Morgunblaðið - 26.06.2007, Blaðsíða 6
6 ÞRIÐJUDAGUR 26. JÚNÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
Hann greip í hárið á mér,ýtti mér niður í rúmið ogþrýsti kodda yfir andlitmitt. Mér fannst ég vera
að kafna og ég fann blóðbragð í
munninum. Svo nauðgaði hann mér,“
segir unga konan sem blaðamaður
ræddi við, en maðurinn beitti hana
margsinnis grófu ofbeldi, bæði með-
an þau áttu í sambandi og eftir að
sambandi þeirra lauk. Konan vill ör-
yggis síns vegna ekki koma fram und-
ir nafni. Hún fluttist hingað til lands
árið 2004 í því skyni að stunda hér at-
vinnu. Hún hafði vinnu í heimalandi
sínu en langaði að breyta til og kom
til Íslands fyrir tilstilli kunningja til
að kynna sér aðstæður. Í þeirri ferð
kynntist hún Jóni Péturssyni og hófu
þau samband. Var fljótlega ákveðið
að hún myndi flytjast til Íslands. „Við
ákváðum að ég myndi prófa að búa
hérna. Ég vildi fara í skóla og læra ís-
lensku og vinna með náminu, en þar
sem hann var sjálfstæður atvinnu-
rekandi varð úr að hann sótti um leyfi
fyrir mig til þess að dveljast og starfa
hér á landi,“ segir konan.
Hún átti að starfa sem húshjálp á
heimili hans og aðstoða hann við
verkefni sem tengdust atvinnu hans.
Fljótlega eftir komuna hingað til
lands tók konan eftir því að drykkja
mannsins virtist fara vaxandi og
smám saman kom neyslan í veg fyrir
að hann gæti stundað vinnu. Þá fór
hún að vinna við húshjálp til þess að
fá tekjur.
Sagði kynlífið sambandsskyldu
Hún segir að maðurinn hafi bæði
beitt sig líkamlegu ofbeldi og nauðg-
að sér meðan á sambandi þeirra stóð
árið 2004. „Hann sagði mér að á Ís-
landi væri litið svo á að væri kona í
sambandi gæti hún aldrei neitað að
stunda kynlíf með maka sínum, það
væri hluti af því að vera í sambandi.
Ég sagði honum að ég væri ekki sam-
mála, ég teldi að hann hefði nauðgað
mér, en hann neitaði því og sagði mig
ekki þekkja hvernig málin gengju
fyrir sig hérna.“
Eftir að ofbeldið hófst dró hún sig
smám saman í hlé og reyndi að forð-
ast manninn eftir megni. „En mér
leið eins og fanga vegna þess að at-
vinnuleyfi mitt var gefið út á hann.
Hann sagði mér að ég gæti ekki brot-
ið þennan samning. Hann hótaði mér
stöðugt með því að ég yrði rekin úr
landi. Hann sagði mér að ef ég gerði
ekki eins og hann bæði þá myndi
hann sjá til þess að mér yrði fleygt úr
landi,“ segir konan. Hún var í erfiðri
stöðu enda hafði hún sagt upp starfi í
heimalandi sínu og haldið til Íslands
til þess að búa og starfa hér.
Konan heimsótti heimaland sitt á
meðan á sambandi hennar og manns-
ins stóð árið 2004 en sagði ekki vinum
eða fjölskyldu frá því sem hún hafði
lent í á Íslandi. „Ég hélt að ég gæti
hjálpað honum og að lausnin fælist í
því að hann hætti að drekka,“ segir
hún. Hann lofaði öllu fögru og hætti
að drekka í nokkra daga, en svo fór
allt í sama farið aftur.
Fyrir jólin 2004 fór konan ásamt
manninum í jólagleði. Maðurinn varð
ofurölvi þar en krafðist þess að veisl-
unni lokinni að aka heim. „Ég sagði
honum að hann gæti ekki keyrt í
þessu ástandi. Ég vissi ekkert hvar
við vorum því hann ók mér alltaf allt
sem ég fór og ég þekkti mig því ekki
vel í borginni,“ segir konan.
Maðurinn ók engu að síður bílnum
heim en þegar þangað kom tók hann
hana hálstaki og lyfti henni frá gólf-
inu. „Hann sagði mér að ég skyldi
ekki voga mér að tala svona til sín.
