Vikan


Vikan - 07.03.1963, Blaðsíða 15

Vikan - 07.03.1963, Blaðsíða 15
NU HEITIR BÉLA BJARN Rætt við fyrsta Ungverjann, sem stundar nám við íslenzka Stýrimannaskólann. Hann er nú í þann veg að öðlast ríkisborgararétt, og breytir þá um nafn á pappírunum. Þegar ég var strákur í skóla, tóku tveir skólabræður mínir upp á því að kalla hvor annan Pela og Smola, og festust þessi nöfn við þá að nokkru sem gælunöfn. Þá datt mér ekki í hug, að ég ætti eftir að hitta mann, sem í raun og veru héti — Béla. Ég hitti hann uppi í Stýrimannaskóla, daginn, sem þeir luku prófum til réttinda á 120 tonna báta. Hann var einn þeirra. Hann féllst fúslega á að spjalla örlítið við mig, ekki hvað sízt með tilliti til þess, að hann er fyrsti Ungverjinn, sem stundar nám við Stýrimannaskólann íslenzka. — Ég er búinn að vera hérna síðan rétt fyrir áramót 1956. Ég kom hingað ásamt hóp af öðrum ungverskum flóttamönnum. Eftir að við höfð- um verið í sóttkví ákveðinn tíma, fór ég að vinna í Rafha. Þar vann ég í þrjá mánuði Svo fór ég á sjóinn. Fyrst á togarann Júlí, sem fórst. Ég missti af honum, þegar hann fór í síðasta túrinn . Ég er frá Tiszabercela, sem er í norðausturhluta Ungverjalands. Jú, flótt- inn gekk vel, en við skulum ekki ræða um hann. Ég var ekki með neinu skyldfólki mínu. Ég vissi dálítið um ísland, áður en ég vissi að ég ætti kost á að komast þangað. Ég var tvo vetur í kennaraskóla heima, og lærði þar svolítið í landafræði um ísland, og svo þekkti ég íslenzkan strák, sem var að læra í Ungverjalandi. Og svo þarf ekki að segja manni neitt um það, lítið land, sem er með sjó allt í kring og ekki norðar en þetta, þar getur ekki verið svo kalt að það sé Eskimóalíf þar. Fólkið, sem kom hingað um leið og ég, vissi flest allt eitthvað um ísland líka, það var sjálfstætt land og þar var nóg vinna, eins og alltaf er, þegar ríki er að fæðast, þá er alltaf nóg vinna. Ég þekki landa mína hér lítið. Ég fór strax út á milli íslendinga, og gat lesið íslenzku eftir rúmt ár. Nú býst ég við að fá íslenzkan ríkisborgara- rétt einhvern næstu daga. Þá verð ég að taka upp íslenzkt nafn. Þá heiti ég Bjarni Gústavsson. Það er í sjálfu sér ekkert vont að taka upp nýtt nafn,þótt maður sé orðinn tuttugu og sex ára gamall. Það verður aðeins á pappírnum, sem ég heiti nýja nafninu,kunningjarnir halda áfram að kalla mig Béla, og þeir vita, að ég heiti líka Hegediis. Jú, mig langar einhvern tíma til að heimsækja bernskustöðvarnar, en ég hef ekkert verið að. spekúlera í því. Þegar ég hef efni á því, fer ég þangað. En ég er alveg setztur hér að. Ég var að giftast íslenzkri konu núna rétt fyrir jólin. Hún heitir Anna Guðmundsdóttir og er frá Akra- nesi. Þar keyptum við okkur lika íbúð. Svo langar mig að ná meira fiski- mannaprófi og reyna að koma mér vel fyrir. Nei, mig langar ekki í farmennsku. Mér hefur alltaf, frá því ég var smástrákur, þótt gaman að veiða. Þá veiddi maður bara vatnafiska á stöng. Nei, ekki silung. Ég veit ekki, hvað þeir heita á íslenzku, en þeir geta verið allt upp í 80 kíló. Það er náttúrlega eitt að veiða á stöng í Ungverjalandi og annað að veiða fisk í sjónum við ís- land, en það er hvort tveggja gaman, ef heppnin er með. Annars hef ég aldrei verið verulega heppinn fyrr en í sumar. Þá var ég fimm vikur á síld með mb. Bjarna Jóhannssyni frá Akranesi, og skipstjórinn, Kristján Pétursson — hann er núna með mb. Svein Guðmundsson, er duglegur strákur. Mér þykir gott að vera á íslandi og er ánægður með að vera hér. Það er líka mjög gott að vera hérna í skólanum. Það getur hvaða klaufi sem er lært hérna og lært vel. Strákarnir hjálpuðu mér mikið, og kennararnir eru alveg sérstaklega góðir og hjálpsamir, alveg dásamlegir. Sér- staklega Valdi (Þorvaldur Ingibergsson). Hann er sá allra bezti. Já, ég held, að mér hafi bara gengið vel. Ég held að ég hafi fengið góðar einkunnir í öllu, líka íslenzku. En það er kannski ekki skrýtið, þótt ég fái betri eink- unn í íslenzku en sumir íslenzku strákarnir, því þeir eru kannski í lífinu búnir að læra vitlausa íslenzku í mörg ár, en það er byrjað strax á því að kenna mér alveg rétta íslenzku, og hér er hugsað um að kenna manni. Nú fer ég strax á sjóinn. Ég veit ekki hvar eða á hvaða skip. Kannski bara á vertíð. Ég hefði getað komizt á Maí, hefði hann bara viljað bíða eftir mér til kvölds. En hann vildi það ekki, svo ég fer þá bara heim á Akra- nes og svo sjáum við hvað setur. Það er allt í lagi meðan það er nógur fiskur í sjónum. sh. VIKAN 10. tbl. —

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.