Morgunblaðið - 02.01.2007, Blaðsíða 25

Morgunblaðið - 02.01.2007, Blaðsíða 25
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 2. JANÚAR 2007 25 HÉR fer á eftir prédikun Karls Sigurbjörnssonar biskups sem flutt var í Dómkirkjunni í Reykjavík á nýársdag. Fyrir- sagnir eru Morgunblaðsins. Guð gefi oss öllum gleðilegt nýtt ár í Jesú nafni. Honum sé falið allt sem liðið ár gaf og tók, í þökk fyrir alla góða samfylgd og umhyggju góðs fólks. „Fylg mér, Guð, um farinn veg svo forðist slysin öll. Geymi mig náð þín guðdómleg um grundir, byggð og fjöll. Hans englar beri á höndum mig hvar sem um veginn fer, varðveitandi frá villustig vara taki á mér. Vegbróðir sjálfur veri minn, vegur, líf, ljós og sannleikurinn. En þegar héðan halda fer og heim til föðurlands taki þá hlýtt í hönd á mér heilsugjafarinn manns og leiði inn í ljós með sér að lendı́eg í englakrans.“ Þannig hljóðar gömul ferðabæn, sem fyrri kynslóðir þessa lands fóru með er búist var af stað til ferðar. Með þá ferðabæn í huga skulum við halda inn á veg ársins nýja. Bæn er að eiga Guð að förunaut og vegbróður. Bæn er að beina huga og för á þann veg, líf, ljós og sann- leik sem er hann. Vitur maður staðhæfði: „Þú getur ekki séð ljósið, það er ljósið sem gerir að verkum að þú getur séð. Þetta er áleitin og sérkennileg full- yrðing. Ég tel mig hafa séð ljósið og geymi með mér dýrmætar minningar af ljósi: Morgunsól sem varpar gullnum bjarma yfir götu bernsku minnar. Kvöldsólin er roðar fló- ann. Blikið í augum barnsins. Blaktandi friðar- ljósið á leiði móður minnar… Víst hef ég séð ljósið. Þú líka. Mikið erum við þakklát fyrir það. Og samt fullyrðir maðurinn: „Þú getur ekki séð ljósið. Það er ljósið sem gerir að verk- um að þú sérð.“ Hann er að tala um Guð. Hann er að vísa til upphafs og uppsprettulindar lífs okkar og heims. Sköpunarorðið: „Verði ljós!“ var hið fyrsta orð sem ómaði yfir auðn og tómi og djúpunum dimmu. Og það varð ljós, og Guð sá að það var gott. Auga manns og sál eru sköpuð fyrir það. Frumrök alls er ljósið, ljósið, en ekki myrkrið, sannleikurinn en ekki lygin. Lygin er ósannindi, réttlætið kemur fyrst, óréttlætið, ranglætið er afskræming, eða af- neitun þess. Þess vegna er það satt að „engar fréttir eru góðar fréttir. Hið góða er ekki frétt- næmt, það þarf ekki að tíunda það, það vekur sjaldan athygli og selst ekki. Af því að það er reglan, grunntónninn í lífinu. Hið illa er undantekningin. Kærleikurinn kemur á undan hatrinu, góðvildin á undan illskunni. Hið illa er afneitun hins góða, ranghverfa hins fagra, spilling hins fullkomna. Fegurðin, ljósið, birt- an í mannlífinu, er skuggi hins eilífa ljóss og ævarandi elsku Guðs. Ungbarnið, óvitinn, skimar upp í ljósið, og laðast af því. Því veldur góður Guð, sem lífið skapar fyrir sig. „Frá honum, fyrir hann og til hans eru allir hlutir.“ Hvort sem við lifum eða deyjum erum við hans. Sálin er sköpuð fyrir ljósið hans, ljós- næm og ljóselsk. Já, það sem er og verður upphaf og grunnur alls, það sem lífið sprettur af og hvílir í og er stefnt til, er óumræðileg, ómælanleg, undursamleg gæska, góðvild, feg- urð. Sú fegurð sem birtist í Betlehem þegar loftin fylltust englasöng, dýrð Drottins ljómaði og röddin himneska benti á barnið í jötunni sem er frelsarinn. Um hann segir Jóhannes guðspjallamaður, og þann vitnisburð staðfesta kynslóðirnar sem reynt hafa samfylgd við hann: „Vér sáum dýrð hans!“ Í þeirri birtu fáum við að halda veginn fram. „Friður á foldu, fagna þú maður, frelsari heimsins fædd- ur er.