Morgunblaðið - 24.11.2008, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 24.11.2008, Blaðsíða 23
Umræðan 23 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 24. NÓVEMBER 2008 STJÓRNARSKRÁ lýðveldisins gerir ráð fyrir þrískiptingu ríkisvalds- ins í framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald. Framkvæmdavaldið er í höndum ríkisstjórnar og forseta, lög- gjafarvald er í höndum alþingismanna og forseta og dómsvald í höndum dóm- ara. En hvað felst í þessari þrískiptingu. Einn megintilgangur með þrískipting- unni er að enginn einn einstaklingur hafi ítök á tveimur valdsviðum eða geti tekið sér alræðisvald. Samkvæmt því mega starfandi dómarar ekki sitja á alþingi og einnig mega þingmenn ekki sitja í ríkisstjórn. Ef þingmaður ætl- ar sér að verða ráðherra þarf hann að segja af sér þing- mennsku. Það hefur ekki gerst á Íslandi, þó það sé föst regla t.d. í Bandaríkjunum. Þegar þessi mál hefur borið á góma hefur viðkvæðið jafnan verið að Ísland sé svo lítið land að það beri ekki (fjárhagslega) að ráða menn til að gegna ráðherraembættunum. Fyrir bragðið höfum við á þeim bráðum 65 árum frá stofnun lýðveldisins hér um bil alltaf verið með ríkisstjórn sem hefur látið það verða sitt fyrsta verk sem þingmenn, að brjóta stjórnarskrána. Ein- ungis einu sinni hefur verið utanþingsstjórn og er það trú- lega eina skiptið sem stjórnarskráin hefur ekki verið brot- in. Það mætti þar af leiðandi draga þá ályktun að öll lög (ef frá eru talin lög sett á tíma áðurnefndrar utanþings- stjórnar) væru ólög þar sem þau voru samþykkt af mönn- um sem höfðu tekið sér bæði löggjafarvald og fram- kvæmdavald. Svo hafa dómsmálaráðherrar skipað dómara Hæstaréttar og þar með fært sig yfir á þriðja valdið og með því að láta vina-, flokks- og ættartengsl ráða hverjir eru skipaðir þar hafa þeir gert Hæstarétt ómerk- an. Svo er verið að tala um að það sé ekki spilling á Íslandi. Spillingin þrífst óvíða eins vel og á Íslandi. Forseti eða handhafar forsetavalds þurfa að undirrita lög sem samþykkt hafa verið á Alþingi. Lögin öðlast gildi þegar Alþingi hefur samþykkt þau og það þarf ekki að undirrita þau strax. Það er ekkert sem kveður á um að for- seti skuli undirrita lögin næsta vinnudag eftir samþykkt- ina. Á síðustu árum hefur það æ oftar borið við að hand- hafar hafa ritað undir lögin til að fá þau staðfest og þannig komist framhjá því að forseti geti skotið lögum í dóm þjóð- arinnar. Það er frægt að þegar fjölmiðlalögin voru til um- ræðu á Alþingi þá lá mikið á að koma þeim í gegnum þing- ið vegna þess að forsetinn átti að vera viðstaddur brúðkaup í Danmörku á ákveðnum degi, en þegar hann fór ekki þangað þá varð þeim ljóst að lögin yrðu ekki stað- fest af hans hálfu. Þá fóru stjórnarliðar í fýlu og fóru að rífast um túlkun á stjórnarskránni. Lögin voru svo dregin til baka. Staðan í dag Nú er svo komið að ríkisstjórnin hefur orðið margsaga í ýmsum málum. Einn ráðherra segir þetta, annar hitt. Hún er því óstarfhæf og ekki á vetur setjandi. Íslendingar fá ekki upplýsingar um hvað er á döfinni; nei þar er allt á við- kvæmu stigi og má ekki ræða opinberlega. Það er þó öllu alvarlegra að Alþingi fær ekki heldur allar upplýsingar (nema þá einna helst stjórnarþingmenn) og eru það þó menn sem hafa verið kjörnir til að fjalla um málefni lands og þjóðar. Á fundi Gordon Brown og forsætisráðherra okkar í apríl lýsti Gordon Brown því yfir að hann teldi