Morgunblaðið - 22.09.2006, Side 41
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 22. SEPTEMBER 2006 41
allra, eins og oft á við um þá sem
fylgja sannfæringu sinni og fara
ótroðnar slóðir, kallar hún eftir af-
stöðu áhorfandans og lætur engan
ósnortinn. Magnús var einstaklega
frjór í hugsun og fjölhæfur og gaf sig
allan í það sem hann tók sér fyrir
hendur. Það fór ekki framhjá nein-
um sem til þekkti að þar fór sannur
listamaður og drengur góður.
Ég kveð Magnús vin minn með
söknuði og votta fjölskyldu hans,
Koggu, Elsu og Guðbrandi sem og
móður hans og systkinum, mína
dýpstu samúð.
Sigurður Bárðarson.
Með nýjustu tækni stendur okkur
til boða að geta vitað allt og verða
fullnuma í heimspeki og list.
Hugsum okkur að við gætum deilt
í hina miklu visku með náttúrulegu
atferli, þá stæðu eftir stílbrögð eða
túlkun.
Um það leyti sem ég eignaðist
minn besta kennara Magnús Kjart-
ansson að vini sat ég í herbergi dótt-
ur minnar og reyndi að setja í gang
leik á leikjatölvunni hennar en tókst
það ekki, á skjánum voru bara litir
og mynstur. Þá bjó ég á gönguleið
feðganna Magga Kjartans og Guð-
brands, sem þeir gengu í og úr Laug-
arnesskóla, á þeirri leið voru hættu-
legar umferðargötur sem þurfti að
fylgja ungum strák yfir. Eitt sinn
kom Maggi inn í skúr til mín, kíkti á
málverkin sem ég var að fást við og
sagði mér m.a. að setja stílbrögð
leiksins í gang, annars væri ég líkt
og hugbúnaður sem hefur ekkert að
segja, þá buna bara út mynstur og
litir, eiginleikar hugbúnaðarins.
Stílbrögð leiksins felast í því
hvernig lína getur túlkað grín, kyn-
ferði, kvöl eða draum. Hjá lista-
mönnum í Kína slitnaði blekstraum-
urinn ekki frá penslinum fyrr en
strokan hafði túlkað að minnsta kosti
hinsta dóm eða heimsaldursskipti.
Túlkunin getur líka falist í brunninni
eldspýtu hjá postulínsskál, skrautið
á börmum skálarinnar var líkt og
ævi heillar þjóðar, þjóðar sem ól sér-
stakan listamann. Maggi var slíkur
listamaður. Á tyllidögum á að flíka
þeim, til þess eigum við sérstakar
stofnanir og embættismönnum
þeirra ber að gera það. Þannig halda
menningarstofnanir lítillar þjóðar
lifandi orðræðu um heimspeki og list
í listaskólum hennar.
Maggi var hafsjór upplýsinga og
hugmynda, forréttindi mín voru að
fá að kynnast honum. Eftir hann
liggur merkilegt verk í margskonar
miðlum. List þessa völundar í ís-
lenskri myndlist þarf að setja í sam-
hengi og miðla því list hans mun lifa
með þjóðinni lengur en stofnanir
hennar. Ég þakka fyrir yndisleg
kynni og votta Koggu, Elsu Björgu
og Guðbrandi og fjölskyldu Magn-
úsar samúð með von um að þau fái
styrk frá guði til að fást við sökn-
uðinn.
Pétur Halldórsson.
Góð orð afla mönnum hylli,
góð breytni hefur enn meiri áhrif.
(Lao-Tze.)
Óvænt fórstu Magnús.
Ósjálfrátt verður mér hugsað til
þess þegar við síðast skiptumst á
orðum, svo undarlegt að láta sér
detta í hug að það yrði í síðasta sinn.
Þau samskipti voru friðsæl og lát-
laus, eins og öll okkar samskipti
höfðu verið síðastliðin tíu ár eða svo,
eða síðan okkar kynni hófust.