Hann hefði ekki verið drukkinn og vel
getað ekið bílnum. Ég baðst afsök-
unar og sagðist hafa haft rangt fyrir
mér en hann hóf að berja mig,“ segir
hún. Að barsmíðunum loknum
nauðgaði maðurinn henni ítrekað.
Daginn eftir var hann bljúgur og
baðst afsökunar og sagðist hafa gert
mistök. „En ég vissi að ég gæti ekki
verið lengur með honum og að hann
þyrfti á hjálp að halda.“
Hún sleit sambandi þeirra, hvatti
hann til þess að leita sér aðstoðar og
flutti sig inn í aukaherbergi í íbúð
hans. „Við urðum sammála um að ég
myndi ljúka þeim samningi sem ég
hafði gert við hann um vinnu hjá hon-
um, finna að því búnu annað starf og
flytja út,“ sagði hún.
Á jólunum snæddi hún með mann-
inum og börnum hans. „Ég var í
blússu og það sást í mar eftir bar-
smíðarnar. Skömmu áður en börnin
komu sagði hann mér að ég yrði að
skipta um föt svo áverkarnir sæjust
ekki. Þá áttaði ég mig á því að hann
vissi vel hvað hann var að gera.“
Hún segir að næstu mánuðina hafi
maðurinn beitt sig andlegu, líkam-
legu og kynferðislegu ofbeldi og haft í
stöðugum hótunum um að láta reka
hana úr landi.
Það að hún byggi í sérherbergi
kom ekki í veg fyrir að maðurinn
beitti hana ofbeldi. „Stundum kom
hann heim að nóttu til eftir að hafa
verið í bænum og reyndi að nálgast
mig. Ég læsti herberginu og reyndi
að setja stóla og annað fyrir dyrnar,
en það dugði ekki til þess að verja
mig,“ segir hún. Hún hafi ávallt vonað
að nágranni kæmi til hjálpar með því
að gera lögreglu viðvart þegar hávaði
heyrðist frá íbúðinni. Lögreglumaður
hafi búið í íbúðinni fyrir neðan þau, en
hvorki hann né aðrir nágrannar hafi
nokkurn tíma brugðist við.
Hélt henni fanginni í fjóra daga
Eitt grófasta ofbeldisverk manns-
ins gegn konunni átti sér stað í júlí
2005. „Þá hélt hann mér fanginni í
íbúðinni frá mánudegi til fimmtudags
og nauðgaði mér og barði mig,“ segir
hún.
Á miðvikudeginum greip maðurinn
í hálsmál á sloppi sem konan var í, dró
hana inn í hjónaherbergi og fleygði
henni í rúmið. „Við þetta rákust báðir
sköflungarnir í rúmbríkina,“ segir
konan. Maðurinn þrýsti henni niður í
rúmið og setti kodda fyrir vit hennar
svo henni fannst hún vera að kafna og
að því búnu nauðgaði hann henni.
Konan segir að reiði mannsins hafi
blossað upp eftir að hún fór í kvik-
myndahús á mánudeginum. Í hléinu
hafi hún farið að spjalla við sessunaut
sinn, ungan mann, sem hafi ekið
henni heim að sýningu lokinni. Hafi
maðurinn séð þegar hún kom heim í
bíl unga mannsins og reiðst mjög.
Konan segist alloft hafa beðið
manninn um að fara með sig á spítala
eftir barsmíðarnar, enda hafi sér liðið
mjög illa og hún átt í erfiðleikum með
andardrátt. Því hafi hann á hinn bóg-
inn þverneitað. „Hann sagði að ég
hefði ekki þurft að fara á spítala fyrst
þegar þetta gerðist og því þyrfti ég
þess ekki núna,“ segir hún.
Á föstudeginum tókst henniað
sleppa frá manninum. Hún fór til
vinnu sinnar við húshjálp í húsi í bæn-
um en flýtti sér við vinnuna og tók
strætisvagn á sjúkrahús. „Ég fór
fyrst á Landspítalann við Hringbraut
en þau sögðu mér að ég yrði að fara á
slysavarðstofuna í Fossvogi og ég
gerði það,“ segir hún.
Konan segist hafa fengið góða að-
stoð á LSH í Fossvogi. Í ljós kom að
hún hafði ýmiss konar áverka á lík-
amanum. Á sjúkrahúsinu hafi henni
verið bent á lögfræðing og félagsráð-
gjafa sem hafi aðstoðað hana.
