alvarlegum
veikindum varla kominn á fullorðins-
aldur en náði síðan undraverðum
bata fór ekki hjá að maður hugleiddi
orsök og afleiðingu. Án niðurstöðu
þá, en eftir á að hyggja var skýringin
ein, – hann var mikill kappi hann
Maggi Kjartans, grannvaxinn, fjað-
urmagnaður og fljótastur að öllu.
Konurnar í minni fjölskyldu sögðu
að hann væri fallegur maður. Mér
kom það þægilega á óvart og fannst
hann einhvern veginn hafa unnið fyr-
ir því sjálfur, hefði unnið vel úr lífinu
og væri kominn á þann stað sem
hann vildi vera. Hann var sáttur en
alltaf leitandi og alltaf að bæta við
sig. Við hittum hann á Stansted fyrir
þremur árum á heimleið frá Róm.
Hann hafði þá verið þar sömu dag-
ana og við án þess að leiðir okkar
lægju saman. Auðvitað hafði hann
stúderað sögu Rómverja þannig að
við fengum á heimleiðinni þá leið-
sögn um Forum Romanum og Capi-
tol-hæð sem við höfðum farið á mis
við í Róm. Svo fór hann eftir það lík-
lega í tvígang til Mexíkó og fannst
mikið til koma. Hann gat því sann-
arlega líka sagt sögur. Það láðist
mér að segja honum.
Íþróttirnar voru viðfangsefni okk-
ar í æsku, fótbolti og körfubolti.
Fimm fórum við félagarnir alla leið
úr Kleppsholtinu vestur í bæ í KR.
Enginn fullorðinn til að koma í veg
fyrir það. Smám saman smöluðumst
við svo yfir í Fram og þar vorum við
ævimerktir. Maggi kom síðastur yfir
enda átti hann afa og ömmu í Vest-
urbænum. Gott ef hann var ekki líka
einhvern tíma í skylmingum og jafn-
vel júdó. Svo var hann allt í einu orð-
inn gítarsnillingur. En myndlistin
var hans fag. Við vinirnir höfðum
aldrei séð jafn glæsilegar myndir og
fyrstu olíumyndirnar hans á Hjalla-
veginum og höfðum þó annan en afar
ólíkan listmálara í hverfinu. Þarna
var eitthvað nýtt á ferðinni. Magga
tókst meira að segja að vekja forvitni
okkar og áhuga á myndlistarsýning-
um því hann neitaði að viðurkenna
að við værum alveg vonlausir á því
sviði. Ég man að mér fannst það
fyrst skrítin tilfinning og merkileg
að hafa gaman af þessu listformi en
hef reyndar farið afar sparlega með
þá hluti síðan.
Á síðari árum höfum við félagarnir
Maggarnir, Stefán, Muggur og Þóri
reynt að sammælast um þó ekki væri
nema eina vallarferð á ári. Auk þess
höfðum við Maggi farið nokkrar
ferðir tveir saman enda styttra á
milli okkar hér í Kleppsholti og
Laugarnesi. Einkennileg athöfn og
árátta fótboltinn og að halda með liði
bara af því búningurinn er blár. En
hluti af vallarferðinni voru gömlu
gönguleiðirnar niður á Laugardals-
völl, annaðhvort þvert yfir holtið eða
út Kambsveg og niður Löggu-
brekku. Maggi gekk hraðast. Þannig
var það alltaf. Fyrir hönd minnar
fjölskyldu og æskuvinanna flyt ég
fjölskyldunni allri innilegustu sam-
úðarkveðjur. Hugur okkar er hjá
ykkur í sorginni en líka vonin um
bjartari daga og dýrmætar minning-
ar.
Magnús Ingólfsson.
Skólabróðir okkar, vinur og félagi,
Magnús Kjartansson, er fallinn frá
langt um aldur fram.
