Morgunblaðið - 24.11.2008, Blaðsíða 21

Morgunblaðið - 24.11.2008, Blaðsíða 21
Umræðan 21 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 24. NÓVEMBER 2008 Morgunblaðinu hefur borist mikill fjöldi greina og pistla frá lesendum um ástandið í efnahagsmálum landsins. Margir höfundar lýsa áhyggjum sínum af þróun mála og margir gera tillögur um leiðir út úr efnahagsvanda þjóð- arinnar. Morgunblaðið leggur áherslu á að gera þessum umræðum góð skil í blaðinu á næstunni. Skoðanir fólksins Pólitík og banka- viðskipti eiga ekki saman að mínu mati. Það eiga að vera fagmenn sem stjórna bönkum og þeir eiga að taka ákvarðanir, t.d. um lán, á grundvelli faglegra upplýsinga en ekki tengsla við stjórnmálaflokka.’ Frjálshyggja hefur vaxið á Íslandi síðustu áratugina. Það hvernig hún hefur feng- ið að síast inn í þjóðarsálina sést vel í sívaxandi ein- staklingshyggju, takmarka- lausum ójöfnuði og sundr- ungu í samfélaginu. Þetta er ekkert skrítið þegar mark- mið frjálshyggju eru höfð í huga og það að frjálshyggja hafnar því að einka- fyrirtæki, svo sem bankarnir, beri samfélags- lega ábyrgð. Samkvæmt frjálshyggju bera stjórnendur einkafyrirtækja eina og aðeins eina ábyrgð. Þeim er ætlað að nýta auðlindir, svo sem vinnu- afl fólks, aflaheimildir, gufuafl og vatnsafl, og vinna að auknum gróða hluthafa í samkeppni sem kölluð er opin og frjáls. Frjálshyggjumenn skynja sig í tilverunni innan um eintóma keppi- nauta og í samkeppni sem gengur út á að kné- setja þá. Markmiðið er að ná sem mestu til sín af verðmætasköpun starfsfólks, af við- skiptavinum og af auðlindum. Þetta hefur margvíslegar og alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið, sem bankahrunið er augljóst dæmi um. Það er ekkert að því að menn hagnist vel í viðskiptum. Viðskipti eru ágætur samskipta- máti fólks. Það er bara allt annað mál þegar það verður sjálfur tilgangur lífsins að hafa sem mest af öðrum og koma þeim á kné. Óásættanlegt að fólk með þann tilgang fái að ráðskast með af- komu og framtíð þjóðarinnar. Mörg okkar skilja lítið í því hvernig „verð- mæti“ voru búin til með pappírum, reikni- kúnstum og línuritum. Eða hvernig skuldir okk- ar vaxa og eignir minnka þó við borgum og borgum. Þetta á auðvitað ekkert skylt við skyn- semi. En samt ekkert skrítið, þetta er frjáls- hyggjan að verki. Við getum þakkað fyrir að upp komst um óráðsíu íslensku frjálshyggjunnar. Betra er að spilaborgin hrundi núna, áður en hún fékk að stækka meira. Frjálshyggja gefur lítið fyrir góð gildi í mannlífinu, svo sem réttlæti, sanngirni og mannúð, nema þau skili hagnaði. Frjáls- hyggjumenn hugsa: „Hvað fæ ég út úr því?