“ Skelfileg umferðarslys Myrkrið þekkjum við ofur vel, enda sækir það að og snertir hvern og einn með einum eða öðrum hætti. Öll mættum við áföllum og auðnubrigðum sem yfir féllu á veginum svo syrti að. Skelfileg umferðarslys ollu dauða 30 karla, kvenna, barna, og skilja eftir harm og sorg. Og svo eru ótalin þau mörgu sár og ör- kuml sem slysin valda. Þetta er ægileg blóð- taka, sem helst má líkja við hamfarir. Öllum sem eiga um sárt að binda vegna slysa og annarra áfalla, sendum við hlýjar kveðjur héðan úr Dóm- kirkjunni. Drottinn umvefji líkn sinni og huggun þig sem saknar og syrgir, ljósið hans lýsi þér. Slysaaldan á vegunum hefur slegið almenning óhug, sem eðli- legt er. Ástæður eru vitaskuld margvíslegar, og seint hægt að alhæfa. Umræðan um vegamál og samgöngubætur hefur orðið hávær og vaxandi krafa um taf- arlausar umbætur. Augljóst er að víða, allt of víða annar vega- kerfið ekki sívaxandi umferðar- þunga. En eitt er alveg víst, eng- in ríkisstjórn, ekkert löggjafar- þing, ekkert fjármagn, hvaðan svo sem það kemur, getur breytt því sem mestu máli skipt- ir í þessum efnum, og helst má duga gegn óheillaþróun. Það eru algeng viðbrögð við sorg og alls- kyns ógn að bregðast við með ásökunum, leita sökudólga og tengja inn á reiði og ótta sem með öllum býr. Þess í stað ættum við að leita þess sem miðar að lausn og von. Við, hvert og eitt okkar, getum lagt mikilvægasta lóðið á þá vog, sem er tillitssemi, aðgæsla og virðing. Það er ekki bara samgönguvandi sem við er að etja. Þarna er líka siðferðismein á ferðinni, vaxandi yfirgangur og æsingur í samfélaginu. Fregnir af háttsemi vegfarenda sem komu þar að sem stórslys urðu á þjóðvegum, og með frekju og óþolinmæði trufluðu störf lögregl- unnar og þeirra sem hlynntu að slösuðum, eru ótrúlegar og skelfilegar. Gamalt orðtak, ættað frá Gyðingum segir að „við þrennt birtist mannsins sanna eðli: Við bikarinn, við pyngjuna og í reiðinni.“ Við gæt- um bætt við því fjórða, „við stýrið.“ Erum við ef til vill meir og minna slegin hraðablindu, það er blindu, ónæmi á eigin hraða og afleiðingar hans? Svo margir finna sig í gildru tímaleysisins og streitunnar. Allt þarf að gerast með hraði og allt of margir brenna yfir af stressi. Hraðinn á vegum og götum, en líka hinn sífellt hraðari taktur á nánast öllum sviðum, ógnar lífi okkar, heilsu og andlegri og félagslegri velferð. Hraðablind- an leiðir til þess að veruleikaskynjun brenglast og að menn fara að ímynda sér að engin hætta sé á ferðum. Spennufíkn er ein birtingarmynd hraða- blindunnar og er vaxandi vandamál og ástæða til að hafa áhyggjur af því hvernig hún grípur um sig meðal ungs fólks, umfram allt ungra karla. Sýnt hefur verið fram á að tölvuleikir af ýmsu tagi slævi vitund fyrir mörkum raun- veruleikans. Svo virðist sem sú lífssýn og heimsmynd, sem haldið er uppi gagnvart hin- um ungu, sé í vaxandi mæli mótuð af ofbeldis- dýrkun, bölsýn og neikvæð. Það er alvörumál þegar hinn ungi hugur er ómælt mataður á daðri við hinar lægstu hvatir, ofbeldi og ógn, og sáð er fordómum og tortryggni gagnvart yfirvöldum, lögreglu og öllu hefðbundnu kennivaldi, andlegu og veraldlegu – „það er alltaf verið að ljúga að manni,“ segir ungling- urinn, og lærir að treysta engu. Samsæris- kenningar af öllu tagi seljast í stórum stíl, og fólk hefur takmarkaðar forsendur að gera greinarmun á sönnu og lognu í glýju auglýs- inganna. Í umferðinni á vegum og strætum varðar miklu að geta treyst á sjálfan sig, á eigin