Morgunblaðið - 01.10.2008, Qupperneq 14
14 MIÐVIKUDAGUR 1. OKTÓBER 2008 MORGUNBLAÐIÐ
Eftir Bjarna Ólafsson
bjarni@mbl.is
ENN bættist í hóp þeirra erlendu
banka sem leitað hafa aðstoðar yf-
irvalda, en fransk-belgíski bankinn
Dexia fékk aðstoð stjórnvalda í Belg-
íu, Frakklandi og Lúxemborg í gær.
Hafði gengi bréfa bankans hrunið
um 30% á mánudag, en fréttir af því
að hlutafé bankans verði aukið um
6,4 milljarða evra (um 930 milljarða
króna) hífðu gengi bankans upp um
6% í gær. Munu ríkissjóðir landanna,
ásamt nokkrum stofnanafjárfestum
þar með eignast 30% í bankanum.
Í Wall Street Journal er eignasafn
Dexia sagt gott, en dótturfélag bank-
ans, FSA, er illa statt vegna húsnæð-
islánamarkaðarins bandaríska. Eftir
því sem vanskil á húsnæðislánum
hafa aukist hafa fjárfestar haft aukn-
ar áhyggjur af því að bankinn gæti
staðið við skuldbindingar sínar.
Fórnarlamb markaðskvíða
Forstjóri Dexia, Axel Miller, segir
bankann fórnarlamb markaðskvíða,
sem eigi sér ekki fordæmi. Segir
hann að vitað hafi verið að þessi vika
yrði bankanum erfið vegna þess orð-
róms sem gekk um að Dexia yrði
næsti banki sem færi í þrot. Hluta-
fjáraukningin nú muni gefa bankan-
um ráðrúm til að afla sér fjármagns
með öðrum leiðum.
Eftir aukninguna er lausafjár-
staða Dexia með því besta sem gerist
meðal evrópskra banka en sérfræð-
ingar segja þó að hann sé ekki enn
óhultur. Enn megi búast við afskrift-
um vegna eignasafns FSA.
Enn einn
bankinn
fær hjálp
Yfirvöld veita fjár-
magn inn í Dexia
Reuters
Laust fé Lausafjárstaða Dexia þyk-
ir góð eftir inngrip stjórnvalda.
Eftir Björn Jóhann Björnsson
bjb@mbl.is
STARFSFÓLKI fjármálafyrirtækja
hér á landi hefur fækkað um 650 frá
áramótum, þar af um nærri 500 hjá
bönkum og sparisjóðum og öðrum
fyrirtækjum sem hafa félagsmenn
Samtaka starfsmanna fjármálafyr-
irtækja, SSF, innan sinna raða. Eru
þá ótaldir starfsmenn íslensku bank-
anna erlendis sem hafa hætt á árinu
eða verið sagt upp.
Samkvæmt þessum gróflega áætl-
uðu tölum frá SSF hefur það ræst nú
þegar sem fram kom í frétt Agnesar
Bragadóttur í Morgunblaðinu 9. jan-
úar síðastliðinn, að stöðugildum hjá
íslenskum fjármálafyrirtækjum
myndi fækka um nærri 650, eða um
sama fjölda og bættist við í fjár-
málageiranum árið 2007. Var þessari
frétt harðlega mótmælt af sumum
talsmanna bankanna, sem töldu töl-
una vera fjarri lagi. Annað hefur
komið á daginn.
Samrunar vekja ugg
Friðbert Traustason, formaður og
framkvæmdastjóri SSF, segir
bankamenn vera uggandi um sinn
hag þessa dagana. „Fólk er hissa,
skelkað og dofið,“ segir hann um
andrúmsloftið. „Við vitum jafn lítið
og almenningur hvað er að gerast og
fólk sér að það er verið að leika sér
að fjöregginu þeirra.“
Friðbert segir umræður um
mögulegan samruna Landsbankans
og Glitnis vekja sérstakan ugg, en
hjá þeim bönkum starfa samanlagt
um 2.500 manns hér á landi. Verði af
þeim samruna segir Friðbert ljóst að
ekki verði áfram 2.500 störf í boði.
Einnig séu uppi hugmyndir um frek-
ari samruna sparisjóða en milli
SPRON, Byrs og Kaupþings.