“ Náungakærleik og samhjálp skilja þeir illa. Frjálshyggjumenn reyna að koma óorði á fólk sem gagnrýnir þá, kalla þá komma eða fúla á móti. Látum þá ekki sleppa þannig. Það er firra að halda að allir verði að vera jafnir. Hitt er enn galnara hjá frjálshyggjumönnum að vinna blákalt að hámarks-ójöfnuði með tilheyr- andi óhamingju. Í Sjálfstæðisflokknum náðu frjálshyggju- menn völdum. Þeir stýrðu ríkisstjórn landsins undanfarna tvo áratugi með stuðningi annarra flokka. Ábyrgir sjálfstæðismenn, heiðursmenn og alþýðusinnar, urðu að víkja fyrir þeim í flokknum. Eftir bankasölur urðu fram- kvæmdavald og Alþingi máttvana gagnvart frjálshyggjumönnum sem fóru sínu fram og söfnuðu stórskuldum sem þeir virðast ekki ætla að borga. Ofurlaun, kaupréttur, sjóðasukk, háir vextir, okur, gjafakvóti, einkavinavæðing, kennitöluf- lakk og álíka er allt í anda frjálshyggjumanna. „Þetta er bara bisness, ekkert persónulegt,“ segja þeir, „siðlaust en löglegt og málið dautt.“ Þeir telja það vera eðli mannsins að mikill vilji sífellt meira og sé sjálfum sér næstur. Þeir vilja láta lögsækja stjórnendur fyrirtækja fyrir hönd hluthafa eða láta reka þá taki þeir fé- lagslega ábyrgð í rekstri. Þeir ráðleggja að verkafólki sé greitt sem minnst fyrir að fram- leiða afurðir sem selja skal sem dýrast. Þeir velta eins miklum kostnaði, vöxtum og þjón- ustugjöldum yfir á almenning og þeir komast upp með. Þeim þykir sjálfsagt að geyma hagnað héðan í útlöndum þó að það sárvanti gjaldeyri til landsins, fjármagn til atvinnurekstrar, o.s.frv. Allt í samræmi við kenninguna, en mörgum of- býður. Sagt er að á Íslandi hafi frjálshyggja gengið lengra út í öfgar en Bandaríkjunum. Banda- ríkjamenn þekkja afleiðingarnar mun betur en við. Alríkislögregla þeirra áætlar að götuglæpir kosti þjóðfélagið 3,8 milljarða dala á ári eða um 500 milljarða króna. Fjársvik fyrirtækja kosta mun meira. Svindl í heilbrigðiskerfinu kostar 100-400 milljarða dala á ári. Svik eru langmest í sparifjár- og lánastarfsemi, 300-500 milljarðar dala eða 40.000 til 65.000 milljarðar króna. Það teljast stærstu hvítflibbasvik sögunnar. Ríkisstjórn Íslands er að byrja að rannsaka bankahrunið. „Við viljum grafast fyrir um or- sakirnar fyrir þessu, hvort það hafi verið gerð mistök af hálfu einhverra á leiðinni …“ segir forsætisráðherra (Mbl. 08.11.08). Við vitum vel að mistök voru gerð og að það sem þarf að rann- saka er miklu alvarlegra, það er hvort glæpir voru framdir. Frjálshyggjumenn ætla að græða á nýrri bankasölu. Þeir segja okkur hafa um tvennt að velja, óhefta frjálshyggju eða gamaldags rík- isbanka. Það er ekki rétt. Við höfum betri val- kosti. Tryggjum að bankar þjóni almannahag, skuldsetji fólk ekki illa eða misfari með sparifé. Verjum lífeyrissjóðina sem frjálshyggjumenn ásælast líka. Við getum gert okkar góða samfélag betra. Gerum upp við frjálshyggjuna. Virkjum lýðræð- ið. Berum höfuðið hátt. Skömmumst okkar ekki fyrir það sem frjálshyggjumenn ættu að skammast sín fyrir. Fáum fólki ábyrgð sem veldur henni af heiðarleika og samviskusemi. Fólki sem ann landi og þjóð. Vörumst siðleysið. Tryggjum það að við þurfum aldrei aftur að betla lán í útlöndum. Frjálshyggja og ábyrgð Gunnar Hrafn Birgisson, sálfræðingur. RÉTT eins og um það bil 4.000 aðrir Íslendingar stóð ég á Austurvelli síðastliðinn laugardag og rétt eins og um það bil 4.000 aðrir Íslendingar krafðist ég þess að núverandi ríkisstjórn viki frá og boðað yrði til kosninga fljótlega, helst í