færni, dómgreind, viðbrögð. Að geta treyst á ökutæki sitt, ástand vegarins, réttar og glögg- ar merkingar. Og að geta treyst á aðra, að sá sem á móti kemur eða samferða er, sé alls gáð- ur, heill á sönsum og dómgreind. Án slíks trausts þyrðum við tæpast út úr húsi. Og sama á við um alla mannlega vegferð. Umferðarreglur lífsins Traust er grundvallarforsenda í mannlegu samfélagi. Hvað miðlar grundvallartrausti í mannlífinu? Að baki umferðarlögum og reglum er vald samfélagsins til að framfylgja þeim. En hvað með umferðarreglur lífsins? Hvaða vald er á bak við þær? Þegar efasemdir breiðast út um að nokkurt vald sé þar að baki nema eigin geð- þótti eða almanna samsinni, hvaða afleiðingar hefur það? Þegar siðvitund samfélagsins rofn- ar, þegar meginviðmið eru afnumin og vildar- rétturinn einn ræður, Hvað tekur þá við? Trú og siður haldast í hendur, trúin sem er lotning og virðing fyrir því sem er manni æðra, og traust til þess að heimurinn er þrátt fyrir allt í góðum og traustum skorðum, og að hinn góði vilji og vald mun um síðir sigra, trúin sem þiggur lífið, jörðina, náungann sem gjöf, sem lán frá höfundi lífsins. Af þeirri trú spretta ekki aðeins góð gildi, sem menn geta tileinkað sér að vild, heldur og dyggðir sem menn temja sér, eða eru aldir upp í og mótast af, og virðing fyrir því oft dulda samhengi, þeim fínofna vef sem mannlegt samfélag og lífið allt er. Enn eru flest íslensk börn skírð og helguð Kristi, og kennt að biðja. Það er þjóðargæfa. Börnin eru hið dýrmætasta sem við eigum. Og barnatrúin og bænin er besta veganestið, því þar er sálarsjón beint til ljóssins. Okkur ætti jafnan að vera umhugað um líðan barnanna og velferð, öryggið, sem þeim er búið, væntingar sem til þeirra eru gerðar, og um hætturnar sem þeim eru búnar. Við gætum vel gert Ís- land barnvænasta, fjölskylduvænasta þjóð- félag í heimi! Við eigum þó langt í land, sér- staklega þegar horft er til þess hvernig að fjölskyldum ungra barna er búið. Og eins þeg- ar gaumur er gefinn að því agaleysi og afskiptaleysi sem allt of mörg börn búa við. Lífsstílsvandamál, lífsstílssjúkdómar, valda æ meiri þunga í heilbrigðiskerfinu, og er miður geðslegur arfur sem við látum niðjum okkar eftir. En það er við ramman reip að draga. Ný- leg könnun í Bretlandi leiddi í ljós að 70 af hundraði þriggja ára barna þekktu McDo- nalds merkið, en aðeins helmingur vissi föð- urnafn sitt. Þetta er sláandi dæmi um okkar föðurlausu samtíð, og eins um áhrifamátt aug- lýsinganna, sem sífellt sækja að börnunum okkar með lævíslegri hætti. Bara ef við leyfðum okkur að horfa á gildis- mat og forgangsröðun okkar með augum barnsins! Einhver allra besta gjöf sem við get- um gefið börnunum okkar er tími og athygli, tími þar sem talað er við þau, lesið er fyrir þau, unnið er með þeim að skapandi verkefnum og horft með þeim til birtunnar. Viðbjóðsleg aftaka í Írak Árið sem leið var ár stríðs og hörmunga, haturs og hermdarverka. Í tilgangslausu stríði í Írak hafa þúsundir á þúsundir ofan fallið í valinn, þúsundir saklausra karla, kvenna og barna. Keðjuverkun ofbeldis virðist engan enda ætla að taka. Aftaka Saddams var einn viðbjóðslegi þátturinn í þeirri ömurlegu atburðarás og verður eflaust vatn á myllu hermdarverkamanna sem nota það tækifæri til að réttlæta enn meiri dráp og skelfingu. Ég hef megnustu andstyggð og óbeit á dauðarefs- ingum, eins og þorri Íslendinga. Kirkjuleiðtog- ar og kirknasamtök um allan heim hafa for- dæmt dauðarefsingar sem villimannlegar og