Maggi Kjartans, eins og hann var
yfirleitt kallaður í okkar hópi, á
sterka drætti í mynd endurminning-
anna frá menntaskólaárunum. Hann
var ljúfur og þægilegur, nokkuð dul-
ur, ef til vill feiminn, húmorinn oft á
mörkum kaldhæðninnar, en aldrei á
annarra kostnað. Engum duldust
hæfileikar og fjölhæfni Magnúsar en
í okkar huga var hann fyrst og
fremst skemmtilegur skólafélagi
sem gott og eftirsóknarvert var að
hafa í hópnum.
Á síðari árum þegar 6-DE hefur
komið saman hefur þótt ómissandi
að hafa Magnús Kjartansson með á
hverjum fagnaðarfundi.
En Magnús bjó ekki bara til góð
hughrif í kringum sig. Huglægar
myndir endurminninganna urðu síð-
ar að öðru og meira því Magnús
Kjartansson átti eftir að verða einn
af snillingum íslenskrar málaralistar
og án efa einn af fremstu listamönn-
um þjóðarinnar í sinni samtíð.
Það er því söknuður og eftirsjá að
Magnúsi fyrir alla þá sem unna góðri
myndlist. Það er huggun harmi gegn
að verk hans munu lifa. Það munu
minningarnar líka gera. Á málverki
minninganna frá árum okkar í MR í
lok sjöunda áratugar síðustu aldar,
sem við öll geymum í hugskoti okk-
ar, er og verður ætíð birta yfir
Magnúsi Kjartanssyni.
Við sendum konu hans og fjöl-
skyldu innilegar samúðarkveðjur.
Skólasystkin í 6-DE.
Morgun einn um haust. Um það
bil sem leirgrá skíman var að ryðja
síðust dreggjum næturinnar burt
kom bjarthærður maður með pass-
íuhár inn úr dyrunum á Kaffi Tári í
Bankastræti. Hann tók sér stöðu í
röðinni og þegar hann hafði fengið
kaffibollann sinn kom hann að borð-
inu til okkar, bauð góðan daginn og
spurði hvort hann mætti tylla sér
sem var auðsótt mál. Hann spurði
tíðinda og fljótlega fór hann að
leggja orð að þeim samræðum sem
einkenna dagmálaumræðu á morgn-
ana á þessum stað. Nokkrum dögum
síðar kom hann aftur og valdi sér
sama sætið. Eftir það fór komum
hans að fjölga og fljótlega varð
Magnús Kjartansson einn af trygg-
ustu gestum þessara morgunstunda.
Í umræðum sem snúast um flest
frá lífsspeki til dægurþrass kom
fljótt í ljós að hann hugði að ýmsu.
Jafnt málum daglegrar stundar sem
hinu ókomna og einnig því liðna sem
hann hafði jafnan lag á að tengja nú-
tíðinni á nærfærinn en rökfastan
hátt. Um stundir gat hann verið hlé-
drægur en lagt eyru að því sem var
sagt og rætt. Hann geymdi sínar at-
hugasemdir og kom að umræðunni á
ný og hafði þá oft eitt og annað til
mála að leggja sem öðrum hafði yf-
irsést eða ekki komið til huga.
Magnús hafði sterka en agaða sýn
á mannlífið og samfélagið. Fátt var
honum óviðkomandi en öfgar þó
fjarri lagi. Hann var sagnfræðingur
af náð. Fróðleiksfýsn var honum í
blóð borin. Minnið skarpt, næstum
óbrigðult á köflum, og oft var nægj-
anlegt að spyrja þyrfti upplýsinga
við. Einkum átti þetta við um sérsvið
hans sem myndlistarmanns en hann
var einnig lesinn og vel að sér í öðr-
um efnum. Listasagan var honum
kunnari en flestum en áhugi hans á
mönnum og málefnum náði þó langt
út fyrir flöt hinna fjögurra horna,
mótun efnis og gjörningaleiki upp-
fyndingasamra lífskúnstnera. Þrátt
fyrir frjóan hugarheim lagði hann
dyggðum jafnan lið í daglegri um-
ræðu og gat á stundum virst ofurlítið
forn í hugsun. En jafnan glitti í gam-
ansemi og féll sá eiginleiki hans vel
að því fundarformi sem viðhaft er á
morgunfundunum á Kaffi Tári. Þar
eru ummæli hvorki borin fram né
metin af alvöruþunga en stöku sinn-
um af nokkurri réttlætiskennd.