vor, en fyrst og fremst krafðist ég þess, ásamt hinum 4.000, að þögnin yrði rofin og að lygarnar enduðu, ég krafð- ist þess að búa í spillingarlausu landi. Enn er þessum kröf- um ósvarað, ríkisstjórnin situr sem fastast og segir það frá- leitt að boða til kosninga og þögnin er alger, að undanskildum lygunum og innihaldslausu hjalinu. Spill- ingin ríkir enn. Þess vegna er ég reiður, rétt eins og þeir 4.000 sem saman komu á Aust- urvelli og rétt eins og tugir, ef ekki hundruð, þúsunda sem ekki komu á Aust- urvöll. Þessi reiði sem stærsti hluti þjóðarinnar finnur fyrir er góð, hún getur verið það eldsneyti sem knýr fram breytingar. Hins vegar hafa sumir sagt að nú sé ekki tíminn til að vera reiður, að nú sé tíminn til að standa saman. Þeir sem segja það rugla saman reiði og ofsa, því sameiginleg reiði þjóðarinnar hvet- ur hana tvímælalaust til að snúa bökum saman og berjast fyrir réttindum sín- um, á meðan stjórnlaus ofsinn getur vissulega leitt til upplausnar og ofbeldis. Reiðin sem brennur á þjóðinni er svo sterk að hún varð nánast áþreifanleg þar sem ég stóð ásamt 4.000 öðrum reiðum Íslendingum á Austurvelli. Kröfur þessa reiða hóps eru skynsamlegar og réttmætar, en því miður fór svo að fjöl- miðlar sáu ekki þennan hóp á Austurvelli síðastliðinn laugardag, þeir sáu bara nokkra tugi einstaklinga sem hentu eggjum á Alþingishúsið. Ég skil mjög vel þann ofsa sem leiddi til þess að eggin og skyrið fengu að fjúka á Alþingi, en hins vegar skil ég alls ekki hvernig það varð að stærsta viðburði þessa laugardags. Kannski er gamla steinhúsið orðið svo veikburða að það þolir ekki lengur árásir mjólkurafurða, eða kannski eru fjölmiðlar og ráðamenn einfaldlega hræddir við það sem gerðist í raun og veru þennan dag. Raunverulega fréttin var sú að þjóðin stendur nú þétt saman og gegn ríkisstjórninni sem er nú rúin öllu trausti og bersýnilega algerlega óhæf um að hrinda í framkvæmd þeim breytingum sem eru þjóðinni nauðsynlegar. Sem betur fer hefur fólkið sjálft hrint af stað mikilvægum breytingum á sam- félaginu. Allt of lengi hefur íslensk þjóð trúað því að mótmæli séu hallærisleg og tilgangslaus, að þau hafi engin áhrif. Allt of lengi hafa íslensk stjórnvöld hunsað rödd fólksins, alveg þar til korter fyrir kosningar og alið þjóðina á þeirri lygi að einungis hinir fáu útvöldu með rétt flokksskírteini og rétta vini séu hæfir til að stýra landinu. Mótmæli eru ekki hallærisleg. Mótmæli eru ekki tilgangs- laus. Mótmæli eru vopn og verkfæri fólksins til að veita ríkisstjórnum sínum aðhald, til að gefa þeim fyrirmæli. Það er því ekki bara réttur okkar að mótmæla þegar okkur ofbýður fram- koma ríkisstjórnarinnar. Það er hrein og klár skylda okkar allra, sem íslenskir ríkisborgarar, að mótmæla. Öll borgaraleg óhlýðni er ekki einungis réttlæt- anleg, hún er réttmæt og beinlínis nauðsynleg. Þetta er okkar land, ekki land hinna spilltu og hrokafullu sem virðast samvaxnir ráðherrastólum sínum. Við erum lýðurinn sem ræður í þessu svokallaða lýðræði. Það má nefnilega aldrei gleymast að þetta er okkar ríkisstjórn. Steinhúsið sem þurfti að þola hádegisverðarskothríðina geigvænlegu er okkar hús. Alþing- ið tilheyrir fólkinu, ekki hinum fáu útvöldu, og Alþingismenn og ríkisstjórnin eru starfsmenn hjá okkur. Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði nýverið við helstu fjölmiðla landsins að Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, ætti ekki að láta uppi skoðanir á því hvernig ríkisstjórnin væri samsett, en Geir hefur rangt fyrir sér. Það væri Geir H. Haarde forsætisráðherra hollt að muna að hann er í vinnu hjá íslensku þjóðinni, þar á meðal forseta ASÍ. Það erum við, þessi 4.000 á Austurvelli og öll hin þús- undin sem heima sátu, sem erum yfirmenn Geirs og ríkisstjórnar hans, ekki öf- ugt, og við ætlum ekki að halda óhæfum starfsmönnum lengur í vinnu. Það er jú eftir allt saman kreppa. Virkt lýðræði? Kjartan Yngvi Björnsson, námsmaður við Háskóla Íslands. LJÓST er að Íslendingar munu eiga mikið verk framundan við að byggja upp land, þjóð og orðspor næstu árin. Traust íslenskra stjórnvalda er lítið sem ekkert og eru orð ráðamanna tek- in með miklum fyrirvara og tæplega talin trúandi. Mörgu þarf að breyta á Íslandi á næstu árum, efnahagsstjórn- inni meðal annars. Ég tel einnig mik- ilvægt að ný viðhorf ryðji sér til rúms í stjórnmálum. Nú þarf ný kynslóð stjórnmálamanna að koma fram á sjónarsviðið og nýta sér reynslu hinna eldri en kraft hinna ungu til að byggja upp land og þjóð. Og með reynslu á ég við að það þarf að læra af því sem vel hefur verið gert í fortíðinni og sömuleiðis því sem miður hefur farið. Í fyrsta lagi þarf að tryggja betri aðskilnað milli fram- kvæmdavalds og löggjafarvalds. Alþingi á að setja lögin, framkvæmdavaldið að framfylgja þeim. Skilin þarna á milli eru allt of óljós, auk þess sem auka þarf veg og virð- ingu Alþingis til muna. Í öðru lagi þá þarf að tryggja að alþingismenn sitji ekki í bankaráðum, hvort sem það er í þessum þremur nýju ríkisbönkum eða Seðlabankanum. Jafnvel mætti nefna Byggðastofnun í þessu samhengi en Sjálfstæð- isflokkurinn skipar enn þingmenn í stjórn stofnunar- innar. Pólitík og bankaviðskipti eiga ekki saman að mínu mati. Það eiga að vera faglegir einstaklingar sem stjórna bönkum og þeir eiga að taka ákvarðanir, t.d. um lán, á grundvelli faglegra upplýsinga en ekki tengsla við stjórnmálaflokka. Þótt flestir ef ekki allir þingmenn séu hæfir til þess að taka ákvarðanir á faglegum grundvelli þá eru því miður til staðar efasemdir um þeirra ákvarð- anir. Almenningur á ekki að þurfa að efast um réttmæti ákvarðana vegna þess að alþingismaður tók þátt í ákvörðun er tengist flokksfélaga sínum eða pólitískum andstæðingi. Í þriðja lagi á að skylda þingmenn til leggja fram upp- lýsingar um eignir sínar og skuldir. Almenningur á rétt á að vita hvort ákvarðanir þingmanna eru byggðar á eigna- eða skuldatengslum. Á þetta einnig við um eignir maka þingmanna. Að auki þarf að tryggja að þingmenn sitji ekki í stjórnum fyrirtækja. Það að vera í stjórn fyr- irtækis getur haft þau áhrif að ákvarðanir á Alþingi séu byggðar