Að sögn Friðberts hefur fækkað
um nærri 500 manns hjá bönkum og
fjármálafyrirtækjum sem eru með
félagsmenn SSF í vinnu. Einhverjir
þeirra eru þó enn starfandi á upp-
sagnarfresti. Nú séu um 5.000
manns að störfum en voru um 5.500
um síðustu áramót. Telur Friðbert
þá með bæði uppsagnir og starfs-
lokasamninga. Ótaldir eru þá þeir
starfsmenn annarra fjármálafyr-
irtækja sem ekki eru í samtökunum
en hafa misst vinnuna, eins og hjá
Straumi, Stoðum, VBS Fjárfestinga-
banka, Exista og Askar Capital. Hjá
þessum fyrirtækjum og fleirum gæti
starfsmönnum hafa fækkað um 100-
150 á árinu, eða samanlagt í fjár-
málageiranum um 650 manns.
Bendir Friðbert á að þetta séu
ekki nákvæmar tölur þar sem erf-
iðlega gangi að fá upplýsingar frá
bönkunum um uppsagnir eða starfs-
lok. Undantekningin í þeim efnum sé
þó Glitnir, aðrir bankar hafi reynt að
fegra og fela hlutina.
„Þetta er mikil blóðtaka. Í mörg-
um tilvikum er um fyrirvinnur að
ræða, yfirleitt yngra fólk sem ný-
komið er úr námi og búið að stofna
fjölskyldu. Holskefla þeirra sem eru
með lengri uppsagnarfrest er ekki
komin fram, en eldri bankamönnum
hefur gengið illa að finna önnur
störf. Til þessa hefur aðallega yngra
fólk verið að hætta og því hefur í
sjálfu sér gengið ótrúlega vel að
finna ný störf. En það gæti breyst ef
bönkunum tekst ekki að sinna því
hlutverki að miðla peningum til fyr-
irtækja og einstaklinga í landinu. Þá
stefnir hraðar í alvarlegt atvinnu-
leysi,“ segir Friðbert.
Hann átelur jafnframt forsvars-
menn fjármálafyrirtækja fyrir upp-
lýsingagjöf. Nú sé ljóst að lítið sé að
marka hana oft á tíðum. Hér eftir sé
réttara að taka því með varúð þegar
stjórnendur bankanna segja „allt
vera í himnalagi“.
Morgunblaðið/Golli
„Skelkað og dofið“
Starfsmönnum fjármálafyrirtækja hefur fækkað um 650 hér á landi á árinu
Formaður SSF óttast afleiðingar frekari samruna fyrir bankastarfsmenn
!
"
#
$%!
! &
GUÐJÓN Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka
fjármálafyrirtækja, segir það skiljanlegt að banka-
starfsmenn velti fyrir sér sinni stöðu. Miklar breyt-
ingar hafi orðið á íslenskum bankamarkaði á und-
anförnum árum og hann haldi áfram að þróast hér á
landi sem annars staðar. „Við erum meðvituð um að
íslenskur fjármálamarkaður er ekki kominn á enda-
stöð,“ segir Guðjón.
Hann segir að á þessu ári hafi orðið miklar hrær-
ingar hjá minni fjármálafyrirtækjum þegar fór að
kreppa að og lánsfjármögnun varð erfiðari. Síðan hafi einn af stóru
bönkunum lent í hremmingum og það sé óþægilegt fyrir alla. Mik-
ilvægast sé þó hve skjótt hafi verið gripið inn í og skýr skilaboð send
til almennings um að ríkið standi þétt á bak við fjármálakerfið á Ís-
landi.
Ekki kominn á endastöð
HÁTT í fimm þúsund manns
starfa hjá íslenskum fjármálafyr-
irtækjum og tengdum félögum er-
lendis, langflestir hjá stóru við-
skiptabönkunum Landsbanka,
Kaupþingi og Glitni.
Samkvæmt upplýsingum frá
Landsbankanum fjölgaði stöðu-
gildum erlendis um 56 frá ára-
mótum til 30. júní sl., eða úr
1.180 í 1.236. Á sama tíma fækk-
aði stöðugildum hér á landi um
sex, úr 1.460 manns í 1.454. Ekki
verður upplýst um þróunina á
þriðja ársfjórðungi fyrr en við
birtingu uppgjörs 4. nóvember
næstkomandi.