Nærgætni Magnúsar og háttvísi
gagnvart félögum sínum einkenndu
öll samskipti hans og er hann hafði
kennt sér sjúkleika upp úr miðju
sumri þá hringdi hann á fjórða degi
sjúkrahúsvistar í einn þeirra og
baðst afsökunar á að geta ekki kom-
ið. Hann ætti ekki heimangengt af
sjúkrahúsinu eins og á stæði. Á með-
an heilsan leyfði hringdi hann öðru
hvoru af sjúkrabeð sínum og spurði
frétta. Um hvað rætt hefði verið
þann morguninn. Hvort rætt hefði
verið um atburði stjórnmálanna,
efnahagsmálin eða nýjustu við-
burðina í myndlistinni. Hann kaus að
samræðurnar hefðu innihald og var
sjaldnast næmur fyrir atgangi slúð-
urbera.
Magnús valdi sér jafnan sæti við
enda borðs væri það ekki setið er
hann mætti til morgunkaffis. Hann
kunni því betur að horfa fram en til
veggjar enda eftirtektin skörp. Þótt
margir eigi eflaust eftir að vega og
meta gangverk mannlífsins frá
þessu sama borðshorni þá gildir ekki
hið margkveðna að maður komi í
manns stað. Orð eins félaganna
morguninn eftir að fregn um andlát
hans hafði borist eru eins og sam-
nefnari fyrir hugsun þessa litla hóps.
Hann verður þarna. Ekkert kemur í
staðinn.
Félagarnir á Kaffi Tári.
Lífið er hverfult. Magnús Kjart-
ansson myndlistarmaður, góður vin-
ur og skólafélagi frá í barnaskóla, er
fallinn frá eftir stutt en alvarleg
veikindi.
Magnús lá ekki á skoðunum sínum
um málefni líðandi stundar þegar við
hittumst á förnum vegi í miðbænum,
sem var grunsamlega oft að okkar
mati, nú síðast fyrir nokkrum vikum.
Þá var hann kátur og hress að vanda.
Magnús var glettinn og spaug-
samur og er tilsvar hans á 25 ára
stúdentsafmæli okkar 1994 um
markmið hans næstu 25 árin dæmi-
gert. Hann „ætlaði í öllu falli ekki að
deyja úr leiðindum“. Það gerði hann
svo sannarlega ekki, en enginn ræð-
ur sínum næturstað.
Hugarheimur og ævintýraveröld
Magnúsar, sem hann opnaði fyrir
okkur í verkum sínum, stórum sem
smáum, verða áfram hér. Hann lifir
áfram í stórbrotnum listaverkum
eins og málverkinu sem blasir við í
safnaðarheimili Neskirkju, þar sem
hann er kvaddur hinstu kveðju.
Á kveðjustund þakka ég Magnúsi
ánægjulega samferð og samstöðu.
Koggu og börnum þeirra votta eg
innilega samúð. Velferð þeirra og
hagur var Magnúsi efst í huga til
hinstu stundar, – það veit ég fyrir
víst.
Ásta R. Jóhannesdóttir.
Mig langar til að kveðja hann
Magnús, vin minn og félaga, með
nokkrum orðum mér til huggunar og
honum til heiðurs. Við kynntumst
fyrir rúmlega 20 árum og urðum
strax félagar og vinir. Við áttum góð-
ar stundir saman, borðuðum súpu og
gleymdum á meðan amstri dagsins.
Ég laðaðist að honum vegna þess að
meðal annars komu svo góðir
straumar frá honum enda kom í ljós
hversu góðhjartaður og hlýr maður
hann var. Alltaf fann ég að þarna var
góður listamaður á ferð, viðkvæmur,
rólegur og jákvæður. Vegna þess
hvernig manneskja hann var er hann
einn af þeim listamönnum sem sköp-
uðu þá löngun að eiga verk eftir,
enda fann maður hve einlægur og
natinn hann var í listsköpun sinni. Í
mörg ár fórum við saman í hverjum
mánuði og létum gott af okkur leiða
og vorum sammála um að þessar
ferðir gerðu okkur ekki síður gott.