Mig langar til að minnast þeirra
kynna, nú þegar þú hefur kvatt.
Ekki vegna þess að þau hafi verið
svo náin eða djúp, né mikil eða marg-
slungin, heldur fremur vegna þess
hver áhrif þau hafa haft á mig. Ég er
þakklát fyrir það sem ég lærði af þér
– og þann anda sem þú barst með
þér. Kannski er það þannig þegar
maður eldist, að maður leitar sér fyr-
irmynda á nýjan hátt; ekki svo mjög
með því að vilja ganga í spor þeirra
sem maður ber virðingu fyrir, heldur
fremur með því að gaumgæfa það,
sem virðingu vekur í fari þeirra og
athuga svo hjá sjálfum sér hvernig
maður getur ræktað þetta sem
manni finnst svo eftirsóknarvert.
Það eru ekki margir menn sem í
mínum huga hafa átt til að bera þá
blöndu af stillingu og sjálfstæði sem
þú réðir yfir. Sá blær sem þér var
eiginlegur var einskonar friðsamlegt
sjálfstæði, þarna mátti sjá að gekk
maður sem fór sína eigin leið og fann
hana sjálfur, gaf sér leyfi til að binda
sína bagga sínum eigin hnútum. Það
var eitt. Hitt var, að í laumi vorum
við hin alltaf svolítið að kíkja yfir öxl-
ina á þér og reyna að læra handtökin
þín. Því við sáum öll að þetta gekk
upp hjá þér. Aldrei sá ég þig troða
illsakir við annan mann – og ekki
heldur láta þitt fyrir neinum. Þú
fórst þína leið. Og nú ertu farinn
endanlega, Magnús. Aðeins minn-
ingin eftir – og kannski sá andblær
sem þér fylgdi, vonandi. Ég vil
gjarnan þakka þér fyrir að hafa mátt
fylgjast með þér um tíma og vil helst
trúa því að á einhvern hátt komist
það til skila. Þín verður saknað í
stórum hóp í litlu herbergi úti í bæ.
Um óréttlæti lífsins skal ég ekki fjöl-
yrða; hvers vegna svona ríður yfir og
hvers þeir eiga að gjalda sem eftir
sitja. Ég hugsa sérstaklega til sonar
þíns og dóttur og til konu þinnar.
Þau hef ég aldrei hitt, en vil votta
þeim mína dýpstu samúð. Það er
ekki hægt að líða með þeim, þau
missa mest og það skilja þeir einir
sem misst hafa, hvað merkir. Aðeins
tíminn getur kennt manni að lifa með
svona missi, ekki að sætta sig við –
heldur lifa með og þola.
Ég kveð þig með virðingu – og
þökk.
Hallgerður.
Það var haustið 1969 að við hitt-
umst fyrst – hópurinn sem hóf þá
nám við Myndlista- og handíðaskóla
Íslands. Við komum víða að og öll
vorum við ung. Þá vakti Magnús
Kjartansson strax athygli mína,
þessi hái og granni drengur og hann
var svo feimnislegur og það var svo
bjart yfir honum að ég ímyndaði mér
hann vera saklausan prestsson úr
sveit.
Við kynntumst fljótt, urðum vinir
og miklir félagar og þá birtist mér
menntaður listamaður sem lagði sig í
framkróka við að ljúka upp augum
mínum og hlustum, þessa fávísa
norðanpilts, fyrir undrum heimslist-
arinnar.
Í herbergi hans á Hjallavegi 7
hljómuðu píanókonsertar og sinfóní-
ur Beethovens og þar sveif Hendrix í
sjöunda himni. Flett var fram og aft-
ur um verk þeirra Goya, Matisse og
Frank Stella, svo nefnd séu nokkur
nöfn allra þeirra meistara sem áttu
hug Magnúsar.