Hjá Glitni starfa nú um þúsund
manns erlendis og hefur fækkað
um nærri 100 frá áramótum.
Svipuð fækkun hefur átt sér stað
hjá Kaupþingi, flestir í Bretlandi,
en erlendis starfa hjá bankanum
um 2.100 manns.
Fjölgun hjá Landsbankanum erlendis
Fallvaltir fjármálarisar
Eftir Björgvin Guðmundsson
og Þorbjörn Þórðarson
„ÞETTA ER fjandsamleg leið sem Seðla-
bankinn valdi að fara. Það er hreinlega verið
að stela af hluthöfum. Þetta er opinbert rán,“
segir Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórn-
arformaður Baugs og aðaleigandi Glitnis.
Hann segist hafa varað við því að leita til
Seðlabankans eftir aðstoð. „Ég sagði að það
yrði feigðarför. Það kom svo á daginn.“ Mat
sitt byggði hann á fyrri samskiptum sínum
við Davíð Oddsson seðlabankastjóra.
Dýrið króað af úti í horni
Einn stór hluthafi í Glitni sagði að þegar
„búið væri að króa dýrið af úti í horni biti
það frá sér“. Greinilega á að finna aðrar leið-
ir en Seðlabankinn valdi.
Telja hluthafar sem rætt
var við í gær mögulegt að
selja starfsemi Glitnis í
Noregi. Það sé til skoð-
unar. Aðrir segja þetta
sett fram til að rugla um-
ræðuna. Ákvörðunin í
fyrradag standi.
Jón Ásgeir segir nið-
urstöðuna sem nú liggi
fyrir vonda fyrir hluthafa,
fjármálakerfið í heild og um leið allan al-
menning. Það hafi meðal annars sýnt sig í
gær þegar lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs og
fjármálafyrirtækja voru lækkaðar. Það geti
haft víðtæk áhrif.
Aðrir hluthafar segja að þetta geti haft
mikla keðjuverkun inn í bankakerfið ef
margir verði gjaldþrota. Afleiðingarnar geti
orðið verri en margir geri sér grein fyrir.
Óvissa um viðsemjanda
Sigurður G. Guðjónsson, hæstarétt-
arlögmaður og stjórnarmaður í Glitni, segir
að stjórn Glitnis hafi verið stillt upp við vegg
í samskiptum við Seðlabankann.
„Menn höfðu enga valkosti og þegar
stjórnin var að samþykkja þetta var klukkan
orðin níu að morgni, formaður bankastjórnar
var búinn að boða til blaðamannafundar og
ókyrrð komin á markaðinn,“ segir Sigurður.
Hann segir að Fjármálaeftirlitið hafi tilkynnt
stjórninni að viðskipti með bréf í Glitni yrðu
stöðvuð.
Sigurður gagnrýnir vinnubrögð Seðlabank-
ans í þessu máli. „Þeir höfðu ekki einu sinni
fyrir því að gera tilboðið skriflega. Lögfræð-
ingar stjórnarinnar og stjórnarformaður
þurftu að koma á fund stjórnarinnar með
munnlegt tilboð. Í 84 milljarða króna samn-
ingi hlýtur það að hljóma nokkuð ein-
kennilega.“
Hann segir að stjórnin hafi rætt þetta
fram og til baka fram undir morgun. „Til
þess að fá samþykki stóru hluthafanna feng-
um við alveg að vita að þeir voru ekki sáttir
við þessa gerð stjórnarinnar.“
Sigurður segir að verið sé að leita eftir
samkomulagi um aðrar aðgerðir núna. Stoðir
séu í greiðslustöðvun og ef tilboð í Glitni ber-
ist frá öðrum kaupanda hvíli sú skylda á að-
stoðarmanni fyrirtækisins í greiðslustöðv-
uninni að taka það til skoðunar.
Skoða sölu á eignum Glitnis í Noregi
Sigurður G. Guðjónsson segir að ekkert skriflegt tilboð hafi verið gert í 84 milljarða kr. viðskiptum
Jón Ásgeir Jóhannesson segist hafa sagt að ferð í Seðlabankann yrði feigðarför sem reyndist rétt
Jón Ásgeir
Jóhannesson