Morgunblaðið - 12.10.2006, Page 34
34 FIMMTUDAGUR 12. OKTÓBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
UMRÆÐAN
M
ary Whelan heitir
kona, hún er fasta-
fulltrúi Írlands hjá
stofnunum Sam-
einuðu þjóðanna í
Genfar.
Whelan stýrði á sínum tíma
kosningabaráttu Íra fyrir sæti í ör-
yggisráði SÞ, 2001–2002, og hún
hefur skrifað ágæta grein í tímarit
sem heitir Administration (vorhefti
2002) þar sem gerð er grein fyrir
aðdraganda kosninganna, þeim
áherslum sem Írar settu í baráttu
sinni og þeirri reynslu sem þeir
öðluðust.
Þetta er fróðleg lesning. Annars
vegar vegna þess að ýmislegt er
líkt með aðdraganda kosninganna,
sem Írar fóru í gegnum haustið
2000, og hins vegar vegna þess að
aðstandendur framboðs Íslands
vegna setu í öryggisráðinu 2009–
2010 hafa augljóslega að einhverju
leyti mótað sínar áherslur á
grundvelli frásagnar Whelan. Sem
ætti kannski ekki að koma á óvart,
það er ýmislegt líkt með þessum
þjóðum; hin landfræðilega lega,
smæðin og hinar hugmynda-
fræðilegu áherslur, svo fátt eitt sé
nefnt.
Þó ber að taka fram að Írar
hafa sem sjálfstæð þjóð gætt hlut-
leysis síns mun betur en Íslend-
ingar. Þessi afstaða er tilkomin af
sögulegum ástæðum, þ.e. varð til
vegna afstöðunnar til Bretlands,
sem Írland var hluti af. Fræg er
sagan af því er frelsishetjan og
forsætisráðherrann Eamon de Va-
lera gekk á fund sendiherra
Þýskalands í Dublin í stríðslok
1945 og vottaði honum samúð sína
vegna fráfalls Adolfs Hitlers, í
nafni hlutleysisins.
Ekki þarf að taka fram að Win-
ston Churchill varð æfur við þess-
ar fregnir og lét de Valera hafa
það óþvegið í útvarpserindi; skipti
engu að Írar höfðu í reynd verið
Bretum hjálplegir í stríðinu, svona
á bak við tjöldin.
En sumpartinn segir þessi saga
sitthvað um Íra. Þeir eru ekki að-
ilar að NATO og hafa verið nokk-
uð róttækir í mannréttindamálum;
straumarnir vestur um haf til
Bandaríkjanna eru hins vegar ekki
minni en hér á Íslandi, eins og
eðlilegt má teljast í ljósi þess
hversu miklir fólksflutningar þang-
að hafa verið undanfarin 150 ár
eða svo.
Hvað um það. Ljóst er af frá-
sögn Mary Whelan í Admin-
istration að aðstandendur fram-
boðs Írlands 2001–2002 fengu að
heyra ýmsar þær efasemdir og þá
gagnrýni sem íslenskir ráðamenn
fá gjarnan að heyra þegar rætt er
um framboð Íslands vegna setu í
öryggisráðinu 2009–2010.
Kannast ekki allir við þessar
spurningar: til hvers erum við að
þessu? Hvað munum við fá út úr
því að sitja í öryggisráði SÞ?
Whelan segir að henni hafi sýnst
sem þessar spurningar væru að
hluta til tilkomnar vegna eins kon-
ar smáþjóðakomplexa; öðrum
stundum hafi gagnrýnin byggst á
efasemdum um gildi Sameinuðu
þjóðanna sem slíkra og þess sjón-
armiðs að Írland ætti að eyða tak-
mörkuðum fjármunum sínum, sem
eyrnamerktir væru utanrík-
ismálum, til betri nota.
„Þegar maður reyndi að svara
spurningum af þessum toga,“ segir
Whelan í grein sinni, „hlaut maður
að vísa til þess að það séu hags-
munir allra ríkja að stuðlað sé að
stöðugleika í alþjóðamálum og þró-
un í friðarátt. Átök í Mið-
Austurlöndum, á Balkanskaga eða
í Mið-Asíu geta haft og hafa afleið-
ingar á hagkerfi alls heimsins og
þar með einstakra þjóða. Og þeim
sem efuðust um getu SÞ [til að
vera afl til góðs] með því að vísa
til mistaka samtakanna varð mað-
ur að benda á að þó að við gætum
komist hjá því að bera beina
ábyrgð á mistökum SÞ með því að
halda okkur víðs fjarri örygg-
isráðinu, gætum við varla gagn-
rýnt öryggisráðið ef við værum
ekki sjálf tilbúin til að axla beina
ábyrgð á því verkefni að vinna að
friði og öryggi í heiminum.“
Það má taka undir þessi svör
Whelan og þau eiga eins vel við
hér á Íslandi eins og á Írlandi.
