Morgunblaðið - 10.03.2008, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 10.03.2008, Blaðsíða 18
fjármál fjölskyldunnar 18 MÁNUDAGUR 10. MARS 2008 MORGUNBLAÐIÐ Ég spara mér heilmikla peninga áþví að vera enn í fríu fæði oghúsnæði á Hótel mönmu og unihag mínum því nokkuð vel. Ég er alla vega ekkert á förum úr foreldrahúsum í bráð enda eru enn rúm tvö ár í BA- útskriftina. Eftir það er ómögulegt að spá fyrir um hvað muni gerast, en draumurinn snýst um að halda út í heim með myndavél- ina mína um hálsinn og læra fleiri tungu- mál enda er ég algjört tungumálafrík,“ segir Alda Jónsdóttir, 19 ára enskunemi á fyrsta ári við Háskóla Íslands. Auk íslensku og ensku hefur Alda lært frönsku, þýsku, sænsku og ítölsku, skilur spænsku og hefur grunn í japönsku og latínu. 30 þúsund í vasapening Alda útskrifaðist í fyrravor af máladeild MH og segist nú sem „fátækur“ náms- maður hafa nokkrar gullnar reglur í há- vegum til að komast af. „Fyrir utan það að búa enn heima og borða þar frítt fer ég allra minna ferða í strætó, þrátt fyrir að vera með bílpróf. Foreldrarnir lána mér þó stöku sinnum fjölskyldubílinn ef hann er ekki í notkun og stundum hef ég átt það til að sauma á mig föt. Annars eru góð efni orðin svo dýr að saumaskapurinn borgar sig varla lengur. Svo vinn ég tvisvar í viku, fjóra tíma í senn, í dægradvöl Langholts- skóla við að passa börn eftir að skólatíma þeirra lýkur. Fyrir það fæ ég útborgað um 30 þúsund krónur á mánuði sem þarf að duga mér sem vasapeningur fram á vor þar sem sumarhýran úr Borgarbókasafninu dugði ekki nema fram að jólum. Hún hefði þó dugað aðeins lengur ef ég hefði bara munað eftir því að taka með í reikninginn 40 þúsund króna skólagjöld í HÍ. Svo reyni ég að forðast allar lánastofnanir eins og heitan eldinn á meðan ég get, ef undan eru skilin skammtímalán hjá mömmu,“ segir Alda. Fullt fólk er frekar leiðinlegt Þegar Alda er spurð í hvað vasapening- urinn fari, svarar hún því til að hún sé af- skaplega lítið fyrir bíóferðir og því síður fyrir ballferðir. „Ég hef voðalega lítinn áhuga á skemmtanalífinu enda líður mér frekar asnalega í margmenni. Ég drekk ekki áfengi og finnst ekkert gaman að vera edrú innan um fullt fólk. Ég fæ hinsvegar meira út úr því að hanga með vinunum yfir spjalli, spilum, leikjum og myndum og svo er alltaf gaman að fara stöku sinnum sam- an út að borða.“ Alda segist vera þess fullviss að hún yrði að borga heim ef hún væri í fullri vinnu og ekki í skóla. „En á meðan ég er að mennta mig, styðja foreldrarnir við bakið á mér og á meðan kvarta ég ekki vitund. Tilhugsunin um að búa til sér heimili annars staðar er þó vissulega spennandi þegar rétti tíminn skapast. En þá þyrfti ég nú aldeilis að fara að hugsa um sparnað af einhverri alvöru,“ segir Alda og bætir að lokum við að hún sé nú á leið til Lundúna í innkaupaleiðangur og upplyftingu frá skólabókunum. „Föt eru alltof dýr á Íslandi svo ég vonast til að geta nýtt tækifærið í stórborginni enda hef ég gaman af fötum.“ Frítt fæði og húsnæði á Hótel mömmu Morgunblaðið/Golli Heimasætan „Ég hef voðalega lítinn áhuga á skemmtanalífinu enda líður mér frekar asna- lega í margmenni," segir Alda Jónsdóttir. Alda Jónsdóttir Mér hefur í reynd aldrei fundist ég verajafnrík og einmitt núna,“ segir Berg-þóra Snæbjörnsdóttir, 23 ára sál- fræðinemi við HÍ, sem uppalin er á sveitabæn- um Úlfljótsvatni í Grafningi, en leigir nú einstaklingsíbúð á Stúdentagörðunum. Af 140 þúsund krónum sem hún hefur úr að spila í hverjum mánuði með námsláni og 40% vinnu með námi fara 55 þúsund krónur í leigu. Eftir standa 85 þúsund krónur eða 50 þúsundum meira en mánaðarlegt ráðstöfunarfé fyrra árs var. „Langflestir stúdentar neyðast til að vinna með námi, sem er óþolandi. Ég reyni þó að eyða ekki of miklu í daglegt líf, en þegar ég eyði taka upphæðirnar gjarnan stökk upp á við. Ég fór t.d. í vinkonuferð til Berlínar í janúar og er enn að súpa seyðið af því ævintýri.