Eftir þetta fluttist konan til vin-
konu sinnar. Maðurinn lét hana ekki í
friði þrátt fyrir þetta heldur hélt sig
tímunum saman fyrir utan húsið og
hringdi dag og nótt á heimili vinkon-
unnar og bað um að fá að tala við kon-
una í því skyni að fá hana til að falla
frá áformum um kæru. Lögreglan
hafi verið látin vita af þessu, en eina
ráðið sem hún hafi gefið hafi verið að
taka símann úr sambandi. „Vinkona
mín er erlend og því var nauðsynlegt
fyrir hana að hafa síma í sambandi
svo hún gæti fengið fréttir af fjöl-
skyldu sinni í útlöndum,“ útskýrir
konan.
12 ára drengur
vitni að ofbeldinu
Þrátt fyrir ástandið reyndi hún að
halda áfram að lifa venjulegu lífi og
vann við húshjálp. Eitt sinn er hún
var á leið til vinnu elti maðurinn hana.
„Ég var við vinnu þegar ég heyrði
bjöllu hringt og tólf ára sonur vinnu-
veitanda míns fór til dyra. Svo heyrði
ég að nafnið mitt var nefnt og gekk í
áttina að dyrunum. Þetta reyndist
vera maðurinn og hann réðist á mig
og fór að berja mig fyrir framan
drenginn. Barnið varð mjög skelft og
ég sagði því að forða sér,“ segir kon-
an. Drengurinn fór í ofsahræðslu út
um glugga á annarri hæð og svo upp á
þak hússins áður en hann gerði ná-
granna viðvart.
Maðurinn dró hana út úr húsinu og
inn í bíl sinn en henni tókst að sleppa
og hringdi á lögreglu. Þegar lögregl-
an kom á staðinn var maðurinn á bak
og burt, en konan bað lögreglumenn-
ina að aka sér á sjúkrahús. Hún
kveðst hissa á því að lögreglan hafi
ekki að fyrra bragði boðist til þess að
aka sér á slysavarðstofuna. „Þeir
keyrðu mig þangað og létu mig út fyr-
ir framan húsið en aðhöfðust ekki
frekar,“ segir hún. Þetta atvik átti sér
stað í ágúst, en á þeim tíma beið kon-
an eftir að fá tíma hjá lögreglunni til
þess að geta lagt fram kæru vegna
árásarinnar í júlí. Hún þurfti að bíða
eftir því að geta skýrt málið fyrir lög-
reglu í margar vikur. „Lögmaður
minn hringdi oft í lögregluna á þess-
um tíma og spurði hvers vegna í
ósköpunum þetta tæki svona langan
tíma,“ segir konan
„Loks gat ég lagt fram kæruna en
ekki tókst að fá í gegn að maðurinn
yrði settur í nálgunarbann gagnvart
mér,“ segir hún. Maðurinn hafði í
stöðugum hótunum við hana og með-
al annars hótaði henni lífláti, félli hún
ekki frá málinu. Hann áreitti einnig
móður hennar, sem er búsett erlend-
is, með símhringingum. Í eitt skiptið
hringdi hann í hana um miðja nótt og
lýsti því yfir að hann og annar maður
hefðu myrt dóttur hennar.
Mál konunnar var tekið fyrir í Hér-
aðsdómi Reykjavíkur í ágúst 2006.
Maðurinn var sakfelldur í héraði í
október það ár og fékk fimm ára
fangelsisdóm fyrir ofbeldi gagnvart
henni og annarri konu. Dóminum var
áfrýjað til Hæstaréttar og gekk mað-
urinn laus meðan þess var beðið að
rétturinn tæki málið fyrir. Á þeim
tíma misþyrmdi hann þriðju konunni
og var í því máli dæmdur í fimm ára
fangelsi fyrir frelsissviptingu, nauðg-
un og líkamsárás í héraðsdómi 19.
júní sl. Í apríl staðfesti Hæstiréttur
fimm ára fangelsisdóm yfir mannin-
um vegna brota hans gegn viðmæl-
anda blaðamanns og annarri konu.
„Fannst ég vera að kafna
og fann blóðbragð í munninum“
Nýlega hafa fallið tveir
dómar í máli manns sem
sakaður var um nauðg-
anir og líkamsárásir á
hendur þremur konum.
