Vikan


Vikan - 04.12.1958, Blaðsíða 20

Vikan - 04.12.1958, Blaðsíða 20
HANN húkti á bekknum undir klukkunni á Lækjartorgi og: horfði á jólaskrautið sem hafði verið hengt utan á verzlun Haraldar Árnasonar, litadýrðin og ljósin höfðu djúp áhrif á þessa skáldlegu sál. Hann potaði höndunum enn dýpra niðurí vasana og fann kynlega fró i því að heyra gatslitið fóðrið láta undan. Hann krosslagði fæturna og hnipraði sig saman, gróf hökuna niðurí hálsmálið og klemmdi axlirnar upp að eyrum. Það var norðannæðingui’ og snjóflygsurnar höfðu varla sezt á svellbunkann á torginu þegar næsta hviða feykti þeim veg allrar veraldar. Það var engan mann að sjá á götunni enda var að- fangadagskvöld jóla. Það logaði á hverju götuljósi og kaupmennirnir höfðu strengt snúrur yfir Austurstræti og Lauga- veginn og hengt á þessar snúrur alla vega lit Ijósker, rauð og gul og græn og blá, og þessar Ijósasnúrur dingluðu fyrir vindinum svo tilsýnd- ar var að sjá sem bylgjur í litskrúðugu ljóshafi. En bak við allt þetta ljóshaf var myrkrið svo einkennilega svart, — svartara en venjulegt myrkur — það var myrkrið bak við jólaljósin. Á einum húsgaflinum hafði verið komið fyrir heljarstórum grenisveigum, sem mynduðu orðin GLEÐILEG JÓL. En einn stafurinn var fokinn burtu svo nú stóð þarna LEÐILEG JÓL. Glugg- arnir í öllum verzlunum voru uppljómaðir og skrautið var með kyrrum kjörum en heldur hafði saxast á jólavörurnar í hillunum og ekki hirt um að láta nýjar í staðinn rétt fyrir lokun þegar allir voru að flýta sér heim til að klæða sig í nýju fötin svo þeir gætu með góðri samvizku etið jóla- steikina, meyra og ilmandi beint úr ofninum. Toggi hafði lengi vel reynt að berja saman fótunum til að halda á þeim hita en það var til- gangslaust til lengdar, kuldann lagði gegnum göt- ótta sólana og læsti sig uppeftir fótunum og það hafði ekkert að segja þótt hann hefði vafið göml- um dagblöðum alveg uppá kálfa. Þessvegna lét hann fótinn hvíla á svellinu án þess svo mikið að færa hann til og reyndi að ímynda sér að kuldi væri hiti. Hann bölvaði sjálfum sér fyrir að hafa ekki haft rænu á að stela sér almennilegum skóm fyrir hátiðirnar. Hann hefði svosem mátt vita það af reynslu liðinna ára að aldrei er eins örðugt að finna opna smugu á mannlausum kjallara eða opinn glugga á auðum bragga og einmitt á fæð- ingarhátíð frelsarans. Þá var einsog menn hefðu sérstalcan vara á og negldu vandlega fyrir hverja glufu og birgðu hvert skúmaskot, hugsandi sem svo í sinni kristilegu undirvitund að enginn mætti gera sig svo digran að ætla sér hlutverk frelsar- ans og hírast fjarri yl og birtu sjálfa jólanóttina. Núorðið hlyti að vera pláss fyrir alla á hótelinu. Hann dró hægri höndina uppúr vasanum og beygði olnbogann nokkrum sinnum til að liðka sig, stakk svo vísifingri uppí sig og smeygði naglbrotinu milli tannanna þar sem enn voru tvær og tvær saman. Hann hafði þó étið pylsu snemma í morgun og hafði sannreynt það að kjöttægjur sem höfðu leynst milli tannanna allan daginn losnuðu oft er líða tók á kvöldið þegar munn- vatnið hafði seitlað í gegn. En því ,var ekki að heilsa í þetta sinn, hann hlaut að hafa gleypt pylsuna í heilu lagi. Hann spýtti útúr sér og strauk á sér kjálkann, það brakaði svo þægilega í skeggbroddunum þeg- ar hann nuggaði sigggrónum lófunum eftir kjammanum á sér. Hann bölvaði sjálfum sér fyrir að hafa ekki haft sinnu á að verða sér úti um smálögg af kogara til hátíðabrigða, hann hlyti þó að hafa getað slegið sér tíkall fyrir hádegi þegar búðar- ösin var mest og peningar streymdu manna milli. Hann bölvaði sjálfum sér fyrir þessa vesal- mennsku, það var engu líkara en hann væri að missa alla sjálfsbjargarviðleitni. Gunni kafteinn vinur hans hafði þó sýnt af sér þá rögg að kom- ast yfir hálfflösku af pólskum spíra og sat nú ef- laust i góðum fagnaði í einhverju miðstöðvarher- bergi austur í bæ. En hann hafði ekki frétt af þessu afreki vinar síns fyrr en um seinan. Hann hrökk uppúr hugleiðingum sinum þegar drepið var á öxl hans, heldur ómjúklega. Hann leit upp og allra snöggvast brá fyrir vonarglampa í augum hans en slokknaði jafnskjótt. Þeir stóðu yfir honum tveir svartklæddir með loðhúfur á höfði og stjarna framan á. Þeir höfðu brett upp kragana á síðum frökkunum og það glitraði á gylltu hnappana eins og augu í jólaengli. En svipurinn á þeim var ólíkur því sem sjá má á englamynduml Viltu ekki hypja þig, góði, sagði annar og ýtti við honum, okkur langar ekki að hirða þig hel- frosinn hér í fyrramálið. Og hvert á ég sosum að fara, spurði hann og þókaði sér unT set, teygði fram álkuna og skáskaut uppá þá augunum. Eigðu það við sjálfan þig, svaraði sá með loð- húfuna. Eru ekki bekkii' til að sitja á? sagði maðurinn, ég veit ekki betur en bæjarfélagið hafi látið setja þessa bekki handa fólki. Ætlarðu að rífa kjaft? spurði nú loðhýfingur ógnþrunginni röddu og færði sig feti nær. Vinur okkar drattaðist á fætur og stóð keng- boginn fyrir framan lögregluþjónana því það var alltof mikið átak að rétta úr sér öllum i einu eftir svo langa setu á bekk bæjarfélagsins. Er ekkert pláss hjá ykkur? spurði hann og gerði sig vælulegan í röddinni ef verið gæti að þeir vorkenndu honum svona á jólanóttinni. Troðfullt fyrir löngu og meira en það, svaraði vörður laganna og sló saman höndunum til merk- is um að sér væri að verða kalt og leiddist þófið. Þið hafið nú stundum boðið mér gistingu þegar mér lá ekki á, svaraði Toggi og gerði sig hissa á óréttlæti þjóðfélagsins. Þú verður að sjá um þig sjálfur núna. Þeir voru sýnilega orðnir óþolinmóðir og æstir í að komast á billjardinn á stöðinni og fá heitt kaffi svo Toggi tók það ráð að dragnast útí Austurstræti. 20 VIKAN

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.