Eftir stendur þó að Írar hafa
um langt skeið sannanlega rekið
sjálfstæða utanríkisstefnu á meðan
ýmsir efast um að það eigi við hér
heima. Íslenskir ráðamenn eiga í
öllu falli enn eftir að sýna þjóð
sinni fram á að þeir muni verða
annað og meira en viðhlægjendur
Bandaríkjanna í öryggisráði Sam-
einuðu þjóðanna.
Það kann að vísu vel að vera að
gagnrýni hvað þennan þátt varðar
sé ósanngjörn – staðreyndin er t.d.
sú að Ísland hefur ekki verið neitt
sérstaklega undirgefið Bandaríkj-
unum í atkvæðagreiðslum í alls-
herjarþingi SÞ; ljóst má á hinn
bóginn vera að þrýstingur á að við
fylgjum þeim að málum verður
mun meiri í öryggisráðinu, þar
sem ákvarðanirnar eru raunveru-
lega teknar – en ráðamönnum hef-
ur ekki tekist að sýna þjóð sinni
fram á þetta. Þar er verk að vinna.
Írar öttu upphaflega kappi við
Norðmenn og Tyrki um sæti í ör-
yggisráðinu en Tyrkir heltust úr
lestinni, á meðan Ítalir bættust
við. Ráða má af grein Whelan að
Írar töldu líklegast að Norðmenn
flygju inn, ímynd Norðurlanda
væri slík og Norðmanna sér-
staklega (sem milligöngumanna í
friðarumleitunum). Sérlega athygl-
isvert er að heyra að tveimur ár-
um fyrir kosningar höfðu Írar að-
eins fengið 31 loforð um stuðning;
það eru nefnilega í dag akkúrat
tvö ár í kosningarnar sem Ísland
mun taka þátt í og staða okkar er
mun betri en Íra á sama tíma-
punkti, við erum (líklega) búin að
fá 70–80 loforð um stuðning (ís-
lenskir embættismenn vilja ekki
gefa upp nákvæma tölu).
Írar hins vegar flugu inn í
fyrstu atkvæðagreiðslu þegar til
kom, tryggðu sér strax nauðsyn-
legan atkvæðafjölda. Norðmönnum
tókst hins vegar ekki að tryggja
sér nauðsynlegan atkvæðafjölda
fyrr en í fjórðu atkvæðagreiðslu,
Ítalir sátu eftir með sárt ennið.
Reynsla
Írlands
» Sérlega athyglisvert er að heyra að tveimur ár-um fyrir kosningar höfðu Írar aðeins fengið
31 loforð um stuðning; það eru nefnilega í dag akk-
úrat tvö ár í kosningarnar sem Ísland mun taka
þátt í og staða okkar er mun betri en Íra á sama
tímapunkti [...]
Blogg: davidlogi.blog.is
VIÐHORF
Davíð Logi Sigurðsson
david@mbl.is
ÞAÐ kemur á óvart að lesa í
Morgunblaðinu fimmtudaginn 5.
október sl. harðorða grein um
listahátíðina Sequences eftir menn-
ingarritstjóra Morg-
unblaðsins, Fríðu
Björk Ingvarsdóttur.
Gagnrýni hennar
beinist að því að að-
standendur hátíð-
arinnar hafi farið af
stað meira af kappi
en forsjá og ekki
tryggt að nægilegt
fjármagn væri til
staðar til að lista-
menn fengju sann-
gjarna umbun fyrir
vinnu sína.
Þarna gætir mis-
skilnings á tilurð hátíðarinnar. Se-
quences-listahátíðin er ekki ákveðin
og fjármögnuð af opinberum að-
ilum eins t.a.m. Listahátíð í
Reykjavík eða Menningarnótt. Se-
quences-hátíðin er haldin á allt öðr-
um forsendum og er að frumkvæði
Banananas, Kling og Bang og Ný-
listasafnsins sem rekin eru af lista-
mönnum. Markmið hátíðarinnar er
að beina athyglinni að því kraft-
mikla og skapandi starfi sem fer
fram árið um kring í sýning-
arsölum víðsvegar um borgina og
gera afl listamanna sýnilegt. Það er
einnig markmið aðstandenda hátíð-
arinnar að slá hvergi af í faglegum
og listrænum kröfum þó fjármunir
séu af skornum skammti.