á hagsmunum fyrirtækisins en ekki þjóð- arinnar. Í fjórða lagi þarf að breyta eftirlaunalögum þing- manna þar sem þau veita æðstu ráðamönnum þjóð- arinnar óeðlileg kjör í samanburði við aðra opinbera starfsmenn. Með þessari grein er ég ekki að gagnrýna þá þing- menn sem hafa starfað á Íslandi síðustu árin heldur vildi ég benda á leiðir sem hægt er að fara til að tryggja að al- þingismenn geti sinnt sínu lögbundna hlutverki betur. Ljóst er að traust á stjórnmálaflokkum, alþingismönnum og ráðherrum hefur minnkað á síðustu vikum og árum. Því er nauðsynlegt að byggja upp nýja kynslóð stjórn- málamanna sem ættu að hafa ofangreint í huga við störf sín. Nýir og breyttir tímar kalla á nýja og breytta starfs- hætti – það á líka við um starfshætti á Alþingi Íslend- inga. Bryndís Gunnlaugsdóttir, formaður Sambands ungra framsóknarmanna. Nýtt Ísland með nýrri kynslóð stjórnmálamanna ÞEGAR menn ræða vanhæfi og vantraust á fólki eða stofnunum virð- ist oft gleymast að það er hægt að vera vanhæfur í raun og svo er hægt að vera vanhæfur í ásýnd. Ein- staklingur getur unnið af heilindum og eftir bókinni í einu og öllu en engu að síður ekki notið trausts út á við. Sem dæmi má taka menn sem ráða í stöður, þeir geta vel verið að ráða ættingja eða vin eftir ýtrustu reglum og sá/sú get- ur verið hæfasti einstaklingurinn í starfið, en vegna tengsla sinna er hann vanhæfur í ásýnd og ráðningin nýtur ekki trausts, þó svo að hún sé ef til vill rétt. Í svona tilfelli er eðlilegt að menn víki í málinu til að skapa traust. Nú kemur að máli Seðlabankans. Ég ætla ekki að leggja neinn dóm á störf Seðlabankans undanfarin miss- eri. Það sem við stöndum hins vegar frammi fyrir er að seðlabankastjórn er annars vegar mögulega vanhæf í raun, en það má hver deila um það sem vill, hins vegar er hún án nokkurs vafa orðin vanhæf í ásýnd og nýtur þar af leiðandi ekki trausts, hvorki hjá almenning né við- skiptastofnunum og þaðan af síður á erlendum vett- vangi. Það er engin spurning um þetta. Við getum velt raun- verulegu vanhæfi fyrir okkur í dag og næstu ár, en það leikur enginn vafi á að í ásýnd er vanhæfi til staðar. Ef stjórnvöld ætla að halda í krónuna og nota tæki og að- gerðir Seðlabankans til þess verður að ríkja traust gagn- vart Seðlabankanum alls staðar. Það er vegna þessa sem bankastjórarnir þurfa að víkja því það er það eina rétta í stöðunni og það eina sem mun endurreisa traust manna á bankanum og peningamálastjórn landsins. Það má vera að sagan fari mýkri höndum um Davíð og hans menn í Seðlabankanum sem hafa þurft að þola þær raddir að hreinlega bera ábyrgð á því versta sem yfir okkur gengur nú og vera notaðir sem skálkaskjól manna sem ekki kunna annað en að benda á hina. En ef vanhæfi þeirra er einungis í ásýnd verða þeir að leyfa sögunni að sanna það. Núna þurfum við stjórnendur sem eru hæfir bæði í raun og ásýnd og skapa trúverðugan Seðlabanka sem nýtur trausts allra. Vanhæfi í ásýnd – Seðlabanki Íslands Inga Lára Gylfadóttir flugmaður.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.