ómannúðlegar. Með aftöku sakamannsins er í raun verið að segja að það sé ekkert rúm fyrir iðrun og endurnýjun hugarfars og lífernis. Fagnaðarerindi Jesú, hins dauðadæmda saka- manns, sem fæddist í Betlehem og reis af gröf, er einmitt um náð Guðs sem er ný á hverjum morgni, um fyrirgefningu syndanna og sáttar- gjörð, sem rýfur vítahring hefnda og endur- gjalds. Hvenær linnir blóðsúthellingunum í Írak og Palestínu? Hvenær falla múrar haturs og heiftar? Hvenær kemst læknandi afl og áhrif friðar og sáttargjörðar þar að? Og hvað getum við gert til að stuðla að því? Ýmsir spá því að senn verði síðustu kristnu jólin haldin í Betlehem. Aldrei hafa kristnir menn verið aðþrengdari í landinu helga, og þeim fækkar stöðugt. Hin kristna nærvera í Betlehem og öðrum helgistöðum kristninnar sem kristnir menn hafa frá öndverðu gætt og hlúð að, er senn á enda. Sömu sögu er að segja um kristna söfnuði annars staðar í Miðaustur- löndum, þeir eru að hverfa. Óöldin í Palestínu og hernaðurinn í Írak hafa gert kristnum mönnum á þessum slóðum afar erfitt fyrir, og var ekki á bætandi. Kristnir menn sæta bein- um ofsóknum og er alla vega gert örðugt að iðka trú sína og þeir hvattir og neyddir til að flytja burt. Og hver sem betur getur reynir það í uppgjöf og vonleysi. Frá örófi alda hafa niðjar Abrahams, kristnir menn, gyðingar og múslimar, búið saman í þessum svæðum sem móta sögu trúarbragða þeirra og sjálfsmynd. Þegar Betlehem og Nasaret tæmast af kristn- um íbúum sínum þá verður heimurinn snauð- ari. Þá verður Fæðingarkirkjan aðeins safn, Grafarkirkjan sömuleiðis. Ferðamenn og píla- grímar munu væntanlega halda áfram að koma þangað, en þeir sem taka á móti þeim munu ekki vera í neinum tengslum við söguna, tilbeiðsluna og hefðina sem varðveitt hefur þessa staði í vitund heimsins í tvö þúsund ár. Það er vægast sagt sorgleg tilhugsun. Horfum ekki um öxl í reiði eða fram á við með kvíða, horfum heldur í kringum okkur hér og nú með árvekni. Myrkrið í lífinu, hið illa og óttalega, þjáning, synd og dauði er ægileg ráð- gáta, leyndardómur. Eins og hið góða, fagra og bjarta, trúin og vonin, þolgæðið og kær- leikurinn. Það er undursamlegur leyndar- dómur. Þess vegna er svo mikilvægt að varð- veita undrun og þakkarhuga trúarinnar. Það að lifa er að vera umluktur því sem gott er, af ljósi, jafnvel þegar sortinn leggst að. Myrkri og ógn eru takmörk sett. Ljósið sigrar, lífið sigrar. Og við erum kölluð til að vera börn ljóssins og dagsins! Skáldið Tagore líkir trúnni við fugl sem syngur í náttmyrkrinu, hann syngur af því að hann treystir því að dagur muni renna, að ljósið góða muni sigra. Í þeirri trú syngjum við Guði lof á morgni ársins nýja. Það er innistæða fyrir trú okkar. Það vitum við, trúum og treystum vegna Jesú, vegna Betlehem og Golgata og upprisunnar á páska- dagsmorgni. Það er hin góða frétt sem tekur öllum fréttum fram. Henni má treysta. Með orðum bænarinnar gömlu bið ég þér, sem mál mitt heyrir, og landsmönnum öllum, blessunar í Jesú nafni: „Hans englar beri á höndum þig hvar sem um veginn fer, varðveit- andi frá villustig, vara taki á þér. Vegbróðir sjálfur veri þinn, vegur, líf, ljós og sannleikur- inn.“ Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni, svo að þér séuð auðug að von- inni í krafti heilags anda. Amen. Nýársprédikun Karls Sigurbjörnssonar biskups „Blóðtöku á vegum landsins má líkja við hamfarir“ Karl Sigurbjörnsson Morgunblaðið/Brynjar Gauti ÁRAMÓT

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.