ís- lensku bankana vera orðna of stóra fyrir hagkerfi okkar og ráðlagði samráð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Við- skiptaráðherra var einnig inntur eftir því hvaða aðgerðir væru á döfinni í september, í samtali við fjármálaráðherra Bretlands. Hvað var gert – ekkert. Jú, á tímabilinu voru banka- stjórar Kaupþings farnir að afskrifa eigin skuldir, sem og æðstu starfsmanna bankans til að gjörningurinn vekti síð- ur eftirtekt. Já, spillingin leynist víða og hefur margar myndir. Sá gjörningur hlýtur að stangast á við einhverja lagabálka. Í dag er ekki nema um eitt að gera. Skipta um stjórn. Setja utanþingsstjórn sem tekst á við þessi vandamál á meðan kosningar eru undirbúnar og málin rannsökuð. Svo á að kjósa ekki seinna en í maí. Við getum ekki fengið þann sem er grunaður um misferli til að rannsaka misferlið. NATO Ísland gekk í Atlandshafsbandalagið 30. mars 1949. Á þeim tæpu 60 árum sem liðin eru höfum við fjórum eða fimm sinnum átt í útistöðum við aðra þjóð og í öll skipt- in hefur það verið þjóð sem er með okkur í samstarfi í NATO. Við höfum átt í þorskastríðum við Breta og þeir hafa einnig skipað okkur á bekk með hryðjuverkamönn- um. Aðalmarkmið NATO virðist vera orðið stríð gegn hryðjuverkamönnum og afskipti af innanríkisdeilum í öðr- um löndum. Þar á bæ eru menn farnir að gefa sér að bráðnun jökla og hlýnun jarðarinnar leiði af sér að Norður-Atlandshafið nái að Svartahafi. Það er með ólíkindum að Bretar vilji starfa innan NATO með þjóð sem þeir hafa sett á stall með hryðjuverkamönnum. Við eigum að taka til í okkar garði, hreinsa til hér heima, skapa þjóðfélag byggt á þeim gildum sem við viljum í hávegum hafa, vera hlutlaus þjóð bæði í orði og á borði. Við ættum því að kalla fastafulltrúa okkar við NATO heim hið fyrsta og segja okkur úr þeim fé- lagsskap 30. mars 2009. Þrískipting ríkisvaldsins Einar S. Þorbergsson, kennari. FRÁ árinu 2003 hefur húsnæðisliður neysluvísitölunnar verið í frjálsu flugi og hefur hækkað verðtryggð lán ótæpilega. Ástæður þessa er öllum kunnar, eða gríðarleg aukning lánsfjármagns og gríðarleg aukning eft- irspurnar. Leiða má að því rök að hefði húsnæðisliðurinn verið ut- an neysluvísitölunnar, hefðum við ekki ratað í þær þrautir og ógöngur sem við erum núna í, þ.e. að verðbólga hér á landi án húsnæðisliðarins var á pari við eða lítið hærri en í nágrannalöndunum. Hefði húsnæðisliðurinn verið utan neysluvísitölunnar hefði verðbólga mælst mikið minni og þar með hefðu stýrivextir verið mikið lægri en raunin hefur verið. Það hefði haft í för með sér að innstreymi erlends gjaldseyris hefði ekki verið jafn gríðarlegt og ver- ið hefur. Það hefði aftur þýtt að útstreymið hefði verið minna og þar af leið- andi enginn eða minni þrýstingur til lækkunar krónunnar núna og jafnframt að gengið hefði aldrei náð þeim styrk sem það náði fyrir fallið mikla. Sannað hefur verið að til lengri tíma hefur það nánast engin áhrif að hús- næðisliðurinn sé inni í neysluvísitölunni. Sé hann inni getur hann hinsvegar valdið miklum skammtímasveiflum og það er hlutur sem við Íslendingar þurfum ekki á að halda í okkar sveiflukennda þjóðfélagi. Því er heppilegra að hafa hann utan neysluvísitölunnar. Nú er ljóst að húsnæðisverð fer lækkandi. Það ætti að þýða að sá liður lækkaði verðbólgu samsvarandi. En þá kemur í ljós að mæling húsnæðislið- arins er orðin óvirk. Í þessu sambandi vísa ég í frétt á mbl.is frá 