Skinfaxi - 01.04.1956, Síða 30
30
SKINFAXI
Fyrir einu ári var girðingin færð upp á þennan gras-
lendisjaðar. Á þann hátt var friðað gríðarstórt sand-
flæmi, þar sem moldrokið og sandbylurinn hafði leikið
lausum hala á umliðnum árum.
Friðunin er fyrsta skilyrði til þess, að vænta megi
gróðrar, þar sem einu sinni hefur náð að blása upp.
Kvikfénaður er algerlega útlægur úr sandgræðslugirð-
ingum, sérstaklega sauðfé. Það bítur blöðkuna og eyðir,
og má glögglega sjá muninn á friðuðu og ófriðuðu
iandi, þar sem girðing liggur um sand. Utanverðu við
hana er gróðurinn sviðinn og nagaður, en fyrir innan
vaggar blaðkan í blænum, hnarreist og hávaxin, gædd
grómagni og möguleikum til að sá sér.
Það hefur oft kostað baráttu, að fá bændur til að
sleppa sandsvæðum, þar sem melgróður þróast, þegar
girt hefur verið. — Það er hver sjálfum sér næstur, og
blaðkan er fyrirtaks beit á vorin, þegar annar gróður
en enn í dái. En menn viðurkenna friðunina, þegar þeir
sjá, hve landið fríkkar og uppblásturinn þverr, — þó
að fækka þurfi fénu.
1 hæðarbrúnunum rétt austan við girðinguna sést
móta fyrir tóftum tveggja eyðibýla. Túnin bera enn þá
litarhátt hins ræktaða lands, og stinga greinilega í stúf
við landið í kring. — Þessir bæir hétu Steinkross og
Dagverðarnes. — I hug manns vaknar ósjálfrátt sökn-
uður við að horfa á þessar menjar fyrri byggðar. —
Sólin hellir geislum sínum yfir þessi eyðitún og þerrar
döggvott grasið, en féð fær sér þarna kjarnmikinn ár-
bít. Lömbin hoppa þar um hlöð og varða; einu sinni
léku sér þar börn, sem horfðu vonbjörtum augum mót
lífinu. — En foksandurinn blés með feigðaranda á óðul
þeirra; — og hafði betur.
Fræið fellur.
Venjulega er sáningu melfræsins hagað þannig, að
sáð er við jaðra graslendis. Þó er það ekki alltaf, en