Við gátum rætt um alla hluti og oft
gaf hann manni nýjar hliðar á mál-
um. Það var stutt í húmorinn hjá
honum og oft fundin spaugileg hlið á
málum. Einnig gat hann verið dul-
arfullur og fjarlægur. Þá var hann
greinilega að vinna að einhverju
verkefni.
Eitt sinn kom Magnús til mín með
málverk eftir sig og gaf mér. Þetta
gerði hann á þeirri stundu sem
gladdi mig og uppörvaði meira en á
öðrum stundum. Þetta var einstakt
og gerði mig orðlausan og þau orð
hans sem fylgdu og málverkið mun
ég ávallt muna og varðveita með
mikilli ánægju og þakklæti. Þetta er
lítið dæmi um hve góðhjartaður og
næmur hann var. Ég fann fyrir
æðruleysi og öryggi í framkomu
hans og listsköpun enda listamaður
af bestu gerð. Einnig var hann upp-
örvandi þegar allt var ekki eins og
best varð á kosið hjá mér, hjálpaði og
hvatti mann til dáða. Það var eins og
hann gæti lesið hugsanir manns á
stundum. Fyrir nokkrum árum
veiktist ég alvarlega. Þá sýndi hann
mér mikla samkennd og gladdi mig
með uppörvun sinni og hrósi. Um-
hyggja hans var einlæg og var manni
hvatning til dáða.
Ég mun sakna þess að hitta hann í
hverri viku eins og áður. Ég er þakk-
látur fyrir að hafa fengið að kynnast
Magnúsi og hann mun lifa áfram í
hjarta mínu og minningin um hann
varðveitast. Ég bið æðri mátt, mátt-
ugri okkar eigin vilja, að hugga,
blessa og vernda eiginkonu hans og
börnin þeirra, sem og alla hans fjöl-
skyldu.
Sævar Pálsson.
Einhver okkar sáu hann síðast við
útskriftarfagnað í fjórðu viku júní.
Þá var hann eins og við munum hann
bestan: spengilegur, léttur á fæti, og
mikið ljóst hárið féll að vöngum svo
hann strauk það aftur fyrir eyrað
öðru hverju, brosmildur, fyndinn,
hlýr í fasi og til blárra augnanna. Í
honum kyrrð þess sem veit hver
hann er og er sáttur við það. Þegar
hann talaði við okkur skiptum við ein
máli. Því urðu þau yngri meðal okkar
líka þau sjálf þegar hann sat með
þeim. Magnús Kjartanson var nær-
gætinn í nærveru sálar. Við erum öll
eitt þakklæti fyrir að hafa þekkt
hann.
Enginn sem séð hefur verk Magn-
úsar velkist í vafa um að hér er fag-
urkeri á ferð. Hann hefur snemma á
listamannsferli sínum séð að hið
smáa felur í sér stærstu skilaboðin
og hann leitaði það uppi, sinnti því
með huga og hönd, alúðlega, og
greiddi því leið inn í stærri heildir
verka sinna sem sum hver, eins og
t.d. verkin sem hann sýndi á einka-
sýningunni á Kjarvalsstöðum 1994,
vekja ekki aðeins undrun og aðdáun
víða um lönd fyrir meistaralegt
handbragð, heldur takast á við
stærstu tilvistarspurningar okkar.
Þessi verk hans, og einnig þau sem
bera skopskyni hans óborganlegt
vitni, fara inn í heilann um sjóntaug
áhorfandans og breyta honum.
Í alúðinni felst siðferðisleg skuld-
binding enda var Magnús ekki gef-
inn fyrir fúsk. Hvort sem hann var
að skreyta leirmuni Koggu sinnar á
litla verkstæðinu á Vesturgötunni
eða vart einhamur við sköpun stærri
verka á vinnustofunni við Álafoss var
hann ævinlega trúr sýn sinni á sköp-
unarverkið, trúr næmi sínu og skynj-
un, tamdi sér yfirvegun og aga en
forðaðist flumbrugang og flaustur.
