Vikan - 18.12.1975, Qupperneq 56
í KIRKJU.
Kæri draumráðandi!
Mig langar til að biðja þig að ráða fyrir mig draum, sem
mig dreymdi í fyrrinótt.
Mér fannst ég vera inni í kirkjunni hér, og sat ég á
aftasta eða næstaftasta bekk, en bekkirnir sneru öfugt.
og fannst mér það ekkert skrítið.
Tvær stúlkur sátu sitt hvorum megin við mig, og
önnur hélt á litlu barni, sem sneri þannig, að ég sá
alltaf framan í það, og fannst mér barnið fallegt.
Svo fannst mér ég líta til hliðar, og þá sá ég
fullt af konum hinum megin í kirkjunni. Ég þekkti
ekki konurnar, en meðal þeirra var hárgreiðslukona,
sem gekk fram að altarinu. Þá sá ég stelpu sitja á
bekk, sem sneri fram. Ég þekki hana og hún heitir...
Konan fór nú að leggja hárið á... Svo allt í einu
kemur ... og spyr, hvort ég ætli ekki að vera næst, en
ég segi, að ég ætli bara að láta bursta hárið, því að það
væri orðið svo sítt og liðað. (Það er liðað í verunni,
en ekki mjög sítt).
Ég vona, að þú ráðir þennan draum fyrir mig.
Með fyrirfram þökk.
S.S.R.
Stúlkan, sem þú þekkir í draumnum, lendir í ein-
hverjum vandræðum, og virðist gera eitthvað til þess að
draga þig inn í þau líka, en af meðfæddri varfærni
sérð þú að þér í tíma, og sleppur því naumlega.
85 OG ERLA.
Kæri draumráðandi!
Mig langar að biðja þig að ráða fyrir mig tvo drauma,
sem mig dreymdi um daginn.
Sá fyrri var á þessa leið:
Mér fannst pabbi minn vera að fara til einhvers þorps,
sem hann sagði ekki, hvað hét. Með honum ætluðu
tveir vinnufélagar hans og átti ég að fá að fara með þeim.
Þegar við komum til þorpsins, fóru pabbi og vinnu-
félagar hans að hitta einhvern mann, sem ég þekkti ekki.
Gengu þeir allir hlið við hlið og hafði ókunni maður-
inn strák, á aó giská fimm til sex ára gamlan, með sér.
Ég spurði þá strákinn litla, hvað þetta þorp héti, og
svaraði hann mér: 85.
Síðari draumurinn var á þessa leið:
Mér fannst mamma koma til mín og segja: J...
mín, nú þolir þetta enga bið. Nú skíri ég þig J... Erla.
Svo fannst mér ég heita það.
Ég vona, að þú getir ráðið þessa drauma fyrir mig.
bless, bless.
J.H.K.
Fyrri draumurinn er töluvert erfiður viðfangs. Þó
virðast þessar tölur fela eitthvað í sér, sem mun koma
þér töluvert á óvart, en erfitt er að segja um,
hvað það er____ kannski húsnúmer. Síðari draumurinn
bendir til þess, að móðir þín vænti einhvers sérstaks
af þér. Ég þykist vita, hvað það er, en vil ekki Ijósta
því upp, því að þú átt að finna það út sjálf.
HRAUNMOLAR í AFMÆLISGJÖF.
Kæri draumráðandi!
Ég ætla að biðja þig að ráða þennan draum, sem
mig dreymdi fyrir stuttu, fyrir mig.
í draumnum fannst mér mamma koma með afmælis-
gjöf handa mér og var það kassi með þremur öskjum í.
Öskjurnar voru merktar 1,2,3.
Ég opnaði fyrstu öskjuna, og í henni var hraunkögg-
ull, sem mér fannst vera úr Vestmannaeyjagosinu.
i öskju númer 2 var annar hraunköggull og var hann
stærri en sá fyrri. i öskju númer 3 var enn hraunkögg-
ull, sem var stærstur þeirra allra. Ég var svo óánægð,
að mér lá við gráti. Mér fannst þetta vera svo ómerki-
legt. En í því kom mamma aftur og lét mig fá litla
ílanga öskju, og þá lifnaði nú yfir mér, en þegar ég opnaði
hana, var þar enn einn hraunköggull, og mér fannst þessi
vera glóandi heitur, en þegar ég tók hann upp, var
hann kaldur og harður viðkomu.
Ég setti þá upp óánægjusvip, en þegar mamma sá
það, flýtti hún sér að segja: Fyrirgefðu mér, vina mín,
en ég á ekki fyrir neinu betra.
Þannig endaði þessi draumur, en þegar mig dreymdi
hann, var afmælið mitt alveg á næstu grösum. Ég vona,
að þú birtir þetta, því að ég held ég viti, hvað sumt af
draumnum þýðir.
Afmælisbarn.
Þér finnst mamma þín afskiptasöm um of, þegar þú
velur þér kunningja_og þér finnst hún hafa harla lítið
vit á strákum, en þegar þú velur þér loks lífsförunaut,
verður mamma þín hæstánægð með hann, þó svolítið
feimin við hann.
KELERÍ.
Kæri draumráðandi!
Ég ætla að biðja þig að ráða fyrir mig draum, sem er
á þessa leið:
Mig dreymdi, að ég fór á ball og var þar með strák,
sem er fjórum eða fimm árum eldri en ég. Eftir ballið
fórum við upp á herbergið hans og fórum að kela.
En þá vaknaði ég.
Með fyrirfram þökk fyrir birtinguna.
Anna Sig.
Þú ættir að fara varlega í umferðinni í vetur_og helst
ekki hætta þér á sjó á næstu mánuðum.
Svar til Hildar.
Hafðu engar áhyggjur af draumnum um hringina.
Hann er fyrir því einu, að pilturinn vill fá að ráða flestu
í kringum sig, en þú getur áreiðanlega ráðið því, sem þér
líkar, þegar fram í sækir, ef þú þá vilt það. Og það er
ekki í mínum verkahring að segja, hvaða merki eiga best
við hver.