10. nóv. sl. Þar kemur í ljós að makaskipti á fasteignum hafa stóraukist núna á stuttum tíma. Þessi háttur hefur verið hverfandi lítill á undanförnum árum eða á meðan nægt framboð var af lánsfé. Þegar makaskipti fara fram er það hagur beggja aðila að hafa verðið frekar hærra en lægra á pappírnum, enda er það sem skiptir höfuðmáli upphæð milligjafar. Einnig er markaðurinn í mikilli lægð eða fá viðskipti og það hefur einnig áhrif á mælinguna. Annað sem getur haft áhrif á þennan lið eru sífelldar kröfur hags- munaaðila um að það opinbera grípi til einhverra ráðstafana til að stemma stigu við lækkun húsnæðisverðs. Gera má ráð fyrir að til einhverra aðgerða verði gripið (samanber júní á þessu ári). Það þýðir þá að verðinu er handstýrt þegar það ætti að lækka en það fékk að hækka óheft á meðan bólan var að blásast upp. Þannig að hér erum við komin með tvær ástæður sem koma í veg fyrir að flugið niður verði frjálst á sama hátt og flugið upp. Við ættum því að nota þetta tækifæri sem nú er og taka húsnæðisliðinn út úr neysluvísitölunni. Það verður auðvitað að gerast á sanngjarnan hátt og því ætti að reikna hann niður til þess tíma sem hann var í áður en bólan byrj- aði að blásast upp, eða u.þ.b. til ársins 2003. Hagur lántakenda myndi því eitthvað leiðréttast og að auki myndi þetta lækka annars háa verðbólgu. En aðalmálið er auðvitað það atriði að hlutur sem getur blásist hömlulaust upp, virki á sama hátt þegar loftið fer út. Allt annað er ósanngirni og ég efa ekki að reikningskúnstnerar yfirvalda, í sam- vinnu við fulltrúa almennings, geti reiknað sig niður á sanngjarnan flöt í þessu máli. Húsnæðisliðinn út úr neyslu- vísitölunni – Nú er tækifærið Dagþór Haraldsson, áhugamaður um efnahagsmál, Stapaseli 11, Reykjavík. ALVARLEGIR atburðir, hvort sem þeir eru tengdir náttúrunni eða öðru, geta komið upp fyrirvaralaust og geta leitt til mikilla áfalla í ferðaþjónustu. Mjög líklegt verður að teljast að ef færi að gjósa hér á landi, hvort sem gosið væri stórt eða lítið þá myndi slíkt fréttaefni rata á forsíður blaða og í fréttatíma erlendis og verða blásið út. Viðbúið er að við sjáum fréttafyrirsagnir líkt og „Móðuharðindin hin síðari“ eða eitthvað álíka sem ætlað er að „dramatísera“ fréttina með það í huga að selja fleiri blöð og afla heimasíðum vin- sælda. Við því má búast að ferðaþjónustan hér á landi verði fyrir einhverju áfalli næst þegar slíkar fréttir berast um heimsbyggðina. Ferðaþjónustufyrirtæki þurfa að búa sig undir áföll af þessum toga með því að koma sér saman um að- gerðaáætlun sem höfð er að leiðarljósi næst þegar eldfjall gýs eða önnur áföll dynja yfir. Íslendingar hafa síðustu vikur orðið vitni að skólabókardæmi um afleiðingar skorts á upplýsingagjöf. Fréttir úti um allan heim herma að íslenska þjóðin sé farin á hausinn svo ekki sé minnst á tilvísanir í breskum blöðum þess efnis að Ís- land tengist efnahagslegum hryðjuverkum. Mikilvægt er að ferðaþjónustan geti tekið á áföllum af öryggi og festu og verið til fyrirmyndar sem myndi svo skapa traust útávið. Stefán Helgi Valsson leiðsögumaður, hefur bent á, á bloggi sínu (www.shv.blog.is/shv) hve mikilvægt er að koma skilaboðum með skilvirkum hætti til ferðamanna og ferðaskrifstofa erlendis til að gera þeim ljóst ástand mála. Frétt af eldgosi á Íslandi getur orsakað að ferðskrifstofa hættir við að senda hóp til Íslands, af „öryggisástæðum“. Sú ákvörðun er hugsanlega byggð á röngum