Svo bankaði Eydís, þessi hógværa
og þolgóða móðir, á dyr og bauð
strákunum kvöldmat frammi í eld-
húsi.
Þar í stofu var Kjarval á veggjum
og til að komast í nánari kynni við
meistarann þann fórum við í heim-
sókn til afa og ömmu Magnúsar,
þeirra Guðbrands Magnússonar og
Matthildar Kjartansdóttur á Ás-
vallagötu 52, þar sem himnesk fjar-
stýring hafði fyrrum ráðið bóhem-
ískum fundum Kjarvals, Vilmundar
landlæknis og fleiri andans manna.
Meira mátti nema af samvistum
við Magga. Hann var hinn fyndni og
hugkvæmi í hópnum. Strákslegur og
frumlegur í kostulegum uppátækj-
um bekkjarfélaganna. Og það sem
meira var um vert: Hann var fremst-
ur í öllum greinum. Svo andríkur og
flinkur. Og allt lék í höndum hans. Í
augum mínum arftaki sjálfs Kjarvals
í meistaraverkum málaralistarinnar.
Það viðhorf hefur aldrei breyst.
Árin okkar í kringum 1970 voru
undarlegur tími. Kannski lifðum við
mögnuðustu tíma sem runnið hafa
upp hjá æsku þessa heims. Hug-
sjónaeldar loguðu og barist var fyrir
friði og veröldin skyldi breytast.
Annar hver ungur maður gekk um
eins og Sólon Íslandus eða Karl
Marx eða Jesús Kristur. Höfðu
menn ekki fundið sannleikann eina
þá beið hann handan næsta leitis. Og
margir urðu til að leita hans. Heim-
urinn þeyttist á hvolf og það var ekki
spurning hvort ungur maður hrifist
með, heldur hvort komast mætti
klakklaust frá öllu því umróti. Og
það tókst okkur.
Við vorum næmir fyrir tíðarand-
anum en grunnurinn hafði verið
lagður í foreldrahúsum og kannski
breyttist fátt í raun.
Samhugur ríkti í skólanum og
kynni sumra urðu svo náin að nokk-
ur hjónabönd urðu til innan hópsins.
Þannig tókust ástir með Magnúsi og
Kolbrúnu Björgólfsdóttur, bekkjar-
systur, sem enst hafa alla tíð.
Að lokum skildi leiðir flestra
bekkjarfélaganna sem fóru víða til
frekara náms eða starfa tengdra
myndlist.
Á meðan Magnús nam hjá meist-
ara Mortensen í Kóngsins Köben-
havn leitaði norðanmaðurinn aftur
heim að ystu nesjum. Fjarlægðir
landsins og ólík störf skildu okkur
að. En þá sjaldan við sáumst var allt
eins og í gamla daga. Vinátta sem
stofnað var til á ungum aldri dofnaði
ekki. Vinir þurfa ekki að hittast.
Og þannig leið okkur öllum gömlu
bekkjarfélögunum þegar við komum
saman haustið 2003, þrjátíu árum
eftir að skóla lauk. Margir höfðu
ekki sést allan þann tíma en endur-
fundirnir sýndu okkur að þrátt fyrir
einstaka hrukku og stöku grátt hár
vorum við öll eins og forðum. Jafnvel
nær hvert öðru ef eitthvað var.
En nú er eins og eitthvað sé orðið
öfugsnúið eða sett á hvolf í lífinu þeg-
ar besti og snjallasti félaginn er hrif-
inn á brott. Þessi maður sem virtist
hreystin uppmáluð og gekk í sumar
um stræti Reykjavíkur svo stæltur
og bjartleitur er nú dáinn og horfinn.
Ég sakna míns gamla vinar – en sé
hann í huga mér í þeim himneska
ljóma sem aðeins stafar af þeim sem
andríkur er og hjartahreinn.
Ég votta Kolbrúnu, Elsu, Guð-
brandi, aldraðri móður og systkinum
Magnúsar innilega samúð mína.