“ Bergþóra hefur ýmis sparnaðarráð í hand- raðanum. „Í fyrsta og langmikilvægasta lagi á ég ekki bíl. Ég bý í miðborginni og get því farið á tveimur jafnfljótum, með strætó eða á reið- hjólinu sem mamma lánaði mér allra minna ferða. Auk sparnaðarins er þessi ferðamáti bæði umhverfisvænni og heilsuvænni en notkun eigin bifreiðar. Í öðru lagi ber að vanda vinavalið og hef ég að yfirlögðu ráði valið mér vini úr röðum tískumó- gúla, saumakvenna og barþjóna. Ég hef mikinn hag af þessum vinum mínum því aldrei þarf ég að eyða peningunum mínum í dýra árshátíð- arkjóla. Ég fæ þess í stað að róta í fataskápum efnameiri vinkvenna eða fæ flinkar saumakonur í vinkonuhópnum til að breyta gömlu kjólunum mínum í fínustu balldress og þannig get ég gengið um í sérsaumuðum flíkum. Sjálf er ég nefnilega með tíu þumalputta þeg- ar kemur að saumaskap. Nú vantar mig bara hæfileikaríkan hárgreiðslunema í vinahópinn og þá verður búið að hnýta alla hnúta er varða út- litsleg útgjöld. Þar sem ég bý í miðborginni er ég nánast með skemmtistaði borgarinnar í bak- garðinum sem er ekki slæmt því ég hef einkar gaman af því að kíkja út á lífið. Nauðsynlegt er þó að hefja pöbbaröltið í heimahúsi því drykkir á barnum eru alltof dýrir fyrir fátæka námsmenn. Svo þegar á barinn er komið er bráðnauðsynlegt að þekkja barþjóna sem leyfa manni að njóta góðs af geri þeir mistök við blöndun drykkja,“ segir Bergþóra. Kaffi á brúsa og ódýrt álegg Er talið berst að heimilisrekstrinum svarar Bergþóra því til að hún kaupi aldrei kjötmeti þrátt fyrir að vera ekki grænmetisæta. „Kjöt er bara alltof dýrt og brauðost kaupi ég bara sem munaðarvöru. Hreinn rjómaostur og smurostar eru mun ódýrari sem álegg. Hrökkbrauð er oftar keypt en brauð, en rati brauð í innkaupakörfuna er það að sjálfsögðu geymt í frysti og sneið stungið í ristina þegar hungrið sverfur að. Að sjálfsögðu kaupi ég allt mitt góss í lág- gjaldaverslunum og klósettpappírinn er keyptur í stórum einingum af félagasamtökum svo ég losni við þann niðurlægjandi verknað að bera hann undir hendinni niður Hverfisgötuna. Mér varð svo að ósk minni um jólin er ég fékk kaffivél í jólagjöf frá mínum elskulegu for- eldrum. Nú get ég því tekið heimalagað kaffi með mér á brúsa í skólann og boðið vinum heim í kaffi frekar en að fara á kaffihús. Í því felst viss sparnaður,“ segir Bergþóra. Nauðsynlegasta fatnað segist Bergþóra aðal- lega kaupa hjá Hjálpræðishernum eða í Rauða- krossbúðinni. „Í þessum búðum kaupi ég skyrt- ur, sjöl, yfirhafnir og skó enda finnst mér skemmtilegt að vera í fötum sem enginn annar á og ekki skemmir verðlagið. “ Morgunblaðið/Frikki Sveitastúlkan „Nú vantar mig bara hæfileikaríkan hárgreiðslunema í vinahópinn og þá verður búið að hnýta alla hnúta er varða útlitsleg útgjöld,“ segir Bergþóra Snæbjörnsdóttir. Vandar vinavalið Bergþóra Snæbjörnsdóttir Það er engin meðvituð sparn-aðaráætlun í gangi á okkarheimili. Við erum hins veg-ar mjög meðvituð um fjár- málin og peningastöðuna enda eru fasteignakaup fyrirhuguð fljótlega. Helst myndum við kjósa áframhald- andi búsetu í Vesturbænum, en það heillar líka að flytjast á ný til