Ein þeirra kvenna sem
maðurinn beitti ofbeldi
sagði Elvu Björk Sverr-
isdóttur sögu sína.
KONAN er reið yfir meðferð máls hennar hjá íslensku
lögreglunni og í dómskerfinu og telur að seinagangur í
málsmeðferð hafi orðið til þess að fjölga fórnarlömbum
mannsins. „Ef lögreglan hefði tekið kæru mína alvar-
lega fyrst þegar ég leitaði til hennar tel ég að fórn-
arlömbin hefðu ekki orðið fleiri,“ segir konan.
Hún telur að íslenska lögreglan þurfi að fá betri þjálf-
un í því að takast á við mál fórnarlamba nauðgana og
annars ofbeldis. „Það þarf að sýna nærgætni en einnig
þarf að taka mál þeirra alvarlega. Það getur vel verið að
lögreglan segist taka þessi mál alvarlega, en út frá því
sem ég upplifði finnst mér svo ekki vera,“ segir hún.
Henni finnst dómskerfið hafa brugðist sér sem konu
og vísar til dómsins sem maðurinn hlaut fyrir brot sín.
Fimm ára fangelsi fyrir þau er að hennar mati of væg
refsing. Þá hafi maðurinn gengið laus meðan mál hans
beið áfrýjunar, sem sé ótrúlegt, og haldið áfram að
brjóta af sér. Þá furðar hún sig á því að í ákæru rík-
issaksóknara gegn manninum í máli hennar skuli hann
ekki hafa verið ákærður fyrir nauðgun, heldur aðeins
fyrir líkamsárásir og húsbrot.
Breyta þarf reglum
um atvinnuleyfi útlendinga
Konan gagnrýnir þær reglur sem gilda á íslenskum
vinnumarkaði um að tímabundin atvinnuleyfi til útlend-
inga utan EES-svæðisins séu veitt atvinnurekendum en
ekki fólkinu sjálfu. Innflytjendur hafi sökum þess lent í
því að vera misnotaðir af atvinnurekendunum, sem geti
hótað því að fólk fái leyfi sín ekki endurnýjuð verði ekki
farið að þeirra óskum.
„Hefði ég haft mitt leyfi sjálf hefði ég farið annað um
leið og hann beitti mig fyrst ofbeldi,“ segir konan. Hún
segist átta sig á því að hún hafi gert mistök með því að
fara ekki frá manninum um leið og hann beitti hana of-
beldi. „Ég veit að ég hefði átt að yfirgefa hann eftir að
hann misþyrmdi mér í fyrsta skipti og ég hefði átt að til-
kynna það til yfirvalda. En ég taldi mig geta hjálpað
honum,“ segir hún.
Ofbeldið sem konan varð fyrir hefur haft mikil áhrif á
líf hennar, en hún er ákveðin í að láta ekki bugast, held-
ur líta björtum augum til framtíðar.
Hún gleymir hins vegar ekki því sem gerðist. „Þetta
situr alltaf í mér. Mér finnst ég aldrei alveg örugg. Þeg-
ar ég fer út læt ég alltaf vita um ferðir mínar. Ég fer
ekki út á kvöldin og gæti ekki hugsað mér að vera ein á
göngu niðri í bæ,“ segir hún. Maðurinn sé í fangelsi
núna, en hver veit nema honum verði sleppt snemma?
„Og verð ég látin vita ef honum verður sleppt úr fang-
elsi?“ spyr konan.
Hún segist hissa á því að á Íslandi sé ekki haldin sér-
stök skrá yfir kynferðisbrotamenn, líkt og þekkist sums
staðar erlendis. Slíkar skrár hjálpi yfirvöldum að bregð-
ast við brjóti menn, sem eru á skránni, aftur af sér.
Þá þurfi meiri umfjöllun í samfélaginu um þann alvar-
lega glæp sem nauðganir eru. Ekki sé nóg að benda á
þetta árlega, í tengslum við verslunarmannahelgi, held-
ur þurfi áróðurinn að vera stöðugur.
Fórnarlömbin hefðu ekki orðið fleiri ef
lögreglan hefði strax tekið á málinu
Ofbeldi „Hann hótaði mér stöðugt með því að ég yrði rekin úr landi,“ segir konan sem ítrekað mátti þola gróft lík-
amlegt og andlegt ofbeldi. Hún var barin og henni var nauðgað. Í eitt skipti var henni haldið fanginni í 4 daga.