forsendum sem er bagalegt fyrir innlenda ferðaþjónustuaðila sem missa spón úr aski sínum – og þjóðarbúið, nú á síðustu og verstu tímum í gjald- eyrismálum. Ég vil taka undir orð Stefáns og ítreka mikilvægi þess að aðilar ferðaþjónust- unnar komi sér upp aðgerðaráætlun sem hægt er að grípa til næst þegar eldfjall gýs á Íslandi eða aðrir atburðir koma upp sem geta komið sér illa fyrir ferða- þjónustuna. Upplýsingasíða ætti skilyrðislaust að vera hluti slíkrar aðgerða- áætlunar. Orðspor og ímynd Íslands eru lykilþættir fyrir framtíðaruppbyggingu ferða- þjónustu. Þess vegna er nauðsynlegt búa sig undir og bregðast rétt við þegar at- vik koma upp sem hugsanlega geta skaðað þessa tvo þætti. Við þekkjum það sjálf hversu erfitt getur verið að taka mikilvægar ákvarðanir undir álagi á tím- um ringulreiðar þegar skaðinn er orðinn. Án traustrar upplýsingagjafar getur skapast óvissuástand sem ósjaldan er sýnu verra en krísan sjálf. Sem dæmi má nefna að þegar SARS-veikin kom upp 2003 í Kína hættu trygg- ingafyrirtæki að tryggja ferðamenn sem voru á leið til, ekki bara Kína heldur álfunnar allrar. Og, tveimur mánuðum eftir að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) tilkynnti að búið væri að ráða niðurlögum sjúkdómsins og allt væri kom- ið í lag greindist eitt tilfelli. Þegar það fréttist lækkaði virði hlutabréfa al- þjóðlegra flugfélaga. Núna er rétti tíminn til að útbúa sértæka aðgerðaáætlun fyrir íslenska ferða- þjónustu sem hefur það hlutverk að veita erlendum ferðamönnum og fjölmiðlum áreiðanlegar upplýsingar um áhrif náttúruhamfara á ferðalög innanlands. Íris Hrund Halldórsdóttir, leiðsögumaður og MS-nemi í ferðamálafræði. Ferðaþjónustan taki upp kreppustjórnunaráætlun PÓLVERJAR hafa verið mikið í umræðunni undanfarið á Íslandi. Sú ákvörðun þeirra að veita okkur lán vegna efnahagsþrenginga hér á landi hefur sýnt vel í verki hvernig hug Pólverjar bera til Ís- lendinga. Þeir eru þakklátir Ís- lendingum fyrir það hvernig við höfum brugðist við með því að opna land okkar fyrir Pólverjum sem hafa komið til Íslands í atvinnuleit undanfarin ár á tímum atvinnuleysis í Póllandi. Pólverjar byrjuðu koma til starfa á Íslandi í lok áttunda áratugarins á síðustu öld. Mjög margir pólskir fóru út á land í upphafi og fóru margir m.a. til Vestfjarða þar sem þeir fóru að vinna við sjávar- útveg. Vestfirðingar tóku þeim opnum örmum frá byrjun og mátti vart sjá hverjir voru ánægðari, Pól- verjarnir eða Vestfirðingarnir. Margir frumbyggj- anna pólsku hafa ílenst og búa enn fyrir vestan og hafa sumir af þeim öðlast íslenskan ríkisborg- ararétt og eru því orðnir íslenskir. Hin seinni ár hafa margir Pólverjar komið til starfa á höfuðborg- arsvæðinu og unnið við framleiðslugreinar eins og í byggingariðnaði. Einnig hafa margir Pólverjar haslað sér völl við störf á heilbrigðisstofnunum og við umönnunarstörf á sjúkrahúsum og á heilbrigð- isstofnunum. Við höfum líka séð Pólverja vinna við að afgreiða í búðum eins og Bónus. Það er samt engin launung að Pólverjar hafa margir hverjir far- ið í störf sem okkur Íslendingum hefur gengið illa að manna, störf sem eru kölluð erfiðisstörf, þar sem er oft langur vinnutími og oftar en ekki illa launuð. Þessi störf eru þau störf sem við köllum láglauna- störf, störf sem flestir Íslendingar hafa ekki áhuga á að starfa við. Því hefur verið til langs tíma auð- velt fyrir Pólverja að fá störf þar. Þegar atvinnulíf okkar