Þessu bera verk hans fagurt vitni.
Þar eru engar tilviljanakenndar
slettur. Um þetta munu aðrir skrifa
síðar og betur, þegar litið verður yfir
lífsstarf hans sem listamanns, auð-
ugt, fjölbreytt og sannferðugt.
Sem vinur hverfur Magnús mér
ekki úr minni. Hugur hans var
ósnortinn af hinu fáfengilega. Hann
hafði yndi af því að skynja samhengi
hlutanna, ekki síst í listgreinum, og
hafði með ástundun skapað sér for-
sendur til að tjá það óvænt og vel.
Hann spyrti saman Caravaggio,
Glenn Gould og Steinar Sigurjóns-
son og fór létt með það. Yfirleitt hitt-
umst við við hversdagslegar athafn-
ir: drukkum saman kaffi, fórum
saman á fundi, fyrirlestra, fengum
okkur súpu, fórum saman í bíltúr um
borgina eða út á land. Eða jafnvel til
Mexíkó. Þar rauður loginn brann.
En það var sama hvar við hittumst,
alltaf kom ég glaður af fundum okk-
ar og sáttari við tilveruna. Í síðustu
ferð okkar saman austur fyrir fjall
hlustuðum við á upptöku á söng Elsu
dóttur hans og tókum undir með
henni viðlagið. Þegar við komum upp
á heiðina sagði hann mér af fjöl-
skyldu sinni, þeim þremur, Koggu,
Elsu og Guðbrandi, og ég fann að
þau voru stolt hans, uppspretta og
eldur.
Haustsólin kemur síðdegis inn um
stofugluggann, lárétt en hlý og and-
litsmynd Magnúsar af Elsu í dá-
brúnum, frjóum jarðarlitum glóir á
veggnum. Hún er enn barn, með lok-
uð augu, kipraðar varir, og ver and-
litið ágengni tímans með fingrunum
en samt snúa gómarnir fram. Hér
hefur Magnús vandað sig, rétt eins
og hann vandaði sig við að vera til, en
þó aðeins betur: Það er ylur í þessari
mynd sem ekki stafar eingöngu af
sólinni og ég skil hvaðan hann kemur
þegar ég lít á fangamark hans neðst
fyrir myndinni miðri: MK, mikill
kærleikur.
Guðbrandur Gíslason.
Daginn áður en ég frétti af því að
Magnús vinur minn Kjartansson
lægi þungt haldinn á gjörgæslu
Landspítalans sat ég við eldhúsborð-
ið heima hjá mér ásamt fleirum og
ræddi um lífið og dauðann. Ég setti
fram hugmynd sem ég hef dálæti á
um það að lífið sé ekki í veröldinni
heldur veröldin í lífinu. Þar sem lífið
er eins og vatnið og lífshlaup okkar
má tákna með snjókorni sem aðskil-
ur sig frá alheimsvitundinni og fellur
til jarðar. Þegar því ferðalagi lýkur
snúum við svo aftur til uppruna okk-
ar. Ég viðraði þá skoðun að dauðinn
væri ekki síður mikilfenglegur en líf-
ið og sorg yfir brotthvarfi annarra úr
þessum heimi stafaði sennilega af
einhvers konar eigingirni.
Engu að síður fann ég fyrir mikilli
sorg í hjarta mínu og átti erfitt um
mál við þá fregn að Magnús gæti
verið að kveðja þennan heim. Minn-
ingar kviknuðu um samverustundir,
vinskap og traust og ég varð að bíta í
eigingirnina mína.
Það hefur ávallt verið gott að
heimsækja þau hjónin, Magnús og
Koggu, og þegar á hefur þurft að
halda að þiggja góð ráð og víðari sýn
á verkefni líðandi stundar.
Líkt og snjókorn erum við öll ein-
stök og áhrif á samferðamenn okkar
misjöfn. Magnús Kjartansson gat
verið fastur fyrir en litaði umhverfi
sitt af léttleika og djúpstæðri kímni-
gáfu bæði með framkomu sinni og
listsköpun og þótt list hans sé ekki
Magnús Ó. Kjartansson