Kynningarmiðstöð íslenskrar
myndlistar kemur að verkefninu
því hátíðin er kjörið tækifæri til
kynningar á íslenskum myndlist-
armönnum og augljóst að hún mun
vekja athygli erlendis. Það er
ánægjulegt að mjög margir lista-
menn og flestir sýningarsalir mið-
borgarinnar taka þátt í þessari
listahátíð sem er frá listamönnum
sprottin.
Það var öllum ljóst frá upphafi
að hátíðin gat ekki kostað mikið og
kostnaðurinn við framkvæmdahlið-
ina myndi óhjákvæmilega lenda á
aðstandendunum og þátttakendum.
Sú staðreynd hefur verið uppi á
borðum frá því að hugmyndin
kviknaði fyrir tæpu ári.
Það var því afar
ánægjulegt að Lands-
bankinn, Baugur og
fleiri einkaaðilar skyldu
sjá sér hag í því að
styrkja hátíðina sem
gerði mögulegt að
minnka þann kostnað
sem lenti á þeim sem
að hátíðinni standa.
Það er gott að sjá að
Fríða Björk skuli bera
hag íslenskra myndlist-
armanna fyrir brjósti
og benda á bág kjör
þeirra. Um árabil hafa íslenskir
myndlistamenn haldið uppi blóm-
legu listalífi, sem er mikið mært af
stjórnmálamönnum og fjölmiðlum, í
sjálfboðavinnu að mestu leyti.
Þannig hafa framsæknustu sýning-
arstaðirnir í íslenskri myndlist ver-
ið reknir og má þar nefna Gallerí
Hlemm, Klink og Bank, Ban-
ananas, Kling & Bang gallerí og
Nýlistasafnið. Það er ljóst að eng-
inn þessara staða væri til lengur ef
ekki væri fyrir þrotlaust sjálfboða-
starf aðstandenda og listamanna
sem þar sýna.
Árum saman hafa íslenskir
myndlistarmenn starfað fyrir litla
sem enga umbun og haldið uppi
merkjum íslensks menningarlífs
hér heima og erlendis, í hátíðum á
vegum ríkis og borgar, sem í raun
er alvarlegra mál en þegar grasrót-
arhátíð á borð við Sequences tekur
frumkvæði að því að sameina
krafta listamanna. Gagnrýni sem
þessi ætti því frekar að beinast að
þeim aðilum.
Það má segja að dæmisagan um
litlu gulu hænuna og fræið hennar
sé eins og saga íslenskrar samtíma-
listar í hnotskurn. Þegar íslenskir
listamenn á sjöunda áratugnum
vildu beina sköpunarkrafti sínum
að nýlistum voru þeim allar dyr
lokaðar. Þeir hafa síðan þá staðið í
rekstri sinna eigin sýningarstaða
og það er ekki fyrr en á síðustu ár-
um að þeim hafa opnast dyr í hin-
um söfnunum. Fræið er farið að
spíra. Það er samt enn ekki orðið
þannig að íslenskir listamenn fái
sanngjarna umbun fyrir vinnu sína
á Íslandi þó þeir séu eins þrótt-
miklir og raun ber vitni. Það er því
ráðist á garðinn þar sem hann er
lægstur að taka upp umræðu um
bág kjör listamanna í tengslum við
listahátíð sem rekin er með sam-
einingarkrafti listamanna til að
glæða borgina lífi og nýta athygli
heimspressunar. Í raun varðar hún
leiðina í átt að betri kjörum fyrir
listamenn og viðurkenningu á
framlagi þeirra til íslenskrar menn-
ingar.
Sequences-hátíðin hefst föstu-
daginn 13. október og vonandi geta
sem flestir notið þeirrar fjölbreyttu
og vönduðu dagskrár sem lista-
menn bjóða upp á víðsvegar í borg-
inni þar til henni lýkur 28. október.
Sequences-listahátíðin
– Litla gula hænan og fræið
Lárus Vilhjálmsson gerir at-
hugasemdir við skrif Fríðu
Bjarkar Ingvarsdóttur um Se-
quences-listahátíðina
» Það er því ráðist ágarðinn þar sem
hann er lægstur að taka
upp umræðu um bág
kjör listamanna í
tengslum við listahátíð
sem rekin er með sam-
einingarkrafti lista-
manna til að glæða
borgina lífi og nýta at-
hygli heimspressunar.