kemst aftur í gang, og það verður vonandi sem fyrst, þá þurfum við að horfast í augu við það að þurfa jafnvel að þurfa manna láglaunastörfin með íslenskum höndum. Hvernig okkur tekst til verður tíminn að leiða í ljós. Sá hópur Pólverja sem starfaði við þessi störf er að miklu leyti aftur farinn heim til Póllands eða er á leiðinni heim vegna hruns íslensk efnahags. Þetta er hópurinn sem ætlaði að koma í stuttan tíma og fara svo aftur heim. Ég hef leyft mér að kalla þennan hóp farandverkamenn. Immigrantar eru þeir kallaðir heima fyrir, og ég sagt ykkur að þetta fólk hefur oft þurft að færa miklar fórnir sem felast í því að dveljast lang- dvölum frá fjölskyldum sínum og vinum. Ég hef oft orðið vitni að því. Mér er það minnistætt þegar ég kom til Póllands í fyrsta sinn og þá var mér samferða frá Reykjavík ungt pólskt par sem hafði ekki séð 5 ára dóttur sína í rúmt ár. Ég hef sjaldan eða aldrei orðið vitni að eins miklum fagnaðarfundum eins og hjá þessari litlu fjölskyldu. Þar varð ég vitni af því hversu mikla fórn oft og tíðum Pólverjar voru að leggja á sig með því að fara þangað þar sem nú býr hnípin þjóð í vanda. Gera má ráð fyrir að megnið af þess- um stóra hópi snúi ekki til baka til okkar og er því mikill missir að þessu góða fólki. Við skulum vona að þetta fólki eigi samt góðar minningar frá Íslandi og ég efast ekki um að þau hugsa hlýlega til okkar, ekki síst nú um stundir. Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að stundum voru átök og ekki hafa allir í okkar samfélagi verið glaðir með fjölgun Pólverja á íslenskri grund. Til stuðnings við mál mitt minnist ég á lítinn hóp fólks suður með sjó sem var búinn að stofna samtök sem vildu Pólverja á brott. Ísland fyrir Íslendinga hétu þau víst ef minnið svíkur mig ekki. Þeim er kannski að verða að ósk sinni. Ég veit samt að Íslendingar eru flestir ánægðir með samskipti sín og Pólverja. Held að ég taki ekki allt of stórt upp í mig. Þegar ég fór að fara til Póllands fyrir nokkrum árum þá hafði ég litla vitneskju um pólska þjóð. Ég sem er alinn upp á tímum kalda stríðsins geri mér grein fyrir því í dag að ekki er allt sem sýnist. Sú mynd sem var dregin upp af þjóðum í hinni svoköll- uðu Austur-Evrópu var ekki alltaf rétt. Pólland er þvert á móti ríkt land. Ríkidæmi felst ekki alltaf í krónum og aurum, sérstaklega ekki nú á tímum þegar krónan vart mælist sem gjaldmiðill. Ríki- dæmi Póllands felst í þjóð þar sem býr harðduglegt og heiðarlegt fólk sem er tilbúið að takast á við morgundaginn af æðruleysi eins og sagan hefur sýnt. Pólland er ríkt að menningu og listum, fal- legar borgir og bæir eru alls staðar að finna. Að endingu langar mig að minnast á það að pólsk yf- irvöld hafa opnað ræðismannsskrifstofu Pólverja að Skúlatúni 2 í Reykjavík. Ræðismaður Pólverja heit- ir Michal Sirkorski og er mikill áhugamaður um Ís- land. Að endingu langar mig að vitna í orð Norm- ans Davies rithöfundar, en hann segir í bók sinni Poland From Sea to Mountains: ‘‘the Poles are the world́s masters in the art of survival.‘‘ Kannski þurfum við Íslendingar meira á styrk Pólverja að halda en nokkurn tímann fyrr til að hjálpa okkur að komast yfir þessa erfiðu tíma sem nú ganga yfir íslenska þjóð, og þar höfða ég aftur til orða Norm- ans Davies máli mínu til stuðnings. Pólverjar eru bræðraþjóð Páll Höskuldsson er sölu- stjóri Fasteignakaupa.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.