Kefla- víkur í ljósi verðlags á fasteignum. Þar áttum við íbúð, sem við seldum þegar við fengum inni á Stúd- entagörðunum haustið 2003,“ segir Sigurður Þorsteinn Þorsteinsson, sem útskrifast sem sálfræðingur frá HÍ í vor. Sambýliskona hans til tíu ára, Rannveig Sigríður Ragnarsdóttir, útskrifast með BA í félagsráðgjöf að ári liðnu. Þau eiga tvo syni, Ragnar Snæ, sex ára nemanda í Melaskóla, og Andra Stein, þriggja ára leik- skólastrák á Sæborg. Með námi starfar Sigurður nú sem þjálfari hjá Badmintonfélagi Hafnarfjarðar og Rannveig er aðstoðarmaður kennara við HÍ. „Og svo vinnum við auðvitað á sumrin eins mikið og við getum. Þetta púsluspil krefst góðrar samvinnu og er spurning um gott skipulag. Drengirnir okkar hafa þó algjöran forgang. Lánasjóður íslenskra námsmanna er okkar aðal-tekjulind og því gæti það hjálpað mörgum námsmanninum að fá hluta af láninu sem styrk. Mánaðarleg útgjöld eru breytileg, en helstu póstarnir snúast um leigu, mat, tryggingar, leik- skólagjöld og frístundaheimilið. Skólagjöldin greiðast svo árlega og gera þarf ráð fyrir skólabókakostn- aði tvisvar á ári,“ segir Sigurður og bætir við að fjölskyldan leyfi sér fremur lítinn munað í daglegu lífi. „Við erum náttúrlega búin að ganga í gegnum núðlutímatímabilið svo- kallaða sem gengur út á 101 aðferð til að elda núðlur. Við erum ekki með óþarfa fjölmiðlaáskriftir, förum að- eins í barnabíó með strákana okkar og verslum ósjaldan matvöru á til- boðum enda er Rannveig með rönt- genaugu er kemur að því að þefa upp tilboð. Jólapakkarnir voru svo afgreiddir er leikfangaverslunin To- ys’R’Us opnaði á Íslandi sem kostaði þó nokkra bið í biðröð.“ Góðir hlutir gerast hægt Sigurður ráðleggur ungu fólki að temja sér þolinmæði í lífsgæðakapp- hlaupinu því góðir hlutir gerist hægt. „Fólk þarf ekki að eignast allt í einu. Geri menn sér grein fyrir því að raunhæf markmið taka sinn tíma eru þeir betur undir það búnir að neita sér um skammtíma ávinninga gegn langtíma ávinningum síðar. Oft og tíðum hefur þetta púsluspil verið erfitt fjárhagslega, tímalega og tilfinningalega,“ segir Sigurður. „Eftir stúdentspróf fórum við bæði að vinna, keyptum okkur íbúð og nýjan bíl, en draumurinn um frekari menntun blundaði svo í okkur báð- um,“ segir Sigurður, sem hóf sitt nám 26 ára gamall og Rannveig 29 ára gömul eftir fæðingu yngri son- arins. „Alla tíð hef ég unnið með skóla og Rannveig verið meira í því hlutverki að halda heimilinu gang- andi. Það er vel hægt að fá púslið til að ganga upp sé maður tilbúinn að leggja mikið á sig og samkomulag er um verkaskiptingu á heimilinu enda erum við bæði að afla okkur mennt- unar, sem ef til vill ávaxtar sig betur en margt annað þegar til framtíðar er litið.“ Með góðum vilja gengur púslið Morgunblaðið/Árni Sæberg Fjölskyldan „Púslið gengur upp með góðum vilja og góðri verkaskipt- ingu,“ segir Sigurður Þ. Þorsteinsson, sem hér er ásamt sambýliskonu sinni Rannveigu S.Ragnarsdóttur og sonunum Ragnari Snæ og Andra Steini. Sigurður Þorsteinn Þorsteinsson og Rannveig Sigríður Ragnarsdóttir Ekki má kasta krónunni í tóman óþarfa Þarfir fólks eru misjafnar og mörgum manninum reynist það ærið verkefni að ná endum saman frá mánuði til mánaðar í allri dýrtíðinni á Íslandi. Það á ekki síst við um ungt fólk, sem er að feta sig menntabrautina til framtíðar fyrir sig og sína. Jóhanna Ingvarsdóttir leitaði til háskólanema sem búa við mismunandi aðstæður og spurði um sparnaðarráð til að púsla heimilisbókhaldinu í plús.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.