Lárus Vilhjálmsson
Höfundur er framkvæmda-
stjóri Nýlistasafnsins.
UNDIRRITAÐAR
hafa síðastliðnar vikur
skipst á skoðunum við
formann borgarráðs,
Björn Inga Hrafns-
son, um réttmæti fjöl-
skyldugreiðslna.
Björn Ingi telur að
með þeim megi leysa
vanda foreldra ungra
barna og við erum því allsendis
ósammála. Okkar helsta gagnrýni
snýr að andleysi Björns Inga gagn-
vart málefnum fjölskyldna, einkum
og sér í lagi þar sem hann er í fyr-
irtaks aðstöðu til að beita sér af
fullum þunga í málaflokknum, ver-
andi formaður fjölskyldunefndar
ríkisstjórnarinnar. Í svargrein
Björns Inga snýr hann út úr og vík-
ur sér fimlega undan þungamiðju
málflutnings okkar; við teljum að
fjölskyldur þessa lands eigi skilið
lengra fæðingarorlof og hærri
barnabætur, þessar tvær aðgerðir
eru ein helsta viðurkenning hins
opinbera á mikilvægi foreldra-
hlutverksins, viðurkenning sem
flestir eru sammála um að börnin
okkar þurfa á að halda. Fjölskyldu-
greiðslur upp á nokkra tugi þús-
unda geta varla talist merkilegur
verðmiði á mikilvægi foreldra-
hlutverksins og við gagnrýnum að
þeim fjármunum verði hugsanlega
varið í fjölskyldugreiðslur í stað
þess að hlúa að uppbyggingu til
framtíðar og raunverulegum lausn-
um sem stuðla að auknum lífs-
gæðum íslenskra barna.
Trylltur taktur
Í Morgunblaðinu 1. október er
góð úttekt á málefnum barna og
fjölskyldna. Þar er Ísland borið
saman við hin Norðurlöndin og
kostir og gallar fjölskyldugreiðslna
vegnir og metnir. Þar er rakið að
Norðmenn hafa tekið upp fjöl-
skyldugreiðslur en eru að hugsa um
að leggja þær af. Ástæðan er sú að
nær eingöngu konur nýttu sér þær
og því gera þær lítið úr jafnrétt-
isþætti lögbundins feðraorlofs og
framgangi jafnréttisbaráttunnar. Í
úttekt Morgunblaðsins benda ýmsir
fræðimenn sem og mæður réttilega
á hinn tryllta takt samfélagsins og
að þarfir barnanna ráði ekki för.
Atvinnulífið, hið opinbera og þar
með talið Reykjavíkurborg, eiga að
stuðla að sveigjanleika sem íslensk-
ar fjölskyldur kalla á. Með sam-
stilltu átaki ríkis og sveitarfélaga
getum við brúað bilið milli fæðing-
arorlofs og leikskólagöngu; borg-
aryfirvöld eiga að halda áfram að
hlúa að leikskólunum og tryggja
öllum börnum frá eins árs aldri
vistun á faglegum og góðum leik-
skólum, alþingismenn eiga að
leggja höfuðáherslu á lengingu fæð-
ingarorlofs í 12 mánuði, hið
minnsta. Barnabæturnar verður að
leiðrétta, þær hafa hríðlækkað í tíð
þessarar ríkisstjórnar, svo mikið að
skömm er að.
Fjölskyldunefndin sem Björn
Ingi Hrafnsson veitir forstöðu á að
skila af sér fyrir jól og við hlökkum
til að sjá afrakstur nefndarinnar
varðandi brýn atriði sem gerir fjöl-
skyldum þessa lands betur kleift að
njóta samvista við nýjasta fjöl-
skyldumeðliminn.
Það eru brýr sem brúa ár, fjöl-
skyldugreiðslur eru hálir og valtir
steinar sem hægt er að stikla á en
við kjósum brúna heldur og munum
starfa að því að byggja brýrnar en
treysta ekki á steinana. Kæri Björn
Ingi, brettu nú upp ermarnar og
skelltu þér í brúarvinnuna með
okkur. Það er verk að vinna.
Valtir steinar
Oddný Sturludóttir
og Bryndís Ísfold
Hlöðversdóttir
skrifa um málefni
fjölskyldna
»Með samstilltu átakiríkis og sveitarfé-
laga getum við brúað
bilið milli fæðingaror-
lofs og leikskóla-
göngu...
Bryndís Ísfold
Hlöðversdóttir
Höfundar sitja í leikskólaráði fyrir
Samfylkinguna.
Oddný
Sturludóttir