Örlygur Kristfinnsson.
Þá var ég kominn í Myndlista- og
handíðaskólann. Að vísu ákveðinn,
en feiminn og inni í mér og með þeim
yngstu. 15 ára. Háleitar hugmyndir
um listina. Enginn barnaleikur að
troða þann veg.
Þá kom Maggi. Allt fór á flug. Ég
gerði mér fljótt grein fyrir því
hversu mikil forréttindi það voru að
eignast hann sem félaga í lífi og list.
Hann sýndi mér margar myndir sem
enginn eða mjög fáir fengu að sjá og
var fyrir mér augljóst að hann bjó þá
þegar yfir slíkri færni að sannur
virtúós varð að teljast. Mér fannst
allt verða lítið í samanburði við það
sem hann gerði.
Við ræddum mikið saman um
listina. Hann hafði djúpstæð áhrif á
mig.
Tíminn leið. Við fengum að verða
vitni að hvernig listamaðurinn
Magnús óx og markaði sinn veg. Það
eru forréttindi ekki einungis okkar
einstaklinganna heldur þjóðarinnar
allrar að hafa fengið að njóta nær-
veru slíks manns sem Magnús Kjart-
ansson myndlistamaður var. Af
mörgu er sannarlega að taka, flest
það sem Magnús gerði í myndlistinni
stóð upp úr og treysti ég því að aðrir
muni taka saman og fjalla um listfer-
il hans, en ég vil aðeins nefna sýn-
ingu hans á Kjarvalsstöðum 1994
sem er án efa einhver glæsilegasta
og áhrifamesta sýning íslensks
myndlistarmanns fyrr og síðar.
Koggu og öllum öðrum aðstand-
endum hans sendi ég mínar dýpstu
samúðarkveðjur.
Áskell Másson.
Það er góð bók, sagði Magnús
Kjartansson einhverju sinni við mig
þegar við sátum yfir kaffibolla og ég
sagði honum að ég væri að lesa Út-
lendinginn eftir Albert Camus. Ég
væri að hvíla mig á dægurlesning-
unni, fréttaskýringum og öðru því
sem daglega berst frá hinni miðlandi
fréttaiðu. Ég hef lesið hana nokkrum
sinnum, sagði hann og ætti að gera
það oftar. Þótt Camus væri rithöf-
undur var hann einnig sjálfskipaður
heimspekingur sem sífellt leitaði
manninn uppi og fjallaði um hann
einan eða í öðru samfélagi eftir at-
vikum en sífellt í samanburði við
stöðu hans í heiminum.
Með þessari athugasemd við lesn-
ingu mína var engu líkara en Magn-
ús væri að minna á það sem honum
sjálfum fyndust gild sannindi og
væri jafnvel að lýsa sjálfum sér í leið-
inni. Málefni manneskjunnar voru
honum hugleikin og hann hafði þann
hæfileika til að bera að setja þau í
víðara samhengi hvar hver og einn
var umvafinn mannfélagi og um-
hverfi á alla vegu. Hann hafði ekki
aðeins ánægju af að rýna í stund og
stað heldur var fortíðin honum hug-
leikin. Þegar hann setti liðinn tíma í
samhengi við hið daglega og hina
ókomnu daga gat útkoman orðið
harla skemmtileg stemning.
Magnús helgaði myndlistinni líf
sitt. Listfengur með afbrigðum og
hafði þroskað með sér nákvæm og
örugg tök á málaralistinni. Leitandi
vann hann lengi að list sinni rétt eins
og heimspekingurinn sem alltaf leit-
ar sannleikans eða í það minnsta
skýringa og fótfestu í því flókna sam-
spili sem mannlífið birtist hverjum
og einum. Hann leitaði í heimi hug-
mynda, efnis og vinnuaðferða, alls
staðar þar sem breytileika var að
vænta og bar víða niður enda mátti
alltaf spyrja spurninga. Því er það
sem eftir hann liggur með ýmsu móti
þegar litið er til hugarsmíði og
tæknilegra útlegginga. En eitt eiga
mörg verka hans þó sameiginlegt.
Er það leitin – þessi eilífa leit heim-
spekingsins að svörum um mannlífið.
Á fyrri hluta síðasta áratugar kom
Magnús nokkuð óvænt fram með
nýjan stíl og túlkun í list sinni sem
hann var þó búinn að þróa með sér
og þroska um tíma. Á sýningu á
Kjarvalsstöðum náði leit hans nýjum
hæðum og honum tókst að spyrja
áleitinna spurninga. Margir töldu sig
kenna trúarlegra hugrenninga í
verkum hans á þessari sýningu og
kann svo að vera að trúarlegar
spurningar hafi að einhverju leyti
legið að uppruna þeirra. Mikið frem-
ur mun hann þó hafa verið að fjalla
um sömu spurningar og uppáhalds
rithöfundurinn hans frá Alsír. Stöðu
mannsins í samfélaginu og umhverf-
inu og komist að þeirri sömu niður-
stöðu og Camus og fleiri heimspek-
ingar og skáld fyrri og síðari tíma að
maðurinn færi einn með sjálfum sér í
margbrotnum heimi.
Eftir þetta sneri Magnús sér eink-
um að leirlistinni og starfaði að henni
ásamt Kolbrúnu konu sinni á vinnu-
stofunni á Vesturgötu 2. Hvað þeim
vinnuskiptum olli er spurning. Ef til
vill hefur honum fundist hann hafa
sagt það sem að hann þurfti að segja
en fremur myndi ég trúa því að hon-
um hafi fundist hann eiga svo margt
ósagt að það rúmaðist ekki innan
fjögurra horna hins hefðbundna
myndflatar. Það vil ég merkja af
margri ræðunni sem við áttum sam-
an með kaffið jafnan sem förunaut.
Er ég innti hann einhverju sinni eftir
því af hverju hann settist ekki við
skriftir sem frá svo mörgu hefði að
segja stóð ekki á svari. Ég held að ég
yrði svo neikvæður. Menn myndu
álíta mig svartsýnismann, sem hann
var reyndar ekki.
Með Magnúsi Kjartanssyni er
ekki eingöngu genginn snjall mynd-
listarmaður heldur einnig hugsuður
sem fátt mannlegt var óviðkomandi.
Þórður Ingimarsson.
Faðir okkar, tengdafaðir, afi, langafi og kær vinur,
ÓSKAR JÓSEFSSON
bifreiðastjóri,
Langholtsvegi 122/124,
síðast til heimilis á
Hrafnistu,
Reykjavík,
lést á Landspítalanum aðfaranótt þriðjudagsins 12. september.
Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.
Þökkum auðsýnda samúð og vináttu.
Hrafnhildur Óskardóttir Voll, Jone Voll,
Kristmann Óskarsson, Bergljót Hermundsdóttir,
barnabörn og barnabarnabörn,
Hulda Hákonardóttir og fjölskylda.
Ástkær systir okkar, mágkona og frænka,
HALLDÓRA AÐALSTEINSDÓTTIR
frá Laugavöllum,
lést á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga mánudaginn
18. september.
Aðalgeir Aðalsteinsson, Kristín Ólafsdóttir,
Hólmfríður Aðalsteinsdóttir, Skúli Þór Þorsteinsson,
Björgvin Sigurgeir Haraldsson
og systkinabörn.
Móðir okkar og systir,
HANNA JÓHANNSDÓTTIR,
Æsufelli 4,
andaðist á dvalarheimilinu Eir miðvikudaginn
20. september.
Fyrir hönd annarra aðstandenda,
Lilja Sigurðardóttir,
Guðrún Sigurðardóttir,
Gerður Jóhannsdóttir.